Er ég tilbúin(n) að giftast?
30. kafli
Er ég tilbúin(n) að giftast?
HJÓNABAND er enginn leikur. Guð ætlaði eiginmanni og eiginkonu að bindast varanlegum böndum, sterkari en við nokkra aðra manneskju. (1. Mósebók 2:24) Makinn er sú manneskja sem maður binst — eða situr uppi með — það sem eftir er ævinnar.
Hverju hjónabandi fylgir einhver „sorg og sársauki.“ (1. Korintubréf 7:28, The New English Bible) En Marcia Lasswell, prófessor í atferlisfræði, varar við: „Eitt er óvéfengjanlegt í sambandi við það hvort hjónaband endist eða ekki, og það er að þeir sem giftast mjög ungir hafa allt á móti sér.“
Hvers vegna fara unglingahjónabönd svona oft út um þúfur? Svarið getur kannski sagt þér margt um það hvort þú sért tilbúinn að giftast.
Miklar væntingar
„Við gerðum okkur litla grein fyrir hvað hjónaband var,“ viðurkennir unglingsstúlka. „Við héldum að við gætum komið og farið, gert það sem okkur þóknaðist, þvegið upp eða látið það vera — en þannig er það bara ekki.“ Margir unglingar hafa svona óþroskuð viðhorf til hjónabands. Þeir sjá það í rómantískum ævintýraljóma. Sumum liggur lífið á að giftast til að komast í fullorðinna manna tölu. Sumir vilja hreinlega flýja erfiðar aðstæður heima fyrir, í skólanum eða bænum. Stúlka hvíslaði að unnusta sínum: „Mikið verð ég ánægð þegar við giftumst. Þá þarf ég aldrei að taka neinar ákvarðanir sjálf!“
En hjónaband er ekkert rómantískt ævintýri eða allra meina bót. Öllu heldur fylgir því fjöldi nýrra vandamála sem takast þarf á við. „Margir unglingar giftast til að fara í mömmuleik,“ sagði Vigdís sem eignaðist fyrsta barnið tvítug. „Það lítur út fyrir að vera svo gaman! Maður heldur að barn sé eins og lítil dúkka, svo sætt og indælt og maður geti bara leikið sér að því; en raunin er allt önnur.“
Margir unglingar gera sér líka óraunhæfar hugmyndir um kynlífið. Ungur maður, sem kvæntist 18 ára, segir: „Eftir að ég kvæntist uppgötvaði ég að hinn mikli unaður kynlífsins dofnar fljótt og þá tóku alvarlegir erfiðleikar við.“ Ein könnun á unglingahjónaböndum leiddi í ljós að kynlífið var langalgengasta deiluefnið að fjárhagserfiðleikum undanskildum. Ástæðan er vafalaust sú að ánægja með kynlífið kemur til af óeigingirni og sjálfstjórn — eiginleikum sem margir unglingar hafa ekki hirt um að rækta. — 1. Korintubréf 7:3, 4.
Biblían hvetur kristna menn til að ganga ekki í hjónaband fyrr en ‚æskublóminn‘ er hjá og það er greinilega mjög viturlegt. (1. Korintubréf 7:36) Sterkar ástríður geta brenglað dómgreindina og blindað mann fyrir göllum væntanlegs lífsförunautar.
Illa undir hlutverk sitt búin
Eiginkona á unglingsaldri segir um manninn sinn: „Núna, eftir að við erum gift, virðist hann engan áhuga hafa á mér nema þegar hann vill hafa kynmök. Honum finnst jafnmikilvægt að vera með kunningjunum eins og mér. . . . Ég hélt að ég myndi vera hin eina og sanna í lífi hans en þar lét ég plata mig.“ Hér er vakin athygli á algengum misskilingi meðal ungra manna: Þeir halda að þeir geti lifað áfram eins og piparsveinar eftir að þeir eru kvæntir.
Nítján ára nýgift stúlka bendir á algengt vandamál ungra eiginkvenna: „Ég vil miklu fremur horfa á sjónvarpið og sofa en gera hreint og elda mat. Ég skammast mín þegar tengdaforeldrarnir koma í heimsókn því að heimili þeirra er svo snyrtilegt, en hjá mér er allt á rúi og stúi. Auk þess er ég mesti klaufi að matbúa.“ Það getur valdið talsverðri spennu milli hjóna ef ung eiginkona kann ekki að halda heimili! „Hjónaband krefst þess að maður leggi sig fram,“ segir Vigdís sem áður er getið. „Það er enginn leikur. Hveitibrauðsdagarnir eru fljótir að líða. Þá tekur hversdagslífið við og það er ekkert auðvelt.“
Og hvað um hið daglega strit við að sjá fyrir fjölskyldunni? Eiginmaður Vigdísar, Markús, segir: „Ég man að
ég þurfti að fara á fætur klukkan sex á morgnana til að sækja fyrstu vinnuna sem ég hafði. Ég sagði við sjálfan mig: ‚Þetta er hörkupúl. Verður það einhvern tíma léttara?‘ Og þegar ég kom heim fannst mér Vigdís alls ekki skilja hvað ég mátti þola.“Fjárhagsáhyggjur
Þar komum við að öðru þrætuepli ungra hjóna: peningum. Eftir þriggja mánaða hjónaband var „ráðstöfun heimilisteknanna“ langstærsta vandamál 48 hjóna á táningsaldri sem rætt var við. Eftir tæp þrjú ár var sama spurning lögð fyrir 37 þessara hjóna. Enn voru fjármálin algengasta áhyggjuefnið — og verra en áður! „Lífið er óskemmtilegt þegar maður á aldrei nóga peninga til að kaupa það sem maður þarf til að vera ánægður,“ segir Bjarni. „Það getur kostað heilmikið rifrildi og óhamingju þegar launin duga ekki einu sinni fram að næsta útborgunardegi.“
Fjárkröggur eru algengar meðal unglinga því að atvinnuleysi er oft hvað mest í þeirra aldursflokki og launin lægst. „Við urðum að búa hjá foreldrum mínum af því að ég gat ekki séð fyrir fjölskyldunni,“ segir Ragnar. „Það kostaði mikla spennu, einkum af því að við áttum líka barn.“ Orðskviðirnir 24:27 ráðleggja: „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt [fjölskyldu].“ Á biblíutímanum þurftu karlmenn að leggja hart að sér til að geta framfleytt fjölskyldu síðar meir. Margir ungir menn hafa ekki undirbúið sig nægilega vel fyrir hlutverk sitt og þykir því erfið byrði að sjá fyrir fjölskyldu.
En góð laun duga jafnvel skammt til að leysa fjárhagserfiðleika ef ungu hjónin hafa barnalega afstöðu til efnislegra hluta. Könnun leiddi í ljós að „unglingar bjuggust við að geta keypt strax þá hluti í búið sem hafði sennilega tekið foreldra þeirra mörg ár að eignast.“ Mörg ung 1. Tímóteusarbréf 6:8-10.
hjón eru staðráðin í að eignast þessa hluti á stundinni og steypa sér í skuldir. Þau skortir þroska til að láta sér nægja „fæði og klæði“ og auka með því spennuna í hjónabandinu. —„Gerólík“
Margrét lítur um öxl: „Ég var ástfangin af Helga. Hann var svo myndarlegur, svo sterkur, svo góður íþróttamaður og mjög vinsæll. . . . Hjónaband okkar hlaut að heppnast.“ En það gerði það ekki. Gremja og fyrtni magnaðist upp milli þeirra og á endanum lýsti Margrét ástandinu svona: „Allt sem Helgi gerði fór í taugarnar á mér. Meira að segja hvernig hann smjattaði þegar við borðuðum. Að lokum var mælirinn fullur hjá okkur báðum.“ Hjónabandið fór út um þúfur innan tveggja ára.
Hvað var að hjá þeim? „Við höfðum gerólík markmið í lífinu,“ segir Margrét. „Mér varð ljóst að ég þarfnaðist manns sem ég gat átt gáfulegar samræður við. En hjá Helga snerist lífið bara um íþróttir. Það sem mér fannst skipta svo miklu máli þegar ég var 18 ára varð skyndilega einskis virði fyrir mig.“ Unglingar gera sér oft barnalegar hugmyndir um það hvers þeir vænta af maka sínum. Oft leggja þeir mest upp úr útlitinu. En Orðskviðirnir 31:30 vara við: „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull.“
Sjálfsrannsókn
Biblían kallar það „fljótfærni“ af manni að gefa Guði hátíðleg heit „og hyggja fyrst að, þegar heitin eru gjörð.“ (Orðskviðirnir 20:25) Er ekki skynsamlegra að skoða sjálfan sig í ljósi Biblíunnar áður en gefið er jafnalvarlegt heit sem hjúskaparheitið? Hver eru eiginlega markmið þín í lífinu? Hvaða áhrif mun hjónaband hafa á þau? Langar þig að ganga í hjónaband bara til að njóta kynlífs eða til að flýja einhver vandamál?
Í hvaða mæli ertu undir það búinn að gegna hlutverki þínu sem eiginmaður eða eiginkona? Ertu fær um að halda heimili eða sjá fyrir fjölskyldu? Hvernig heldurðu að þér gangi að búa sáttur við maka ef þú ert alltaf upp á kant við foreldra þína? Ræðurðu við það álag og erfiðleika sem fylgja hjúskap? Hefurðu lagt alveg niður „barnaskapinn“ í meðferð þinni á peningum? (1. Korintubréf 13:11) Foreldrar þínir hafa eflaust sitthvað að segja um það.
Hjónaband getur verið uppspretta mikillar hamingju eða mikillar mæðu. Það er að miklu leyti undir þroska þínum komið. Ef þú ert enn á táningsaldri, hví ekki að bíða um stund áður en þú ferð að renna hýru auga til einhvers af hinu kyninu? Þú hefur ekkert illt af því að bíða. Það gefur þér bara meiri tíma til að þroskast og búa þig undir þann dag ef eða þegar þú stígur hið alvarlega skref að festa ráð þitt — skref sem ekki verður aftur tekið.
Spurningar til umræðu
◻ Hvaða óþroskuð viðhorf hafa sumir unglingar til hjónabands?
◻ Hvers vegna heldurðu að það sé óraunhæft að giftast bara kynlífsins vegna?
◻ Hvernig hafa sumir unglingar sýnt að þeir eru alls ekki undir það búnir að taka á sig skyldur hjónabands?
◻ Hvers vegna eiga ung hjón mjög oft í alvarlegum fjárhagserfiðleikum?
◻ Hvaða mistök gera sumir unglingar er þeir velja sér maka?
◻ Hvaða spurninga gætirðu spurt þig til að kanna hvort þú sért undir það búinn að gifta þig? Telurðu þig hafa þroska til axla ábyrgð hjónabandsins eftir að hafa farið yfir þennan kafla?
[Rammi á blaðsíðu 240]
„Ef nokkur staðreynd stendur óhögguð í sambandi við það hvort hjónaband endist eða ekki, þá er það sú að þeir sem giftast mjög ungir hafa allt á móti sér.“ — Marica Lasswell, prófessor í atferlisfræði.
[Mynd á blaðsíðu 237]
Margir unglingar eru lítið betur undir það búnir að stofna til hjónabands en þessi börn.