Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju á ég alltaf í útistöðum við systkini mín?

Af hverju á ég alltaf í útistöðum við systkini mín?

6. kafli

Af hverju á ég alltaf í útistöðum við systkini mín?

SYSTKINAERJUR eru jafngamlar þeim Kain og Abel. Ástæðan er ekki sú að þau hati hvert annað. Unglingur nokkur sagði: „Innst í hjarta mér, einhvers staðar undir niðri, býst ég við að ég elski bróður minn — eða þannig.“

Hvers vegna er ósætti svo algengt meðal systkina? Blaðamaðurinn Harriet Webster hefur eftir fjölskylduráðgjafanum Claudia Schweitzer: „Hver fjölskylda býr yfir vissu bolmagni, sumpart tilfinningalegu, sumpart efnislegu.“ Webster bætir við: „Þegar systkini rífast eru þau venjulega að berjast um þetta bolmagn sem spannar allt frá kærleika foreldranna til peninga og fata.“ Kamilla og fimm systkini hennar þurfa til dæmis að deila með sér þrem svefnherbergjum. „Mig langar stundum að vera út af fyrir mig,“ segir hún, „og ég vildi óska að ég hefði mitt eigið herbergi og gæti lokað þau úti, en þau eru alltaf allt í kringum mig.“

Stundum slær í brýnu milli systkina út af því hvernig eigi að skipta sérréttindum eða þátttöku í heimilisstörfunum. Eldri systkinunum getur gramist það að þeim skuli ætlað að vinna bróðurpartinn af skyldustörfunum. Yngri systkinin þrjóskast við þegar þau eldri skipa þeim fyrir verkum, eða verða öfundsjúk þegar eldri systkinin fá eftirsótt sérréttindi. ‚Systir mín fær að læra á bíl en ekki ég,‘ segir unglingsstúlka á Englandi í kvörtunartón. ‚Mér finnst það fúlt og reyni að gera henni sem flest til miska.‘

Stundum stafa árekstrar systkina einfaldlega af því að þau eru ólík. Díana, sautján ára, segir um systkini sín: „Maður getur fengið sig fullsaddan af því að hafa þau fyrir augunum hvern einasta dag, daginn út og daginn inn . . . og sjá sömu manneskjuna gera það sama á hverjum degi sem fer í taugarnar á manni.“ Andri bætir við: „Þegar maður er heima . . . þá sýnir maður sitt innsta eðli.“ Að ‚sýna sitt innsta eðli‘ merkir því miður oft að láta kurteisi, góðvild og háttvísi lönd og leið.

Ást foreldranna er annað algengt þrætuepli systkina (‚Mömmu finnst vænst um þig!‘). Prófessor í sálfræði, Lee Salk, segir: „Það er ómögulegt fyrir foreldra að elska öll börnin nákvæmlega jafnheitt, vegna þess að þau eru ólíkir einstaklingar og vekja óhjákvæmilega mismunandi viðbrögð hjá okkur [foreldrunum].“ Þannig var það einnig á biblíutímanum. Ættfaðirinn Jakob (Ísrael) „unni Jósef mest allra sona sinna.“ (1. Mósebók 37:3) Þetta gerði bræður Jósefs heiftarlega afbrýðisama.

Slökktu eldinn

„Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn,“ segja Orðskviðirnir 26:20. Oft er útbreiðsla skógarelda heft með því að fella tré þannig að það myndist skóglaus belti. Ef eldur kviknar deyr hann yfirleitt út þegar að beltinu kemur. Á sama hátt er hægt að forðast — eða að minnsta kosti takmarka — ósamkomulag, meðal annars með því að ræða um hlutina og ná fram málamiðlun áður en rifrildi blossar upp.

Ef ykkur systkinunum finnst þið til dæmis ekki eiga neitt afdrep þar sem þið getið verið ein, mætti kannski, einhvern tíma þegar þið eruð ekki að rífast um það, reyna að ná samkomulagi um einhverja áætlun eða stundaskrá. (‚Ég fæ að hafa herbergið fyrir mig á þessum dögum eða tímum og þú færð að hafa það á þessum.‘) Síðan skuluð þið virða þetta samkomulag með því að láta ‚já ykkar vera og nei vera nei.‘ (Matteus 5:37) Ef eitthvað veldur því að víkja þurfi frá áætluninni, skaltu láta systkini þitt vita af því fyrirfram í stað þess að láta breytinguna koma eins og þrumu úr heiðskíru lofti.

Færðu ekki að hafa hlutina þína í friði? Unglingsstúlka kvartaði: „Stjúpsystir mín notar mína hluti alltaf án þess að biðja um leyfi. Hún notaði jafnvel andlitsfarðann minn og síðan var hún svo frökk að segja mér að ég keypti ekki rétta tegund!“ Þú gætir eflaust fengið foreldra þína til að fella lokaúrskurð, en betra væri þó að setjast sjálfur niður með bróður þínum eða systur og ræða út um hlutina í rólegheitum. Í stað þess að þrefa um „réttindi“ skaltu vera ‚fús til að miðla öðrum.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:18) Reyndu að komast að samkomulagi um einhverjar reglur þegar einn fær lánað hjá öðrum, að það skuli til dæmis alltaf spyrja fyrst. Verið báðir eða bæði fús til að jafna ágreininginn með gagnkvæmum tilslökunum ef þörf krefur. Þannig getið þið ‚slökkt eldinn‘ næstum áður en hann kviknar.

En hvað geturðu gert ef systkini þitt fer hreinlega í taugarnar á þér? Þú hefur litla möguleika á að breyta systkini þínu. Þú verður því að læra að fylgja því ráði Biblíunnar að ‚umbera hver annan í kærleika.‘ (Efesusbréfið 4:2) Í stað þess að mikla fyrir þér galla bróður þíns eða systur skaltu sýna kristinn kærleika sem „hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Í stað þess að vera særandi eða óvingjarnlegur skaltu leggja af „reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð“ og láta ‚mál þitt alltaf vera ljúflegt.‘ — Kólossubréfið 3:8; 4:6.

‚Þetta er ósanngjarnt!‘

„Systir mín fær allt sem hún vill en ég fæ aldrei neitt!“ Hljómar þetta kunnuglega? En taktu eftir alhæfingunni „allt“ og „ekkert.“ Er ástandið virkilega svona slæmt? Og jafnvel þótt það væri svo er varla hægt að búast við að tveir ólíkir einstaklingar fái nákvæmlega sömu meðferð. Kannski eru foreldrar ykkar bara að sinna ólíkum þörfum ykkar og skapgerð.

En er það ekki ósanngjarnt af foreldrum að taka eitt barn fram yfir annað? Ekki endilega. Mundu hvernig Jakob tók Jósef fram yfir hina syni sína. Af hverju? Af því að Jósef var sonur hinnar ástkæru eiginkonu hans, Rakelar, sem var dáin. Er ekki fullkomlega skiljanlegt að Jakobi skuli hafa fundist sérstaklega vænt um Jósef? En Jakob elskaði hina synina líka og bar ósvikna umhyggju fyrir velferð þeirra. (1. Mósebók 37:13, 14) Öfund þeirra í garð Jósefs var því með öllu tilefnislaus!

Foreldrar þínir geta líka laðast sérstaklega að einu systkina þinna, ef til vill vegna sameiginlegra áhugamála, líks persónuleika eða annarra orsaka. En það þýðir ekki að þeim þyki ekki vænt um þig. Ef þér gremst eða ert afbrýðisamur þarftu að gera þér ljóst að ófullkomið hjarta þitt hefur einfaldlega hlaupið með þig í gönur. Leggðu þig fram um að sigrast á slíkum tilfinningum. Hvaða ástæða er til að komast úr jafnvægi við það að eitthvert systkina þinna virðist njóta meiri athygli en þú, svo framarlega sem þörfum þínum er fullnægt?

Systkini eru blessun

Það getur stundum virst ótrúlegt — einkanlega þegar þau fara í taugarnar á þér. En Díana minnir okkur á að ‚það sé gaman að eiga systkini.‘ Hún á sjö. „Það er alltaf einhver til að tala við og deila áhugamálum sínum með.“

Anna María og Andri bróðir hennar bæta við: „Það er að vísu hægt að hitta vini sína og gera ýmislegt með þeim, en systkini manns eru aldrei langt undan. Þau eru alltaf til taks til að leika við, fara í boltaleik eða gönguferð.“ Donna sér annan kost við það að eiga systkini: „Þá er einhver til að vinna verkin með manni.“ Aðrir hafa lýst systkinum sínum sem „sérstökum ráðgjöfum og áheyrendum“ og sagt þau vera „skilningsrík.“

Síðar á ævinni þarftu að glíma við sum af sömu vandamálunum og þú átt í núna með systkini þín. Öfund, afbrýði, virðingarleysi fyrir eignarrétti, mismunun, ónæði, eigingirni og missætti vegna ólíkrar skapgerðar — svona vandamál eru hluti af lífinu. Það er góð þjálfun í mannlegum samskiptum að læra að búa í friði við systkini sín.

Andri, sem er sautján ára, endurómar orð Biblíunnar í 1. Jóhannesarbréfi 4:20 er hann segir: „Ef maður getur ekki búið í friði með þeim sem maður getur séð, hvernig er þá hægt að eiga frið við Jehóva sem maður getur ekki séð?“ Af og til mun kastast í kekki milli þín og systkina þinna, en ef þú lærir að deila með þeim því sem þú hefur, skiptast á skoðunum við þau og láta undan, kemstu sennilega að raun um að það sé alls ekki svo slæmt að eiga systkini.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna slær oft í brýnu milli systkina?

◻ Hvernig má forðast rifrildi út af einkalífi og eignarrétti?

◻ Hvers vegna taka foreldrar eitt barn stundum fram yfir annað? Finnst þér það í öllum tilvikum ósanngjarnt?

◻ Er það ókostur að vera einbirni?

◻ Nefndu nokkra kosti þess að eiga systkini.

[Innskot á blaðsíðu 52]

„Það er ómögulegt fyrir foreldri að elska öll börnin nákvæmlega jafnheitt, vegna þess að þau eru ólíkir einstaklingar.“ — Lee Salk, prófessor í sálfræði.

[Rammi á blaðsíðu 54]

‚Ég er einbirni‘

Það er alls ekki slæmt að vera einbirni. Önnur börn og unglingar eiga kannski í erfiðleikum með að halda friðinn við systkini sín en þú getur sjálfur valið þér vini (með samþykki foreldra þinna, að sjálfsögðu). Þú getur jafnvel haft betri tíma og næði til náms og hugleiðingar eða til að tileinka þér einhverja fagkunnáttu eða rækta einhvern hæfileika. — Sjá 14. kafla sem fjallar um einmanaleik.

Tómas bendir á annan kost: „Sem einbirni naut ég alltaf óskiptrar athygli foreldra minna.“ Að vísu getur barn orðið upptekið af sjálfu sér ef það fær óhóflega athygli foreldra sinna, en ef þeir gæta jafnvægis getur athygli þeirra flýtt þroska þess og látið því líða vel í félagsskap fullorðinna.

Viss hætta er á því að sá sem ekki á systkini til að deila hlutunum með verði eigingjarn. Jesús ráðlagði okkur að vera gjafmild. (Lúkas 6:38) Reyndu að vera gjafmildur við vini og ættingja. Gerðu þér far um að taka eftir þörfum annarra og bjóða fram hjálp þína þegar þú getur. Fólk bregst vel við slíku örlæti. Þú uppgötvar sjálfsagt að þú ert alls ekkert einmana þótt þú sért einbirni.

[Mynd á blaðsíðu 53]

Ég sakna þess oft að eiga ekki systur, en samt hefur það sína kosti að vera einbirni.