Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að flytja að heiman?

Ætti ég að flytja að heiman?

7. kafli

Ætti ég að flytja að heiman?

„Elsku mamma og pabbi!

Ég er farin að heiman. Eins og ég hef sagt áður geri ég það ekki til að skaprauna ykkur eða hefna mín á nokkurn hátt. Ég get bara ekki verið hamingjusöm svona innilokuð eins og þið viljið hafa mig. Kannski verð ég ekki heldur hamingjusöm á þennan hátt, en mig langar bara til að komast að því.“

ÞANNIG hófst kveðjubréf sautján ára stúlku til foreldra sinna. Í Þýskalandi er þriðja hver stúlka og fjórði hver drengur á aldrinum 15  til 24 ára fluttur að heiman. Ef til vill hefur einnig hvarflað að þér að flytjast að heiman.

Guð sá það fyrir að löngun mannsins til að ganga í hjónaband myndi koma honum til að ‚yfirgefa föður sinn og móður sína.‘ (1. Mósebók 2:23, 24) Aukið starf í þjónustu Guðs getur einnig verið góð og gild ástæða til að flytjast að heiman. (Markús 10:29, 30) En margir unglingar fara að heiman einfaldlega vegna þess að þeim finnst óþolandi að búa þar. Ungur maður sagði: „Mann langar bara til að vera sjálfstæðari. Maður gerir sig ekki lengur ánægðan með að búa heima hjá foreldrum sínum. Maður er alltaf að lenda upp á kant við þau og þau skilja ekki þarfir manns. Auk þess er maður eins og bundinn þegar maður þarf að gera foreldrum sínum grein fyrir hverri einustu hreyfingu.“

Ertu tilbúinn að standa á eigin fótum?

Ertu viss um að þú sért undir það búinn að standa á eigin fótum þótt þig langi til þess? Það er kannski ekki eins auðvelt að spjara sig og þú heldur. Atvinna er oft af skornum skammti og húsaleiga há. Og hvað neyðast unglingar, sem lenda í fjárhagsvandræðum, oft til að gera? Höfundar bókarinnar Pulling Up Roots segja: „Þeir flytjast heim aftur og ætlast til að foreldrarnir sjái fyrir þeim á ný.“

Hvað um hugarfarslegan, tilfinningalegan og andlegan þroska þinn? Þér finnst þú kannski vera fullorðinn en það getur verið að foreldrar þínir sjái enn ýmsan ‚barnaskap‘ í fari þínu. (1. Korintubréf 13:11) Og ætli foreldrarnir séu ekki dómbærastir á það hve mikið frelsi þú ræður við? Þú getur verið að bjóða hættunni heim ef þú gengur í berhögg við leiðbeiningar þeirra og reynir að leggja út í lífið upp á eigin spýtur! — Orðskviðirnir 1:8.

‚Mér semur ekki við foreldrana‘

Finnst þér þú geta sagt það? Jafnvel þótt svo sé er engin ástæða til að fara að pakka niður. Þú ert enn unglingur og þarfnast foreldra þinna og átt sjálfsagt eftir að njóta góðs af innsæi þeirra og visku í mörg ár enn. (Orðskviðirnir 23:22) Ættirðu að snúa baki við þeim aðeins vegna þess að það hefur nokkrum sinnum hlaupið snurða á þráðinn milli ykkar?

Ungur Þjóðverji, Karsten, fluttist að heiman til að þjóna sem prédikari í fullu starfi. Hann segir: „Farðu aldrei að heiman bara vegna þess að þér semur ekki við foreldra þína. Ef þér semur ekki við þá, hvernig getur þér þá samið við aðra? Það leysir engan vanda að flytjast að heiman. Það sannar bara að þú sért of vanþroskaður til að standa á eigin fótum og breikkar bilið milli þín og foreldranna.“

Siðferði og tilefni

Unglingum hættir einnig til að vanmeta hinar siðferðilegu hættur sem fylgja því að flytjast of ungir að heiman. Í Lúkasi 15:11-32 segir Jesús frá ungum manni sem vildi vera sjálfstæður. Er hann var farinn að heiman og naut ekki lengur hinna góðu áhrifa foreldra sinna leiddist hann út í ‚óhófsaman lifnað‘ og siðleysi. Á skömmum tíma sólundaði hann öllu eyðslufé sínu. Svo erfitt var að fá vinnu að hann þurfti að gera sér að góðu starf sem Gyðingar fyrirlitu — að gæta svína. Þessi ‚glataði‘ sonur kom þó til sjálfs sín og náði áttum. Hann braut odd af oflæti sínu, sneri heim aftur og sárbændi föður sinn um fyrirgefningu.

Jesús sagði þessa dæmisögu til að leggja áherslu á miskunn Guðs, en það má einnig draga af henni annan, hagnýtan lærdóm: Sá sem flyst að heiman af óhyggilegu tilefni getur unnið sjálfum sér siðferðilegt og andlegt tjón! Því miður hafa sum kristin ungmenni viljað vera sjálfstæð og beðið andlegt skipbrot. Sumir, sem geta ekki staðið á eigin fótum fjárhagslega, grípa til þess ráðs að deila húsnæði með öðrum unglingum sem lifa ekki í samræmi við meginreglur Biblíunnar. — 1. Korintubréf 15:33.

Þýskur piltur, Horst, segir frá jafnaldra sínum sem fluttist að heiman: „Hann byrjaði að búa með vinkonu sinni þótt þau væru ekki gift. Þau héldu svallsöm partí heima hjá sér þar sem var drukkið stíft og oft drakk hann sig fullan. Foreldrar hans hefðu ekki leyft neitt svona lagað ef hann hefði búið heima.“ Horst bætir við: „Maður hefur að vísu meira frelsi eftir að maður er fluttur að heiman, en er það ekki oft notað sem átylla til að gera eitthvað af sér?“

Ef þú þráir aukið frjálsræði skaltu því spyrja þig: Hvers vegna langar mig til að hafa meira frjálsræði? Er það til að geta eignast efnislega hluti eða svigrúm til að gera það sem foreldrar mínir myndu banna mér ef ég byggi heima? Mundu hvað stendur í Biblíunni í Jeremía 17:9: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“

Hvernig get ég fullorðnast ef ég flyt ekki að heiman?

Bókin Adolescence segir: „Það eitt að flytja að heiman tryggir alls ekki að unglingi takist að fullorðnast. Ef hann býr áfram hjá foreldrum sínum er það ekki heldur vísbending um að hann fullorðnist ekki.“ Það að fullorðnast er annað og meira en að hafa eigin fjárráð, vinna fyrir sér og hafa íbúð. Listin að lifa felst meðal annars í því að kunna að takast á við vandamál. Þú ávinnur ekkert með því að hlaupast á brott frá aðstæðum sem þér geðjast ekki að. „Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku,“ segja Harmljóðin 3:27.

Sumir foreldrar geta til dæmis verið erfiðir í umgengni eða mjög strangir. Magnús er nú 47 ára en faðir hans lagði honum alls konar skyldustörf á herðar eftir að hann kom heim úr skólanum. Í sumarleyfunum, meðan aðrir krakkar gátu leikið sér, þurfti Magnús að vinna. „Mér fannst hann hljóta að vera kvikindislegasti maður í heimi fyrst hann leyfði okkur ekki að leika okkur og skemmta okkur,“ segir Magnús. „Oft hugsaði ég með mér: ‚Bara að ég gæti komist burt héðan og búið einn út af fyrir mig!‘ “ En Magnús sér málið í öðru ljósi núna: „Það var ómetanlegt sem pabbi gerði fyrir mig. Hann kenndi mér að þola mótlæti og vera iðjusamur. Síðan þá hef ég þurft að horfast í augu við langtum alvarlegri vandamál, en ég kann að takast á við þau undanbragðalaust.“

Blekkingarsæla

Þótt þú búir hjá foreldrum þínum er það eitt sér þó engin trygging fyrir því að þú þroskist. Ungur maður segir: „Að búa heima hjá foreldrum mínum var hálfgerð blekkingarsæla. Þeir gerðu allt fyrir mig.“ Að fullorðnast felur meðal annars í sér að læra að gera hlutina sjálfur. Auðvitað er skemmtilegra að sitja inni í herbergi og hlusta á uppáhaldstónlistina sína en að fara út með sorpið eða þvo þvott. En hvaða afleiðingar getur það haft ef þú lærir aldrei að vinna slík verk? Þú verður hjálparvana sem fullvaxta maður og algerlega háður foreldrum þínum eða öðrum.

Ert þú (hvort sem þú ert ungur maður eða kona) að búa þig undir það að verða sjálfstæður með því að læra núna að elda mat, gera hreint, strauja föt, gera við bíl eða dytta að innanhúss?

Fjárhagslegt sjálfstæði

Ungt fólk í hinum efnameiri löndum heims lítur oft þannig á peninga, að það sé auðvelt að komast yfir þá og enn auðveldara að eyða þeim. Ef það vinnur hlutastarf eyðir það tekjunum gjarnan í hljómflutningstæki og föt. Slíkir unglingar eiga eftir að vakna við vondan draum þegar þeir flytjast að heiman og þurfa að standa á eigin fótum! Horst, sem áður er getið, segir: „Undir lok mánaðarins [eftir að ég fluttist að heiman] var bæði veskið tómt og kæliskápurinn.“

Þú skalt læra að fara með peninga meðan þú býrð enn í föðurhúsum. Foreldrarnir hafa áralanga reynslu í meðferð peninga og geta hjálpað þér að forðast alls konar mistök. Bókin Pulling Up Roots leggur til að unglingar spyrji foreldra sína spurninga svo sem: ‚Hvað kostar rafmagn yfir mánuðinn? Hiti? Sími? Hve mikið þurfum við að borga í skatta? Hve háa húsaleigu?‘ Þótt ótrúlegt kunni að virðast hafa útivinnandi unglingar oft meiri vasapeninga en foreldrar þeirra! Ef þú vinnur úti skaltu bjóðast til að leggja fram sanngjarnan skerf til heimilisins.

Lærðu áður en þú flytur að heiman

Þú þarft ekki að flytja að heiman til að fullorðnast, en meðan þú býrð hjá foreldrum þínum þarftu að leggja þig fram um að þroska með þér góða dómgreind og skynsemi. Lærðu líka að umgangast aðra. Sýndu að þú getir tekið gagnrýni, mistökum eða vonbrigðum. Þroskaðu með þér ‚gæsku, góðvild, hógværð og sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Þetta eru einkenni fullvaxta kristinna karla og kvenna.

Fyrr eða síðar munu aðstæður, svo sem hjónaband, líklega koma þér til að flytjast að heiman. En liggur eitthvað á að flytja fyrr en að því kemur? Ræddu málið við foreldra þína. Þeir leyfa þér vafalaust fúslega að búa heima, ekki síst ef þú leggur eitthvað af mörkum til að tryggja velferð fjölskyldunnar. Með þeirra hjálp getur þú haldið áfram að vaxa, læra og þroskast — heima.

Spurningar til umræðu

◻ Af hverju liggur mörgum unglingum á að flytjast að heiman?

◻ Hvers vegna eru fæst ungmenni undir það búin að standa á eigin fótum?

◻ Hvaða hættur fylgja því að flytjast að heiman áður en það er tímabært?

◻ Nefndu sum af þeim vandamálum sem mæta unglingi er hleypst á brott.

◻ Hvernig geturðu fullorðnast meðan þú býrð í foreldrahúsum?

[Innskot á blaðsíðu 57]

Farðu aldrei að heiman bara vegna þess að þér semur ekki við foreldra þína. . . . Hvernig getur þér þá samið við aðra?“

[Rammi á blaðsíðu 60, 61]

Er lausnin sú að hlaupast að heiman?

Ár hvert hlaupast yfir milljón unglingar að heiman. Sumir gera það af því að ástandið er óþolandi — til dæmis ofbeldi eða kynferðisleg misnotkun. En oftar en ekki má rekja brotthlaupið til deilna við foreldrana um mál svo sem útivistartíma, einkunnir, heimilisstörf og val á félagsskap.

Kannski finnast þér viðhorf og hugmyndir foreldra þinna alls ekki fara saman við þínar. En hefurðu leitt hugann að því að í augum Guðs er foreldrum þínum skylt að ala þig upp „með aga og umvöndun Drottins“? (Efesusbréfið 6:4) Þeir geta því krafist þess að þú fylgir þeim á kristnar samkomur og takir þátt með þeim í trúarlegu starfi, eða jafnvel sett því einhver takmörk hverja þú mátt umgangast. (1. Korintubréf 15:33) Er það einhver ástæða til að gera uppreisn og hlaupast að heiman? Þú hefur líka ákveðna skyldu frammi fyrir Guði: „Heiðra föður þinn og móður.“ — Efesusbréfið 6:1-3.

Auk þess leysir það engin vandamál að hlaupast að heiman. Amy, sem hljópst á brott 14 ára gömul, segir: „Það skapar bara fleiri vandamál að hlaupast að heiman.“ Margaret O. Hyde segir í bók sinni My Friend Wants to Run Away: „Fáeinum, sem hlaupast að heiman, tekst að fá vinnu og spjara sig. Fyrir flesta er lífið þó langtum erfiðara en það var áður en þeir fóru að heiman.“ Og tímaritið ’Teen segir: „Táningar finna ekki frelsi á götunum. Í stað þess finna þeir aðra unglinga sem hafa — líkt og þeir sjálfir — hlaupist að heiman eða verið reknir að heiman. Þeir hafast við í yfirgefnum húsum, varnarlausir gegn nauðgurum og ræningjum. Þeir hitta líka fullt af fólki sem hefur þá ófögru iðju að misnota ungt fólk, og táningar, sem hafa hlaupist að heiman, eru auðveld bráð.“

Eftir að Amy hljópst á brott „vingaðist“ 22 ára gamall maður við hana. Hann bauð henni að flytja til sín og lét hana borga fyrir greiðann „með því að hafa kynmök við hann og níu af vinum hans.“ Hún „drakk sig drukkna og neytti kynstra af fíkniefnum.“ Önnur ung stúlka, Sandi, hljópst að heiman eftir að stjúpafi hennar hafði misnotað hana kynferðislega. Hún fór út í vændi, bjó á götunni og svaf á bekkjum í almenningsgörðum eða annars staðar þar sem hún gat. Þannig fer oft fyrir þeim sem hlaupast að heiman.

Fæstir hinna brotthlaupnu unglinga hafa næga verkkunnáttu til að nokkur vilji ráða þá í vinnu. Yfirleitt hafa þeir ekki heldur undir höndum þá pappíra sem til þarf — fæðingarvottorð, nafnskírteini eða þess háttar — eða fast aðsetur. „Ég hef orðið að stela og betla,“ segir Luis, „en oftast stal ég af því að enginn vill gefa manni neitt.“ Um 60 af hundraði þeirra sem hlaupast að heiman eru stúlkur og margar sjá fyrir sér með vændi. Klámritahöfundum, fíkniefnasölum og hórmöngurum er tíðförult á umferðarmiðstöðvar í leit að brotthlaupnum unglingum sem þeir geta notfært sér. Þeir bjóða skelfdum unglingunum gjarnan mat og svefnstað. Þeir gefa unglingunum jafnvel það sem þeim fannst skorta heima fyrir — þá tilfinningu að einhverjum þyki vænt um þá.

Að því kemur þó að slíkir „velgerðarmenn“ krefjast endurgjalds. Og það getur merkt að stunda vændi fyrir þá, taka þátt í alls konar óeðlilegum kynlífsathöfnum eða láta taka af sér klámmyndir. Það er engin furða að fjölmargir unglingar, sem hlaupast að heiman, skuli bíða alvarlegt tjón eða jafnvel týna lífi.

Það er því skynsamlegt fyrir þig að gera allt sem þú getur til að ræða málin við foreldra þína — og það þýðir að reyna oftar en einu sinni. Segðu þeim hvernig þér er innanbrjósts og hvað þér hefur dottið í hug að gera. (Sjá 2. og 3. kafla.) Ef þú hefur sætt ofbeldi eða kynferðislegri misnotkun geturðu þurft að fá utanaðkomandi hjálp.

Óháð því hvernig ástandið er skaltu ræða málið í staðinn fyrir að hlaupast á brott. Jafnvel þótt ástandið sé ekki sem best heima fyrir skaltu hafa hugfast að það getur orðið enn verra fyrir þig ef þú hleypst á brott.

[Mynd á blaðsíðu 59]

Fólk getur illa spjarað sig sjálft nema það kunni til ýmissa verka — og þau er hægt að læra heima.