Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hví ekki að drekka?

Hví ekki að drekka?

33. kafli

Hví ekki að drekka?

‚ER RANGT að drekka? Er það nokkuð skaðlegt? Er allt í lagi fyrir fullorðna að drekka en ekki mig? Vera má að þessar spurningar komi upp í huga þér. Kannski sérðu foreldra þína fá sér í glas af og til. Margir jafnaldra þinna drekka hvað sem lögaldri líður. Og í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er drykkja næstum dásömuð.

Áfengi getur reyndar verið ánægjuauki sé þess neytt í hófi. Biblían viðurkennir að vín geti glatt hjartað eða verið bragðauki með mat. (Prédikarinn 9:7) Misnotkun áfengis veldur hins vegar alvarlegum vandamálum, allt frá árekstrum við foreldra, kennara og lögreglu til dauða um aldur fram. Eins og Biblían segir: „Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.“ (Orðskviðirnir 20:1) Þess vegna er mikilvægt fyrir þig að taka ábyrga afstöðu til áfengis.

Hve mikið veistu annars um áfengi og áhrif þess? Eftirfarandi próf getur gefið þér vísbendingu um það. Merktu bara rétt eða rangt við eftirfarandi spurningar:

1. Áfengi er fyrst og fremst örvandi ____

2. Áfengi er skaðlegt fyrir líkamann, óháð magni ____

3. Allir áfengir drykkir — bjór, léttvín og sterk vín — berast með sama hraða út í blóðrásina ____

4. Það rennur fyrr af manni ef maður drekkur svart kaffi eða fer í kalda sturtu ____

5. Sama magn áfengis hefur sömu áhrif á alla ____

6. Ölvun og drykkjusýki er eitt og hið sama ____

7. Áhrif áfengis og róandi lyfja (svo sem barbíturata) magnast ef þeirra er neytt saman ____

8. Maður verður ekki drukkinn ef hann drekkur mismunandi tegundir ____

9. Líkaminn meltir áfengi á sama hátt og mat ____

Berðu nú svör þín saman við svörin á blaðsíðu 270. Voru sum svörin röng hjá þér? Mundu þá að fáfræði um áfengi og áhrif þess getur kostað fólk lífið. Biblían varar okkur við því að áfengi ‚bíti sem höggormur og spýti eitri sem naðra‘ sé það rangt notað. — Orðskviðirnir 23:32.

Jón giftist á unglingsaldri. Kvöld eitt lenti hann í rifrildi við unga eiginkonu sína og rauk að heiman í fússi staðráðinn í að drekka sig fullan. Hann féll í dá eftir að hafa svolgrað í sig hálfan lítra af vodka. Hann hefði líklega dáið ef hann hefði ekki komist fljótt undir læknishendur. Honum var bersýnilega ekki ljóst að það getur verið lífshættulegt að drekka mikið magn áfengis á skömmum tíma. Vanþekkingin kostaði hann næstum lífið.

Bakslagið

Einhver lúmskustu áhrif áfengis eru þau að það er deyfandi en ekki örvandi. Fyrstu áhrifin virðast reyndar hressandi, en það stafar af því að áfengið bælir niður kvíðni. Menn verða afslappaðir og finnst draga úr kvíða og áhyggjum. Þannig getur hóflega drukkið áfengi að einhverju leyti hjálpað fólki að ‚gleyma mæðu sinni.‘ (Orðskviðirnir 31:6, 7) Ungur piltur, Páll, drakk til að gleyma erfiðleikunum í fjölskyldunni. „Ég uppgötvaði mjög fljótt að ég gat létt af mér álaginu með því að drekka,“ segir hann. „Þannig tókst mér að gleyma.“

Er þá ekki allt í stakasta lagi? Nei, því miður! Eftir á að giska tvo klukkutíma, þegar róandi áhrif áfengisins réna, kemur bakslagið og kvíðnin snýr aftur — tvíefld! Fráhvarfseinkennin geta staðið í allt að hálfan sólarhring. Að vísu dvínar kvíðnin á ný ef þú færð þér aftur í glas, en tveim til þrem stundum síðar magnast hún aftur og nær nýju hámarki! Og þannig myndast vítahringur þar sem skiptast á gervivellíðan og æ meiri depurð.

Til langs tíma litið er ekki hægt að losna við kvíða og áhyggjur með því að drekka. Líklega verða áhrifin gagnstæð. Og þegar áhrif áfengisins dvína eru vandamálin jafnóleyst og þau voru fyrir.

Tálmar tilfinningaþroska

Sumir segja að þeir njóti sín betur undir áhrifum áfengis. Sveinn var til dæmis með afbrigðum feiminn og átti erfitt með að halda uppi einföldustu samræðum. En þá uppgötvaði hann að það „losnaði um málbeinið eftir tvö til þrjú glös.“

En fólk þroskast bara ekki með því að flýja erfiðleikana eins og Sveinn gerði, heldur með því að horfast í augu við þá. Þegar þú lærir að takast á við og leysa vandamál unglingsáranna ertu að búa þig undir andstreymi fullorðinsáranna. Sveinn uppgötvaði að til langs tíma litið hjálpuðu tímabundin áhrif áfengisins honum alls ekki að sigrast á feimninni. „Ég dró mig aftur inn í skelina þegar rann af mér,“ segir hann. Og hvernig gengur honum núna, mörgum árum síðar? „Ég lærði eiginlega aldrei að skiptast opinskátt á skoðunum við fólk. Ég held að ég hafi aldrei náð þroska á því sviði.“

Eins er það ef menn nota áfengi sem hækju þegar þeir eru að kikna undan streitu og álagi. Jóhanna, sem gerði það á unglingsárunum, viðurkennir: „Fyrir nokkru var ég undir miklu álagi og hugsaði með mér: ‚Mikið væri gott að fá sér í glas núna.‘ Maður heldur að maður ráði betur við vandann eftir að hafa fengið sér í glas.“ En það er alger misskilningur!

Í grein í læknablaðinu New York State Journal of Medicine segir: „Þegar fólk notar vímugjafa [meðal annars áfengi] til að mæta erfiðleikum — í námi, félagslegum samskiptum eða milli einstaklinga — finnur það ekki að það þurfi að læra að takast á við þá á eðlilegan hátt. Afleiðingarnar koma oft ekki í ljós fyrr en á fullorðinsárunum þegar fólki reynist erfitt að mynda náin tengsl við aðra, þannig að það einangrast tilfinningalega.“ Það er langtum betra að takast undanbragðalaust á við vandamál og erfiðleika!

„Hann þáði ekki“

Líttu á Jesú Krist sem fordæmi til eftirbreytni. Síðustu nótt sína hér á jörð gekk hann gegnum gríðarlega þrekraun. Hann var svikinn, handtekinn og síðan yfirheyrður margsinnis og ljúgvitni borið gegn honum. Að lokum, eftir að hafa vakað alla nóttina, var hann framseldur til lífláts á aftökustaur. — Markús 14:43–15:15; Lúkas 22:47-23:25.

Jesú var þá boðið deyfilyf sem slævt gat vitund hans, vímuefni sem gat auðveldað honum að þola kvölina. Biblían segir: „Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki.“ (Markús 15:22, 23) Jesús vildi hafa öll skilningarvitin glaðvakandi í þessari miklu þolraun. Hann vildi ekki flýja veruleikann. Síðar var honum boðið lítið eitt af víni án deyfilyfja til að slökkva þorstann, og það þáði hann. — Jóhannes 19:28-30.

Vandamálin og álagið, sem þú verður fyrir, er sáralítið í samanburði við þetta. Engu að síður geturðu dregið dýrmætan lærdóm af því sem Jesús varð fyrir. Það er miklu betra að horfast einarðlega í augu við vandamál, álag og óþægilegar aðstæður en að grípa til vímuefna svo sem áfengis. Því meiri reynslu sem þú aflar þér í að takast á við vandamál lífsins, þeim mun leiknari verðurðu í að leysa þau. Það þroskar með þér trausta skapgerð.

Þegar þú hefur aldur til þarftu sjálfur að ákveða (ef til vill í samráði við foreldra þína) hvort þú vilt neyta áfengis af og til í hófi. Hugleiddu málið vandlega og taktu síðan yfirvegaða ákvörðun. Þú þarft ekki að afsaka það fyrir öðrum þótt þú kjósir að neyta ekki áfengis. En ef þú hefur aldur til og ákveður að neyta áfengis skaltu gera það á ábyrgan hátt. Drekktu aldrei til að flýja raunveruleikann eða til að drekka í þig kjark. Ráð Biblíunnar eru einföld og beinskeytt: „Of mikil drykkja gerir manninn hávaðasaman og flónskan. Það er heimskulegt að vera ölvaður.“ — Orðskviðirnir 20:1, Today’s English Version.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna byrja unglingar oft að drekka?

◻ Nefndu dæmi um algengar ranghugmyndir um áfengi.

◻ Hvers vegna er hættulegt að aka undir áhrifum áfengis?

◻ Af hverju er hættulegt að nota áfengi til að flýja vandamál?

◻ Hvað ætti unglingur að gera þegar hann á í vandamáli og hvers vegna?

[Rammi á blaðsíðu 268]

Áfengisneysla getur verið vítahringur þar sem skiptist á gervivellíðan og æ meiri depurð.

[Rammi á blaðsíðu 271]

„Ég lærði eiginlega aldrei að skiptast opinskátt á skoðunum við fólk. Ég held að ég hafi aldrei náð þroska á því sviði.“ — Ungur maður sem misnotaði áfengi á unglingsárunum.

[Rammi á blaðsíðu 264]

Þess vegna byrjuðum við að drekka‘

Viðtöl við nokkra sem drukku á unglingsaldri.

Spyrill: Hvers vegna drukkuð þið?

Leifur: Fyrst var það til þess að vera eins og allir hinir í hópnum. Það var í tísku að drekka, sérstaklega um helgar.

Sveinn: Ég byrjaði að drekka um fjórtán ára gamall. Pabbi drakk býsna mikið. Það voru stöðugar drykkjuveislur heima hjá okkur. Sem barn sá ég að áfengi tilheyrði mannamótum. Þegar ég stækkaði lenti ég í slæmum félagsskap. Ég drakk til að njóta viðurkenningar hinna krakkanna.

Magnús: Ég lagði stund á íþróttir. Ég held að ég hafi byrjað að drekka um 15 ára gamall með strákunum í körfuboltaliðinu. Ætli það hafi ekki aðallega verið út af forvitni.

Jónína: Ég varð fyrir miklum áhrifum af því sem ég sá í sjónvarpinu. Ég var vön því að sjá leikarana drekka. Það leit út fyrir að vera svo fínt.

Páll: Pabbi var drykkjumaður. Mér er ljóst núna að það var drykkjusýkin sem olli svo miklum vandamálum hjá okkur. Ég var að reyna að flýja þau. Það er kaldhæðnislegt að ég skyldi byrja að drekka meðal annars þess vegna.

Jónína: Foreldrar mínir drukku yfirleitt ekki mikið. Ég man þó eitt í sambandi við pabba. Á mannamótum var hann vanur að gorta af því hve mikið hann gæti drukkið. Ég hugsaði eitthvað svipað — ég hélt að ég væri einstök. Einu sinni fór ég á fyllirí með vinum mínum. Við drukkum klukkustundum saman. Það hafði alls ekki sömu áhrif á mig og hina. Ég man að ég hugsaði með sjálfri mér að ég væri alveg eins og pabbi. Ég held að viðhorf hans til áfengis hafi haft mikil áhrif á mig.

Spyrill: En hvers vegna drekka margir sig ölvaða?

Magnús: Það var þess vegna sem við drukkum — til að verða drukkin. Mér fannst bragðið aldrei gott.

Spyrill: Þú drakkst sem sagt áhrifanna vegna?

Magnús: Já.

Haraldur: Ég segi það sama. Þetta er eins og að klifra upp stiga. Í hvert sinn sem maður drekkur reynir maður að komast í meiri vímu — upp í næsta þrep í stiganum.

[Rammi á blaðsíðu 270]

Svör við spurningum á bls. 263.

1. RANGT. Áfengi hefur fyrst og fremst deyfandi áhrif. Það getur framkallað vellíðan og glaðværð vegna þess að það bælir niður kvíðni, dregur úr taugaspennu og hjálpar fólki að slaka á.

2. RANGT. Hófleg neysla áfengis virðist ekki hafa nein skaðleg áhrif á líkamann. Langvinn ofdrykkja getur hins vegar skaðað hjartað, heilann, lifrina og önnur líffæri.

3. RANGT. Sterkt vín berst yfirleitt fljótar út í blóðrásina en létt vín eða bjór.

4. RANGT. Kaffi getur vakið þig og köld sturta bleytt þig, en vínandinn helst í blóðinu uns lifrin hefur brotið hann niður. Það gerist með hraða sem svarar til um 15 gramma af vínanda á klukkustund.

5. RANGT. Áhrifin ráðast af ýmsu, svo sem líkamsþyngd og því hvort drukkið er á tóman maga eða ekki.

6. RANGT. Ölvun er afleiðing ofneyslu. Drykkjusýki einkennist af því að menn missa stjórn á drykkjuvenjum sínum. Ölvaður maður er ekki sjálfkrafa drykkjusjúklingur og drykkjusjúklingar verða ekki allir drukknir.

7. RÉTT. Þegar áfengis er neytt með lyfjum geta eðlileg áhrif lyfjanna eða áfengisins magnast til mikilla muna. Sé til dæmis neytt róandi lyfja og áfengis saman getur það haft í för með sér alvarleg fráhvarfseinkenni, dá og jafnvel dauða. Eitt glas og ein tafla geta haft langtum sterkari áhrif en þú ímyndar þér. Áhrif lyfsins geta þrefaldast, fjórfaldast, tífaldast eða meir!

8. RANGT. Ölvunarstigið fer eftir heildarvínandamagni sem neytt er, hvort sem drukkinn er bjór, gin, viskí, vodka eða annað.

9. RANGT. Áfengi meltist öðruvísi en flestar aðrar fæðutegundir. Um 20 af hundraði vínandans síast þegar í stað gegnum magavegginn út í blóðrásina. Afgangurinn berst niður í smáþarmana og þaðan út í blóðrásina.

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 266, 267]

Akstur og áfengi — hættuleg blanda

„Ölvunarakstur er algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 16 til 24 ára,“ segir í bandarískri skýrslu frá ráðstefnu árið 1984 um ölvunarakstur unglinga. „Hjá unglingum eru fjórfalt meiri líkur á bílslysi af völdum ölvunaraksturs en hjá nokkrum öðrum ökumönnum.“ (Just Along for the Ride) Öll þessi óþörfu dauðaslys í umferðinni af völdum ölvunaraksturs stafa að nokkru leyti af lífseigum bábiljum um áhrif áfengis. Hér eru nefnd nokkur algeng dæmi:

BÁBILJA: Það er allt í lagi að aka bifreið ef maður hefur ekki drukkið nema 2-3 bjóra.

STAÐREYND: „Drekki ökumaður tvær 33 sentilítra dósir af bjór á innan við klukkustund getur áfengið í þeim hægt á viðbragðshraða hans um 2/5 úr sekúndu. Á þeim tíma getur bifreið á 90 km hraða miðað við klukkustund farið 10 metra vegalengd — sem getur skilið milli áreksturs og þess að afstýra slysi.“ — Development of a Traffic Safety and Alcohol Program for Senior Adults eftir dr. James L. Malfetti og dr. Darlene J. Winter.

BÁBILJA: Það er óhætt að aka svo lengi sem maður finnur ekki á sér.

STAÐREYND: Það er hættulegt að treysta tilfinningunni. Áfengi vekur vellíðan og neytandinn hefur á tilfinningunni að hann hafi stjórn á hlutunum enda þótt viðbragðshraði hans sé minni en eðlilegt er.

Þótt það sé hættulegt fyrir hvern sem er að aka bifreið undir áhrifum áfengis er það sérlega hættulegt fyrir unglinga. Unglingar eru „lakari ökumenn“ undir áhrifum áfengis en fullorðnir „vegna þess að akstur bifreiðar er tiltölulega ný kunnátta fyrir þá og ekki vanabundin. Í stuttu máli eru flestir unglingar bæði óreyndir í meðferð bifreiðar og áfengis, og enn óreyndari þegar akstur og áfengi fara saman.“ — Senior Adults, Traffic Safety and Alcohol Program Leader’s Guide eftir dr. Darlene J. Winter.

Unglingar þurfa líka minna áfengi en fullorðnir til að verða ölvaðir. Unglingar eru yfirleitt léttari en fullorðnir og því léttara sem fólk er, þeim mun minni vökva hefur líkaminn til að útþynna áfengið sem það neytir. Ölvunaráhrifin eru því meiri sem vínandahlutfall í blóði er hærra.

„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) Í ljósi þess hve hættulegt er að blanda saman akstri og áfengi er viturlegt af þér að strengja þess heit að gera það aldrei. Þannig geturðu bæði forðast slys sem gæti kostað þig heilsuna — eða lífið — og sýnt að þú berir virðingu fyrir lífi annarra.

Einsettu þér jafnframt að (1) vera aldrei farþegi í bifreið ef ökumaður hefur neytt áfengis og (2) leyfa vini þínum aldrei að aka bifreið ef hann hefur drukkið. Vini þínum gremst kannski við þig í fyrstu en hann kann líklega að meta það sem þú gerðir þegar hann kemur til sjálfs sín. — Samanber Sálm 141:​5, New World Translation.

[Myndir]

Vertu aldrei farþegi í bifreið ef ökumaður hefur neytt áfengis og leyfðu vini þínum aldrei að aka bifreið ef hann hefur drukkið.

[Myndir á blaðsíðu 262]

Ýmislegt getur komið unglingum til að byrja að drekka — kunningjarnir, sjónvarpið og jafnvel foreldrarnir.

[Mynd á blaðsíðu 265]

Áfengi getur ‚bitið eins og höggormur‘ sé það misnotað.

[Myndir á blaðsíðu 269]

Ölvunarakstur hefur oft þessar afleiðingar.