Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað sýna fötin mín um mig?

Hvað sýna fötin mín um mig?

11. kafli

Hvað sýna fötin mín um mig?

„ÞAÐ er ekkert of stutt,“ æpti Peggy til foreldra sinna. „Þið eruð bara gamaldags!“ Og svo var hún hlaupin inn í herbergið sitt — lokaþáttur rifrildis við foreldrana út af pilsi sem hana langaði til að vera í. Kannski hefur þú lent í einhverri svipaðri rimmu við foreldrana, kennara eða vinnuveitanda er gagnrýndi fötin sem þú varst svo hrifinn af. Þú kallaðir þetta þægileg föt, þeir kölluðu þau drusluleg. Þú kallaðir þau æðislega flott en þeir kölluðu þau æpandi eða ósiðleg.

Smekkur er auðvitað misjafn og þú hefur rétt til að hafa þína skoðun. En geturðu þá leyft þér að klæða þig hvernig sem þér sýnist?

Réttur boðskapur?

„Það sem maður klæðist sýnir eiginlega hver maður er og hvernig maður lítur á sjálfan sig,“ segir stúlka sem heitir Pam. Klæðaburður þinn sendir öðrum ákveðinn boðskap um sjálfan þig. Fötin geta hvíslað: Samviskusamur, staðfastur og siðprúður, eða æpt: Uppreisnargjarn og óánægður. Þau geta jafnvel verið nokkurs konar einkennisbúningur. Sumir unglingar ganga í gauðrifnum fötum, „pönkfatnaði“ eða dýrum vörumerkjafötum til að gefa sjálfum sér einhvern stimpil. Aðrir reyna með klæðaburði sínum að gera sig lokkandi fyrir hitt kynið eða reyna að líta út fyrir að vera eldri en þeir eru.

Það er því auðséð hvers vegna fötin skipta marga unglinga ákaflega miklu máli. En höfundur bókarinnar Dress for Success, John T. Molloy, varar við: „Klæðaburður okkar hefur athyglisverð áhrif á fólk sem við hittum og mikil áhrif á framkomu þess við okkur.“

Það er því ekkert undarlegt að foreldrar þínir láti sér annt um hvernig þú klæðist. Í þeirra augum snýst málið ekki bara um persónulegan smekk heldur vilja þeir að þú komir öðrum fyrir sjónir sem heilbrigður og ábyrgur einstaklingur. Er þetta boðskapurinn sem klæðaburður þinn flytur öðrum? Hvað ræður fatavali þínu?

‚Ég geri það sama og vinir mínir‘

Með klæðaburði sínum eru margir unglingar að lýsa yfir sjálfstæði sínu. En persónuleiki unglings er hvergi nærri fullþroskaður — hann er enn að þroskast, enn að breytast. Þótt hann vilji tjá öðrum hver hann sé, er hann oft harla óviss um hvað hann eigi að segja og hvernig hann eigi að gera það. Þessi óvissa kemur sumum unglingum til að klæða sig afkáralega eða fáránlega. En það ber ekki vitni um neitt ‚sjálfstæði‘ heldur vekur miklu fremur athygli á vanþroska þeirra — að ekki sé nú minnst á það að foreldrarnir þurfa að blygðast sín fyrir þá.

Aðrir unglingar klæða sig bara eins og jafnaldrarnir. Það veitir þeim vissa öryggiskennd og þeim finnst þeir tilheyra hópnum. Að sjálfsögðu þarf það ekki að vera rangt að reyna að falla inn í hópinn. (Samanber 1. Korintubréf 9:22.) En vill kristinn unglingur láta setja sig á bás með þeim sem ekki trúa? Og er viturlegt að sækjast eftir viðurkenningu jafnaldranna hvað sem það kostar? Ung stúlka viðurkenndi: „Ég geri nákvæmlega eins og vinir mínir til þess að þeir finni ekki að mér.“ En hvað kallarðu þann sem situr og stendur eins og aðrir vilja og fer eftir öllum duttlungum þeirra? Biblían svarar: „Vitið þið ekki að ef þið haldið áfram að bjóða öðrum sjálfa ykkur . . . til hlýðni, þá eruð þið þrælar hans vegna þess að þið hlýðið honum?“ — Rómverjabréfið 6:16, New World Translation.

Meðal ungs fólks getur „hvötin að vera eins verið svo sterk að félagarnir í hópnum virðast nánast fangar þeirra hegðunarreglna sem hópurinn setur, og þeir láta hina stjórna því hvernig þeir klæðast, tala og hvað þeir gera, og jafnvel hvað þeir hugsa og trúa.“ — Adolescence: Transition From Childhood to Maturity.

Eru vinir þínir þess umkomnir að gefa þér slík ráð? (Samanber Matteus 15:14.) Eiga þeir ekki við sömu tilfinningalegu vaxtarverkina að glíma og þú? Er þá skynsamlegt að láta þá leggja þér lífsreglurnar gagnrýnislaust — jafnvel þegar þær ganga í berhögg við heilbrigða skynsemi þína eða óskir og lífsviðhorf foreldra þinna?

Í tísku í dag — úr tísku á morgun

Oft láta unglingar síbreytilega tísku ráða fatavali sínu. En tískan er duttlungafull! Við erum minnt á orð Biblíunnar: „Mynd þessa heims breytist.“ (1. Korintubréf 7:31, New World Translation) Það sem er í tísku í dag getur verið úrelt á morgun. Breytingarnar eru ótrúlega snöggar — og dýrt að elta þær. Pilsin styttast og síkka á víxl; buxnaskálmarnar þrengjast og víkka og framleiðendur og fatahönnuðir stórgræða á því hve auðvelt er að ráðskast með almenning.

Lítum til dæmis á gallabuxnaæðið sem greip um sig fyrir nokkrum árum. Þá komust gallabuxur skyndilega í tísku og fólk greiddi himinháar upphæðir fyrir að geta verið gangandi auglýsingaskilti fataframleiðenda. „Fólk vill hafa nafn,“ sagði Eli Kaplan, forstjóri fyrirtækis sem framleiddi gallabuxur með vörumerkinu „Sergio Valente.“ En hver er þessi Sergio Valente sem mörgum þótti svo fínt nafn til að spranga um með saumað á buxnavasana? „Hann er ekki til,“ segir tímaritið Newsweek. „Hver myndi svo sem kaupa Eli Kaplan-gallabuxur?“ spurði Kaplan til skýringar.

„En er eitthvað rangt við það að vera í tísku?“ spyrð þú kannski. Ekki endilega. Þjónar Guðs á tímum biblíusögunnar klæddu sig í samræmi við það sem smekklegt þótti á hverjum stað. Til dæmis segir Biblían að Tamar hafi klæðst röndóttum dragkyrtli „því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar.“ — 2. Samúelsbók 13:18.

En ætti maður að vera þræll tískunnar? Ung stúlka kvartar: „Maður sér æðislega flottar buxur í búð. Það eiga allir svona buxur og maður segir: ‚Mamma, má ég kaupa þessar buxur?‘ og hún svarar: ‚Nei, ég get saumað svona buxur sjálf.‘ Þá segi ég: ‚En þú skilur ekki, mamma. Mig langar í þessar buxur.‘“ En ertu ekki í rauninni að láta ræna þig sjálfstæði þínu og fela þinn raunverulega mann með því að vera peð í hendi tískufrömuða? Af hverju að láta auglýsingar, slagorð og vörumerki teyma þig á eftir sér?

Biblían segir okkur í Rómverjabréfinu 12:2: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Hver er ‚hinn góði vilji Guðs‘ í sambandi við klæðnað þinn?

‚Smekklegur og háttvís búningur‘

Fyrra Tímóteusarbréf 2:9 hvetur kristna menn til að ‚klæða sig smekklegum búningi með háttvísi og heilbrigðu hugarfari.‘ (New World Translation) ‚Smekklegur búningur‘ er að sjálfsögðu hreinn og snyrtilegur. „Háttvísi“ tekur tillit til aðstæðna. Snyrtileg jakkaföt eða dragt getur verið við hæfi í vinnunni en tæpast á baðströndinni! Og sundföt væru fáránleg á skrifstofunni.

Ungir vottar Jehóva vilja því gæta þess að vera ekki einum um of hversdagslega til fara á kristnum samkomum eða úti í prédikunarstarfinu, heldur að klæðaburður þeirra beri þeim vitni sem ungum þjónum Guðs. Munum eftir orðum Páls í 2. Korintubréfi 6:3, 4: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs.“

Háttvísi tekur líka mið af tilfinningum annarra. Eins og Páll postuli orðaði það ætti kristinn maður bæði að taka tillit til sinnar eigin samvisku og „samvisku hins.“ (1. Korintubréf 10:29) Ættirðu ekki að láta þér sérstaklega annt um samvisku foreldra þinna?

Kostir viðeigandi klæðnaðar

Biblían segir frá því að Ester drottning hafi einu sinni þurft að ganga óboðin fram fyrir mann sinn, konunginn. Við því gat legið dauðarefsing! Vafalaust bað Ester Guð mjög innilega um hjálp. Hún gætti þess einnig að vera vel til fara og klæddist „konunglegum skrúða“ eins og viðeigandi var við þessar aðstæður. Og jafnskjótt og „konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans.“ — Esterarbók 5:1, 2.

Með því að vera smekklega og háttvíslega til fara þegar þú sækir um vinnu geturðu gefið góða mynd af sjálfum þér. Vicki L. Baum, sem er forstöðumaður atvinnuráðgjafarmiðstöðvar, segir: „Sumar konur ruglast í ríminu þegar þær mæta til viðtals við hugsanlegan vinnuveitanda. Þær klæðast eins og verið sé að bjóða þeim út og reyna að vera lokkandi í útliti.“ Afleiðingin er sú að „þær virðast ekki eins fagmannlegar.“ Hún ræður konum frá því að klæðast „þröngum fötum eða ögrandi.“

Ungir menn í atvinnuleit ættu einnig að vera vel til fara. John T. Molloy nefnir sem dæmi að kaupsýslumenn séu vanir að „vera greiddir og í velburstuðum skóm. Þeir ætlast til hins sama af öðrum karlmönnum.“

Ósæmilegur klæðnaður getur hins vegar spillt sambandi þínu við aðra. Tímaritið Psychology Today fjallaði einu sinni um könnun meðal unglinga sem leiddi í ljós, að karlmenn litu líklega á það sem merki um að stúlkur væru að gefa þeim undir fótinn ef þær væru „með flegið hálsmál, í stuttbuxum, þröngum gallabuxum eða brjóstahaldaralausar.“ Ungur maður viðurkenndi: „Mér finnst fremur erfitt að hugsa eingöngu hreinar hugsanir um ungar konur þegar ég sé hvernig þær klæðast.“ Háttvísi í klæðaburði gefur fólki tækifæri til að meta mannkosti þína. Spyrðu foreldra þína ráða ef þú ert ekki viss um hvort ákveðinn klæðnaður sé sæmandi.

Áhersla lögð á hinn ‚innri mann‘

Pétur postuli hvatti kristna menn til að láta skart sitt vera ‚hinn hulda mann hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda sem er dýrmætur í augum Guðs‘ — já, og í augum annarra! (1. Pétursbréf 3:4) Tískuklæðnaður getur kannski látið þig ganga í augun á jafnöldrum þínum, en það eru ekki fötin sem láta aðra hafa mætur á þér eða afla þér sannra vina. Það gerir þú með þínum ‚innra manni‘ — með því að rækta hann og fegra. (2. Korintubréf 4:16) Sá sem býr yfir innri fegurð er alltaf aðlaðandi í augum annarra, jafnvel þótt fötin hans séu ekki samkvæmt nýjustu tísku eða merkt kjánalegum vörumerkjum.

Hver veit hvaða tískufyrirbæri fær unglingana næst til að flykkjast í búðirnar? En þú getur hugsað sjálfstætt. Gerðu háar kröfur til sjálfs þín í sambandi við klæðaburð. Forðastu stundartísku og föt sem leggja áherslu á kynferðislegt aðdráttarafl. Vertu íhaldssamur í klæðaburði þannig að þú sért hvorki fyrstur — né endilega síðastur — til að fylgja nýrri tísku. Veldu þér vönduð föt sem endast og detta ekki fljótt úr tísku. Gættu þess að fötin, sem þú klæðist, sendi réttan boðskap um þig og sýni þig ekki sem eftirlíkingu einhverrar ímyndar úr fjölmiðlunum eða kunningja þinna, heldur þig sjálfan!

Spurningar til umræðu

◻ Hvernig segja fötin, sem þú klæðist, ýmislegt um þig?

◻ Hvers vegna reyna unglingar stundum að vera afkáralegir í klæðaburði?

◻ Hve mikil áhrif læturðu kunningjana hafa á fataval þitt?

◻ Hvaða ókostir fylgja því að reyna alltaf að tolla í tískunni?

◻ Hvað ræður því hvort fötin eru ‚smekkleg og fara vel‘?

[Innskot á blaðsíðu 94]

„Það sem maður klæðist sýnir eiginlega hver maður er og hvernig maður lítur á sjálfan sig.“

[Mynd á blaðsíðu 91]

Oft slær í brýnu milli foreldra og barna vegna klæðaburðar. Eru foreldrarnir bara gamaldags?

[Mynd á blaðsíðu 92]

Margir unglingar reyna að halda fram sjálfstæði sínu með því að klæðast afkáralega.

[Mynd á blaðsíðu 93]

Klæddu þig í samræmi við aðstæður. Fötin segja mikið um þig!