Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju skildu pabbi og mamma?

Af hverju skildu pabbi og mamma?

4. kafli

Af hverju skildu pabbi og mamma?

„Ég man eftir því þegar pabbi fór frá okkur. Við höfðum ekki hugmynd um hvað var á seyði. Mamma þurfti að fara út að vinna og lét okkur vera alein heima daginn út og daginn inn. Stundum sátum við bara við gluggann og biðum. Var hún kannski farin frá okkur líka? . . .“ — Dóttir fráskilinna foreldra.

SKILNAÐUR foreldra getur virst eins og heimsendir fyrir barn eða ungling. Sársaukinn er slíkur að það er erfitt að ímynda sér að hann hverfi nokkurn tíma. Oft fylgir holskefla annarra tilfinninga — skömm, reiði, kvíði, sektarkennd, þunglyndi, ótti við að vera yfirgefinn og sár söknuður — jafnvel hefndarþorsti.

Ef foreldrar þínir hafa skilið nýlega þekkirðu kannski líka þessar tilfinningar. Skapari okkar ætlaðist nefnilega til að báðir foreldrar þínir önnuðust uppeldi þitt. (Efesusbréfið 6:1-3) En nú hefurðu verið sviptur daglegri návist föður þíns eða móður sem þú annt. „Ég leit virkilega upp til pabba og vildi vera með honum,“ segir Páll en foreldrar hans skildu þegar hann var sjö ára. „En mamma fékk forræði okkar.“

Hvers vegna hjón slíta samvistum

Foreldrar leyna vandamálum sínum oft vel. „Ég man ekki eftir að hafa heyrt foreldra mína rífast,“ segir Líney en foreldrar hennar skildu meðan hún var barn að aldri. „Ég hélt að þeim semdi vel.“ Og jafnvel þótt foreldrarnir rífist getur það verið jafnmikið áfall fyrir börnin þegar þeir slíta samvistum!

Algengt er að siðferðisbrot annars foreldranna sé orsök þess að upp úr slitnar. Í því tilviki leyfir Guð saklausa makanum að skilja. (Matteus 19:9) Í öðrum tilvikum hefur ‚ofsi, reiði, hávaði og lastmæli‘ leitt til ofbeldis með þeim afleiðingum að annað foreldranna óttast um öryggi sitt og barnanna. — Efesusbréfið 4:31.

Stundum skilja hjón reyndar af ómerkilegu tilefni. Í stað þess að leysa vandamál sín kjósa sumir í eigingirni að slíta hjónabandinu undir því yfirskini að þeir séu ‚óhamingjusamir‘ eða ‚elski ekki lengur maka sinn.‘ Það er Guði vanþóknanlegt en hann ‚hatar hjónaskilnað.‘ (Malakí 2:16) Jesús gaf líka í skyn að sumir myndu slíta hjónabandinu af því að maki þeirra gerðist kristinn. — Matteus 10:34-36.

En hver sem kann að vera orsökin fyrir skilnaði foreldra þinna máttu ekki halda að þeir elski þig ekki, þótt þeir hafi kosið að segja sem minnst eða gefi þér aðeins óljós svör við spurningum þínum um skilnaðinn. * Kannski eiga foreldrar þínir hreinlega erfitt með að tala um skilnaðinn sökum sársaukans sem fylgir honum. (Orðskviðirnir 24:10) Þeim getur líka þótt erfitt og vandræðalegt að játa að þeim hafi mistekist.

Það sem þú getur gert

Reyndu að finna rétta augnablikið til að ræða rólega um áhyggjur þínar við foreldra þína. (Orðskviðirnir 25:11) Segðu þeim hve hryggur og ráðvilltur þú sért vegna skilnaðarins. Kannski færðu viðunandi skýringu. Ef ekki skaltu ekki örvænta. Lét ekki Jesús ýmislegt ósagt við lærisveina sína vegna þess að hann taldi þá ekki tilbúna að heyra það? (Jóhannes 16:12) Og eiga ekki foreldrar þínir rétt á sínu einkalífi?

Láttu þér líka skiljast að hjónaskilnaðurinn, hver sem orsök hans er, stafar af ósætti foreldra þinna hvort við annað — ekki við þig! Í könnun Wallersteins og Kellys, sem náði til 60 skilnaðarfjölskyldna, kom í ljós að hjón kenndu hvoru öðru, vinnuveitendum, ættingjum og vinum um hjónaskilnaðinn. „Athyglisvert er að engin hjón kenndu börnunum um,“ segja rannsóknarmennirnir. Tilfinningar foreldra þinna til þín eru óbreyttar.

Tíminn læknar

„Að lækna hefir sinn tíma,“ segir Prédikarinn 3:3. Líkt og það tekur beinbrot vikur eða jafnvel mánuði að gróa fullkomlega, eins tekur það tíma fyrir tilfinningaleg sár að gróa.

Wallerstein og Kelly komust að þeirri niðurstöðu að einungis tveim árum eftir hjónaskilnaðinn hefði „hinn djúpstæði ótti, sorgin og hin lamandi vantrú . . . rénað eða horfið með öllu.“ Sumir sérfræðingar telja að börn komist yfir verstu afleiðingar hjónaskilnaðar á aðeins þrem árum. Það getur virst langur tími, en margt þarf að gerast áður en líf þitt kemst á réttan kjöl á ný.

Hjónaskilnaðurinn hefur til dæmis sett heimilislífið á annan endann og það þarf að komast í fastar skorður á ný. Það tekur foreldra þína líka nokkurn tíma að jafna sig tilfinningalega. Óvíst er að þeir geti veitt þér þann stuðning, sem þú þarfnast, fyrr en þá. Þegar regla kemst á líf ykkar á nýjan leik fer þér aftur að líða betur.

En Salómon varaði við: „Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.“ (Prédikarinn 7:10) Ef þú hugsar of mikið um fortíðina getur hún blindað þig fyrir líðandi stund. Hvernig var fjölskyldulífið fyrir skilnaðinn? „Það voru sífelld rifrildi — óp og svívirðingar,“ viðurkennir Annette. Er kannski meiri friður og ró á heimilinu núna?

‚Ég get fengið þau til að sættast‘

Stundum dreymir börn og unglinga um það að fá foreldra sína til að sættast aftur, og halda jafnvel enn í þá tálsýn eftir að foreldrar þeirra hafa fundið sér nýja maka!

Það breytir hins vegar engu að loka augunum fyrir skilnaðinum. Og trúlega myndu öll heimsins tár, bænir og brögð ekki megna að fá foreldra þína til að taka saman á ný. Hvers vegna þá að kvelja sjálfan sig með því að hugsa stöðugt um það sem gerist líklega aldrei? (Orðskviðirnir 13:12) Salómon sagði að ‚það hefði sinn tíma að týna‘ eða telja eitthvað glatað. (Prédikarinn 3:6) Ef þú viðurkennir að skilnaðurinn sé óbreytanlegur veruleiki hefurðu stigið stórt skref í þá átt að komast yfir áfallið.

Vertu sáttur við foreldra þína

Þér finnst þú kannski hafa fullt tilefni til að vera foreldrum þínum reiður fyrir að setja líf þitt á annan endann, eins og ungur maður sagði beisklega: „Foreldrar mínir voru eigingjarnir. Þeir hugsuðu ekki um okkur og hvaða áhrif skilnaðurinn hefði á okkur. Þeir gerðu bara það sem þeim sjálfum sýndist.“ Þetta kann að vera rétt, en ertu ekki sjálfum þér verstur ef þú lætur reiði og beiskju fylgja þér alla ævi?

Biblían ráðleggur: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði . . . vera fjarlægt yður . . . Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum.“ (Efesusbréfið 4:31, 32) Hvernig geturðu fyrirgefið þeim sem hefur sært þig svona djúpt? Reyndu að líta hlutlægt á foreldra þína — sem skeikula, ófullkomna menn. Jafnvel foreldrar ‚syndga og skortir Guðs dýrð.‘ (Rómverjabréfið 3:23) Ef þú gerir þér grein fyrir því áttu auðveldara með að vera sáttur við þá.

Talaðu út um tilfinningar þínar

„Ég hef eiginlega aldrei talað um það hvernig mér leið þegar foreldrar mínir skildu,“ sagði ungur maður sem við töluðum við. Í fyrstu fór hann dult með tilfinningar sínar en eftir því sem hann talaði lengur um skilnað foreldra sinna gaf hann tilfinningunum lausari tauminn — og grét jafnvel. Tilfinningar, sem hann hafði lengi bælt niður, fengu nú útrás. Hann var sjálfur hissa á því en viðurkenndi að það hafði gert honum gott að geta talað út um tilfinningar sínar.

Þú getur líka haft gott af því að trúa einhverjum, sem þú treystir, fyrir tilfinningum þínum, í stað þess að byrgja þær inni. Segðu foreldrum þínum nákvæmlega hvað þér finnst, hvað þú óttast og hvað veldur þér áhyggjum. (Sjá Orðskviðina 23:26.) Þroskaðir kristnir menn geta einnig hjálpað þér. Kjartan fékk til dæmis lítinn sem engan stuðning frá fjölskyldu sinni sem sundraðist vegna hjónaskilnaðar en hann fékk stuðning annars staðar frá. Hann segir: „Kristni söfnuðurinn varð fjölskylda mín.“

Framar öllu öðru átt þú vísa áheyrn hjá himneskum föður þínum, honum sem „heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3) Ungur piltur, Páll, minnist þess hvað hjálpaði honum að komast yfir áfallið sem skilnaður foreldra hans var: „Ég bað og bað og Jehóva varð mér mjög raunverulegur.“

Lífið heldur áfram

Lífið verður kannski aldrei eins og það var fyrir skilnaðinn, en það þýðir ekki að þú getir aldrei framar litið glaðan dag eða fundist líf þitt hafa tilgang. „Verið ekki hálfvolgir í áhuganum,“ ráðleggur Biblían. (Rómverjabréfið 12:11) Þú þarft að láta lífið halda áfram í stað þess að lamast af sorg, sársauka eða reiði! Sökktu þér niður í skólanámið. Finndu þér tómstundagaman. Vertu ‚síauðugur í verki Drottins.‘ — 1. Korintubréf 15:58.

Það kostar einbeitni, erfiði og tíma fyrir þig að komast yfir það áfall sem skilnaður foreldra þinna er, en með tíð og tíma hættir hann að skyggja á allt annað í lífi þínu.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Rannsóknarmennirnir Wallerstein og Kelly komust að þeirri niðurstöðu að „fjögur af hverjum fimm yngstu börnum [fráskilinna foreldra], sem könnunin náði til, hafi annaðhvort ekki fengið viðhlítandi skýringu [á skilnaðinum] eða fullvissu um áframhaldandi umhyggju foreldra sinna. Í reynd vöknuðu þau einn góðan veðurdag við það að annað foreldranna var farið.“

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna skilja sumir foreldrar?

◻ Hvers vegna getur verið erfitt fyrir foreldrana að tala um skilnaðinn? Hvað geturðu gert ef þeir veigra sér við að tala um hann?

◻ Hvers vegna er tilgangslaust að hugsa sífellt um fortíðina eða ímynda sér að maður geti komið foreldrum sínum saman á ný?

◻ Hvað geturðu gert til að hjálpa sjálfum þér að komast yfir áfallið?

◻ Hvernig geturðu yfirunnið reiði sem þú kannt að finna til í garð foreldra þinna?

[Rammi á blaðsíðu 36, 37]

‚Mun skilnaður foreldra minna eyðileggja líf mitt?‘

Sumir unglingar nánast eyðileggja líf sitt eftir að foreldrar þeirra skilja. Sumir taka fljótfærnislegar ákvarðanir, svo sem að hætta skólanámi. Hjá öðrum brjótast vonbrigðin og reiðin út í óstýrilæti og slæmri hegðun — rétt eins og þeir séu að refsa foreldrum sínum fyrir skilnaðinn. Denny segir: „Ég var vansæll og niðurdreginn eftir skilnað foreldra minna. Mér fór að ganga illa í skólanum og eitt árið féll ég. Eftir það . . . varð ég hirðfífl bekkjarins og var sífellt að lenda í slagsmálum.“

Þú nærð vafalaust athygli foreldra þinna með því að hegða þér illa. En hvað ávinnur þú annað en að auka á spennuna sem er þó nóg fyrir? Eiginlega ertu bara að „refsa“ sjálfum þér með rangri breytni þinni. (Galatabréfið 6:7) Reyndu að skilja að foreldrar þínir þjást líka og það er ekki af illvilja sem þeir virðast vanrækja þig. Móðir Dennys viðurkennir til dæmis: „Ég veit vel að ég vanrækti börnin mín. Ég var í algeru rusli eftir skilnaðinn og gat hreinlega ekki hjálpað þeim.“

Biblían ráðleggur í Hebreabréfinu 12:13: „Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði.“ Jafnvel þótt ögun foreldranna sé áfátt er það engin afsökun fyrir slæmri hegðun. (Jakobsbréfið 4:17) Taktu ábyrgð á gerðum þínum og agaðu sjálfan þig. — 1. Korintubréf 9:27.

Forðastu fljótfærnislegar ákvarðanir, svo sem að flytjast að heiman. „Kænn maður athugar fótmál sín,“ segja Orðskviðirnir 14:15. Hvernig væri að ræða við þér eldri vin um hvað þú eigir að gera ef foreldrar þínir virðast of annars hugar þessa stundina til að ljá þér eyra?

Kannski hefurðu samt áhyggjur af ýmsu sem varðar framtíð þína. Úr því að hjónaband foreldra þinna hefur beðið skipbrot er eðlilegt að þú veltir fyrir þér hvaða líkur þú eigir á farsælu hjónabandi. Sem betur fer er óhamingjusamt hjónaband ekki arfgengt — líkt og freknur. Þú ert sjálfstæður einstaklingur og farsæld þín í hjónabandi í framtíðinni ræðst ekki af mistökum foreldra þinna heldur því hve vel þú og maki þinn farið eftir orði Guðs.

Vera má að þú farir líka að hafa áhyggjur núna af því sem þú gekkst að áður sem gefnum hlut — fæði, klæði, húsnæði og peningum. Yfirleitt finna foreldrar þó einhverja leið til að sjá fyrir börnum sínum eftir hjónaskilnað, jafnvel þótt það kosti að móðirin þurfi að fara að vinna úti. En bókin Surviving the Breakup varar við með raunsæi: „Nú þarf það sem áður framfleytti einni fjölskyldu að duga tveim. Það hefur í för með sér að allir í fjölskyldunni neyðast til að gera minni lífsgæðakröfur.“

Því getur svo farið að þú þurfir að sætta þig við að vera án þess sem þú hafðir efni á áður — til dæmis nýrra fata. En Biblían minnir okkur á: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Ef til vill getur þú jafnvel lagt þitt af mörkum við gerð nýrrar fjárhagsáætlunar handa fjölskyldunni. Mundu líka að Jehóva er „faðir föðurlausra.“ (Sálmur 68:6) Þú mátt treysta að hann veiti þörfum þínum athygli.

Jeremía sagði: „Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku.“ (Harmljóðin 3:27) Að vísu er það ekkert „gott“ að sjá foreldra sína skilja, en þú getur jafnvel látið þessa erfiðu lífsreynslu verða þér til góðs.

Rannsóknarmaðurinn Judith Wallerstein segir: „Sá tilfinninga- og vitsmunaþroski [barna fráskilinna foreldra], sem spratt upp úr erfiðleikum fjölskyldunnar, var athyglisverður og stundum átakanlegur. Börnin . . . íhuguðu með raunsæi lífsreynslu foreldra sinna og drógu skynsamlegar ályktanir í sambandi við sína eigin framtíð. Þau höfðu áhuga á að finna leiðir til að forðast mistök foreldra sinna.“

Skilnaður foreldra þinna kann vissulega að hafa mikil áhrif á líf þitt, en það er að miklu leyti undir sjálfum þér komið hvort hann skilur eftir lítið ör eða gapandi sár.

[Mynd á blaðsíðu 35]

Að horfa upp á hjónaband foreldra sinna fara út um þúfur getur verið einhver erfiðasta lífsreynsla sem hægt er að hugsa sér.

[Mynd á blaðsíðu 38]

Það getur gert þig niðurdreginn að hugsa of mikið um lífið eins og það var.