Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað ber framtíð mín í skauti sér?

Hvað ber framtíð mín í skauti sér?

38. kafli

Hvað ber framtíð mín í skauti sér?

„ÉG er hræddur við framtíðina, framtíð í skugga kjarnorkuógna.“ Svo mælti þýskur unglingur í ávarpi til æðsta stjórnmálaleiðtoga þjóðar sinnar.

Óttinn við að farast í kjarnorkustyrjöld hefur varpað skugga á framtíðarsýn margra á liðnum árum. „Hví skyldi ég reyna að fá góðar einkunnir?“ spurði unglingur. „Heimurinn á hvort eð er eftir að springa í loft upp.“ Í skoðanakönnun meðal skólabarna seint á síðasta áratug kom í ljós að ungir piltar óttuðust kjarnorkustyrjöld meira en nokkuð annað. Hjá stúlkum var kjarnorkustyrjöld í öðru sæti en óttinn við að missa foreldra sína í því fyrsta.

En sveppaský kjarnorkusprengjunnar er ekki eina óveðursskýið við sjóndeildarhring. „Mannkynið virðist vera í mikilli hættu,“ sagði hinn kunni sálfræðingur B. F. Skinner, og nefndi til sögunnar „offjölgun, auðlindaþurrð, umhverfismengun“ og aðrar yfirvofandi hörmungar. Síðar viðurkenndi hann: „Ég er mjög svartsýnn. Okkur ætlar ekki að takast að leysa vandamál okkar.“

Fyrst lærðir menn eru uggandi um framtíðina er engin furða að margir unglingar skuli hugsa sem svo: „Etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ (1. Korintubréf 15:32) Útlitið er sannarlega ekki bjart ef framtíð okkar er komin undir hæfni stjórnmálamanna og vísindamanna, því að Jeremía 10:23 segir: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“

Það er ekki bara að maðurinn sé ófær um að stjórna málum sínum; það er ekki einu sinni „á hans valdi“ — hann hefur engan rétt til að ráðskast með framtíð jarðar. Þess vegna eru tilraunir hans dæmdar til að mistakast. Þar af leiðandi bað Jeremía Guð að skerast í leikinn: „Leiðréttu mig, ó Jehóva, með dómi.“ (Jeremía 10:​24, New World Translation) Það er því skaparinn sem ákveður framtíð okkar. En hvernig framtíð verður það?

Tilgangur Guðs með jörðina — og framtíð þín

Skömmu eftir sköpun mannsins sagði Guð fyrstu mannhjónunum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Maðurinn átti í vændum að búa í paradís sem átti að ná um alla jörðina.

En þessi fyrstu hjón gerðu uppreisn gegn stjórn Guðs. Eins og Salómon orðaði það síðar: „Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.“ (Prédikarinn 7:29) Brögð og áform mannanna hafa endað með ósköpum og gefið núverandi kynslóð eymd og dapurlegar framtíðarhorfur í arf.

Hefur Guð þá afskrifað jörðina? Á hún ekkert annað fyrir sér en að verða menguð, geislavirk og ef til vill lífvana? Það er óhugsandi! Það er Guð sem „hefir myndað [jörðina] og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ Yfirlýstur tilgangur hans með jörðina verður því örugglega að veruleika! — Jesaja 45:18; 55:​10, 11.

En hvenær — og hvernig? Lestu sjálfur 21. kaflann hjá Lúkasi. Þar spáði Jesús einmitt þeim vandamálum sem hafa hrjáð mannkynið á þessari öld: heimsstyrjöldum, jarðskjálftum, sjúkdómum, matvælaskorti og mögnuðum glæpum. Hvað tákna þessir atburðir? Jesús svarar: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd. . . . Þegar þér sjáið þetta verða, [þá vitið] að Guðs ríki er í nánd.“ — Lúkas 21:​10, 11, 28, 31.

Guðsríki er lykillinn að framtíð þinni. Guðsríki er stjórn Guðs yfir jörðinni og mun taka völdin af stjórnum manna — með valdi. (Daníel 2:44) Þeir sem „jörðina eyða“ uppskera sjálfir eyðingu af hendi Guðs sem bjargar þar með jörðinni — og mannkyninu — undan linnulausum ágangi manna. — Opinberunarbókin 11:18; Prédikarinn 1:⁠4.

Undir öruggri stjórn Guðsríkis verður allri jörðinni smám saman breytt í paradís. (Lúkas 23:​43, New World Translation) Þannig kemst aftur á fullkomið jafnvægi í vistkerfinu. Þá verður meira að segja friður milli manna og dýra. (Jesaja 11:​6-9) Styrjaldir og stríðsvopn munu heyra sögunni til. (Sálmur 46:​9, 10) Glæpir, hungur, húsnæðisskortur, veikindi — og meira að segja dauðinn — verða upprætt. Jarðarbúar munu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:⁠10, 11; 72:16; Jesaja 65:​21, 22; Opinberunarbókin 21:​3, 4.

Sannprófaðu fyrirheit Guðs

Eilíft líf í paradís — það er sú framtíð sem þú getur átt í vændum! En þótt hugmyndin höfði til þín, finnst þér kannski erfitt að treysta Biblíunni eða sleppa þeirri trú að allir góðir menn fari til himna. Jafnvel unglingum meðal votta Jehóva finnst trú sín stundum standa á brauðfótum. Edda var til dæmis alin upp sem vottur. Það var næstum jafnsjálfsagt fyrir hana að viðurkenna sannleiksgildi Biblíunnar og að dagur fylgdi nóttu. En dag einn rann upp fyrir henni að hún vissi ekki hvers vegna hún trúði Biblíunni. „Ég held að ég hafi bara trúað henni vegna þess að foreldrar mínir gerðu það,“ segir hún.

„Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði],“ segir Biblían. (Hebreabréfið 11:⁠6) En þú trúir ekki bara af því að foreldrar þínir gera það. Ef þú vilt eiga þér örugga framtíð verðurðu að byggja trúna á traustum sönnunum, ‚fullvissu um það sem þú vonar.‘ (Hebreabréfið 11:⁠1) Eins og Biblían orðar það þarftu að ‚prófa allt‘ sem hún segir, fullvissa þig um að það standist. — 1. Þessaloníkubréf 5:⁠21.

Sannaðu fyrir sjálfum þér að Biblían sé sönn

Kannski þarftu að byrja á því fullvissa þig um að Biblían sé virkilega „innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvernig geturðu gert það? Aðeins alvaldur Guð getur ‚kunngjört endalokin frá öndverðu‘ með óbrigðulli nákvæmni. (Jesaja 43:9; 46:10) Það gerir hann aftur og aftur í Biblíunni. Lestu spádómana í Lúkasi 19:​41-44 og 21:​20, 21 um fall Jerúsalem, eða spádómana í Jesaja 44:​27, 28 og 45:​1-4 um fall Babýlonar. Mannkynssagan sýnir hve spádómar Biblíunnar um þessa atburði hafa reynst óskeikulir. „Eftir að hafa rannsakað suma af spádómunum,“ sagði Elva, 14 ára, „varð ég yfir mig undrandi að sjá hvernig hún gat sagt allt nákvæmlega fyrir.“

Biblían er einnig trúverðug sakir sögulegrar nákvæmni sinnar, heiðarleika, hreinskilni og þess að hún er laus við mótsagnir. * En hvernig geturðu fullvissað þig um að vottar Jehóva skilji Biblíuna rétt? Berojubúar til forna trúðu ekki í blindni á skýringar Páls postula á Biblíunni heldur „rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“ — Postulasagan 17:⁠11.

Við hvetjum þig líka til að rannsaka kenningar Biblíunnar gaumgæfilega. Þær eru settar fram með aðgengilegum hætti í bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs (gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.) Ef foreldrar þínir eru vottar Jehóva geta þeir vafalaust hjálpað þér að finna svör við spurningum þínum. „Vertu heiðarlegur við foreldra þína ef einhverjar efasemdir sækja á þig,“ segir ung kona sem heitir Unnur. „Spyrðu þau ef þér finnst erfitt að trúa einhverju.“ (Orðskviðirnir 15:22) Þegar fram líða stundir gerirðu þér vafalaust grein fyrir að Jehóva hefur blessað votta sína með stórkostlegum skilningi á Biblíunni.

Ung stúlka, Ásta, segir: „Stundum verð ég niðurdregin vegna ástandsins í heiminum. Þá fletti ég upp ritningarstöðum svo sem Opinberunarbókinni 21:4 og það veitir mér von.“ Já, sterk trú á loforð Guðs hefur tvímælalaust áhrif á hugarástand þitt. Með þau að leiðarljósi geturðu horft vonglaður og óhræddur til framtíðarinnar. Hið núverandi líf verður ekki tilgangslaus barátta fyrir þig heldur leið til að ‚safna handa sjálfum þér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og þú munt geta höndlað hið sanna líf.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:⁠19.

En það þarf meira til að öðlast hið „sanna líf“ en aðeins að kynnast kenningum Biblíunnar og trúa þeim.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Í bókinni Rökrætt út af Ritningunni bls. 58-68 (í enskri útgáfu hennar) er að finna ítarlegar upplýsingar um áreiðanleika Biblíunnar. Bókin er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Spurningar til umræðu

◻ Hvað óttast fjöldi unglinga um framtíðina?

◻ Hver var upphaflegur tilgangur Guðs með jörðina? Hvers vegna getum við treyst að tilgangur Guðs hafi ekki breyst?

◻ Hvaða hlutverki gegnir ríki Guðs í því að uppfylla tilgang hans með jörðina?

◻ Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir þig að ganga úr skugga um sannleiksgildi Biblíunnar og hvernig geturðu gert það?

◻ Hvernig geturðu sannað fyrir sjálfum þér að Biblían sé innblásin af Guði?

[Rammi á blaðsíðu 306]

„Ég er mjög svartsýnn. Okkur ætlar ekki að takast að leysa vandamál okkar.“ — Sálfræðingurinn B. F. Skinner.

[Mynd á blaðsíðu 307]

Skapari jarðar leyfir manninum ekki að eyða hana.

[Mynd á blaðsíðu 309]

Hefurðu sannfært sjálfan þig um sannleiksgildi Biblíunnar?