Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég staðið gegn hópþrýstingi?

Hvernig get ég staðið gegn hópþrýstingi?

9. kafli

Hvernig get ég staðið gegn hópþrýstingi?

KAREN var farin að neyta fíkniefna og stunda kynlíf aðeins 14 ára. Jón var orðinn alkóhólisti 17 ára gamall og lifði siðlausu lífi. Bæði viðurkenna að þeim hafi alls ekki geðjast að því lífi sem þau lifðu né heldur því sem þau voru að gera. En hvað kom þeim þá til að lifa þannig? Hópþrýstingur!

„Allir sem ég umgekkst gerðu þetta og það hafði mikil áhrif á mig,“ segir Karen. Jón gefur svipaða skýringu: „Ég vildi ekki glata vinum mínum með því að vera öðruvísi en þeir.“

Hvers vegna líkja unglingar eftir jafnöldrum sínum?

Á unglingsárunum dregur oft úr áhrifum foreldranna og löngunin til að vera vinsæll og njóta viðurkenningar jafnaldranna vex að sama skapi. Sumum finnst þeir einfaldlega þurfa að tala við einhvern sem „skilur“ þá eða lætur þá finna að einhverjum þyki vænt um þá eða þarfnist þeirra. Ef slík tjáskipti eru ekki fyrir hendi á heimilinu — og það er algengt — sækjast unglingar eftir þeim meðal jafnaldra sinna. Öryggisleysi og skortur á sjálfstrausti getur einnig gert suma berskjaldaða fyrir hópáhrifum.

Hópáhrif eru ekki alltaf slæm. Orðskviður segir: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Líkt og járn getur brýnt sljóan hníf, eins getur félagsskapur við aðra unglinga „brýnt“ persónuleika þinn og gert þig að betri manni — ef viðhorf þessara unglinga eru þroskuð og heilbrigð.

Því miður eru unglingar allt of oft mjög vanþroskaðir — bæði hugarfarslega og andlega. Skoðanir og sjónarmið margra unglinga eru óheilbrigð, óskynsamleg og jafnvel glannaleg. Þannig er það ekki ósvipað því að blindur maður leiði blindan þegar unglingur lætur félaga sína stjórna sér gagnrýnislaust. (Samanber Matteus 15:14.) Það getur endað með ósköpum.

Jafnvel þótt félagarnir reyni ekki að draga þig út í glæfralega hegðun geta áhrif þeirra samt sem áður verið þrúgandi. „Það er svo áríðandi fyrir mann að njóta viðurkenningar annarra krakka,“ segir Debbie. „Þegar ég var átján ára var ég dauðhrædd um að vera óvinsæl því að þá myndi enginn bjóða mér út. Ég óttaðist að verða útundan.“ Debbie lagði sig því í líma við að njóta hylli jafnaldra sinna.

Læt ég hafa áhrif á mig?

Ertu farinn að klæða þig, tala eða hegða þér á ákveðinn hátt til að falla inn í hópinn? Súsanna, sem er 17 ára, heldur því fram að ‚enginn geti fengið mann til að gera það sem maður vill ekki sjálfur.‘ Það er að vísu rétt, en hópþrýstingur getur verið svo lævís að þú gerir þér ekki grein fyrir hve sterk áhrif hann hefur á þig. Tökum Pétur postula sem dæmi. Hann var einn af máttarstólpum kristna safnaðarins, djarfmæltur og með sterka sannfæringu. Guð opinberaði Pétri að menn af öllum þjóðum og kynþáttum gætu öðlast hylli hans. Pétur átti þátt í að snúa þeim fyrstu, sem ekki voru Gyðingar, til kristinnar trúar. — Postulasagan 10:28.

Tíminn leið og Pétur var staddur í Antíokkíu þar sem fjöldi fólks af öðrum þjóðum hafði snúist til kristinnar trúar, og Pétur umgekkst þetta fólk frjálsmannlega. Dag einn komu kristnir Gyðingar frá Jerúsalem, en þeir voru enn haldnir vissum fordómum gegn fólki af öðrum þjóðum. Hvernig brást Pétur nú við þegar samlandar hans voru nærstaddir?

Pétur hætti að umgangast kristna menn af öðrum þjóðum og vildi ekki einu sinni matast með þeim! Hvers vegna? Hann var greinilega hræddur við að hneyksla kristna bræður sína frá Júdeu. Hann kann að hafa hugsað með sér: ‚Ég gef örlítið eftir á meðan þeir eru hérna og held síðan áfram að umgangast bræður mína af þjóðunum eins og ekkert sé, eftir að þeir eru farnir. Hvers vegna að spilla sambandi mínu við þá fyrir svona lítilræði?‘ Þetta var auðvitað yfirborðsmennska hjá Pétri; hann hafnaði sannfæringu sinni með því að gera það sem honum fannst ekki einu sinni rétt. (Galatabréfið 2:11-14) Ljóst er því að enginn er ónæmur fyrir hópþrýstingi.

Hvað myndirðu gera?

Það er auðvelt að segja við sjálfan sig: ‚Mér er alveg sama hvað öðrum finnst!‘ En það er erfiðara að standa við það þegar á hólminn kemur. Hvað myndirðu til dæmis gera ef þú værir í eftirfarandi aðstöðu?

Einn af skólafélögunum réttir þér sígarettu meðan aðrir horfa á. Þú veist að það er rangt að reykja, en þeir bíða allir eftir að sjá hvað þú gerir . . .

Stelpurnar í skólanum eru að tala um kynlíf og kærasta. Ein af stelpunum spyr þig: „Þú ætlar þó ekki að segja okkur að þú sért enn þá hrein mey?“

Þig langar í tískuföt eins og allar hinar stelpurnar ganga í en mamma þín segir að þau séu ósiðleg. Þér finnst þú líta út eins og sex ára krakki í fötunum sem hún heimtar að þú klæðist. Skólafélagarnir stríða þér. Ein af stelpunum segir: „Sparaðu bara vasapeningana þína svo að þú getir keypt þér eitthvað smart. Mamma þín þarf ekkert að vita af því. Þú getur klætt þig í það í skólanum og skipt svo aftur um föt áður en þú ferð heim.“

Er auðvelt að standa í þessum sporum? Nei, en ef þú þorir ekki að segja nei við jafnaldra þína endar það með því að þú segir nei við sjálfan þig, þær lífsreglur sem þú trúir á og foreldra þína. Hvernig geturðu byggt upp nægan styrk til að standa gegn þrýstingi jafnaldra þinna?

„Íhygli“

Rósa byrjaði að reykja 15 ára gömul, ekki af því að hana langaði til þess heldur af því að allir hinir gerðu það. „Seinna sagði ég við sjálfa mig: ‚Af hverju er ég að reykja úr því að mér finnst það ekki einu sinni gott?‘ þannig að ég hætti því.“ Með því að hugsa sjálfstætt gat hún boðið félögunum birginn.

Biblían hvetur unglinga einmitt til að þroska með sér „þekkingu og íhygli.“ (Orðskviðirnir 1:1-5, New World Translation) Íhugull maður hugsar sinn gang og þarf ekki að styðja sig við óreynda félaga sína. Hann verður þó ekki svo sjálfsöruggur að hann láti skoðanir annarra sem vind um eyrun þjóta. (Orðskviðirnir 14:16) Hann er fús til að ‚hlýða ráðum og taka umvöndun‘ til þess að hann ‚verði vitur.‘ — Orðskviðirnir 19:20.

Vertu samt ekki hissa ef öðrum geðjast ekki að þér eða jafnvel ef gert er gys að þér fyrir að hugsa sjálfstætt. „Íhugull maður er hataður,“ segja Orðskviðirnir 14:17. (New World Translation) En hvor er í raun og veru sterkari — sá sem lætur undan sjálfum sér og löngunum sínum eða sá sem ræður við rangar tilhneigingar? (Samanber Orðskviðina 16:32.) Hvert stefnir í lífi þeirra sem gera gys að þér? Viltu láta fara eins fyrir þér? Getur hugsast að hinir séu bara öfundsjúkir út í þig og breiði yfir öryggisleysi sitt með því að hæðast að þér?

Forðastu snöruna

„Ótti við menn leiðir í snöru,“ segja Orðskviðirnir 29:25. Á biblíutímanum voru snörur eða gildrur stundum notaðar við veiðar. Komið var fyrir agni til að lokka grunlaust dýr í snöruna. Nú á dögum getur löngunin til að njóta viðurkenningar jafnaldranna verið eins konar agn eða tálbeita. Hún getur lokkað grunlausan ungling í snöru sem fær hann til að brjóta boðorð Guðs. Hvernig er hægt að forðast — eða sleppa úr — þeirri snöru að óttast menn?

Í fyrsta lagi skaltu vanda val vina þinna! (Orðskviðirnir 13:20) Hafðu félagsskap við þá sem hafa kristið gildismat, þótt það takmarki vinahóp þinn. Unglingur nokkur segir: „Af því að ég hafði ekki sömu hugmyndir og hinir í skólanum um fíkniefni og kynlíf létu þeir mig fljótlega í friði. Þótt það létti af mér verulegum þrýstingi til að fylgja straumnum gerði það mig svolítið einmana.“ En það er betra að vera svolítið einmana en að láta aðra spilla sér andlega og siðferðilega. Félagsskapur innan fjölskyldunnar og kristna safnaðarins getur átt sinn þátt í að fylla tómarúmið.

Þér er einnig hjálp í því að hlusta á foreldra þína. (Orðskviðirnir 23:22) Þeir gera sjálfsagt allt sem þeir geta til að innræta þér rétt gildismat. Ung stúlka sagði: „Foreldrar mínir voru mjög ákveðnir við mig. Stundum líkaði mér það ekki en nú kann ég að meta að þeir skyldu setja því skýr mörk hverja ég mátti umgangast.“ Þessi hjálp foreldranna fékk hana til að standast þrýstinginn til að neyta fíkniefna eða stunda kynlíf.

Bandarískur unglingaráðgjafi, Beth Winship, bendir á að ‚unglingar, sem eru góðir í einhverju, geti verið ánægðir með eigin verðleika og þurfi ekki viðurkenningu hópsins til að hafa góða sjálfsmynd.‘ Af hverju leggurðu þig ekki fram við að skila vel af hendi því sem þú gerir í skólanum og heima fyrir? Ungir vottar Jehóva leggja sig sérstaklega fram um að vera ‚verkamenn sem ekki þurfa að skammast sín og fara rétt með orð sannleikans‘ í hinni kristnu þjónustu. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

Eftir að hafa varað við þeirri „snöru“ að óttast menn halda Orðskviðirnir 29:25 áfram: „En þeim er borgið, sem treystir [Jehóva].“ Gott samband við Guð getur kannski veitt þér meiri styrk en nokkuð annað til að láta ekki undan kunningjunum. Debbie (sem getið var í byrjun kaflans) hafði til dæmis fylgt fjöldanum um tíma, drukkið í óhófi og notað fíkniefni. En þá fór hún að nema Biblíuna alvarlega og byrjaði að treysta á Jehóva. Áhrifin létu ekki á sér standa. „Ég ákvað með sjálfri mér að ég ætlaði ekki að hegða mér eins og þessi krakkahópur,“ sagði Debbie. Hún sagði fyrrverandi vinum sínum: „Þið farið ykkar leið og ég fer mína. Ef þið viljið eiga mig fyrir vin verðið þið að virða sömu lífsreglur og ég. Því miður, en mér er alveg sama hvað ykkur finnst. Þetta er mín afstaða.“ Ekki kunnu allir vinir Debbie að meta hina nýfundnu trú hennar. En Debbie segir: „Ég var miklu sáttari við sjálfa mig eftir að ég tók þessa ákvörðun.“

Þú verður líka ‚sáttari við sjálfan þig‘ og firrir þig miklum vandræðum ef þú gengur ekki í þá gildru að láta undan hópþrýstingi!

Spurningar til umræðu

◻ Af hverju hafa unglingar tilhneigingu til að líkja hver eftir öðrum? Er það alltaf til ills?

◻ Hvað lærum við um hópþrýsting af atviki úr ævi Péturs postula?

◻ Nefndu nokkrar aðstæður þar sem reynir á styrk manns til að segja nei. Hefurðu lent í einhverjum þeirra sjálfur?

◻ Hvað geturðu minnt þig á ef reynt er að mana þig til að gera eitthvað?

◻ Hvað getur hjálpað unglingum að forðast þá snöru að óttast menn?

[Innskot á blaðsíðu 74]

„Það er svo áríðandi fyrir mann að njóta viðurkenningar annarra krakka,“ segir Debbie. „Þegar ég var átján ára var ég dauðhrædd um að vera óvinsæl . . . Ég óttaðist að verða útundan.“

[Rammi á blaðsíðu 75]

‚Ég mana þig!‘

Áfram með þig,“ sögðu bekkjarfélagar Lísu. „Segðu kennaranum að hann sé andfúll!“ Málið snerist auðvitað alls ekki um tannhirðu kennarans. Bekkjarfélagarnir voru að reyna að mana Lísu til að taka áhættu — og það talsvert mikla! Já, stundum virðast unglingar hafa einhverja undarlega ánægju af því að ögra öðrum og mana þá til alls kyns verka, allt frá smávægilegum skammarstrikum upp í lífshættulegan glæfraskap.

En ef einhver manar þig til að gera eitthvað sem er heimskulegt, óvinsamlegt eða hreint og beint hættulegt, þá er rétt að hugsa sig um tvisvar. Vitur maður sagði: „Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa ólgu í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum heldur en viska, heldur en sómi.“ (Prédikarinn 10:1) Til forna þurfti stundum ekki meira en litla, dauða flugu til að eyðileggja verðmæt smyrsli eða ilmolíu. Á svipaðan hátt getur „ofurlítill aulaskapur“ spillt góðu mannorði sem mikið er búið að hafa fyrir.

Barnaleg strákapör geta haft alls konar afleiðingar, allt frá lágum einkunnum upp í brottvísun úr skóla eða jafnvel handtöku! En hvað nú ef þú heldur að það komist ekki upp um þig? Spyrðu þá sjálfan þig: Er það skynsamlegt eða kærleiksríkt sem verið er að reyna að fá mig til að gera? Væri ég að brjóta staðla Biblíunnar, eða þær lífsreglur sem foreldrar mínir hafa innrætt mér, ef ég geri það? Ef svo er, langar mig þá virkilega til að láta unglinga, sem eru bara að reyna að skemmta sjálfum sér, stjórna lífi mínu? Eru þeir, sem biðja mig að stofna lífi mínu eða mannorði í hættu, sannir vinir þegar allt kemur til alls? — Orðskviðirnir 18:24.

Reyndu síðan að rökræða við unglinginn sem manar þig til einhvers. Teitur, sem er 18 ára, er vanur að eyðileggja ánægjuna fyrir þeim með því að spyrja: ‚Af hverju ætti ég að gera það? Hvað myndi það sanna ef ég gerði það?‘ Láttu einnig vita að þú hafir ákveðnar lífsreglur sem þú ætlir þér að fylgja. Ung stúlka reyndi að lokka pilt út í siðleysi með því að segja: „Þú veist ekki hvað þú ferð á mis við.“ „Jú, víst veit ég það,“ svaraði pilturinn. „Herpes, lekanda, sýfilis . . . “

Hafðu hugrekki til að segja nei við jafnaldra þína, þá geturðu forðast að gera nokkuð það sem þú myndir sjá eftir síðar!

[Mynd á blaðsíðu 76]

Unglingar hópa sig oft saman til að fá stuðning hver af öðrum.

[Mynd á blaðsíðu 77]

Hafa kunningjarnir nokkurn tíma reynt að þvinga þig til að gera það sem þú veist að er rangt?

[Mynd á blaðsíðu 78]

Hafðu styrk til að standast hópþrýsting!