Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skiptir máli hvað ég les?

Skiptir máli hvað ég les?

35. kafli

Skiptir máli hvað ég les?

Salómon konungur varaði við: „Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ (Prédikarinn 12:12) Salómon var ekki að letja menn lestrar heldur hvetja til vandfýsi.

Franski 17. aldar heimspekingurinn René Descartes sagði: „Lestur góðrar bókar er eins og samræður við andans menn úr fortíðinni. Við getum jafnvel kallað það úrvalssamræður þar sem höfundurinn tjáir aðeins göfugustu hugsanir sínar.“ En það eru ekki allir rithöfundar þess verðir að eiga við þá „samræður“ og ekki allar hugsanir þeirra ýkja ‚göfugar.‘

Hér kemur því aftur til skjalanna títtnefnd biblíuregla: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Þeir sem við umgöngumst geta mótað persónuleika okkar. Hefurðu nokkurn tíma verið svo mikið með vini eða vinkonu að þú byrjaðir að hegða þér, tala og jafnvel hugsa eins og hann eða hún? Lestur bókar er eins og margra klukkustunda samræður við höfundinn.

Hér á því við meginregla sem Jesús gaf í Matteusi 24:15: „Lesandinn sýni dómgreind.“ (New World Translation) Lærðu að vega og meta það sem þú lest. Hver maður sér hlutina frá sínum bæjardyrum og rithöfundar segja því ekki alltaf hlutlaust frá staðreyndum. Trúðu ekki gagnrýnislaust öllu sem þú lest eða heyrir: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ — Orðskviðirnir 14:⁠15.

Vertu sérstaklega varkár gagnvart efni sem túlkar ákveðin viðhorf. Unglingatímarit eru til dæmis uppfull af heilræðum um allt frá stefnumótum til kynlífs — en ekki alltaf ráðum sem kristnir menn geta farið eftir. Og hvað um bækur með djúpum heimspekihugleiðingum?

Biblían varar við: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, . . . en [er] ekki frá Kristi.“ (Kólossubréfið 2:⁠8) Biblían og biblíutengd rit eins og þetta gefa miklu betri ráð. — 2. Tímóteusarbréf 3:⁠16.

Eru ástarsögur skaðlaust lesefni?

Talið er að ástarsögufíklar vestanhafs séu um 20 milljónir talsins. Vissulega var það Guð sem gaf manninum og konunni löngun til að elska og ganga í hjónaband. (1. Mósebók 1:​27, 28; 2:​23, 24) Það er því ekkert undarlegt að ástin skuli gegna stóru hlutverki í langflestum skáldsögum, og það þarf ekki að vera neitt rangt við það. Sumar skáldsögur, sem hafa ástina að viðfangsefni, teljast jafnvel til góðra og sígildra bókmennta. En samkvæmt núverandi gildismati þykja þessar skáldsögur fremur daufar þannig að rithöfundar ryðja nú frá sér ástarsögum sem samdar eru eftir nýrri formúlu. Sumir láta sögur sínar enn gerast fyrr á öldum til að gefa þeim ákveðinn blæ og spennu. Aðrar eru látnar gerast nú á dögum. En með fáum undantekningum eru þessar ástarsögur tilbrigði um sama stef: Fjallháar hindranir virðast í veginum fyrir því að söguhetjurnar fái notist, en allt fer vel að lokum.

Hinar dæmigerðu söguhetjur eru sterkbyggður karlmaður, oft hrokafullur og geislandi af sjálfstrausti, og yndisfögur, viðkvæm kona, gjarnan 10 til 15 árum yngri en hann. Og henni finnst hann ómótstæðilegur þótt hann sýni henni oft fyrirlitningu.

Yfirleitt á hann sér meðbiðil. Sá er alúðlegur og tillitssamur en nær ekki að höfða til hennar eða vekja áhuga hennar. Hún beitir því töfrum sínum og fegurð til að breyta hinni kaldlyndu hetju í viðkvæma sál sem að lokum játar henni eilífa ást sína. Öllum efasemdum er rutt úr vegi og ávirðingarnar fyrirgefnar. Hetjurnar ganga í hjónaband og búa hamingjusamar til æviloka . . .

Er ástin eins og ástarsögurnar?

Getur lestur slíkra ástarsagna brenglað raunveruleikaskyn fólks? Brynja byrjaði að lesa ástarsögur 16 ára gömul. Hún segir: „Ég leitaði að ungum, hávöxnum, dökkhærðum, myndarlegum, hrífandi og ráðríkum manni.“ Hún viðurkennir: „Færi ég út með ungum manni og hann vildi ekki kyssa mig og fara höndum um mig fannst mér hann leiðinlegur, jafnvel þótt hann væri tillitssamur og alúðlegur. Ég sóttist eftir spenningnum sem ég las um í sögunum.“

Brynja hélt áfram að lesa ástarsögur eftir að hún giftist. Hún segir svo frá: „Ég átti yndislegt heimili og fjölskyldu en einhvern veginn var það ekki nóg . . . ég þráði ævintýri og spenning ástarsagnanna. Mér fannst vera eitthvað að í hjónabandinu.“ Biblían hjálpaði Brynju síðar að skilja að eiginmaður verður að geta gefið konu sinni annað og meira en töfra eða „spenning.“ Biblían segir: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ — Efesusbréfið 5:​28, 29.

Og hvað um hin draumkenndu sögulok ástarsagnanna þegar allt fellur í ljúfa löð? Þau eru býsna fjarri veruleikanum. Brynja segir: „Þegar ég var ósammála manninum mínum ræddi ég ekki málin við hann heldur beitti sömu brögðum og kvenhetjan í ástarsögunum. Svo fór ég í fýlu þegar maðurinn minn brást ekki við eins og hetjan í sögunum.“ Eru ekki ráð Biblíunnar til eiginkvenna langtum skynsamlegri og raunhæfari? „Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar.“ — Kólossubréfið 3:⁠18.

Kynlífslýsingar

Ástarsögur með opinskáum kynlífslýsingum eru einhverjar þær vinsælustu meðal unglinga og eru fáanlegar í flestum bókasöfnum. Er einhver skaði að því að lesa þær? Karen, 18 ára, segir: „Bækurnar mögnuðu upp kynhvöt mína og gerðu mig forvitna. Algleymi og sælukennd kvenhetjunnar á ástafundunum með hetjunni sinni vöktu með mér löngun til að kynnast sömu kenndum. Þegar ég fór út með strák reyndi ég að gera það. Það varð til þess að ég hafði kynmök.“ En fann hún sömu sælu og hún hafði lesið og látið sig dreyma um? „Þessar tilfinningar eru hugarfóstur rithöfundanna,“ segir hún. „Þær eru ekki raunverulegar.“

Það er reyndar markmið sumra rithöfunda að vekja upp alls konar kynóra í hugum lesenda. Bókaútgefandi einn leggur ástarsagnahöfundum línurnar svona: „Ástafundir eiga að leggja höfuðáherslu á þær ástríður og kynæsing sem kossar og atlot söguhetjunnar vekja.“ Höfundum er einnig ráðlagt að láta ástarsögur sínar „vekja spenning, æsing og sterk tilfinninga- og kynferðisviðbrögð lesandans.“ Augljóst er að lesefni, sem fylgir þessari forskrift, hjálpar fólki ekki að fylgja þeirri áminningu Biblíunnar að ‚deyða hið jarðneska í fari sínu: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn.‘ — Kólossubréfið 3:⁠5.

Vertu vandfýsinn

Það er því best að forðast ástarsögur sem vekja upp siðlausar kenndir eða óraunhæfar væntingar. Hvernig væri að víkka sjóndeildarhringinn og reyna að lesa annars konar bækur, svo sem mannkynssögu eða vísindi? Ekki svo að skilja að skáldsögur eigi að vera á bannlista því að þær geta, sumar hverjar, verið bæði skemmtilegar og fræðandi. En ef skáldsaga fjallar um kynlíf, dulspeki eða tilgangslaust ofbeldi, eða „hetjurnar“ eru siðlausar, grimmar eða ágjarnar, er þá nokkur ástæða til að sóa tímanum í lestur þeirra?

Vertu því vandlátur. Skoðaðu bókarkápuna áður en þú lest bókina og athugaðu hvort þú finnur einhverjar vísbendingar um að hún sé varasamt lesefni. Ef hún reynist óheilnæm þegar til kemur, þrátt fyrir eðlilega varkárni, hafðu þá styrk til að loka henni og leggja hana frá þér.

Lestur Biblíunnar og biblíutengdra rita er aftur á móti aldrei skaðlegur heldur alltaf gagnlegur. Japönsk stúlka segir til dæmis að lestur Biblíunnar hafi hjálpað sér að halda huganum frá kynferðismálum — sem unglingar eiga oft erfitt með. „Ég hef Biblíuna alltaf við rúmstokkinn og er vön að lesa í henni undir svefninn,“ segir hún. „Það er aðeins þegar ég er ein og hef ekkert að gera (svo sem um háttatímann) að hugurinn beinist stundum að kynferðismálum. Það hjálpar mér því mikið að lesa Biblíuna!“ Já, „samræður“ við menn og konur trúarinnar, sem Biblían segir frá, getur byggt upp með þér siðferðisþrek og aukið hamingju þína til muna. — Rómverjabréfið 15:⁠4.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að velja sér lesefni af vandfýsi?

◻ Af hverju höfða ástarsögur mjög sterkt til margra unglinga? Hvaða hættur geta verið samfara lestri þeirra?

◻ Hvernig geturðu valið þér viðeigandi lesefni?

◻ Nefndu dæmi um það gagn sem má hafa af lestri Biblíunnar og biblíutengdra rita?

[Rammi á blaðsíðu 287]

„Ég átti yndislegt heimili og fjölskyldu en einhvern veginn var það ekki nóg . . . ég þráði ævintýri og spenning ástarsagnanna. Mér fannst vera eitthvað að í hjónabandinu.“

[Mynd á blaðsíðu 283]

Hægt er að velja milli bóka í þúsundatali. Þess vegna er nauðsynlegt að vera vandfýsinn.

[Myndir á blaðsíðu 285]

Ástarsögur geta gripið athyglina og haldið henni, en kenna þær heilnæm viðhorf til ástar og hjónabands?