Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég haldið sjónvarpsglápinu í skefjum?

Hvernig get ég haldið sjónvarpsglápinu í skefjum?

36. kafli

Hvernig get ég haldið sjónvarpsglápinu í skefjum?

SJÓNVARPIÐ hefur svo sterkt aðdráttarafl fyrir marga að jaðrar við alvarlegan fíkniávana. Allir aldurshópar eru undir sömu sökina seldir. Kannanir benda til að 18 ára bandarískur unglingur hafi að meðaltali setið við sjónvarpið í um það bil 15.000 klukkustundir! Auðséð er að fíkniávaninn er staðreynd þegar forfallnir sjónvarpsfíklar reyna að hætta að horfa á sjónvarpið.

„Mér finnst sjónvarpið næstum ómótstæðilegt. Ég get ekki annað en horft þegar kveikt er á því. Ég get ekki slökkt á því.... Ég missi allan mátt þegar ég teygi mig til að ýta á hnappin. Það endar með því að ég sit klukkutímum saman fyrir framan sjónvarpið.“ Er það óþroskaður unglingur sem talar? Nei, heldur enskukennari við háskóla! En unglingar geta líka verið sjónvarpsfíklar. Lestu lýsingar nokkurra sem féllust á að hofra ekki á sjónvarp í viku:

„Ég hef verið langt niðri... Ég er að missa vitið.“ — Susanna, 12 ára

„Ég held ekki að ég geti hætt að horfa á sjónvarpið. Ég er allt of spennt fyrir því.“ — Linda, 13 ára.

„Álagið var ægilegt. Löngunin var að gera út af við mig. Það var erfiðast milli klukkan átta og tíu á kvöldin.“ — Logi, 11 ára.

Það kemur því engum á óvart að flestir unglinganna, sem þátt tóku í tilrauninni, skyldu halda upp á lok sjónvarpslausu vikunnar með því að hlaupa sem óðir væru að sjónvarpstækinu. En sjónvarpsfíkn er ekkert aðhlátursefni því að hún hefur ótal vandamál í för með sér. Hér eru nokkur:

Lakari einkunnir: Bandaríska Geðverndarstofnunin bendir á að hóflaust sjónvarpsgláp geti leitt til „lakari árangurs í skóla, einkum í lestri.“ Bókin The Literacy Hoax fullyrðir: „Sjónvarpið kemur þeirri hugmynd inn hjá börnum að nám eigi að vera auðvelt, skemmtilegt og áreynslulaust.“ Það getur því verið hin mesta þrekraun fyrir sjónvarpsfíkilinn að gera heimaverkefnin sín.

Lítill bókalestur: Hve langt er síðan þú last heila bók spjaldanna á milli? Talsmaður Samtaka vestur-þýskra bóksala segir mæðulega: „Við erum orðin að þjóð sem sofnar fyrir framan sjónvarpstækið eftir vinnu. Við lesum sífellt minna og minna.“ Í frétt frá Ástralíu kveður við sama tón: „Fyrir hverja klukkustund, sem áströlsk börn nota að meðaltali til lestrar, sitja þau sjö klukkustundir fyrir framan sjónvarpstækið.“

Veikari fjölskyldutengsl: Kristin kona skrifar: „Ég horfði allt of mikið á sjónvarpið... og var þar af leiðandi mjög einmanna og fannst ég einangruð. Það var eins og ég þekkti ekki fjölskylduna.“ Sinnir þú líka fjölskyldunni æ minna vegna sjónvarpsins?

Leti: Sumir telja að aðgerðarleysið, sem fylgir því að horfa á sjónvarpið, „geti leitt til þess að [unglingar] reikni með að þörfum þeirra verði fullnægt án þess að þeir þurfi að reyna nokkuð á sig, og geti innrætt þeim dáðleysi gagnvart lífinu.“

Óheilnæm áhrif: Sumar sjónvarpsstöðvar veita mönnum aðgang að klámmyndum heima í stofu hjá sér. Margi eiga myndbandstæki og geta leigt sér nánast hvaðeina til að horfa á. Og sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á kynstrin öll af umferðarslysum, sprengingum, líkamsárásum, skotbardögum og karatespörkum. Talið er að við 14 ára aldur sé unglingur vestanhafs búinn að horfa á 18.000 morð í sjónvarpinu, auk allra slagsmálanna og skemmdarverkanna sem sýnd eru.

Breskur rannsóknarmaður, William Belson, komst að þeirri niðurstöðu að piltar, sem horfðu mikið á ofbeldismyndir í sjónvarpi, höfðu ríkari tilhneigingu „til alvarlegra ofbeldisverka“ en almennt gerist. Hann heldur því fram að ofbeldi í sjónvarpinu geti hvatt til „blótsyrða og klúrs tals, árásarhneigðar í leik eða íþróttum, ofbeldishótana gagnvart öðrum drengjum, veggjakrots [og] rúðubrota.“ Rannsóknir Belsons gáfu reyndar til kynna að ofbeldi í sjónvarpi breytti ekki meðvitaðri afstöðu drengja til ofbeldis, og kannski telurðu þig ónæman fyrir slíkum áhrifum. Hið stöðuga ofeldi virtist hins vegar brjóta niður ómeðvitaðar hömlur hugans við ofbeldi.

Það er þó enn alvarlegra umhugsunarefni hvaða áhrif ofbeldismyndafíkn getur haft á samband okkar við Guð sem ‚hatar þann er elskar ofríki.‘ — Sálmur 11:5

Hvernig get ég haldið því í skefjum?

Ekki svo að skilja að sjónvarpið hljóti að vera alslæmt. Rithöfundurinn Vance Packard segir: „Stór hluti sjónvarpsefnis... getur verið fróðlegur... Oft eru sýnd hrein meistaraverk á sviði náttúrulífsmynda — allt frá þáttum um leðurblökur og bjóra til vísunda og kúlufiska. Sjónvarpið sýnir oft afbragðs ballett-, óperu- og kammertónlistarþætti, og það hentar mjög vel til að lýsa mikilvægum atburðum... Af og til eru sýnd athyglisverð leikverk.“

En og mikið — jafnvel af því góða — getur verið skaðlegt. (Samanber Orðskviðina 25:27.) Og ef þig skortir sjálfsaga til að slökkva á sjónvarpinu þegar sýnt er skaðlegt efni, þá skaltu muna orð Páls postula: „Ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.“ (1.  Korintubréf 6:12) Hvernig geturðu þá brotist undan þrælkun sjónvarpsins og haldið sjónvarpsglápinu í skefjum?

Rithöfundurinn Linda Nielsen segir „Sjálfsstjórn hefst á því að læra að setja sér markmið.“ Byrjaðu á því að skoða sjónvarpsvenjur þínar eins og þær eru núna. Fylgstu daglega með því um vikutíma hvað þú horfir á í sjónvarpinu og hve lengi. Kveikirðu á tækinu um leið og þú kemur inn úr dyrunum? Hvenær slekkurðu? Hve margar myndir eða framhaldþætti „verðurðu“ að sjá í hverri viku? Þér gæti brugðið þegar þú tekur það saman.

Líttu síðan gagnrýnum augum á það efni sem þú hefur horft á. „Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn?“ spyr Biblían. (Jobsbók 12:11) Notaðu því dómgreindina (og heilræði foreldranna) til að komast að niðurstöðu um hvaða efni sé þess virði að horfa á og kveikja á sjónvarpinu aðeins þegar það er á dagskrá! Aðrir eru enn róttækari og einsetja sér að horfa ekki á sjónvarp þá daga sem þeir eru í skóla eða takmarka setuna fyrir framan sjónvarpið við klukkustund á dag.

En hvað nú ef freistingin að kveikja á sjónvarpstækinu er hreinlega svo sterk að þú ræður ekki við hana? Fjölskylda nokkur fór þannig að: „Við höfum sett sjónvarpstækið niður í kjallara til að hafa það ekki fyrir augunum... þá er miklu minni freisting að kveikja á því um leið og maður kemur heim. Maður verður að gera sér ferð niður í kjallara til að horfa á það.“ Það getur verið jafn áhrifaríkt að koma sjónvarpstækinu fyrir inni í skáp eða hreinlega kippa því úr sambandi.

Þrátt fyrir öll ‚fráhvarfseinkennin‘ fundu unglingarnir, sem tóku þátt í sjónvarpslausu vikunni, upp á ýmsu uppbyggilegu til að gera í stað þess að horfa á sjónvarpið. Stúlka nokkur segir: „Ég spjallaði við mömmu. Nú finnst mér hún miklu áhugaverðari manneskja af því að athygli mín skiptist ekki milli hennar og sjónvarpsins.“ Önnur stúlka fékk tímann til að líða með því að reyna fyrir sér við eldamennsku. Ungur piltur, Jakob, uppgötvaði meira að segja að það gat verið gaman „að fara út í almenningsgarð í stað þess að horfa á sjónvarpið,“ renna fyrir fisk, lesa eða fara í sund.

Viðtaliðð við Vigfús (Sjá rammagreinina „Ég var sjónvarpsfíkill“) vekur athygli á annarri leið til að halda sjónvarpsglápi innan hóflegra marka, en hún er sú að „hafa kappnóg að gera í starfi Drottins.“ (1. Korintubréf 15:58, New World Translation) Með því að efla tengslin við Guð, nema Biblíuna með hjálp þeirra mörgu góðu rita sem til eru, og vera önnum kafinn í starfi Guðs, færðu lika hjálp til að vinna bug á sjónvarpsfíkninni (Jakobsbréfið 4:8) Þú missir kannski af einhverjum uppáhaldsþáttum ef þú takmarkar tímann sem þú situr við sjónvarpið. En er einhver ástæða til að gernýta sjónvarpið og hanga við skjáinn öllum stundum eins og viljalaus þræll? (Sjá 1. Korinubréf 7:29, 31) Það er betra að vera harður við sjálfan sig eins og Páll postuli sem sagði einu sinni: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Er það ekki betra en að vera sjónvarpsþræll?

Spurningar til umræðu

◻Af hverju má réttilega kalla suma unglinga sjónvarpsfíkla?

◻Hvaða skaðleg áhrif getur það haft að horfa mjög mikið á sjónvarp?

◻Nefndu nokkrar leiðir til að takmarka sjónvarpsgláp?

◻Hvað geturðu gert í stað þess að horfa á sjónvarpið?

[Rammi á blaðsíðu 295]

„Ég hef verið langt niðri... Ég er að missa vitið.“ — Súsanna, 12 ára, þátttakandi í sjónvarpslausri viku.

[Rammi á blaðsíðu 292, 293]

„Ég var sjónvarpsfíkill“ — viðtal

Spyrill: Hve gamall varstu þegar þú ánetjaðist sjónvarpinu?

Vigfús: Um tíu ára. Ég kveikti á sjónvarpinu um leið og ég kom heim úr skólanum. Fyrst horfði ég á teiknimyndir og barnaefni. Síðan komu fréttir . . . og þá fór ég fram í eldhús til að leita mér að einhverju í svanginn. Svo settist ég aftur fyrir framan sjónvarpið og horfði uns mig langaði í háttinn.

Spyrill: En hvenær hafðirðu tíma til að vera með vinum þínum?

Vigfús: Sjónvarpið var vinur minn.

Spyrill: Hafðirðu þá aldrei tíma til að leika þér eða stunda íþróttir?

Vigfús: [hlær] Ég get alls ekkert í íþróttum. Ég hékk alltaf fyrir framan sjónvarpið þannig að ég þjálfaðist aldrei í neinu. Ég var ömurlegur í körfubolta og var alltaf valinn síðastur í lið í leikfiminni. Ég vildi óska að ég hefði lagt svolítið meiri stund á íþróttir — ekki til að geta montað mig af því heldur bara ánægjunnar vegna.

Spyrill: Hvernig voru einkunnir þínar?

Vigfús: Ég spjaraði mig sæmilega í grunnskóla. Ég fór seint að sofa á kvöldin og lærði heima á síðustu stundu. Mér gekk verr í framhaldsskóla því að ég hafði tamið mér svo slæmar námsvenjur.

Spyrill: Hefur það haft áhrif á þig að þú skyldir horfa svona mikið á sjónvarp?

Vigfús: Já, stundum þegar ég er innan um annað fólk stend ég mig að því að sitja bara og horfa á það — rétt eins og ég væri að horfa á samtalsþátt í sjónvarpi — í stað þess að taka þátt í samræðunum. Ég vildi óska að ég kynni betur að umgangast fólk.

Spyrill: Þú hefur staðið þig ágætlega í þessu samtali. Það er ekki annað að sjá en að þú hafir unnið bug á sjónvarpsfíkninni.

Vigfús: Ég fór að horfa minna á sjónvarp eftir að ég byrjaði í framhaldsskóla. . . . Ég leitaði félagsskapar meðal votta-unglinga og fór að taka andlegum framförum.

Spyrill: Hvað kemur það sjónvarpsfíkninni við?

Vigfús: Þegar ég fór að hafa gaman af andlegum málum varð mér ljóst að margt af því sem ég var vanur að horfa á var eiginlega ekki við hæfi kristinna manna. Ég fann líka að ég þyrfti að nema Biblíuna meira og búa mig undir kristnar samkomur. Það hafði í för með sér að ég þurfti að mestu leyti að hætta að horfa á sjónvarp. En það var ekkert auðvelt. Ég var mjög hrifinn af teiknimyndunum á laugardagsmorgnum, en þá bauð kristinn bróðir í söfnuðinum mér að prédika með sér hús úr húsi á laugardagsmorgnum. Þá hætti ég að horfa á sjónvarpið á laugardagsmorgnum. Þannig tókst mér smám saman að draga stórlega úr sjónvarpsglápinu.

Spyrill: Hvernig er ástandið núna?

Vigfús: Það er enn vandamál hjá mér að ég kem engu í verk ef kveikt er á sjónvarpinu. Þess vegna hef ég yfirleitt slökkt á því. Reyndar bilaði tækið mitt fyrir nokkrum mánuðum og ég hef ekki nennt að láta gera við það.

[Mynd á blaðsíðu 291]

Margir eru hreinir sjónvarpsfíklar.

[Myndir á blaðsíðu 294]

Það er síður freistandi að kveikja á sjónvarpstækinu ef því er komið fyrir á óhentugum stað.