Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég tekið því að pabbi eða mamma giftist aftur?

Hvernig get ég tekið því að pabbi eða mamma giftist aftur?

5. kafli

Hvernig get ég tekið því að pabbi eða mamma giftist aftur?

„Dagurinn þegar pabbi kvæntist Ritu var versti dagur ævi minnar,“ segir Shane. „Ég var bálreið — við pabba fyrir að svíkja mömmu, við mömmu fyrir að fara frá okkur til að læra lögfræði, við þessi tvö krakkakvikindi hennar Ritu sem áttu núna að flytjast til okkar, í húsið okkar . . . en reiðust var ég þó við Ritu . . . Ég hataði hana. Og ég vissi að það væri rangt að hata og þess vegna var ég líka bálreið við sjálfa mig.“ — Stepfamilies, New Patterns in Harmony eftir Lindu Craven.

ÞEGAR annað hvort foreldranna giftist á ný eru allar vonir brostnar um að þeir taki saman aftur. Það getur gert þig afbrýðisaman eða óöruggan — eða látið þér finnast þú vera svikinn.

Sérstaklega getur það verið sársaukafullt fyrir barn eða ungling ef eftirlifandi foreldri giftist á ný skömmu eftir dauða maka síns. „Ég varð mjög beisk eftir að mamma dó,“ viðurkennir Missy sem er sextán ára. „Mér fannst unnusta pabba vera að taka sér stöðu mömmu minnar, þannig að ég var mjög andstyggileg við hana.“ Ef þér fer að þykja vænt um stjúpforeldri þitt getur þér jafnvel fundist þú hafa brugðið trúnaði við kynforeldri þitt.

Það kemur því ekki á óvart að tilfinningakvölin skuli oft brjótast út sem niðurrifshvöt. Sumir leggja jafnvel á ráðin um að eyðileggja hið nýstofnaða hjónaband föður síns eða móður. En mundu að kynforeldri þitt og stjúpforeldri hafa gefið hvort öðru heit frammi fyrir Guði. „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður [eða barn] eigi sundur skilja.“ (Matteus 19:6) Og jafnvel þótt þér tækist að eyðileggja hjónaband þeirra myndi það ekki sameina foreldra þína á ný.

Það er heldur engin skynsemi í því að eiga í sífelldu stríði við stjúpforeldri sitt. Orðskviðirnir 11:29 segja í varnaðartón: „Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind,“ það er að segja hann hefur ekkert upp úr því. Gerðu, fimmtán ára, var í nöp við stjúpmóður sína og óvildin endaði með hörkurifrildi. Hver var afleiðingin? Stjúpmóðirin setti manni sínum þá úrslitakosti að velja milli hennar eða dótturinnar. Það endaði með því að Gerða fluttist aftur til móður sinnar — sem var einnig búin að gifta sig á ný.

Kærleikur hjálpar þér

Hvernig er hægt að sætta sig við það að annað foreldranna gangi í hjónaband á ný? Með því að sýna þann agaða kærleika sem lýst er í 1. Korintubréfi 13:4-8:

Kærleikurinn „leitar ekki síns eigin.“ Það merkir að ‚hyggja ekki að eigin hag heldur hag annarra.‘ (1. Korintubréf 10:24) Ættirðu að taka því illa ef faðir þinn eða móðir þarfnast aftur maka til að styðjast við?

Kærleikurinn „öfundar ekki.“ Oft vilja börn og unglingar ekki deila kærleika foreldra sinna með neinum öðrum. En þú þarft ekki að óttast að foreldri þitt verði uppiskroppa með kærleika því að kærleikurinn getur vaxið. (Sjá 2. Korintubréf 6:11-13.) Pabbi þinn eða mamma getur elskað nýjan maka án þess að kærleikurinn til þín dvíni nokkuð. Ertu fús til að opna hjarta þitt þannig að rúm sé fyrir stjúpforeldri þitt? Þú getur gert það án þess að vera á nokkurn hátt ótrúr því foreldri þínu sem farið er.

Kærleikurinn „hegðar sér ekki ósæmilega.“ Það getur valdið siðferðilegum þrýstingi að búa undir sama þaki og stjúpsystkini af hinu kyninu. Sagt er að óleyfileg kynmök eigi sér stað milli fjölskyldumeðlima í fjórðu hverri fjölskyldu sem þannig er saman sett.

Davíð, sem eignaðist fjórar stjúpsystur á táningaaldri þegar móðir hans giftist á ný, segir: „Ég þurfti að setja upp slagbranda í huganum gegn kynferðislegum löngunum.“ Þú þarft líka að forðast að vera kumpánlegur úr hófi fram og gæta þess að vera ekki kynferðislega ögrandi í klæðaburði. — Kólossubréfið 3:5.

Kærleikurinn „þolir allt . . . Hann gefur okkur kraft til að umbera allt.“ (Þýðing Charles B. Williams) Stundum virðist ekkert ætla að duga til að lina tilfinningakvölina. Marta segir: „Mér fannst eiginlega ekki pláss fyrir mig heima. Ég sagði mömmu meira að segja að ég vildi að ég hefði aldrei fæðst.“ Marta varð mótþróafull og hljópst meira að segja að heiman en núna segir hún: „Það er best að þrauka.“ Beiskjan, ráðvillan og kvölin, sem þú upplifðir í fyrstu, rénar smám saman ef þú þraukar.

‚Þú ert ekki pabbi minn/mamma mín!‘

Það er ekki auðvelt að taka við aga frá nýjum stjúpföður eða stjúpmóður, og þegar hann eða hún biður þig að gera eitthvað getur verið freistandi að hreyta út úr sér: ‚Þú ert ekki pabbi minn/mamma mín!‘ En mundu eftir meginreglunni í 1. Korintubréfi 14:20: „Verið . . . fullorðnir í dómgreind.“

Þú getur meðal annars sýnt þig fullorðinn í dómgreind með því að sætta þig við að stjúpforeldri þitt hafi vald til að aga þig. Stjúpforeldrið er að rækja sömu skyldur og kynfaðir þinn eða kynmóðir og verðskuldar virðingu þína. (Orðskviðirnir 1:8; Efesusbréfið 6:1-4) Ester, sem Biblían segir frá, ólst upp hjá ‚fósturföður‘ er foreldrar hennar dóu. Þótt Mordekai væri ekki kynfaðir hennar ‚hlýddi hún fyrirmælum hans,‘ jafnvel eftir að hún var orðin fullorðin! (Esterarbók 2:7, 15, 17, 20) Ef stjúpforeldri þitt agar þig er það í rauninni merki um kærleika og umhyggju fyrir þér. — Orðskviðirnir 13:24.

Að sjálfsögðu verður ekki hjá því komist að þú hafir stundum tilefni til að kvarta. Þegar það gerist skaltu sýna þig ‚fullorðinn‘ með því að gera eins og Kólossubréfið 3:13 hvetur til: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“

Lærðu að deila með öðrum og láta undan

Meðan Jamie, sem var 15 ára, bjó ein með móður sinni hafði hún einkaherbergi og klæddist dýrum fötum. Þegar móðir hennar giftist aftur breyttist aðstaða hennar. Nú átti hún skyndilega fjögur stjúpsystkini. „Ég hef ekki einu sinni mitt eigið herbergi lengur,“ sagði hún mæðulega. „Ég verð að deila öllu með öðrum.“

Svo getur farið að þú sért ekki lengur elsta barnið eða eina barnið. Ef þú ert drengur ertu ef til vill búinn að vera ‚karlmaðurinn á heimilinu‘ um skeið — en nú er stjúpfaðir þinn kominn í þá stöðu. Ef þú ert stúlka hafið þið mæðgurnar kannski verið eins og systur, jafnvel sofið í sama herbergi, en núna hefurðu eignast stjúpföður og allt er breytt.

„Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum,“ hvetur Biblían. (Filippíbréfið 4:5) Orðið, sem þýtt er „ljúflyndi,“ merkir „að gefa eftir“ og fól í sér þá hugsun að krefjast ekki allra lögmætra réttinda sinna. Reyndu því að gefa eftir, beygja þig. Reyndu að gera hið besta úr breyttum aðstæðum og forðastu að hugsa of mikið um fortíðina. (Prédikarinn 7:10) Vertu fús til að deila því sem þú átt með stjúpsystkinum þínum og komdu ekki fram við þau eins og utanaðkomandi aðila. (1. Tímóteusarbréf 6:18) Því fyrr sem þið byrjið að koma fram hvert við annað eins og raunveruleg systkini, þeim mun fyrr lærið þið að meta hvert annað. Ef kominn er ‚nýr karlmaður‘ á heimilið skaltu ekki vera honum mótsnúinn. Vertu heldur ánægður með að hann skuli vera hluti af fjölskyldunni og geta borið sinn skerf af heimilisábyrgðinni.

Þegar ykkur er mismunað

Ung stúlka viðurkennir að stjúpfaðir hennar sýni henni kærleika en bætir við: „Það er samt munur á. Hann ætlast til meira af okkur, agar okkur meira og er ekki eins skilningsríkur gagnvart okkur og sínum eigin börnum á sama reki. Við erum viðkvæm fyrir því.“

Stjúpforeldri getur yfirleitt ekki borið sömu tilfinningar til stjúpbarna og sinna eigin barna. Það stafar ekki fyrst og fremst af blóðböndunum heldur miklu frekar hinni sameiginlegu lífsreynslu þeirra. Jafnvel kynforeldri getur þótt vænna um eitt barn en annað. (1. Mósebók 37:3) Það er þó veigamikill munur á sömu meðferð og sanngjarnri meðferð. Persónuleiki manna er ólíkur og þarfirnar misjafnar. Í stað þess að gera þér óþarfar áhyggjur af því hvort þú sætir nákvæmlega sömu meðferð og stjúpsystkini þín skaltu reyna að koma auga á hvort stjúpforeldri þitt er að reyna að fullnægja þörfum þínum. Ef þér finnst eitthvað skorta þar á, þá hefurðu ástæðu til að ræða málið við stjúpforeldri þitt.

Kannski er ófriður á heimilinu stjúpsystkinum þínum að kenna. Gleymdu ekki að þau geta líka átt erfitt með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Kannski finnst þeim þú hafa þrengt þér inn í þeirra fjölskyldu og gremst návist þín. Þú skalt því gera þitt besta til að vera vingjarnlegur og ‚sigra illt með góðu‘ ef þau eru kuldaleg eða fálát við þig. (Rómverjabréfið 12:21) Auk þess er ekkert óvenjulegt að það kastist stundum í kekki milli bókstaflegra systkina. — Sjá 6. kafla.

Þolinmæði borgar sig!

„Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.“ (Prédikarinn 7:8) Yfirleitt tekur það nokkur ár fyrir þá sem tilheyra stjúpfjölskyldu að byggja upp gagnkvæmt traust og líða vel innan um hvert annað. Þá fyrst geta ólíkar venjur og gildismat samlagast svo að heimilislífið gangi snurðulaust fyrir sig. Vertu þolinmóður! Gerðu þér ekki vonir um „ást við fyrstu sýn“ eða að ykkur líði strax eins og fjölskyldu.

Tómas var kvíðinn, að ekki sé meira sagt, þegar móðir hans giftist á ný. Hann átti þrjú systkini og hinn nýi stjúpi hans átti þrjú börn. „Við slógumst, rifumst, fórum í fýlu — tilfinningaspennan var gífurleg,“ segir Tómas. Hvað veitti fjölskyldunni loks brautargengi? „Með því að fylgja meginreglum Biblíunnar leystum við vandamálin, ekki alltaf tafarlaust, en með tímanum, og með því að rækta ávexti anda Guðs tókst okkur loks að jafna ágreininginn.“ — Galatabréfið 5:22, 23.

Við áttum viðtöl við nokkra unglinga og svör þeirra sýna að ráð Biblíunnar duga ef þeim er fylgt:

Þannig heppnaðist það hjá sumum

Spyrill: Hvað gerðir þú til að fyrtast ekki þegar stjúpforeldri þitt agaði þig?

Lynch: Móðir mín og stjúpi stóðu alltaf saman er agi var annars vegar. Þegar eitthvað fór úrskeiðis komust þau að sameiginlegri niðurstöðu um hvað þau ættu að gera. Þegar ég var flengdur vissi ég alltaf að það var frá þeim báðum.

Linda: Það var mjög erfitt í byrjun því að ég spurði alltaf: „Hvaða rétt hefur þú til að segja mér fyrir verkum?“ En þá fór ég að hugsa um það að Biblían segir að maður eigi að ‚heiðra föður sinn og móður.‘ Jafnvel þótt hann væri ekki alvörupabbi minn var hann það samt í augum Guðs.

Robin: Ég gerði mér ljóst að það myndi særa mömmu djúpt ef ég fyrtist við þann sem hún elskaði.

Spyrill: Hvað stuðlaði að góðum tjáskiptum?

Lynch: Maður verður að hafa áhuga á því sem stjúpforeldri manns gerir. Ég hjálpaði stjúpa mínum við vinnu hans og við töluðum mikið saman meðan við vorum að vinna. Það gaf mér innsýn í hugarheim hans. Stundum sátum við bara og töluðum um hitt og þetta.

Valerie: Ég var mikið með stjúpmóður minni og kynntist henni vel. Við urðum mjög góðar vinkonur.

Robin: Mamma giftist aftur bara ári eftir að pabbi dó. Ég vildi ekki eiga náin tengsl við stjúpa minn vegna þess að ég vildi ekki að hann kæmi í stað pabba. Ég bað Guð um hjálp til að ná mér eftir dauða pabba míns og eignast nánara samband við stjúpa minn. Ég bað og bað og bað. Og Jehóva bænheyrði mig.

Spyrill: Hvað gerðir þú til að eignast nánara samband við stjúpforeldri þitt?

Valerie: Stundum bað ég stjúpu mína að koma með mér í leikhús eða bíó — bara við tvær saman. Eða þegar ég var í bænum keypti ég stundum handa henni blóm eða blómavasa, eitthvað til að sýna henni að ég væri að hugsa um hana. Hún kunni virkilega að meta það.

Eric: Maður verður að reyna að finna eitthvað sem báðir hafa gaman af. Það eina sem ég átti sameiginlegt með stjúpa mínum var það að hann var giftur mömmu minni og við bjuggum í sama húsi. Mesta hjálpin var sú þegar ég fékk sama áhuga á Biblíunni og hann. Þegar ég eignaðist nánara samband við Jehóva Guð varð ég miklu nátengdari stjúpa mínum. Núna áttum við loks eitthvað sameiginlegt!

Spyrill: Hvernig hefur þú sjálfur haft gagn af?

Robin: Ég var uppreisnargjörn og ofdekruð meðan ég bjó ein með mömmu. Ég vildi alltaf fá mínu framgengt. Núna hef ég lært að taka tillit til annarra og vera óeigingjarnari.

Lynch: Stjúpfaðir minn hjálpaði mér að hugsa eins og karlmaður. Ég hef lært ýmis verkleg störf af honum og hann hefur kennt mér að nota hendurnar. Þegar ég átti í erfiðleikum og þarfnaðist stuðnings, þá gat ég reitt mig á hann. Já, hann er besti faðir sem hægt er að óska sér.

Spurningar til umræðu

◻ Hvernig er mörgum börnum og unglingum innanbrjósts þegar faðir þeirra eða móðir giftist á ný? Hver er ástæðan?

◻ Hvernig getur kristinn kærleikur hjálpað unglingi?

◻ Þarftu að lúta aga stjúpforeldris þíns?

◻ Hvers vegna er mikilvægt að geta látið undan og deilt með öðrum því sem þú átt?

◻ Geturðu reiknað með nákvæmlega sömu meðferð og stjúpsyskini þín? Hvað geturðu gert ef þér finnst þér mismunað?

◻ Hvað er hægt að gera til að bæta sambandið við stjúpforeldri sitt?

[Innskot á blaðsíðu 45]

„Mér fannst unnusta pabba vera að taka sér stöðu mömmu minnar, þannig að ég var mjög andstyggileg við hana.“

[Mynd á blaðsíðu 43]

Unglingur getur fundið reiði, öryggisleysi og afbrýði blossa upp þegar foreldri gengur í hjónaband á ný.

[Mynd á blaðsíðu 46]

Það getur verið erfitt að taka við aga frá stjúpforeldri.