Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna skilja foreldrar mínir mig ekki?

Hvers vegna skilja foreldrar mínir mig ekki?

2. kafli

Hvers vegna skilja foreldrar mínir mig ekki?

ÞAÐ ER bara mannlegt að vilja að aðrir skilji okkur. Það er mjög gremjulegt fyrir þig ef foreldrar þínir eru gagnrýnir eða áhugalitlir um það sem þú álítur mikilvægt.

Róbert er sextán ára og finnst faðir hans ekki skilja tónlistarsmekk hans. „Hann bara öskrar: ‚Slökktu á þessu!‘“ segir Róbert. „Þá skrúfa ég fyrir tónlistina og hið innra með mér skrúfa ég líka fyrir pabba.“ Margir unglingar hörfa inn í eigin hugarheim þegar þeim finnst foreldrarnir ekki skilja sig. Í viðamikilli könnun meðal unglinga sögðu 26 af hundraði aðspurðra: „Ég reyni að vera eins mikið að heiman og ég get.“

Á mörgum heimilum er því breið gjá milli foreldra og barna. Hvað veldur?

‚Kraftur‘ gegn ‚hærum‘

Í Orðskviðunum 20:29 stendur: „Krafturinn er ágæti ungra manna [eða kvenna].“ Þessi ‚kraftur‘ getur verið undirrót alls kyns árekstra milli þín og foreldra þinna. Orðskviðurinn heldur áfram: „En hærurnar [eru] prýði öldunganna.“ Foreldrar þínir eru kannski ekki bókstaflega gráhærðir, en þeir eru þó eldri en þú og sjá lífið yfirleitt öðrum augum. Þeir vita að það endar ekki allt vel í lífinu. Bitur reynsla kann að hafa temprað hugsjónir unglingsáranna. Þeir eru reynslunni ríkari, sem þakka má gráum ‚hærum‘ ef svo má að orði komast, og kannski ekki jafnákafir og þú í sumum málum.

Jim segir: „Foreldrar mínir fæddust á kreppuárunum og þeim finnst að það eigi að leggja peningana fyrir til að nota síðar í eitthvað nýtilegt. En ég lifi hér og nú. . . . Og mig langar til að ferðast út um allt.“ Þannig getur breið gjá aðskilið ‚kraft‘ unglinganna og ‚hærur‘ foreldranna. Af þeim orsökum er oft mikill ágreiningur innan fjölskyldunnar um mál svo sem klæðnað, hártísku, snyrtingu, framkomu við hitt kynið, notkun áfengis og fíkniefna, félagsskap, útivistartíma og skyldustörf á heimilinu. Það er vel hægt að brúa þetta kynslóðabil, en reyndu fyrst að skilja foreldra þína áður en þú ætlast til að þeir skilji þig.

Foreldrarnir eru mannlegir líka

„Þegar ég var yngri fannst mér mamma auðvitað vera fullkomin og alls ekki hafa neina veikleika og tilfinningar sem ég hafði,“ segir Jón. Síðan skildu foreldrar hans og móðir hans þurfti að annast sjö börn einsömul. Systir Jóns, Anna, segir: „Ég man að ég sá hana gráta vegna þess hve erfitt henni fannst að halda öllu gangandi. Þá rann upp fyrir mér að við höfðum ekki rétt viðhorf til hennar. Hún gat ekki alltaf gert allt á réttum tíma og á réttan hátt. Okkur varð ljóst að hún hafði sínar tilfinningar og var líka mannleg.“

Að gera sér það ljóst að foreldrarnir eru ósköp mannlegir og hafa svipaðar tilfinningar og þú er stórt skref í þá átt að skilja þá. Þeir efast kannski um hæfni sína til að ala þig nógu vel upp og hrýs hugur við öllum þeim siðferðishættum og freistingum sem mæta þér. Þess vegna bregðast þeir stundum harkalegar við ýmsum aðstæðum en efni standa til. Þeir geta líka þurft að berjast við heilsufarsleg, fjárhagsleg eða tilfinningaleg vandamál. Hugsaðu þér til dæmis föður sem samviskusamlega stundar leiðinlega vinnu ár eftir ár og kvartar aldrei. Þegar barnið hans segir: „Ég þoli ekki skólann!“ er þá nokkuð skrýtið að hann skuli svara höstuglega í stað þess að sýna samúð: „Hvað er að þér, krakki? Þú getur ekki ímyndað þér hvað þið krakkarnir hafið það gott!“

Sýndu persónulegan áhuga

Hvernig geturðu sett þig í spor foreldra þinna? Með því að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Filippíbréfið 2:4) Reyndu að spyrja mömmu þína hvernig hún hafi verið sem unglingur. Hvað hugsaði hún um? Hvaða markmið hafði hún? „Ef hún veitir athygli að þú sýnir tilfinningum hennar áhuga og gerir þér grein fyrir orsökum þeirra eru allar líkur á að hún reyni að gefa tilfinningum þínum meiri gaum,“ segir tímaritið ’Teen. Hið sama gildir að sjálfsögðu um pabba þinn.

Ef til árekstra kemur skaltu ekki vera allt of fljótur að saka foreldra þína um að skilja þig ekki. Spyrðu þig: ‚Líður þeim illa eða hafa þeir áhyggjur af einhverju? Voru þau særð út af einhverju sem ég gerði eða sagði í hugsunarleysi? Misskildu þau kannski það sem ég sagði?‘ (Orðskviðirnir 12:18) Að setja sig þannig í spor foreldranna er góð byrjun á því að brúa kynslóðabilið. Síðan geturðu lagt þig fram um að fá foreldra þína til að skilja þig! En margir unglingar gera foreldrum sínum það allt annað en auðvelt. Orsökin er . . .

Tvöfalt líferni

Vickie var sautján ára þegar hún var með strák gegn vitund og vilja foreldra sinna. Hún var viss um að þeir myndu hreinlega ekki skilja tilfinningar hennar til piltsins, og bilið milli þeirra og hennar breikkaði auðvitað. „Við gerðum hvert öðru lífið leitt,“ segir Vickie. „Ég þoldi varla að koma heim.“ Hún var tilbúin til að gera hvað sem var til að komast að heiman og ákvað að gifta sig.

Fjöldi unglinga lifir tvöföldu lífi — þeir gera margt gegn vitund foreldra sinna og í trássi við þá — og kvarta síðan undan því að foreldrarnir skilji sig ekki! Til allrar hamingju fékk Vickie hjálp kristinnar vinkonu sem var eldri en hún. Hún sagði við hana: „Vickie, hugsaðu bara um foreldra þína. . . . Þeir hafa alið þig upp. Ef þér getur ekki lynt við foreldra þína, sem hafa í 17 ár umvafið þig kærleika, hvernig getur þér þá samið við jafnaldra þinn sem þú þekkir varla?“

Vickie leit í eigin barm og gerði sér fljótt grein fyrir að foreldrar hennar höfðu á réttu að standa og að hjarta hennar hafði leitt hana á villigötur. Hún sleit vinskap sínum við unga manninn og byrjaði að brúa bilið milli sín og foreldranna. Ef þú hefur líka leynt foreldra þína einhverju sem máli skiptir, er þá ekki kominn tími til að vera hreinskilinn við þá og leggja spilin á borðið? — Sjá opnuna á undan með yfirskriftinni: „Hvernig get ég sagt foreldrum mínum frá því?“

Gefðu þér tíma til samræðna

‚Ég hafði aldrei átt betri stund með pabba!‘ segir Jón um ferðalag sem hann fór í með föður sínum. „Ég hafði aldrei áður verið einn með honum í heila sex klukkutíma. Sex klukkutíma aðra leiðina, sex klukkutíma hina. Við kveiktum ekki á útvarpinu. Við töluðum og töluðum og það var eins og við værum að kynnast hvor öðrum í fyrsta sinn. Það er miklu meira í hann spunnið en mér hafði dottið í hug. Við urðum vinir.“ Væri ekki ráð fyrir þig að eiga að staðaldri góð og löng samtöl við pabba þinn eða mömmu?

Það er líka gott að stofna til vináttutengsla við aðra fullorðna. Vickie segir: „Ég hafði alls engin tengsl við nokkurn sem var mér eldri. En nú fór ég að gera mér far um að fylgja foreldrum mínum þegar þeir höfðu félagsskap við aðra fullorðna. Með tímanum stofnaði ég vináttutengsl við suma jafnaldra foreldra minna og það þroskaði viðhorf mín til muna. Það auðveldaði mér að halda uppi samræðum við foreldra mína og andrúmsloftið á heimilinu stórbatnaði.“

Með því að eiga félagsskap við þá sem búa yfir visku fenginni af langri lífsreynslu forðastu skammsýni og þröngsýni sem geta stafað af því að hafa einungis félagsskap við jafnaldra þína. — Orðskviðirnir 13:20.

Láttu vita hvað þér finnst

„Orð mín eru hjartans hreinskilni, og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni,“ sagði hinn ungi Elíhú. (Jobsbók 33:⁠3) Er það þannig sem þú talar við foreldra þína þegar ykkur greinir á um klæðnað, tónlist eða útivistarleyfi?

Grétari fannst móðir sín ferlega ósanngjörn. Viðbrögð hans við spennunni heima fyrir voru þau að vera eins lítið heima og hann gat. En loks fór hann eftir ráðum sem kristnir öldungar gáfu honum. Hann segir: „Ég fór að segja mömmu frá því hvernig mér var innanbrjósts. Ég sagði henni hvers vegna mig langaði til að gera þetta eða hitt, í stað þess að ganga að því sem gefnum hlut að hún vissi það. Oft úthellti ég hjarta mínu og útskýrði fyrir henni að ég væri ekki að reyna að gera neitt rangt og hversu illa mér liði þegar hún kæmi fram við mig eins og smábarn. Þá fór hún að skilja mig og smám saman batnaði ástandið til muna.“

Þú getur líka leiðrétt margan misskilning með því að tala af „hjartans hreinskilni.“

Ef ykkur greinir samt á

Þetta þýðir auðvitað ekki að foreldrar þínir fallist strax á afstöðu þína. Þú þarft því að læra að hafa hemil á tilfinningum þínum. „Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.“ (Orðskviðirnir 29:11) Reyndu að rökræða rólega um kosti afstöðu þinnar. Haltu þig við efnið í stað þess að klifa á því að „allir hinir fái að gera þetta.“

Stundum segja foreldrar þínir nei, ekki af því að þeir skilji þig ekki heldur af því að þeir vilja afstýra ógæfu. „Mamma er ströng við mig,“ viðurkennir sextán ára stúlka. „Það ergir mig þegar hún segir að ég fái ekki að gera eitthvað eða að ég verði að vera komin heim fyrir ákveðinn tíma. En innst inni er henni mjög annt um mig. . . . hún gætir mín.“

Orð fá ekki lýst því öryggi og hlýju sem fylgir gagnkvæmum skilningi. Það gerir heimilið að öruggu athvarfi á erfiðum stundum, en allir verða af fremsta megni að leggja sitt af mörkum.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna greinir unglinga og foreldra oft á?

◻ Hvernig geturðu haft jákvæðari viðhorf til foreldra þinna með því að skilja þá betur?

◻ Hvernig geturðu lært að skilja foreldra þína betur?

◻ Hvers vegna breikkar tvöfalt líferni bilið milli þín og foreldranna?

◻ Hvers vegna er best fyrir þig að segja foreldrum þínum frá því ef þú átt við alvarleg vandamál að glíma? Hvernig geturðu komið orðum að því?

◻ Hvernig geturðu hjálpað foreldrum þínum að skilja þig betur?

[Innskot á blaðsíðu 22]

‚Ef móðir þín veitir athygli að þú sýnir tilfinningum hennar áhuga og gerir þér grein fyrir orsökum þeirra, eru allar líkur á að hún reyni að gefa tilfinningum þínum meiri gaum.‘ — Tímaritið ’Teen.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 20, 21]

Hvernig get ég sagt foreldrum mínum frá því?

Það er ekki auðvelt að játa fyrir foreldrum sínum að maður hafi gert eitthvað rangt. „Ég fann alltaf að foreldrar mínir báru mikið traust til mín,“ segir Vigfús, „og þess vegna fannst mér erfitt að játa eitthvað fyrir þeim vegna þess að ég vildi ógjarnan særa þá.“

Oft kvelur samviskan unglinga sem leyna foreldra sína því sem þeir hafa gert af sér. (Rómverjabréfið 2:15) Röng breytni þeirra getur verið sem óbærileg, „þung byrði.“ (Sálmur 38:5) Næstum óhjákvæmilega bæta þeir gráu ofan á svart með því að ljúga að foreldrum sínum og blekkja þá. Þannig spilla þeir sambandi sínu við Guð.

Biblían segir: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“ (Orðskviðirnir 28:13) Eins og Bettý, sem er 19 ára, orðar það: „Jehóva sér allt hvort eð er.“

Ef þú hefur gerst sekur um alvarlega synd skaltu játa hana fyrir Jehóva í bæn og leita fyrirgefningar hans. (Sálmur 62:9) Því næst skaltu segja foreldrum þínum frá því. (Orðskviðirnir 23:26) Þeir búa yfir lífsreynslu sem þú hefur ekki og geta oft hjálpað þér að snúa baki við mistökum þínum og forðast að endurtaka þau. „Það getur verið mikil hjálp að tala út um hlutina,“ segir Kristinn sem er 18 ára. „Það er ótrúlegur munur að geta loks létt á hjarta sínu.“ Stóra spurningin er: Hvernig á að segja foreldrunum frá?

Biblían talar um „orð í tíma töluð.“ (Orðskviðirnir 25:11; samanber Prédikarann 3:1, 7.) Hvenær getur verið rétti tíminn? Kristinn heldur áfram: „Ég bíð fram yfir kvöldmat og þá segi ég pabba að ég þurfi að tala við hann.“ Ungur maður, sem ólst upp hjá einstæðri móður, valdi annan tíma: „Ég talaði venjulega við mömmu rétt áður en við fórum að hátta; þá var hún búin að slaka á. Hún var alltaf upptrekkt þegar hún kom heim úr vinnunni.“

Ef til vill gætir þú sagt eitthvað í þessa áttina: „Pabbi og mamma, ég þarf að tala við ykkur.“ Og hvað geturðu gert ef foreldrar þínir virðast ekki ætla að gefa sér tíma? Þú gætir sagt: „Ég veit að þið hafið mikið að gera, en það er dálítið sem liggur þungt á mér. Getum við talað um það núna?“ Síðan gætirðu spurt: „Hafið þið einhvern tíma gert eitthvað sem þið skömmuðust ykkar svo mikið fyrir að þið gátuð varla talað um það?“

Nú er komið að því erfiðasta: Að segja foreldrum sínum frá málavöxtum. Vertu auðmjúkur og ‚talaðu sannleika.‘ Reyndu ekki að gera lítið úr alvöru þess ranga sem þú gerðir eða að sleppa því að minnast á sum óþægilegustu atriðin. (Efesusbréfið 4:25; samanber Lúkas 15:21.) Veldu orð sem foreldrar þínir skilja og forðastu orðalag sem unglingar einir skilja.

Auðvitað getur foreldrum þínum sárnað og þeir verið vonsviknir í fyrstu. Ekki fyrtast eða láta það koma þér á óvart þótt þú fáir yfir þig gusu tilfinningaþrunginna reiðiorða! Ef þú hefðir hlýtt þeim viðvörunum, sem þeir voru búnir að gefa þér, hefðir þú sennilega ekki komið þér í þessa aðstöðu. Haltu stillingu þinni. (Orðskviðirnir 17:27) Hlustaðu á foreldra þína og svaraðu spurningum þeirra, hvernig svo sem þær eru bornar fram.

Einlæg löngun þín til að gera hreint fyrir þínum dyrum hefur vafalaust sterk áhrif á foreldra þína. (Samanber 2. Korintubréf 7:11.) Vertu samt undir það búinn að fá verðskuldaða ögun. „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ (Hebreabréfið 12:11) Mundu líka að þetta er ekki síðasta skiptið sem þú munt þarfnast hjálpar og þroskaðra ráðlegginga foreldra þinna. Gerðu þér að venju að trúa þeim fyrir hinum smáu vandamálum — þá verður þú ekki hræddur við að leita til þeirra og létta á hjarta þínu þegar stór vandamál verða á vegi þínum.

[Mynd]

Veldu einhverja stund þegar foreldrar þínir eru afslappaðir og í góðu skapi.