Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég komist yfir stundarhrifningu?

Hvernig get ég komist yfir stundarhrifningu?

28. kafli

Hvernig get ég komist yfir stundarhrifningu?

„HJÁ flestum unglingum er stundarhrifning jafnalgeng og kvef,“ segir í unglingatímariti. Svo til allir unglingar verða einhvern tíma skotnir í einhverjum og svo til öllum tekst að þrauka til fullorðinsaldurs án þess að stolt þeirra eða skopskyn bíði skaða af. En stundarhrifning er ekkert aðhlátursefni meðan á stendur. „Ég var gramur yfir því að geta ekkert gert í málinu,“ segir ungur maður. „Ég vissi að hún var of gömul fyrir mig en mér geðjaðist vel að henni. Ég var allur í óstandi út af þessu.“

Stundarhrifning undir smásjánni

Það er engin synd að bera sterkar tilfinningar til annarar manneskju — svo framarlega sem þær eru ekki siðlausar eða ósæmilegar (svo sem gagnvart giftri manneskju). (Orðskviðirnir 5:15-18) „Æskunnar girndir“ stjórna oft hugsunum og verkum unga fólksins. (2. Tímóteusarbréf 2:22) Unglingur, sem kann ekki enn að ráða við hinar nýju og sterku langanir sem losna úr læðingi á gelgjuskeiðinu, getur verið uppfullur af ástríðukenndum tilfinningum — án þess að hafa nokkurn til að úthella þeim yfir.

Auk þess eru „stelpur fyrri til en strákar að verða öruggar í framkomu og óþvingaðar í samskiptum við aðra.“ Það hefur í för með sér að „þeim finnst strákarnir í bekknum oft vanþroskaðir og óspennandi í samanburði við kennarana“ eða aðra fullvaxta karlmenn sem eru utan seilingar þeirra. (Tímaritið Seventeen) Stúlka getur þannig ímyndað sér að uppáhaldskennarinn hennar, dægurlagasöngvarinn eða einhver kunningi, sem er eldri en hún, sé hinn „fullkomni“ maður. Drengir eru oft gripnir stundarhrifningu af svipuðu tagi. En ást á einhverjum, sem er langt utan seilingar, er auðvitað byggð meira á draumórum en veruleika.

Stundarhrifning getur verið skaðleg

Enda þótt stundarhrifning sé oftast nær ótrúlega skammlíf getur hún verið mjög skaðleg fyrir unglinginn. Það stafar meðal annars af því að margir, sem táningar verða hrifnir af, verðskulda alls ekki ást þeirra. Vitur maður sagði: „Heimskan er sett í háu stöðurnar.“ (Prédikarinn 10:6) Söngvari er gerður að átrúnaðargoði sökum útlits eða raddar, en hvernig er siðferði hans? Er hann „í Drottni“ sem vígður, kristinn maður? — 1. Korintubréf 7:39.

Biblían varar einnig við: „Vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði.“ (Jakobsbréfið 4:4) Værir þú ekki að stofna vináttu þinni við Guð í hættu ef þú værir ástfanginn af manneskju sem Guð fordæmir vegna hegðunar hennar? Biblían hvetur okkur líka til að ‚gæta okkar fyrir skurðgoðunum.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Hvað kallast það þegar unglingur skreytir veggina hjá sér frá lofti niður í gólf með myndum af átrúnaðargoði úr skemmtanalífinu? Mætti ekki kalla það „skurðgoðadýrkun“? Hvernig getur það verið Guði þóknanlegt?

Sumir unglingar láta jafnvel draumóra taka völdin af heilbrigðri skynsemi. Stúlka nokkur segir: „Í hvert sinn sem ég spyr hann hvað honum finnist um mig segist hann ekki vera neitt hrifinn af mér. En ég sé það á augnaráði hans og framkomu að það er ekki satt.“ Ungi maðurinn hefur reynt að sýna stúlkunni vingjarnlega fram á að hann hafi ekki áhuga á henni en hún sættir sig hreinlega ekki við að svarið sé nei.

Önnur stúlka segir um hrifningu sína á vinsælum söngvara: ‚Mig langar til að eiga hann fyrir kærasta og ég hef beðið Guð um að það megi rætast! Ég var vön að hafa plötuna hans í rúminu hjá mér á nóttunni því að það var það næsta sem ég gat komist honum. Ég drep mig ef ég fæ hann ekki.‘ Ætli hugsunarlaus ástríða af þessu tagi geti verið þóknanleg Guði sem fyrirskipar okkur að þjóna sér með „heilbrigðum huga?“ — Rómverjabréfið 12:3, New World Translation.

Biblían segir í Orðskviðunum 13:12: „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt.“ Það er ekki heilsusamlegt að byggja upp með sér draumkennda ástríðu í það sem aldrei getur orðið. Læknar benda á að óendurgoldin ást geti valdið „þunglyndi, kvíða og almennri vanlíðan . . . svefnleysi eða svefnsýki, brjóstverkjum eða öndunarerfiðleikum.“ (Samanber 2. Samúelsbók 13:1, 2.) Ástsjúk stúlka viðurkennir: „Ég er lystarlaus. . . . Ég get ekki lært heima. Mig . . . dreymir dagdrauma um hann. . . . Mér líður ömurlega.“

Hugsaðu um það tjón sem þú veldur sjálfum þér með því að láta draumóra ráða lífi þínu. Dr. Lawrence Bauman bendir á að einhver fyrstu merki stjórnlausrar stundarhrifningar séu þau að „slá slöku við skólanámið.“ Önnur algeng áhrif eru þau að einangra sig frá fjölskyldu og vinum. Og svo er það auðmýkingin. „Ég skammast mín fyrir að viðurkenna það, að ég hegðaði mér eins og fífl meðan ég var skotinn í Judy,“ segir rithöfundurinn Gil Schwartz. Löngu eftir að stundarhrifningin er liðin hjá getur minningin um það setið eftir hvernig þú eltir einhvern á röndum, reyndir að láta bera á þér og gerðir sjálfan þig að athlægi.

Vertu raunsær

Salómon konungur, einhver vitrasti maður sem lifað hefur, varð sjúklega ástfanginn af stúlku sem endurgalt ekki tilfinningar hans. Hann orti henni einhver fegurstu ljóð sem til eru og sagði henni að hún væri „fögur sem máninn, hrein sem sólin“ — en varð ekkert ágengt. — Ljóðaljóðin 6:10.

Salómon gafst að lokum upp við að reyna að ná ástum stúlkunnar. Hvernig getur þú líka náð aftur valdi á tilfinningum þínum? „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi,“ segir Biblían, ekki síst ef ástarórar glepja manni sýn. (Orðskviðirnir 28:26) „En sá sem breytir viturlega, mun undan komast,“ heldur hún áfram. Það merkir að sjá hlutina eins og þeir eru.

„Hvernig er hægt að greina milli réttmætrar vonar og tilefnislausrar?“ spyr dr. Howard Halpern. „Með því að horfa yfirvegað og hlutlægt á staðreyndirnar.“ Hvaða líkur eru á að sönn ást eigi eftir að blómgast milli ykkar? Ef það er eitthvert átrúnaðargoð sem á hug þinn allan eru sáralitlar líkur á að þú hittir það nokkurn tíma! Möguleikarnir eru jafnlitlir ef það er einhver þér eldri, til dæmis kennari, sem þú ert hrifinn af.

Og hefur sá sem þú hrífst af sýnt þér einhvern minnsta áhuga fram til þessa? Ef svo er ekki, er þá nokkur raunhæf ástæða til að halda að það eigi eftir að breytast? Ertu kannski að túlka saklaus orð og athafnir hans eða hennar sem hálfgerða ástarjátningu? Víðast hvar í heiminum telst það reyndar til siðs að karlmenn eigi frumkvæðið að ástarsambandi. Ung stúlka getur orðið sér til minnkunnar ef hún sækist með ágengni eftir karlmanni sem hefur hreinlega ekki áhuga á henni.

Hvað hefurðu svo hugsað þér að gera ef viðkomandi skyldi nú endurgjalda tilfinningar þínar? Ertu tilbúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir hjónabandi? Ef svo er ekki skaltu ‚hrinda gremju burt frá hjarta þínu‘ með því að sökkva þér ekki niður í dagdrauma. „Að elska hefir sinn tíma“ og sá tími kemur kannski ekki fyrr en eftir nokkur ár þegar þú ert orðinn eldri. — Prédikarinn 3:8; 11:10.

Brjóttu tilfinningar þínar til mergjar

Dr. Charles Zastrow segir: „Það er ástsýki að ímynda sér hinn aðilann sem hinn fullkomna elskhuga, það er að segja að álíta hann hafa allt til að bera sem hægt er að óska sér í fari maka.“ Slíkur ‚fullkominn elskhugi‘ er bara ekki til því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir Biblían. — Rómverjabréfið 3:23.

Spyrðu þig hve vel þú raunverulega þekkir þennan einstakling sem þú ert svo hrifinn af. Er það draumavera sem þú ert ástfanginn af? Lokarðu augunum fyrir göllum þessarar manneskju? Þú þarft kannski ekki annað en að virða draumaveruna hlutlægt fyrir þér um stund til að vakna af ástarvímunni! Veltu líka fyrir þér hvers konar ást það er sem þú berð í brjósti. Rithöfundurinn Kathy McCoy segir: „Óþroskuð ást getur komið og farið á augabragði . . . Athyglin beinist að sjálfum þér, þú ert einfaldlega ástfanginn af þeirri hugmynd að vera ástfanginn . . . Óþroskuð ást er fastheldin, eigingjörn, og afbrýðisöm. . . . Óþroskuð ást heimtar fullkomleika.“ — Berðu saman við 1. Korintubréf 13:4, 5.

Hættu að hugsa um hann/hana

Allar heimsins röksemdir duga auðvitað ekki til að þurrka tilfinningar þínar algerlega út. Þú getur hins vegar látið vera að hella olíu á eldinn. Þú getur magnað upp einmanakennd þína með því að lesa eldheitar ástarsögur, horfa á kvikmyndir byggðar á ástarsögum eða jafnvel með því að hlusta á vissa tónlist. Hættu að velta þér upp úr þessu. „Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn.“ — Orðskviðirnir 26:20.

Draumórakennd ástarhrifning getur aldrei komið í stað vina sem elska þig í raun og veru. Gættu þess að einangra þig ekki. (Orðskviðirnir 18:1) Þú kemst sennilega að raun um að foreldrarnir geta hjálpað þér á margan hátt. Þótt þú hafir gert þitt besta til að fara leynt með tilfinningar þínar hafa þeir líklega tekið eftir að eitthvað amar að þér. Hví ekki að leita til þeirra og ‚gefa þeim hjarta þitt,‘ segja þeim nákvæmlega hvernig þér líður? (Samanber Orðskviðina 23:26.) Þú getur líka trúað einhverjum þroskuðum kristnum manni fyrir tilfinningum þínum.

„Reyndu að vera upptekinn,“ segir rithöfundurinn Esther Davidowitz. Finndu þér eitthvert tómstundagaman, hreyfðu þig, lærðu nýtt tungumál eða rannsakaðu eitthvert biblíuefni rækilega. Það má draga talsvert úr fráhvarfseinkennunum með því að vera upptekinn af einhverju nýtilegu.

Það er ekkert auðvelt að komast yfir stundarhrifningu. En með tímanum dvínar sársaukinn. Þú hefur lært betur á sjálfan þig og tilfinningar þínar og ert betur í stakk búinn til að þroska með þér sanna ást ef til hennar kemur síðar. En hvernig er hægt að þekkja „sanna ást“?

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna er stundarhrifning algeng meðal unglinga?

◻ Um hverja láta unglingar sig oft dreyma og hvers vegna?

◻ Hvers vegna getur stundarhrifning verið skaðleg?

◻ Hvað getur hjálpað unglingi að komast yfir stundarhrifningu?

◻ Hvernig er hægt að komast hjá því að næra ástardraumóra sína?

[Rammi á blaðsíðu 223]

‚Ég er lystarlaus. Ég get ekki lært heima. Mig dreymir dagdrauma um hann. Mér líður ömurlega.‘

[Mynd á blaðsíðu 220]

Algengt er að unglingar verði skotnir í þeim sem eru eldri og utan seilingar.

[Mynd á blaðsíðu 221]

Stundum nægir að virða hinn aðilann hlutlægt fyrir sér til að læknast af draumórum sínum.