Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég átt náið samband við Guð?

Hvernig get ég átt náið samband við Guð?

39. kafli

Hvernig get ég átt náið samband við Guð?

NÁIÐ samband — við Guð? Í augum margra er Guð fjarlægur og fálátur, ópersónuleg ‚frumorsök‘ alls. Sú hugmynd að eiga við hann náið samband getur valdið þér óróa eða jafnvel ótta.

Þú gætir líka staðið í svipuðum sporum og Linda sem ólst upp á kristnu heimili. Hún segir um táningsárin: „Ég missti sjaldan af kristinni samkomu öll þessi ár og það leið aldrei sá mánuður að ég tæki ekki þátt í boðunarstarfinu. Samt eignaðist ég aldrei náið einkasamband við Jehóva.“

En framtíð þín er undir því komin að eignast náið samband við Guð. Jesús Kristur sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð.“ (Jóhannes 17:⁠3) Þessi ‚þekking‘ er meira en utanbókarlærdómur — guðsafneitari getur líka lært utanbókar. Hún felst í því að rækta náið samband við Guð, verða vinur hans. (Samanber Jakobsbréfið 2:23.) Og Guð er ekki fáskiptinn og kuldalegur heldur býður okkur að ‚leita sín og finna sig‘ því að „eigi er hann langt frá neinum af oss.“ — Postulasagan 17:⁠27.

Þannig geturðu kynnst Guði

Hefurðu nokkurn tíma horft á stjörnurnar, hlustað með lotningu á dunur hafsins, hrifist af litfögru fiðrildi eða dáðst að smágerðu blómi? Þessi verk Guðs gefa þér örlitla nasasjón af óendanlegum mætti hans, visku og kærleika. „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ — Rómverjabréfið 1:​19, 20.

En þú þarft að vita meira um Guð en það sem hægt er að lesa út úr sköpunarverkinu. Þess vegna hefur hann séð okkur fyrir orði sínu, Biblíunni. Hún opinberar Guð ekki sem nafnlausa veru eða ópersónulegt afl heldur raunverulega persónu með nafni. „Viðurkennið að Jehóva er Guð,“ segir sálmaritarinn. (Sálmur 100:​3, New World Translation) Biblían opinberar líka persónuna að baki nafninu: „Miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:⁠6) Segja má að við sjáum Guð í verki í ítarlegri frásögu Biblíunnar af samskiptum hans við mannkynið! Biblíulestur er því nauðsynlegur til að eignast náið samband við Guð.

Að njóta biblíulestrar

Biblían er vissulega þykk bók til lestrar. Blaðsíðufjöldinn einn fælir marga unglinga frá því að lesa hana. Sumir kvarta líka undan því að Biblían sé leiðinleg. En Biblían er opinberun Guðs til mannanna. Hún segir okkur hvernig við urðum til og hvert við stefnum. Hún lýsir í smáatriðum hvað við verðum að gera til að hljóta eilíft líf í paradís á jörð. Hvernig getur það verið leiðinlegt? Biblían er að vísu ekki auðveld aflestrar og í henni er „sumt þungskilið,“ en biblíulestur þarf samt ekki að vera leiðinlegur. — 2. Pétursbréf 3:⁠16.

Marinó kemur með góða hugmynd um hvernig hægt sé að gera biblíulestur skemmtilegan. „Ég reyni að sjá sögusviðið fyrir mér og lifa mig inn í það.“ Tökum frásöguna í 6. kafla Daníelsbókar sem dæmi. Reyndu að ímynda þér að þú sért Daníel í stað þess að lesa frásöguna í fljótheitum. Þú hefur verið handtekinn fyrir þá fáránlegu sök að biðja til Guðs þíns. Dauðarefsing liggur við! Persneskir hermenn draga þig hranalega að gröf þinni — gryfju fullri af glorsoltnum ljónum.

Með skruðningum er stórum steini velt frá gryfjuopinu. Þér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds við öskrin í ljónunum fyrir neðan. Þú hörfar skelfingu lostinn en hermenn konungs bera þig ofurliði, hrinda þér ofan í gryfju dauðans og velta steininum aftur fyrir. Þú finnur loðinn feld strjúkast við þig í myrkrinu . . .

Leiðindalestur? Það getur varla verið! En mundu þetta: Þú ert ekki að lesa Biblíuna þér til gamans. Reyndu að koma auga á hvað frásagan kennir þér um Jehóva. Sýnir ekki lífsreynsla Daníels til dæmis að Jehóva leyfir að þjónar hans lendi í erfiðum prófraunum?

Reyndu líka að hafa biblíulesturinn í föstum skorðum. Með því að eyða aðeins 15 mínútum á dag til lestrar gætirðu lesið alla Biblíuna á einu ári! Taktu þér tíma frá einhverju öðru sem er minna virði, svo sem sjónvarpinu. (Efesusbréfið 5:16) Ef þú leggur þig fram við lestur Biblíunnar fer ekki hjá því að tengsl þín við Guð eflist. — Orðskviðirnir 2:​1, 5.

Bæn styrkir samband þitt við Guð

Lena, sem er á unglingsaldri, segir: „Maður getur varla átt persónulegt samband við einhvern ef maður talar aldrei við hann.“ Jehóva er sá „sem heyrir bænir“ og býður okkur að tala við sig. (Sálmur 65:⁠3) „Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja,“ og gerum það í trú, „þá heyrir hann oss.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:⁠14.

Linda, sem getið er að framan, lærði það af reynslunni. Hún minnist þess að um tíma hrönnuðust upp vandamál og áhyggjur. Og þá ‚bað hún látlaust svo dögum skipti um lausn á vandamálum sínum.‘ Þegar hún fékk styrk til að takast á við erfiðleikana fór hún að finna til nálægðar Guðs sem henni hafði fundist svo fjarlægur áður. Önnur ung stúlka, Katrín, kynntist líka gildi bænarinnar: „Stundum langar mann til að segja einhverjum frá innstu tilfinningum sínum, og engum betri er hægt að trúa fyrir þeim en Jehóva, því að hann skilur mann og maður veit að hann er sá eini sem getur virkilega hjálpað manni.“

En er gildi bænarinnar eingöngu fólgið í einhvers konar tilfinningaútrás? Nei, Jakobsbréfið 1:​2-5 segir okkur að þegar við lendum í ýmiss konar raunum, þá ættum við að ‚biðja Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og okkur mun gefast.‘ Það er ekki víst að Guð losi þig úr rauninni, en hann lofar að gefa þér visku til að standast hana! Hann getur minnt þig á meginreglur úr Biblíunni sem koma málinu við. (Samanber Jóhannes 14:26.) Hann getur séð til þess að athygli þín sé vakin á vissum atriðum í Biblíunni, annaðhvort í einkanámi þínu eða á kristnum samkomum. Og mundu að hann ‚lætur ekki freista þín um megn fram heldur sér um að þú fáir staðist.‘ Já, hann mun ‚ekki yfirgefa þig.‘ (1. Korintubréf 10:13; 2. Korintubréf 4:⁠9) Myndi þér ekki finnast Guð vera þér nákomnari eftir að hafa fundið fyrir hjálp hans til að standast prófraun?

En láttu ekki bænir þínar fjalla bara um persónuleg vandamál. Í fyrirmyndarbæninni lagði Jesús aðaláherslu á að nafn Jehóva yrði helgað, ríki hans kæmi og vilji hans yrði gerður. (Matteus 6:​9-13) „Beiðni og þakkargjörð“ er einnig mikilvægur hluti bænarinnar. — Filippíbréfið 4:⁠6.

En hvað þá ef þér finnst óþægilegt að biðja? Ræddu þá um það við Guð í bænum þínum! Biddu hann um hjálp til að opna hjarta þitt fyrir sér. Vertu ‚staðfastur í bæninni‘ og þú uppgötvar smám saman að þú átt jafnauðvelt með að tala við Jehóva og við náinn vin. (Rómverjabréfið 12:12) „Ég veit að ég get alltaf leitað leiðsagnar hjá Jehóva þegar ég á við vanda að glíma og hann hjálpar mér,“ segir María.

Það er óþarfi að ávarpa Guð með hástemmdu skrautmáli. „Úthellið hjörtum yðar fyrir honum,“ segir sálmaritarinn. (Sálmur 62:⁠9) Segðu honum frá tilfinningum þínum og áhyggjum. Biddu hann um hjálp til að sigrast á veikleikum þínum. Biddu um blessun hans yfir fjölskyldu þína og kristna meðbræður. Sárbændu hann um fyrirgefningu þegar þú gerir eitthvað rangt. Þakkaðu honum daglega fyrir lífið. Þegar bænin verður fastur liður í lífi þínu getur hún veitt þér náið og hamingjuríkt samband við Jehóva Guð.

Segðu öðrum frá vináttu þinni við Guð

Eftir að þú hefur eignast vináttusamband við Guð ættirðu að finna hjá þér sterka löngun til að hjálpa öðrum að eignast slíkt samband við hann. Ein af kröfunum til þeirra, sem vilja vera vinir Guðs, er einmitt að ‚játa með munninum til hjálpræðis.‘ — Rómverjabréfið 10:⁠10.

Margir byrja á því að tala um trú sína við skólafélaga, nágranna og ættingja. Síðar fara þeir að prédika hús úr húsi með vottum Jehóva. (Postulasagan 5:42) Þessi prédikun meðal almennings er erfiður þröskuldur fyrir suma unglinga. „Ég held að margt ungt fólk veigri sér við að ganga í hús af því að það óttast hvað kunningjarnir hugsi,“ segir ungur kristinn maður.

En vinátta hverra skiptir þig mestu máli — jafnaldranna eða vinar þíns á himni, Jehóva? Ættirðu að láta ótta eða feimni koma í veg fyrir að þú öðlist hjálpræði? „Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika,“ hvetur Páll postuli. (Hebreabréfið 10:23) Og ef þú undirbýrð þig, æfir og þjálfar hefurðu ósvikna ánægju af prédikunarstarfinu. — 1. Pétursbréf 3:⁠15.

Með tíð og tíma ætti kærleikur til vinar þíns á himni að koma þér til að vígjast honum skilyrðislaust og skírast niðurdýfingarskírn til tákns um það. (Rómverjabréfið 12:1; Matteus 28:​19, 20) Opinber játning um að þú viljir vera skírður lærisveinn Krists er ekkert smámál. Hún felur í sér að ‚afneita sjálfum sér‘ — að setja persónuleg metnaðarmál til hliðar og þjóna hagsmunum Jehóva Guðs fyrst og fremst. (Markús 8:34) Hún felur einnig í sér að vera hluti af alþjóðaskipulagi votta Jehóva.

„Ég held að margt ungt fólk hiki við að láta skírast af því að það óttast að ekki verði aftur snúið,“ segir piltur sem heitir Róbert. Vígsla til Guðs er vissulega skref sem ekki verður aftur tekið, en „hver sem . . . hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd“ — hvort sem hann er skírður eða ekki! (Jakobsbréfið 4:17; samanber Prédikarann 5:⁠3.) Spurningin er sú hvort þú kunnir að meta vináttu Guðs. Finnurðu hjá þér löngun til að þjóna honum að eilífu? Vertu þá ósmeykur við að lýsa yfir að þú sért vinur hans!

Vinir Guðs hljóta eilífa blessun!

Ef þú kýst vináttu Guðs kallarðu yfir þig óvináttu alls heimsins. (Jóhannes 15:19) Kannski verður gert gys að þér. Og erfiðleikar, vandamál og freistingar geta sótt að þér. En láttu engan og ekkert ræna þig sambandinu við Guð. Hann lofar óbrigðulum stuðningi sínum: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — Hebreabréfið 13:⁠5.

Þessi bók er aðeins eitt merki um áhuga Jehóva og skipulags hans á eilífri velferð þinni. Þótt ekki hafi verið hægt að fjalla um allar spurningar þínar og vandamál í þessari bók er þér eflaust ljósara en áður hve óþrjótandi viskuuppspretta Biblían er. (2. Tímóteusarbréf 3:​16, 17) Þegar þú stendur ráðþrota frammi fyrir vandamáli skaltu leita svara og ráða í bókinni helgu. (Orðskviðirnir 2:​4, 5) Ef þú átt guðhrædda foreldra geturðu einnig sótt andlega visku og stuðning til þeirra — ef þú bara opnar hjarta þitt fyrir þeim.

Síðast en ekki síst skaltu muna að Jehóva Guð kann öll svörin. Hann er „örugg hjálp í nauðum“ og getur leitt þig styrkri hendi gegnum hvaða prófraun og erfiðleika sem er. (Sálmur 46:⁠2) ‚Mundu því eftir skapara þínum á unglingsárunum.‘ (Prédikarinn 12:⁠1) Með þeirri lífsstefnu gleður þú hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Hún er líka leiðin til að hljóta eilíft líf í ófölnandi paradís — það eru launin sem Guð gefur vinum sínum.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna er mikilvægt fyrir þig að eiga náið samband við Guð?

◻ Hvað opinberar Biblían um Guð?

◻ Hvernig geturðu haft gagn og gaman af biblíulestri?

◻ Hvað er fólgið í opinberri ‚játningu‘ trúar þinnar? Stefnir þú að slíkri játningu? Af hverju?

◻ Hvaða hlutverki gegna samkomurnar í því að styrkja sambandið við Guð og hvernig geturðu haft fullt gagn af þeim?

◻ Hvað gagn hefurðu af því að vera vinur Guðs?

[Rammi á blaðsíðu 311]

Get ég virkilega átt náið samband við Guð?

[Rammi á blaðsíðu 312]

Biblían er opinberun Guðs til mannanna. Hún segir okkur hvernig við urðum til og hvert við stefnum.

[Rammi á blaðsíðu 316, 317]

Samkomur — hjálp til að vingast við Guð

„Náinn félagsskapur við aðra, sem elska Jehóva, hjálpar mér að halda nánum tengslum við hann,“ segir ung stúlka frá Nígeríu. Vottar Jehóva bjóða upp á slíkan félagsskap á samkomunum í ríkissölum sínum. (Hebreabréfið 10:​23-25) Aníta, 16 ára, segir: „Ég eignaðist sanna vini í ríkissalnum.“

Félagsskapurinn er þó ekki eina markmiðið með samkomunum. Á vegum safnaðarins er boðið upp á biblíufræðslu þrisvar í viku. Fjallað er um fjölbreytt málefni, svo sem fjölskyldulíf, spádóma Biblíunnar, hegðun og boðunarstarf kristinna manna, kenningar og svo mætti lengi telja. Kennslunni er komið á framfæri með áhugaverðum hætti þótt sviðsetningu sé stillt í hóf. Oft er viðtölum og stuttum en líflegum leikþáttum fléttað inn í erindi eða hópumræður. Guðveldisskólinn er einstæður fyrir þá sök að hann hefur þjálfað þúsundir manna í opinberum ræðuflutningi.

Ef þú sækir samkomurnar nú þegar geturðu gert þér far um að hafa meira gagn af þeim. (1) Undirbúðu þig: „Ég hef fastákveðinn tíma til að nema þær bækur sem við notum á samkomunum,“ segir Aníta. Undirbúningur auðveldar þér næsta skref. (2) Taktu þátt í þeim: Sem ungur piltur hlustaði Jesús með athygli, spurði og svaraði spurningum þegar rætt var um andleg mál í musterinu. (Lúkas 2:​46, 47) Þú getur líka ‚gefið því enn betur gaum sem þú heyrir‘ með því að skrifa hjá þér minnisatriði. Það heldur huganum við efnið. (Hebreabréfið 2:⁠1) Taktu þátt í umræðum þegar óskað er þátttöku áheyrenda.

Þriðja tillagan er þessi: (3) Notaðu það sem þú lærir: Segðu öðrum frá því sem þú hefur lært. Lifðu eftir því og breyttu því sem breyta þarf. Láttu sannleikann ‚sýna kraft sinn í þér.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:⁠13.

Láttu samkomurnar ganga fyrir. Ef heimaverkefnin eru óvenjumörg skaltu reyna að ljúka þeim fyrir samkomuna. „Mér finnst gaman að spjalla við fólk eftir samkomurnar og vera með þeim síðustu til að fara,“ segir Símon sem er á unglingsaldri. „En þegar ég er ekki búinn með skólaheimaverkefnin fer ég heim strax eftir samkomuna.“ Gerðu það sem þú getur til að sækja samkomurnar reglulega, hvernig sem þú skipuleggur heimanámið. Þær eru ómissandi til að þú vaxir andlega.

[Mynd á blaðsíðu 315]

Biblíulestur er nauðsynlegur til að byggja upp vináttusamband við Guð.

[Mynd á blaðsíðu 318]

„Ég veit að ég get alltaf leitað leiðsagnar hjá Jehóva þegar ég á við vanda að glíma og hann hjálpar mér.“