Af hverju má ég ekki skemmta mér af og til?
37. kafli
Af hverju má ég ekki skemmta mér af og til?
Á FÖSTUDAGSKVÖLDUM var Eygló vön að fara á kristnar samkomur. Hún hafði ánægju af samkomunum en gramdist það stundum að hún skyldi sitja þar meðan skólafélagarnir voru úti að skemmta sér.
Þegar Eygló fór heim eftir samkomuna lá leið hennar fram hjá stað þar sem unglingar héldu sig oft. Hún segir: „Hávær tónlistin og ljósleiftrin toguðu mig til sín og ég þrýsti nefinu að glugganum og reyndi að gera mér í hugarlund hve konunglega krakkanir hlytu að skemmta sér.“ Smám saman varð löngunin til að skemmta sér með vinunum öllu öðru yfirsterkari.
Kannski finnst þér stundum, líkt og Eygló, að þú farir á mis við eitthvað af því að þú ert kristin(n). Þig langar til að sjá sjónvarpsþáttinn sem allir hinir eru að tala um en foreldrar þínir segja að sé of mikið ofbeldi í. Þig langar til að fara í Kringluna eða að hanga úti í sjoppu með bekkjarfélögunum en foreldrar þínir kalla þá ‚vondan félagsskap.‘ (1. Korintubréf 15:33) Þig langar til að fara í partíið sem allir bekkjarfélagarnir ætla í en pabbi og mamma segja nei.
Bekkjarfélagarnir virðast geta komið og farið eins og þeim sýnist, sótt hljómleika og verið í partíum fram undir morgun án afskipta foreldra sinna. Kannski öfundar þú hina krakkana af frelsi þeirra. Ekki svo að skilja að þig langi til að gera neitt rangt; þig langar bara til að skemmta þér svolítið af og til.
Viðhorf Guðs til skemmtunar
Það er alls ekkert rangt við það að vilja skemmta sér. 1. Tímóteusarbréf 1:11, New World Tranlation) Og fyrir munn spekingsins Salómons segir hann: „Ungmenni, njótið æskunnar. Verið glöð meðan þið enn eruð ung. Gerið það sem ykkur langar til og fylgið löngunum hjartans.“ En svo varar Salómon við: „Munið að Guð ætlar að dæma ykkur fyrir allt sem þið gerið.“ — Prédikarinn 11:9, 10, Today’s English Version.
Þegar öllu er á botninn hvolft er Jehóva ‚hamingjusamur Guð.‘ (Vitneskjan um að Guð geri þig ábyrgan gerða þinna gerbreytir viðhorfinu til skemmtunar. Þótt Guð fordæmi ekki skemmtun og glaðværð hefur hann vanþóknun á þeim sem ‚elska munaðarlífið,‘ sem lifa fyrir það eitt að skemmta sér. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 4) Af hverju? Tökum Salómon konung sem dæmi. Hann var gífurlega auðugur og veitti sér hvern þann unað og skemmtun sem hugsast gat. Hann segir: „Allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði.“ Og hver var niðurstaðan? „Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 2:10, 11) Já, Guð veit að til langs tíma litið verður lífið innantómt og tilgangslaust ef það snýst ekki um annað en skemmtun.
Guð krefst þess líka að þú haldir þér frá hverju því sem saurgar manninn, svo sem fíknefnaneyslu og kynlífi fyrir hjónaband. (2. Korintubréf 7:1) En margt, sem unglingar gera sér til skemmtunar, getur einmitt leitt þá út í slíkt. Ung stúlka ákvað til dæmis að fara í partí til nokkurra skólafélaga þar sem enginn fullorðinn var til að hafa umsjón. „Músíkin var frábær og stórgaman að dansa, veitingarnar meiri háttar og við skemmtum okkur æðislega.“ En „þá kom einhver með hass og svo var komið með áfengi. Eftir það fór allt út í vitleysu.“ Afleiðingin varð siðleysi. Stúlkan segir: „Ég hef verið mjög langt niðri eftir þetta og liðið hræðilega.“ Án umsjónar fullorðinna geta slík partí hæglega breyst í „svall.“ — Galatabréfið 5:21.
Það er ekkert undarlegt að foreldrar þínir skuli hugsa mikið um hvað þú gerir í frístundum og vilji ef til vill setja því skorður hvert þú mátt fara og með hverjum þú mátt vera. Þeim gengur ekkert annað til en að hjálpa þér að fylgja hvatningu Guðs: „Hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.“ — Prédikarinn 11:10.
Öfundarðu skemmtanafíklana?
Það er auðvelt að gleyma öllu þessu og fara að öfunda aðra unglinga af því frelsi sem þeir virðast njóta. Eygló hætti að sækja kristnar samkomur og lagði lag sitt við skemmtanafíkna unglinga. „Ég fór að stunda allt hið ranga sem ég hafði verið vöruð við,“ segir hún. Ævintýraþráin leiddi að lokum til þess að hún var handtekin og komið fyrir á hæli fyrir vandræðastúlkur!
Endur fyrir löngu fann ritari 73. sálmsins fyrir sams konar kenndum og Eygló. „Ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu,“ viðurkenndi hann. Hann fór jafnvel að efast um gildi þess að lifa eftir réttlátum meginreglum Guðs. „Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,“ sagði hann. En þá rann mikilvægur sannleikur upp fyrir honum: Hinir óguðlegu standa ‚á sleipri jörð,‘ á barmi glötunar! — Sálmur 73:3, 13, 18.
Eygló lét sér lærast þetta — í hörðum skóla reynslunnar. Eftir að hafa sleppt fram af sér beislinu í heiminum söðlaði hún um til að geta endurheimt hylli Guðs. En þú þarft ekki að komast í kast við lögin, fá samræðissjúkdóm
eða þola kvalafull fráhvarfseinkenni eftir fíkniefnanotkun til að gera þér ljóst að ‚skemmtun‘ getur verið dýru verði keypt. Hægt er að skemmta sér á marga heilnæma og uppbyggjandi vegu án þess að hætta á nokkuð slíkt. Hvers konar skemmtun er það?Heilnæm skemmtun
Könnun leiddi í ljós að unglingar „hafa gaman af að fara af og til með fjölskyldunni í stuttar skemmtiferðir eða taka þátt í annarri afþreyingu.“ Það er ekki bara skemmtilegt að gera eitthvað með fjölskyldunni; það eflir líka samheldni hennar.
Og hér er ekki átti við það að horfa á sjónvarpið saman. Dr. Anthony Pietropinto segir: „Gallinn er sá að þótt fólk geti horft saman á sjónvarpið er það í eðli sínu einstaklingsathöfn. . . . Tómstundaiðja, svo sem innanhússleikir, útiíþróttir, matargerð, upplestur og handavinna, býður upp á fleiri tækifæri til samræðna og skoðanaskipta, samvinnu og vitsmunaþroska en sú afþreying sem flestar nútímafjölskyldur velja sér — að sitja aðgerðarlausar fyrir framan skjáinn.“ Jón, sjö barna faðir, segir: ‚Jafnvel það að reyta illgresi í garðinum eða mála húsið getur verið gaman þegar fjölskyldan gerir það saman.‘
Ef fjölskylda þín hefur ekki fram til þessa vanið sig á að gera eitthvað slíkt saman, taktu þá frumkvæðið og stingdu upp á því við foreldra þína. Reyndu að koma með
góðar og skemmtilegar hugmyndir um að gera eða fara eitthvað saman.En þú þarft ekki alltaf að vera með öðrum til að geta skemmt þér. María, ung stúlka sem gætir vandlega að félagsskap sínum, hefur lært að njóta þess að vera ein. „Ég spila á píanó og fiðlu og eyði allnokkrum tíma í æfingar,“ segir hún. Önnur ung stúlka, Marta, segir: „Stundum skrifa ég sögur eða yrki ljóð mér til gamans.“ Þú getur líka lært að nota tímann á skapandi hátt með því að æfa þig í lestri, smíði, hljóðfæraleik eða einhverju öðru.
Þegar kristnir menn koma saman
Af og til er einnig gaman að koma saman með vinum og víðast hvar er hægt að finna sér ýmiss konar heilnæma skemmtun og afþreyingu. Hægt er að fara á skauta og skíði eða í sund, keiluspil, körfubolta, badminton eða fótbolta, svo dæmi séu nefnd. Sums staðar er hægt að fara í söfn eða dýragarða. Og það er ekkert að því heldur að kristin ungmenni komi saman og hlusti á tónlist eða horfi á góða kvikmynd.
Þú getur jafnvel beðið foreldrana um hjálp við að undirbúa smá samkvæmi. Gerðu það skemmtilegt með því að
skipuleggja til dæmis leiki og hópsöng. Ef einhverjir vina þinna leika á hljóðfæri eða syngja er kannski hægt að fá þá til að taka lagið. Ekki spillir góður matur eða veitingar, og það þarf ekki að kosta neinum ósköpum til. Stundum geta gestirnir komið með sitt lítið hver af mat.Er almenningsgarður eða opið svæði í grenndinni þar sem hægt er að fara í leiki? Hvernig væri að fara saman í sund? Eða þá í lautarferð og borða úti? Fjölskyldur geta tekið með sér eitthvað matarkyns til að enginn einn þurfi að bera allan kostnaðinn.
Hóf er lykillinn að velheppnuðu samkvæmi. Tónlist þarf ekki að vera ærandi til að hægt sé að njóta hennar og dans þarf ekki að vera grófur eða kynæsandi til að vera skemmtilegur. Eins er hægt að skemmta sér utanhúss við íþróttir án þess að komi til harðrar keppni. Faðir nokkur segir: „Stundum byrja unglingarnir að þrátta þannig að liggur við handalögmáli.“ Haldið slíkum leikjum á ánægjulegum nótum með því að fylgja ráði Biblíunnar og Galatabréfið 5:26, New World Translation.
forðast „samkeppni.“ —Hverjum áttu að bjóða? Biblían segir: „Elskið bræðrafélagið.“ (1. Pétursbréf 2:17) Er nokkur ástæða til að bjóða bara jafnöldrum þínum? Reyndu að hafa umgengni og félagsskap við fleiri en þá. (Samanber 2. Korintubréf 6:13.) Foreldri segir: „Þótt hinir öldruðu séu oft ekki færir um að taka þátt í leikjum hafa þeir gaman af að vera með og horfa á það sem fram fer.“ Návist fullorðinna dregur úr hættunni á að veislugleðin fari úr böndum. Auðvitað er ekki hægt að bjóða öllu ‚bræðrafélaginu‘ í einu í sama samkvæmið, og auk þess er auðveldara að hafa stjórn á hlutunum þegar gestir eru ekki of margir.
Þegar kristnir menn koma saman er einnig tækifæri til að byggja hver annan upp andlega. Sumum unglingum finnst lítið gaman að fara í veislu ef allt þarf að vera á andlegum nótum. Kristinn drengur kvartar: „Þegar við komum saman, þá gerum við aldrei annað en að setjast niður, taka fram Biblíuna og leika biblíuleiki.“ En sálmaritarinn sagði: „Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli [Jehóva].“ (Sálmur 1:1, 2) Umræður — eða jafnvel leikir — sem byggjast á Biblíunni geta verið mjög ánægjulegir. Kannski þarftu bara að kynnast Biblíunni svolítið betur til að getið tekið meiri þátt í leikjunum.
Stundum er hægt að biðja nokkra gesti að segja frá því hvernig þeir kynntust sannri kristni. Og svo má vekja kátínu og hlátur með því að láta segja gamansögur. Þær geta bæði verið lærdómsríkar og skemmtilegar. Það mætti jafnvel nota suma af köflunum í þessari bók sem grundvöll að ánægjulegum hópsamræðum.
Gættu hófs í skemmtun og afþreyingu
Jesús Kristur hafði greinilega ekkert á móti því að gera sér glaðan dag af og til. Biblían segir frá því að hann hafi verið viðstaddur brúðkaupsveislu í Kana þar sem vafalaust var boðið upp á mat, tónlist, dans og uppbyggilegan félagsskap. Jesús stuðlaði jafnvel að ánægjulegum veisluhöldum með því að vinna það kraftaverk að búa til vín! — Jóhannes 2:3-11.
En Jesús sat ekki við veisluhöld dag eftir dag. Hann notaði tímann að langmestu leyti til að sinna andlegum málum — að kenna fólki vilja Guðs. Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Að gera vilja Guðs veitti Jesú miklu varanlegri gleði en stundleg skemmtun hefði getað gert. Nú á dögum er enn „kappnóg að gera í starfi Drottins.“ (1. Korintubréf 15:58, New World Translation; Matteus 24:14) En þegar þér finnst þú þurfa að gera þér glaðan dag, þá skaltu gera það á heilnæman hátt og gæta hófs. Eins og blaðamaður sagði: „Lífið getur ekki verið stanslaus skemmtun og spenningur daginn út og daginn inn — og þú yrðir sennilega örmagna ef svo væri!“
Spurningar til umræðu
◻ Hvers vegna öfunda kristnir unglingar stundum unglingana í heiminum? Hefur þú einhvern tíma gert það?
◻ Hvernig varar Guð unglinga við afleiðingum gerða þeirra og hvaða áhrif ætti það að hafa á afþreyingu og skemmtun?
◻ Af hverju er heimskulegt að öfunda unglinga sem brjóta lög Guðs og meginreglur?
◻ Hvernig er hægt að njóta heilnæmrar afþreyingar (1) með fjölskyldunni, (2) með sjálfum sér og (3) með kristnum bræðrum og systrum?
◻ Hvernig er Jesús Kristur gott fordæmi í því að gæta jafnvægis í afþreyingu og skemmtun?
[Rammi á blaðsíðu 297]
„Hávær tónlistin og ljósleiftrin toguðu mig til sín og ég þrýsti nefinu að glugganum og reyndi að gera mér í hugarlund hve konunglega krakkanir hlytu að skemmta sér.“
[Rammi á blaðsíðu 302]
„Þá kom einhver með hass og svo var komið með áfengi. Eftir það fór allt út í vitleysu.“
[Mynd á blaðsíðu 299]
Fara unglingar, sem fylgja meginreglum Biblíunnar, virkilega á mis við að skemmta sér?
[Myndir á blaðsíðu 300]
Hægt er hafa eitthvert tómstundagaman í frístundum.
[Myndir á blaðsíðu 301]
Það er mjög ánægjulegt fyrir kristna menn að hittast þegar boðið er ýmsum aldurshópum og eitthvað er skipulagt til skemmtunar.