Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna að afþakka fíkniefni?

Hvers vegna að afþakka fíkniefni?

34. kafli

Hvers vegna að afþakka fíkniefni?

„TILFINNINGALEGA er ég eins og barn,“ segir Kjartan sem er 24 ára. „Stundum er ég hræddur við jafnaldra mína og finnst þeir jafnvel ógna mér. Ég þjáist af þunglyndi, öryggisleysi og stundum hefur jafnvel hvarflað að mér að svipta mig lífi.“

Anna er 36 ára. Hún lýsir sjálfri sér þannig að hún sé „mjög óþroskuð tilfinningalega“ og hafi „litla sjálfsvirðingu.“ Hún bætir við: „Mér finnst mjög erfitt að lifa eðlilegu lífi.“

Kjartan og Anna ákváðu að prófa fíkniefni þegar þau voru ung, og nú eru þau að uppskera eins og þau sáðu. Milljónir unglinga í heiminum sprauta sig, gleypa, taka í nefið eða reykja allt frá hassi til kókaíns. Sumir neyta fíkniefna til að flýja vandamál sín; aðrir gera það af einskærri forvitni. Sumir neyta jafnvel fíkniefna til að ná sér upp úr þunglyndi eða leiðindum. Og margir halda neyslunni áfram vegna áhrifanna eftir að þeir eru byrjaðir. Gunnar, 17 ára, segir: „Ég reyki [hass] bara vegna áhrifanna. Ég geri það ekki til að þykjast vera karl í krapinu eða til að vera eins og hinir. . . . Ég reykti aldrei vegna hópþrýstings, heldur bara af því að mig langaði til þess.“

Miklar líkur eru á að þú komist fyrr eða síðar í snertingu við fíkniefni eða þér verði hreinlega boðin þau. „Jafnvel verðirnir í skólanum selja hass,“ segir unglingur. Sums staðar eru áhöld til fíkniefnaneyslu opinberlega til sýnis og sölu. En þótt fíkniefni séu útbreidd og auðfáanleg eru margar góðar ástæður til að segja þvert nei ef þér er boðið. Hvers vegna?

Fíkniefni tálma þroska

Tökum sem dæmi unglinga er neyta fíkniefna til að flýja vandamál sín, líkt og Kjartan og Anna. Eins og bent var á í kaflanum á undan þroskumst við tilfinningalega með því að glíma við erfiðleika og læra að taka skini og skúrum lífsins. Unglingar, sem flýja veruleikann með hjálp fíkniefna, spilla fyrir tilfinningaþroska sínum. Þeir læra ekki að takast á við vandamál.

„Æfingin skapar meistarann,“ segir máltækið. Enginn lærir að takast á við vandamál nema hann æfi sig í því. Hefurðu einhvern tíma horft með aðdáun á leikinn knattspyrnumann? Þú dáist að því hvernig hann beitir höfðinu og fótunum! En hvernig varð hann svona leikinn? Með áralangri æfingu. Hann lærði að sparka boltanum, rekja hann og sparka sýndarspark uns hann varð leikinn knattspyrnumaður.

Leikni í glímunni við vandamál kostar líka þjálfun og reynslu. Biblían spyr í Orðskviðunum 1:22: „Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi . . . og heimskingjarnir að hata þekkingu?“ Unglingur, sem felur sig í sæluvímu fíkniefnanna, ‚elskar fávísi‘; hann þroskar ekki með sér kunnáttu, reynslu og færni í að takast á við lífið. Bókin Talking With Your Teenager segir um unga fíkniefnaneytendur: „Þeir læra aldrei að það er hægt að komast gegnum erfiðu kaflana í lífinu án þessara efna.“

Anna, sem neytti fíkniefna til að flýja veruleikann, játar: „Í fjórtán ár hef ég ekki tekist á við vandamál mín.“ Kjartan hefur svipaða sögu að segja: „Ég hafði neytt fíkniefna síðan ég var ellefu ára. Þegar ég hætti 22 ára fannst mér ég vera eins og barn. Ég ríghélt mér í aðra í von um að finna öryggi. Mér varð ljóst að ég hætti að þroskast tilfinningalega þegar ég fór að neyta fíkniefna.“

„Ég sóaði öllum þessum þroskaárum,“ segir Friðrik sem neytti fíkniefna frá 13 ára aldri. „Þegar ég hætti uppgötvaði ég mér til mæðu að ég var alls ekki undir það búinn að takast á við lífið. Ég var orðinn þrettán ára aftur og átti við sama tilfinningarót að glíma og allir krakkar á þeim aldri.“

Geta fíkniefni verið heilsuspillandi?

Svo er það spurningin um heilsuna. Flestum unglingum er ljóst að sterku fíkniefnin geta verið banvæn. En hvað um hin svokölluðu mildu efni svo sem hass? Eru allar þessar viðvaranir bara hræðsluáróður? Lítum á kannabisefni sem dæmi.

Hass, hassolía og maríúana eru af flokki svonefndra kannabisefna. Sérfræðingar eru ekki á eitt sáttir um skaðsemi þessara efna og margt er á huldu um afleiðingarnar af notkun þeirra. Það stafar meðal annars af því að efnasamsetning þeirra er mjög flókin; til dæmis eru yfir 400 mismunandi efnasambönd í maríúanareyk. Það tók lækna 60 ár að gera sér grein fyrir að venjulegur sígarettureykur veldur krabbameini. Það getur líka tekið marga áratugi áður en menn vita fyrir víst hvaða áhrif hin 400 efnasambönd í maríúanareyknum hafa á mannslíkamann.

Starfshópur sérfræðinga við hina virtu Læknisfræðistofnun Bandaríkjanna komst þó að þessari niðurstöðu eftir gaumgæfilega skoðun á þúsundum rannsóknarskýrslna: „Þau vísindagögn, sem birt hafa verið fram til þessa, gefa til kynna að maríúana hafi víðtæk sálfræðileg og líffræðileg áhrif sem eru að minnsta kosti sum hver heilsuspillandi undir vissum kringumstæðum.“ Hvers konar áhrif er átt við?

Áhrif hass á mannslíkamann

Tökum lungun sem dæmi. Jafnvel dyggustu málsvarar hassins viðurkenna að það geti ekki verið hollt að anda reyknum að sér. Líkt og í tóbaksreyk er fjöldi skaðlegra efna í hassreyk, meðal annars tjara.

Dr. Forest S. Tennant, Jr., gerði könnun er náði til 492 bandarískra hermanna sem höfðu reykt maríúana. Nálega fjórðungur „fann til eymsla í hálsi vegna kannabisreykinga og um 6 af hundraði sögðust hafa fengið lungnakvef.“ Í annarri rannsókn fundust „vefjarskemmdir, sem eru einkennandi fyrir krabbamein á frumstigi,“ í lungnapípum 24 maríúananeytenda af 30.

Auðvitað er engin vissa fyrir því að þeir fái krabbamein, en værir þú fús til að taka áhættuna? Auk þess segir Biblían að Guð ‚gefi öllum líf og anda.‘ (Postulasagan 17:25) Værirðu að sýna gjafara lífsins virðingu ef þú andaðir af ásettu ráði að þér efni sem skaðar lungun og hálsinn?

Í Prédikaranum 12:6 er mannsheilinn á skáldamáli kallaður „gullskálin.“ Heilinn vegur aðeins um 1400 grömm og er á stærð við tvo kreppta hnefa, en þar er setur minnisins og stjórnstöð alls taugakerfisins. Viðvörun bandarísku Læknisfræðistofnunarinnar er því umhugsunarverð: „Við getum sagt með vissu að maríúana hefur sterk áhrif á heilann og veldur bæði efnafræðilegum og raf-lífeðlisfræðilegum breytingum.“ Sem stendur liggur engin endanleg sönnun fyrir því að kannabisefni valdi varanlegum heilaskemmdum. En vissulega ætti ekki að gera lítið úr þeim möguleika að þau geti á einhvern hátt skaðað ‚gullskálina.‘

Reiknarðu með að giftast einhvern tíma og eignast börn? Bandaríska Læknisfræðistofnunin segir að vitað sé að maríúana „valdi fósturskaða í tilraunadýrum þegar það er gefið í stórum skömmtum.“ Ekki hefur verið sannað að það hafi sambærileg áhrif á menn. Þó ber að hafa í huga að fósturskaðar (til dæmis vegna hormónsins stilböstróls) koma oft ekki í ljós fyrr en mörgum árum síðar. Enginn veit því með vissu hvaða framtíð bíður barna og barnabarna þeirra sem neyta kannabisefna. Dr. Gabriel Nahas líkir neyslu kannabisefna við „erfðafræðilega rúllettu.“ Getur nokkur, sem álítur börn vera ‚gjöf frá Jehóva,‘ leyft sér að taka slíka áhættu? — Sálmur 127:3.

Afstaða Biblíunnar til fíkniefna

Kannabisefni eru auðvitað aðeins brot þeirra mörgu fíkniefna sem eru á markaðinum. Hins vegar eru þau ágætt dæmi til að sýna að það er full ástæða til að neyta ekki fíkniefna. Biblían segir: „Krafturinn er ágæti ungra manna.“ (Orðskviðirnir 20:29) Þú ert ungur og vafalítið hraustur. Hvers vegna að taka þá áhættu að spilla heilsunni?

En mikilvægara er þó að hafa sjónarmið Biblíunnar. Hún segir okkur að ‚varðveita visku og gætni,‘ ekki spilla henni með fíkniefnaneyslu. (Orðskviðirnir 3:21) Hún hvetur líka: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ Guð lofar þeim einum sem hafa ‚hreinsað sig af saurgun,‘ svo sem fíkniefnaneyslu: „Ég mun taka yður að mér og ég mun vera yður faðir.“ — 2. Korintubréf 6:17-7:1.

En það er kannski hægara sagt en gert að halda sér frá fíkniefnum.

Hópþrýstingur

Jói og Friðrik, sem voru frændur og nánir vinir, gerðu með sér samning á svölu sumarkvöldi. „Hvað sem aðrir gera skulum við aldrei byrja að fikta við fíkniefni,“ sagði Jói sem var yngri. Þeir innsigluðu samninginn með handabandi. Aðeins fimm árum síðar fannst Jói látinn í bíl sínum eftir umferðarslys af völdum fíkniefnaneyslu. Og Friðrik var djúpt sokkinn.

Hvað gerðist? Svarið liggur í þessari alvarlegu viðvörun Biblíunnar: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Jói og Friðrik lentu báðir í slæmum félagsskap. Þeir umgengust fíkniefnaneytendur æ meir og loks fóru þeir sjálfir að prófa fíkniefni.

Bókin Self-Destructive Behavior in Children and Adolescents segir: „Oftast er það náinn vinur sem fyrstur býður unglingi fíkniefni . . . Kannski ætlar hann bara að veita hinum hlutdeild í spennandi eða ánægjulegri reynslu.“ Kjartan, sem getið er fyrr í kaflanum, tekur undir það og segir: „Mér fannst erfiðast að standast hópþrýstinginn. . . . Ég reykti maríúana í fyrsta sinn vegna þess að allir hinir gerðu það og ég vildi verða hluti af hópnum.“

Ef félagarnir byrja að neyta fíkniefna er það gífurlegur þrýstingur á þig að gera það líka. Ef þú breytir ekki um vinahóp eru allar horfur á að þú ánetjist einnig fíkniefnum.

„Haf umgengni við vitra menn“

„Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja,“ segja Orðskviðirnir 13:20. Ef þú vilt ekki kvefast reynirðu sjálfsagt að forðast snertingu við þá sem eru kvefaðir. „Á sama hátt,“ segir í bókinni Adolescent Peer Pressure, „verðum við að halda okkur í heilnæmu umhverfi og takmarka tengsl okkar við þá sem hafa skaðleg áhrif . .  ef við viljum forðast . . . fíkniefnaneyslu.“

Viltu forðast fíkniefni? Gættu þá að því hverja þú umgengst. Sækstu eftir vináttu guðhræddra kristinna manna sem styðja þig í þeim ásetningi að forðast fíkniefni. (Samanber 1. Samúelsbók 23:15, 16.) Taktu líka eftir orðunum í 2. Mósebók 23:2. Upphaflega var þeim beint til eiðsvarinna vitna í dómsmáli, en þau eiga líka fullt erindi til ungs fólks: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka.“

Sá sem fylgir jafnöldrunum gagnrýnislaust í einu og öllu er ekkert annað en þræll. Biblían segir í Rómverjabréfinu 6:16 (New International Version): „Vitið þið ekki að þegar þið bjóðist til að hlýða öðrum eins og þrælar, þá eruð þið þrælar þess sem þið hlýðið?“ Þess vegna hvetur Biblían unglinga til að þroska með sér „aðgætni“ eða skýra hugsun. (Orðskviðirnir 2:10-12) Lærðu að hugsa sjálfstætt; þá hefurðu ekki tilhneigingu til að fylgja afvegaleiddum unglingum.

Auðvitað geturðu verið forvitinn um fíkniefni og áhrif þeirra, en þú þarft ekki að eitra hugann og líkamann til að afla þér slíkrar vitneskju. Horfðu bara á fíkniefnaneytendur á þínum aldri — einkum þá sem hafa neytt fíkniefna lengi. Sýnist þér þeir vökulir og skýrir í hugsun? Fá þeir góðar einkunnir? Eða eru þeir sljóir og eftirtektarlausir og hafa stundum enga hugmynd um hvað er að gerast í kringum þá? Þegar fíkniefnaneytendur eru komnir á þetta stig eru þeir stundum kallaðir „útbrunnir.“ En sennilega var það bara af forvitni sem margir þeirra byrjuðu. Engin furða að Biblían skuli hvetja kristna menn til að bæla niður óheilbrigða forvitni og vera „sem ungbörn í illskunni.“ — 1. Korintubréf 14:20.

Þú getur sagt nei!

Bæklingur útgefinn af bandarískri stofnun, sem berst gegn fíkniefnaneyslu, áminnir: „Það er réttur þinn . . . að afþakka fíkniefni ef þér eru boðin þau. Hver sá vinur, sem reynir að hafa áhrif á ákvörðun þína, er að skerða rétt þinn til frelsis.“ Hvað geturðu gert ef einhver býður þér fíkniefni? Hafðu hugrekki til að segja nei! Þú þarft ekki að prédika skaðsemi fíknefna yfir honum. Bæklingurinn leggur til að þú svarir einfaldlega: „Nei takk,“ eða „Nei, ég vil ekki sjá það,“ eða jafnvel: „Nei, ég hef engan áhuga á að menga sjálfan mig.“ Ef fíkniefnunum er haldið fast að þér gætirðu þurft að segja mjög ákveðið nei! Það getur líka verið vernd fyrir þig ef þú lætur aðra vita að þú sért kristinn.

Uppvaxtarárin eru ekki auðveld. En ef þú reynir að forðast vaxtarverkina með því að neyta fíkniefna geturðu spillt möguleikum þínum á að verða ábyrgur, þroskaður einstaklingur. Lærðu að horfast einbeittur í augu við vandamálin. Ef þér finnst álagið vera að buga þig skaltu ekki reyna að komast undan með hjálp fíkniefna. Ræddu málið við foreldra þína eða annað ábyrgt, fullorðið fólk sem getur hjálpað þér að ná tökum á vandamálinu. Mundu líka eftir hvatningu Biblíunnar: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

Já, Jehóva Guð gefur þér styrk til að segja nei! Láttu aðra aldrei þvinga þig til að kvika frá þeim ásetningi. Eins og Kjartan segir: „Ekki prófa fíkniefni. Þú sérð eftir því alla ævi!“

Spurningar til umræðu

◻ Af hverju byrja margir unglingar að neyta fíkniefna?

◻ Hvernig getur fíkniefnaneysla tálmað tilfinningaþroska þínum?

◻ Hvað er vitað um áhrif kannabisefna á líkamann?

◻ Hver er afstaða Biblíunnar til fíkniefnaneyslu?

◻ Af hverju er mikilvægt að gæta félagsskapar síns til að geta forðast fíkniefni?

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að afþakka fíkniefni.

[Rammi á blaðsíðu 274]

„Jafnvel verðirnir í skólanum selja hass,“ segir unglingur.

[Rammi á blaðsíðu 279]

„Mér varð ljóst að ég hætti að þroskast tilfinningalega þegar ég fór að neyta fíkniefna.“ — Kjartan, fyrrverandi fíkniefnaneytandi.

[Rammi á blaðsíðu 278]

Maríúana — nýtt undralyf?

Það olli miklu fjaðrafoki þegar því var haldið fram að maríúna gæti verið nokkurs virði sem læknislyf gegn gláku og astma og til að draga úr ógleði krabbameinssjúklinga meðan á efnameðferð stendur. Í skýrslu Bandarísku Læknisfræðistofnunarinnar var fallist á að þeir sem halda slíku fram hafi nokkuð til síns máls. Má þá ætla að læknar eigi eftir að ávísa sjúklingum maríúanavindlingum?

Það er ólíklegt. Enda þótt einhver þeirra 400 efnasambanda, sem eru í maríúanareyk, geti verið nothæf sem læknislyf er tæplega rökrétt að taka þau inn með því að reykja maríúana. Kunnur sérfræðingur, dr. Carlton Turner, segir: „Að ávísa maríúana væri sambærilegt við að gefa fólki myglað brauð til að það fái penisillín.“ Ef eitthvert efnanna í maríúana verður einhvern tíma viðurkennt læknislyf verður það „afleiða eða hliðstæða,“ það er að segja efni sem er líkt því að gerð. Það er því ekki óeðlilegt að ráðherra heilbrigðis- og félagsmála í Bandaríkjunum skyldi segja: „Rétt er að leggja á það áherslu að hugsanlegt lækningagildi maríúana dregur á engan hátt úr hinum alvarlegu, heilsuspillandi áhrifum þess.“

[Mynd á blaðsíðu 275]

Hafðu hugrekki til að segja nei ef þér eru boðin fíkniefni!

[Myndir á blaðsíðu 276, 277]

Ef þú flýrð vandamálin núna með því að neyta fíkniefna . . . verður erfitt að horfast í augu við vandamál fullorðinsáranna.