Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er ég undirbúin(n) að vera með strák/stelpu?

Er ég undirbúin(n) að vera með strák/stelpu?

29. kafli

Er ég undirbúin(n) að vera með strák/stelpu?

VÍÐA um lönd er það talin saklaus skemmtun fyrir pilt og stúlku að fara út saman. Slík samvera tekur á sig margar myndir. Stundum er fylgt fastri formúlu: hann færir henni blóm, býður henni út að borða og þau kveðjast með kossi. Í öðrum tilvikum er einfaldlega um að ræða óformlega samveru pilts og stúlku sem geðjast vel hvort að öðru. Svo er það til að strákur og stelpa séu saman sí og æ en segist „bara vera góðir vinir.“ En hvort sem það er kallað að fara á stefnumót, hittast, vera saman eða vera á föstu er yfirleitt verið að tala um sama hlutinn: Piltur og stúlka eyða miklum tíma hvort með öðru, oft án eftirlits.

Á biblíutímanum tíðkaðist það ekki að kynin væru saman með þessum hætti eða færu út á stefnumót. Það er engu að síður fullkomlega gjaldgeng leið fyrir karl og konu að fara út saman til að kynnast, svo framarlega sem þau eru heiðvirð og sýna skynsemi og aðgát. Og reyndar getur það líka verið skemmtilegt. Ættir þú líka byrja að vera með einhverjum af hinu kyninu?

Þrýstingur

Þér finnst kannski þrýst á þig að vera með einhverjum af hinu kyninu. Flestir skólafélagarnir gera það sennilega og þú vilt helst ekki vera álitinn skrýtinn eða skera þig úr fjöldanum. Kannski eru jafnvel ættingjar og vinir, sem vilja þér vel, að ýta á þig. Þegar Maríu, 15 ára, var boðið út var frænka hennar ómyrk í máli: „Málið snýst ekki um það hvort þig langi til að giftast piltinum eða ekki. Það er bara hluti af eðlilegu þroskaferli þínu að fara út með strák. . . . Ef þú neitar strákunum alltaf verðurðu bara óvinsæl og enginn býður þér út.“ María segir er hún rifjar þetta upp: „Orð frænku höfðu djúp áhrif á mig. Væri ég að kasta frá mér góðu tækifæri? Strákurinn átti bíl og fullt af peningum; ég vissi að ég myndi skemmta mér ágætlega með honum. Átti ég að fara út með honum eða ekki?“

Hjá sumum unglingum er það löngunin í hlýju og ástúð sem þrýstir á þá. „Ég þurfti að finna að ég væri elskuð og einhvers metin,“ segir Anna sem er 18 ára. „Sambandið við foreldra mína var stirt, svo að ég leitaði til stráksins, sem ég var með, til að finna hlýju og til að úthella tilfinningum mínum fyrir manneskju sem skildi mig.“

En unglingur ætti ekki að byrja að vera með einhverjum af hinu kyninu bara af því að honum finnst hann þvingaður til þess! Það er háalvarlegt mál fyrir pilt og stúlku að vera saman — þáttur í því að velja sér maka og stofna til hjónabands. Hjónabands? Flest ungmenni, sem para sig saman, eru nú síst að hugsa um hjónaband. En hvað annað en hjónabandshugleiðingar getur réttlætt það að piltur og stúlka eyði miklum tíma hvort með öðru? Ef aðrar hvatir búa að baki verður afleiðingin líklega allt annað en skemmtileg. Hvers vegna?

Skuggahliðarnar

Ein ástæðan er sú að ‚æskublóminn,‘ sem Biblían kallar svo, er viðkvæmt tímaskeið. (1. Korintubréf 7:36, New World Translation) Á þessu tímabili getur kynhvötin verið mjög sterk. Það er eðlilegur hluti uppvaxtarins og ekkert óeðlilegt.

Þarna er hins vegar hætta á ferðum þegar piltur og stúlka byrja að vera saman, því að unglingurinn er rétt að byrja að læra að stjórna kynhvötinni. Hann þekkir kannski lög Guðs um kynlíf og þráir í einlægni að halda þau. (Sjá 23. kafla.) En hér á hann í höggi við líffræðilegt ‚náttúrulögmál‘: Því meir sem hann er með einhverjum af hinu kyninu, þeim mun sterkari getur kynhvötin orðið — hvort sem hann vill eða ekki. (Sjá bls. 232-3.) Við erum ósköp einfaldlega þannig úr garði gerð! Kannski ræður þú bara ekki við náinn félagsskap við einhvern af hinu kyninu fyrr en þú ert orðinn eldri og hefur náð betri tökum á tilfinningalífinu. Því miður læra margir unglingar það í hörðum skóla reynslunnar.

„Við hvorki héldumst í hendur né kysstumst . . . þegar við byrjuðum að hittast. Mig langaði bara til að njóta félagsskapar hennar og tala við hana,“ segir ungur maður. „En hún var mjög ástrík að eðlisfari og sat gjarnan þétt upp að hlið mér. Svo fórum við að haldast í hendur og kyssast. Það magnaði kynhvötina hjá mér. Þetta hafði þau áhrif á mig að mig langaði til að vera með henni, ekki bara til að tala við hana, heldur líka til að halda utan um hana, snerta hana og kyssa. Ég fékk aldrei nóg! Ástríðurnar voru hreinlega að æra mig. Stundum fannst mér ég ómerkilegur og skammaðist mín.“

Það er því ekkert undarlegt að samvera pilts og stúlku skuli oft enda með kynmökum. Könnun meðal nokkur hundruð táninga leiddi í ljós að 87 af hundraði stúlkna og 95 af hundraði pilta töldu kynlíf annaðhvort „allmikilvægan eða mjög mikilvægan“ þátt í sambandi sínu við hitt kynið. Hins vegar viðurkenndu 65 af hundraði stúlknanna og 43 af hundraði piltanna að þeir hefðu stundum haft kynferðistengsl á stefnumótum án þess að langa til þess!

Lára, sem er tvítug, segir er hún lítur um öxl: „Því oftar sem við hittumst, þeim mun lengra gengum við. Fljótlega urðu kossarnir hálf bragðlausir og við fórum að snerta hvort annað á óviðeigandi stöðum. Ég varð ein taugahrúga af því að mér fannst ég svo óhrein. Svo kom að því að kærastinn minn vildi að við ‚færum alla leið‘ . . . Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð. En það komst engin önnur hugsun að hjá mér en að ég vildi ekki missa hann. Mér leið ömurlega!“

Vissulega endar samvera pilts og stúlku ekki alltaf með kynmökum þótt stundum vanti ekki nema herslumuninn. En hvaða afleiðingar hefur það þegar tilfinningarnar eru á suðupunkti og ekki er hægt að veita þeim útrás með heiðvirðum hætti? Það veldur skapraun og vonbrigðum sem setja mark sitt á allt tilfinningalífið.

Tilfinningarót

Ungur maður var kominn í þessa klípu: ‚Í fyrstu var ég mjög hrifinn af Kötu. Ég verð að vísu að játa að ég taldi hana á að gera ýmislegt sem henni fannst ekki rétt. Núna finnst mér ég lágkúrulegur af því að ég hef misst áhugann á henni. Hvernig get ég látið hana róa án þess að særa hana?‘ Þetta er erfið staða! Og hvernig ætli þér myndi líða ef þú værir í sporum Kötu?

Ástarsorg er algeng meðal unglinga. Að vísu finnst mörgum „sætt“ að sjá tvo unglinga ganga saman hönd í hönd. En hvaða líkur eru á að þessir sömu unglingar séu enn saman að ári, hvað þá giftir? Harla litlar. Ástir unglinga eru næstum alltaf dauðadæmdar, leiða sjaldan til hjónabands og enda oft með ástarsorg.

Á unglingsárunum er persónuleikinn enn í mótun. Unglingurinn er að uppgötva sjálfan sig, gera sér grein fyrir smekk sínum og átta sig á hvernig hann langar til að verja lífinu. Sá sem honum finnst spennandi í dag er kannski hrútleiðinlegur á morgun. Ef hann gefur tilfinningunum lausan tauminn má alltaf búast við að einhver fái skell. Það kemur ekki á óvart að „rifrildi við vinkonu“ eða „ástarsorg“ sé algeng orsök sjálfsmorða meðal unglinga, að því er rannsóknir sýna.

Er ég nógu þroskaður?

„Gleð þig, ungi maður [eða kona], í æsku þinni,“ segir Guð, „og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast.“ Ungu fólki hættir til að ‚breyta eins og hjartað leiðir það.‘ Reyndin er bara sú að það sem virðist spennandi og lokkandi í byrjun endar oft með gremju og böli. Biblían hvetur því í versinu á eftir: „Hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.“ (Prédikarinn 11:9, 10) Með „gremju“ er átt við hugarangur og vanlíðan. „Böl“ merkir mikið áfall. Hvort tveggja er uppskrift að óhamingju.

Ber að skilja þetta svo að stefnumót séu ávísun á gremju og böl? Svo þarf ekki að vera, en það getur farið þannig ef þú gerir það af röngu tilefni (‚til gamans‘) eða áður en þú hefur nægan þroska til. Eftirfarandi spurningar geta hjálpað þér að leggja mat á sjálfan þig.

Mun það hindra eða hraða tilfinningaþroska mínum? Ef þú byrjar að vera með einhverjum af hinu kyninu gætu félagsleg samskipti þín takmarkast mikið til við slík sambönd. Er ekki hollara fyrir þig að hafa meiri breidd í félagslegum samskiptum? (Samanber 2. Korintubréf 6:12, 13.) Ung kona, Súsanna, segir: „Ég lærði að rækta náin vináttubönd við rosknar kristnar konur í söfnuðinum. Þær þörfnuðust félagsskapar og ég þarfnaðist þess stöðuglyndis sem þær miðluðu mér. Ég leit við hjá þeim af og til og þáði kaffibolla. Við gátum talað og hlegið saman. Ég eignaðist trausta og varanlega vináttu þeirra.“

Með því að eiga margs konar vini — unga og gamla, gifta og ógifta, karla og konur — lærirðu að umgangast annað fólk, meðal annars hitt kynið, undir miklu minni þrýstingi en á stefnumótum. Með því að eiga félagsskap við hjón færðu auk þess raunhæfari viðhorf til hjónabands en ella. Þá verðurðu betur í stakk búinn síðar meir til að velja þér góðan maka og gegna skyldum þínum í hjónabandi. (Orðskviðirnir 31:10) Ung stúlka, Guðný, hefur komist að þessari niðurstöðu: „Ég er ekki tilbúin enn að festa ráð mitt og stofna heimili. Ég er enn að kynnast sjálfri mér og á enn eftir að ná mörgum andlegum markmiðum. Ég hef því enga þörf fyrir það núna að bindast einhverjum strák mjög nánum böndum.“

Vil ég valda sárindum? Þú getur sært bæði sjálfan þig og aðra með því að bindast ástarböndum án þess að nokkrar horfur séu á hjónabandi. Og er það heiðarlegt að ausa athygli sinni yfir aðra manneskju bara til að „æfa“ sig í umgengni við hitt kynið? — Sjá Matteus 7:12.

Hvað segja foreldrarnir? Foreldrar þínir sjá oft hættur sem þú sérð ekki. Þeir voru líka ungir einu sinni. Þeir vita hvaða hætta getur verið á ferðum þegar piltur og stúlka fara að eyða miklum tíma hvort með öðru! Gerðu ekki uppreisn gegn foreldrunum ef þeir gefa ekki samþykki sitt. (Efesusbréfið 6:1-3) Sennilega finnst þeim þú bara þurfa að bíða uns þú verður svolítið eldri.

Ætli ég geti haldið siðferðiskröfur Biblíunnar? Kynhvötin verður viðráðanlegri þegar ‚æskublóminn‘ er hjá — og þó ekki ekki auðveld viðureignar. Ertu virkilega nógu sterkur á svellinu núna til að eiga náin samskipti við hitt kynið og varðveita hreinleika þinn?

Það er athyglisvert að mörg ungmenni spyrja sig þessara spurninga og komast að sömu niðurstöðu og María sem nefnd er fyrr í kaflanum. Hún segir: „Ég ákvað að láta ekki skoðanir annarra hafa áhrif á mig. Ég ætlaði ekki að fara út með strák fyrr en ég væri orðin nógu gömul til að giftast og kynntist einhverjum með þeim eiginleikum sem ég vildi sjá í fari eiginmanns.“

María bendir þarna á afar mikilvægt atriði sem þú þarft að íhuga áður en þú byrjar að draga þig eftir einhverjum af hinu kyninu.

Spurningar til umræðu

◻ Hvað er átt við með því að piltur og stúlka séu saman?

◻ Hvers vegna finnst unglingum stundum þrýst á sig að vera með einhverjum af hinu kyninu?

◻ Hvers vegna er óskynsamlegt að byrja fastan kunningsskap við hitt kynið meðan þú ert í ‚æskublóma‘ lífsins?

◻ Hvernig getur unglingur ‚forðast böl‘ í samskiptum við hitt kynið?

◻ Nefndu nokkur vandamál sem geta fylgt því þegar piltur og stúlka eru ‚bara vinir.‘

◻ Hvernig geturðu fundið út hvort þú ert nógu þroskaður til að byrja að draga þig eftir einhverjum af hinu kyninu?

[Rammi á blaðsíðu 231]

„Fljótlega urðu kossarnir hálf bragðlausir og við fórum að snerta hvort annað á óviðeigandi stöðum. Ég varð ein taugahrúga af því að mér fannst ég svo óhrein. Svo kom að því að kærastinn minn vildi að við ‚færum alla leið.‘“

[Rammi á blaðsíðu 234]

‚Hvernig get ég látið hana róa án þess að særa hana?‘

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 232, 233]

Geta strákur og stelpa bara verið ‚góðir vinir‘?

Hlýlegt samband karls og konu, án kynferðislegra hvata, er stundum kallað platónsk ást eða vinátta. Slík vinátta er talsvert algeng meðal unglinga. Garðar, 17 ára, segir: „Ég á auðveldara með að tala við stelpur en stráka af því að þær eru yfirleitt skilningsríkari og tilfinninganæmari.“ Unglingar halda því stundum fram að slík vináttubönd hjálpi þeim að þroska persónuleikann.

Biblían hvetur unga menn til að umgangast „ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 5:2) Með því að fylgja þessari meginreglu er hægt að eiga hrein og heilnæm vináttutengsl við einstaklinga af hinu kyninu. Páll postuli var einhleypur en átti allmargar kristnar konur í vinahópi sínum. (Sjá Rómverjabréfið 16:1, 3, 6, 12.) Hann minntist á tvær konur sem ‚börðust með honum við boðun fagnaðarerindisins.‘ (Filippíbréfið 4:3) Jesús Kristur átti líka heilnæman félagsskap við konur. Oft naut hann gestrisni þeirra Mörtu og Maríu og átti uppbyggilegar samræður við þær. — Lúkas 10:38, 39; Jóhannes 11:5.

En „platónsk“ vinátta er oft ekkert annað en illa dulin stundarást eða leið til að fá athygli frá hinu kyninu án þess að skuldbinda sig. Og þar eð tilfinningar geta hæglega breyst þarf að sýna aðgát. Dr. Marion Hilliard varar við: „Saklaus félagsskapur, sem ekur með 10 kílómetra hraða á klukkustund, getur fyrirvaralaust breyst í blinda ástríðu sem þeysist áfram á 100 kílómetra hraða.“

Sextán ára strákur, Magnús, uppgötvaði það er hann „vingaðist“ við 14 ára stelpu: „Ég komst fljótt að raun um að strákur og stelpa geta ekki látið sér nægja að vera bara vinir þegar þau umgangast bara hvort annað. Vinátta okkar varð sífellt innilegri. Áður en langt um leið bárum við sérstakar tilfinningar hvort til annars og gerum það enn.“ Þar sem hvorugt þeirra er nógu gamalt til að giftast eru þessar tilfinningar þeim til skapraunar.

Of náið samband getur haft enn verri afleiðingar. Unglingspiltur reyndi að hughreysta kunningjastúlku sem trúði honum fyrir einhverjum vandamálum. Innan stundar voru þau farin að kela hvort við annað. Afleiðingin varð slæm samviska og vináttuslit. Hjá sumum hefur vinátta endað með kynmökum. Könnun á vegum tímaritsins Psychology Today leiddi eftirfarandi í ljós: „Hjá næstum helmingi aðspurðra (49 af hundraði) hafði vinátta leitt til kynferðislegs sambands . . . Nálega þriðjungur (31 af hundraði) sagðist hafa haft kynmök við vin í síðasta mánuði.“

‚En ég finn ekki fyrir slíku aðdráttarafli hjá vini mínum. Mig myndi aldrei dreyma um að eiga ástarsamband við hann.‘ Kannski ekki, en veistu nema tilfinningarnar eigi eftir að breytast? „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi,“ segja Orðskviðirnir 28:26. Hjartað getur verið svikult, blekkt okkur og blindað fyrir því hvaða hvatir við raunverulega berum í brjósti. Og hvað veistu um tilfinningar vinar þíns eða vinkonu?

Í bók sinni The Friendship Factor ráðleggur Alan Loy McGinnis: „Treystu sjálfum þér ekki allt of vel.“ Sýndu aðgát, til dæmis með því að hitta vin þinn (vinkonu) aðeins í hópi annarra og undir eðlilegu eftirliti. Forðastu að tjá honum (henni) væntumþykju með óviðeigandi hætti og gættu þess að þið séuð ekki ein saman við rómantískar aðstæður. Trúðu foreldrunum eða öðrum þér eldri fyrir áhyggjum þínum í stað þess að leita til unglings af hinu kyninu.

En hvað nú ef óendurgoldnar ástartilfinningar gera vart við sig þrátt fyrir góðan ásetning og varúð? ‚Talaðu sannleika‘ og láttu vin þinn eða vinkonu vita hvar þú stendur. (Efesusbréfið 4:25) Ef það dugir ekki er kannski best að halda sér í hæfilegri fjarlægð. „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ (Orðskviðirnir 22:3) Eða eins og bókin The Friendship Factor orðar það: „Slíttu sambandinu ef það er nauðsynlegt. Hversu mjög sem við leggjum okkur fram gerist það alltaf af og til að vinátta við hitt kynið fer úr böndum og við vitum til hvers hún leiðir.“ Þá er ekki annað að gera en að draga sig í hlé.

[Mynd á blaðsíðu 227]

Unglingum finnst oft þrýst á sig að para sig saman.

[Mynd á blaðsíðu 228]

Þegar unglingar fara út saman finnst þeim þeir oft þurfa að láta í ljós væntumþykju án þess að langa til þess.

[Mynd á blaðsíðu 229]

Þú getur átt félagsskap við hitt kynið án þess að vera með einhverjum sérstökum.

[Mynd á blaðsíðu 230]

Svokölluð platónsk vinátta endar oft með ástarsorg.