Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég fengið foreldra mína til að gefa mér meira frjálsræði?

Hvernig get ég fengið foreldra mína til að gefa mér meira frjálsræði?

3. kafli

Hvernig get ég fengið foreldra mína til að gefa mér meira frjálsræði?

ÞÚ segist vera nógu gamall til að fá að vera úti fram eftir um helgar. Þau segja að þú þurfir að koma snemma heim. Þú segist vilja sjá nýju kvikmyndina sem allir eru að tala um. Þau segja nei. Þú segist hafa kynnst skemmtilegum krökkum og viljir fara í bæinn með þeim. Þau segjast vilja fá að hitta vini þína fyrst.

Meðan þú ert unglingur getur þér stundum fundist foreldrar þínir halda þér í járngreipum. Það er engu líkara en að þeir segi alltaf „nei“ við öllu sem þig langar til að gera. Það er ekkert til sem þeir eru ekki með nefið ofan í. Dísa, sem er fimmtán ára, segir: „Pabbi minn vill alltaf vita hvar ég er og hvenær ég kem heim. Þannig eru flestir foreldrar. En þurfa þau að vita allt? Mér finnst að þau ættu að veita mér meira frjálsræði.“

Unglingar kvarta enn fremur undan því að foreldrarnir virði þá ekki. Þegar eitthvað fer úrskeiðis dæmi foreldrarnir þá seka án þess að hlusta á málavexti, í stað þess að treysta þeim. Settar séu reglur um alla hluti; þeir fái engu að ráða sjálfir.

‚Angistarfullir‘ foreldrar

Koma foreldrarnir stundum fram við þig eins og smábarn? Þá skaltu hafa hugfast að það er ekki langt síðan þú varst smábarn. Foreldrar þínir hafa enn ferska mynd af þér í huga sem hjálparvana hvítvoðungi og eiga ekki auðvelt með að leggja hana á hilluna. Þeir muna enn eftir þeim barnalegu mistökum, sem þú gerðir, og vilja því vernda þig — hvort sem þú kærir þig um slíka vernd eða ekki.

Þessi verndarhvöt foreldranna er afarsterk og djúpstæð. Þegar þeir eru ekki önnum kafnir við að sjá þér fyrir fæði, klæði og húsnæði eru þeir oft að brjóta heilann um hvernig þeir eigi að ala þig upp, kenna þér og vernda. Áhugi þeirra á velferð þinni er alls ekkert yfirborðslegur. Þeir bera ábyrgð á því fyrir Guði hvernig þeir ala þig upp. (Efesusbréfið 6:4) Og þegar eitthvað virðist ógna velferð þinni verða þeir áhyggjufullir.

Lítum til foreldra Jesú Krists sem dæmi. Eftir heimsókn til Jerúsalem lögðu þeir af stað heimleiðis án þess að taka eftir að Jesús var ekki með. Þegar þeir uppgötvuðu að hann var ekki með þeim fóru þeir að leita hans ákafir og trúlega skelfdir. Loks fundu þeir hann í musterinu og móðir hans hrópaði upp yfir sig: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín angistarfull.“ (Lúkas 2:41-48, New World Translation) Ef nú Jesús, sem var fullkomið barn, gat valdið foreldrum sínum áhyggjum, þá geturðu rétt ímyndað þér hve miklar áhyggjur foreldrar þínir hljóta að hafa af þér!

Tökum sem dæmi hinn endalausa ágreining um það klukkan hvað þú skulir koma heim. Ef til vill sérðu enga ástæðu til þess að þér skuli settar slíkar hömlur. En hefurðu nokkurn tíma reynt að sjá hlutina með augum foreldra þinna? Nokkur börn á skólaaldri reyndu að gera það og gáfu út bók sem heitir The Kids’ Book About Parents (Bók barnanna um foreldra). Þeir tóku saman lista yfir það sem þeir kölluðu „hugaróra foreldra um það hvað krakkarnir þeirra væru að gera ef þeir væru ekki komnir heim á tilskildum tíma.“ Á listanum er tíundað að börnin séu ‚að neyta fíkniefna, hafi lent í bílslysi, séu að þvælast á götunni, hafi verið handtekin, hafi farið að sjá klámmynd í bíó, séu að selja fíkniefni, hafi verið nauðgað eða orðið fyrir líkamsárás, hafi lent í fangelsi, eða komið óorði á fjölskylduna.‘

Að sjálfsögðu gera ekki allir foreldrar sér í hugarlund að eitthvað svona alvarlegt hafi gerst. En er það ekki staðreynd að eitthvað þessu líkt hendir fjöldann allan af ungu fólki? Ættirðu þá að reiðast því ef foreldrar þínir halda því fram að það geti verið þér til tjóns að vera úti fram á nætur og líka í óæskilegum félagsskap? Jafnvel foreldrar Jesú vildu vita hvar hann hélt sig!

Hvers vegna þeir ‚ofvernda‘ þig

Sumir unglingar segja að ótti foreldra þeirra við að eitthvað komi fyrir þá jaðri við taugaveiklun. En gleymdu ekki hve miklum tíma og ástúð hefur verið varið í uppeldi þitt. Sú tilhugsun að þú sért að verða fullorðinn og hleypir heimdraganum áður en langt um líður getur gert foreldra þína órólega. „Einkabarn mitt, sonur minn, er nú nítján ára, og mér finnst það næstum óbærileg tilhugsun að hann flytjist að heiman,“ skrifaði móðir.

Sumir foreldrar hafa þar af leiðandi tilhneigingu til að ofvernda börn sín. Það væri þó misráðið af þér að bregðast ókvæða við. Ung kona segir: „Fram undir átján ára aldur var mjög náið samband milli mín og móður minnar. . . . En eftir það fór að örla á samskiptavandamálum. Ég vildi verða ögn sjálfstæðari en henni hlýtur að hafa fundist það ógna sambandi okkar. Hún reyndi því að halda mér enn fastar og ég brást þannig við að ég reyndi enn meira að slíta mig lausa.“

Sjálfstæði að vissu marki er gott en fórnaðu ekki fjölskylduböndunum fyrir það. Hvernig geturðu fengið foreldra þína til að viðurkenna að þú sért að fullorðnast og að byggja samband ykkar á gagnkvæmum skilningi, umburðarlyndi og virðingu? Stígðu sjálfur fyrsta skrefið með því að sýna foreldrum þínum virðingu. Páll postuli sagði einu sinni: „Vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim.“ (Hebreabréfið 12:9) Þeir foreldrar, sem Páll var að tala um, voru ekki fullkomnir. Hann hélt áfram í 10. versi: „Jarðneskir feður okkar . . . gátu aðeins gert það sem þeir töldu best.“ — The Jerusalem Bible.

Stundum lögðu þessir feður ekki rétt mat á aðstæður en eigi að síður verðskulduðu þeir virðingu barna sinna. Hið sama má segja um foreldra þína. Þótt þeir reyni kannski að ofvernda þig er engin ástæða til að vera uppreisnargjarn. Sýndu þeim sömu virðingu og þú vilt að þeir sýni þér.

Misskilningur

Hefurðu einhvern tíma orðið of seinn heim af óviðráðanlegum orsökum? Brugðust foreldrar þínir of harkalega við? Misskilningur af þessu tagi er enn eitt tækifæri fyrir þig til að ávinna þér virðingu þeirra. Manstu hvernig Jesús hegðaði sér þegar foreldrar hans, sem voru í uppnámi, fundu hann loks í musterinu, þar sem hann var í mesta sakleysi að ræða orð Guðs við nokkra af kennurunum? Rauk hann upp með tilfinningaþrungnum orðaflaumi eða grét og barmaði sér yfir því hve foreldrar hans væru ósanngjarnir að efast um að honum hefði gengið gott eitt til? Nei, hann svaraði stillilega: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ (Lúkas 2:49) Vafalaust hefur sá þroski, sem birtist í þessu svari, haft áhrif á foreldra Jesú. „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði“ og það getur líka hjálpað þér að ávinna virðingu foreldra þinna. — Orðskviðirnir 15:1.

Boð og bönn

Viðbrögð þín við kröfum foreldra þinna hafa líka heilmikil áhrif á hvernig þeir koma fram við þig. Sumir unglingar eru með ólund, óhlýðnast foreldrum sínum eða ljúga upp í opið geðið á þeim. Reyndu að sýna meiri þroska en það. Ef þú vilt fá leyfi til að koma seint heim, vertu þá ekki með barnalega heimtufrekju eða væl um að „allir hinir krakkarnir megi það.“ Rithöfundurinn Andrea Eagan ráðleggur: „Útskýrðu sjónarmið þitt eins vel og þú getur og segðu þeim hvað það sé sem þú vilt gera, þannig að þeir skilji málið til hlítar. . . . Ef þú segir þeim hvar þú verðir, með hverjum og hvers vegna það skipti máli fyrir þig að fá að vera lengur frameftir . . . þá er vel hugsanlegt að þú fáir leyfi.“

Ef foreldrar þínir vilja kynnast vinum þínum — og það ættu þeir að gera — þá skaltu ekki vola eins og krakki. Tímaritið Seventeen ráðleggur: „Taktu vini þína með heim af og til þannig að pabbi þinn hafi enga ástæðu til að hrópa innan úr stofu: ‚Jóa? Hvaða Jóa?‘ þegar þú segist ætla í bíó með Jóa.“

‚Honum verður gefið meira‘

Jakob brosir þegar hann minnist á Reyni, yngri bróður sinn. „Það eru bara ellefu mánuðir milli okkar,“ segir hann, „en foreldrar okkar tóku okkur mjög ólíkum tökum. Ég fékk mikið frjálsræði. Ég fékk að nota fjölskyldubílinn. Einu sinni fékk ég meira að segja að taka yngri bróður með mér í ferðalag til New York.“

Jakob heldur áfram: „Það var önnur saga með Reyni. Hann fékk alls ekki mikið frjálsræði. Pabbi leyfði honum ekki einu sinni að læra á bíl þegar hann hafði aldur til. Og þegar Reyni fannst hann orðinn nógu gamall til að fara út með stelpum mátti hann það ekki fyrir foreldrum mínum.“

Var verið að mismuna drengjunum? Nei. Jakob segir: „Reynir var frekar ábyrgðarlaus. Hann var framtakslítill og gerði oft ekki það sem honum var falið. Ég var aldrei hortugur við foreldra mína en Reynir lét þá ekki vera í neinum vafa þegar hann var þeim ósammála. Það var alltaf að koma honum í koll.“ Jesús sagði í Matteusi 25:29: „Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.“

Vilt þú fá aukið frjálsræði og ábyrgð? Sýndu þá ábyrgðartilfinningu. Taktu alvarlega sérhvert verkefni sem foreldrar þínir fela þér. Vertu ekki eins og ungi maðurinn í einni af dæmisögum Jesú sem fékk þessi fyrirmæli frá föður sínum: „Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.“ Hann svaraði: „‚Já, herra,‘ en fór hvergi.“ (Matteus 21:28, 29) Sannfærðu foreldra þína um að biðji þeir þig að gera eitthvað, hvort sem það er smátt eða stórt, sé það sama sem gert.

„Ég sýndi foreldrum mínum að ég gæti axlað ábyrgð,“ segir Jakob. „Þeir sendu mig út í banka til að borga heimilisreikningana og út í verslun til að kaupa inn fyrir heimilið. Og þegar mamma þurfti að fara út að vinna eldaði ég jafnvel fyrir fjölskylduna.“

Taktu frumkvæðið

Hvað þá ef foreldrar þínir hafa einfaldlega ekki falið þér nein slík verkefni? Taktu þá sjálfur frumkvæðið. Tímaritið Seventeen leggur til: „Bjóðstu til að elda matinn fyrir fjölskylduna einhvern daginn og segðu foreldrum þínum að þú munir sjá fyrir öllu: ákveða matseðilinn, gera innkaupalista og kostnaðaráætlun, kaupa inn, elda, taka til og þvo upp.“ Ef matargerð er ekki þín sterka hlið skaltu líta í kringum þig og reyna að koma auga á eitthvað annað sem þú getur gert. Þú þarft ekki að bíða eftir sérstakri skipun frá foreldrum þínum þegar eftir er að þvo upp, ryksuga eða taka til.

Margir unglingar vinna á sumrin eða utan skólatíma. Gerir þú það? Hefurðu þá sýnt að þú getir lagt fyrir og farið skynsamlega með peningana þína? Hefurðu boðist til að leggja eitthvað af mörkum fyrir fæði og húsnæði? (Það gæti komið þér á óvart hvað það kostar mikið að leigja herbergi úti í bæ.) Þú gætir haft minni vasapeninga fyrir vikið, en þegar foreldrar þínir sjá ábyrgðartilfinningu þína í meðferð peninga hafa þeir vafalaust tilhneigingu til að veita þér meira frjálsræði.

Lærðu að standa á eigin fótum

Foreldrar ættu að vera trúnaðarvinir okkar sem alltaf er hægt að leita ráða og leiðbeininga hjá. (Samanber Jeremía 3:4, New World Translation.) Það merkir þó ekki að þú þurfir að láta þá taka hverja einustu ákvörðun í smæstu málum fyrir þig. Aðeins með því að nota sjálfur það sem Biblían kallar ‚skilningsgáfuna‘ getur þú lært að treysta á eigin hæfni til að taka ákvarðanir. — Hebreabréfið 5:​14, New World Translation.

Í stað þess að hlaupa til foreldra þinna strax og eitthvert minni háttar vandamál skýtur upp kollinum skaltu fyrst reyna að hugsa út hvernig þú getir leyst vandann. Í stað þess að vera ‚gálaus‘ eða hvatvís skaltu fylgja því ráði Biblíunnar að „læra hyggindi“ og íhuga vandann. (Jesaja 32:4) Kynntu þér málið, einkum ef meginreglur Biblíunnar eiga í hlut. Eftir að hafa yfirvegað málið í ró og næði skaltu leggja það fyrir foreldra þína. Í stað þess að spyrja sífellt: ‚Pabbi, hvað á ég að gera?‘ eða ‚Mamma, hvað myndir þú gera?‘ skaltu greina frá málavöxtum og leyfa foreldrum þínum að heyra hvað þú hafir úthugsað. Síðan geturðu beðið þá um álit þeirra.

Ef þú gerir þetta heyra foreldrarnir þig tala eins og fullorðinn mann en ekki eins og barn. Þú hefur þá stigið stórt skref í þá átt að sýna þig fullorðinn og verðskulda visst frjálsræði. Vel má vera að foreldrar þínir byrji að koma fram við þig eins og fullorðinn einstakling.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna láta foreldrar sér svona annt um að vernda börn sín og vilja vita hvar þau eru og hvað þau eru að gera?

◻ Hvers vegna er mikilvægt að þú sýnir foreldrum þínum virðingu?

◻ Hvernig er best að leiðrétta misskilning milli þín og foreldra þinna?

◻ Hvernig geturðu notið ákveðins frjálsræðis jafnhliða því að virða boð og bönn foreldra þinna?

◻ Nefndu dæmi um hvernig þú getir sýnt foreldrum þínum að þú sért ábyrgur einstaklingur.

[Innskot á blaðsíðu 29]

Pabbi minn vill alltaf vita hvar ég er og hvenær ég kem heim. . . . Þurfa þau að vita allt?“

[Mynd á blaðsíðu 27]

Finnst þér foreldrarnir loka þig inni í búri?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Varðveittu stillingu þína ef þú ert misskilinn — það er ein leið til að ávinna sér virðingu.