Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég nýtt tilhugalífið sem best?

Hvernig get ég nýtt tilhugalífið sem best?

32. kafli

Hvernig get ég nýtt tilhugalífið sem best?

„FLEST misheppnuð hjónabönd má rekja til misheppnaðs tilhugalífs. Það er vísa sem er aldrei of oft kveðin,“ segir Paul H. Landis sem er sérfræðingur í fjölskyldurannsóknum. Lovísa tekur undir það. Hún segir: „Stærstu mistökin, sem ég gerði, voru þau að verða hrifinn af Andrési áður en ég gaf sjálfri mér tækifæri til að kynnast honum sem persónu. Þegar við vorum að draga okkur saman hittumst við svo til alltaf ein. Ég kynntist því aldrei hvernig hann hegðaði sér við aðrar aðstæður en þær bestu.“ Hjónabandið fór út um þúfur. Hvernig er hægt að afstýra slíkum harmleik? Með skynsamlegu tilhugalífi.

Áður en þið byrjið að draga ykkur saman

„Kænn maður athugar fótmál sín,“ segja Orðskviðirnir 14:15. Það býður hættunni heim að leyfa sér að verða hrifinn af manneskju sem maður þekkir varla — jafnvel þótt hún virðist aðlaðandi. Það getur leitt tvær manneskjur með gerólíkt lunderni og markmið út í hjónaband! Það er því skynsamlegt að byrja á því að fylgjast með viðkomandi persónu innan um aðra, kannski í tengslum við einhvers konar afþreyingu.

„Ég vissi að ef ég stofnaði fljótt til of náins kunningsskapar myndu tilfinningarnar skerða dómgreindina,“ segir Davíð sem hefur búið í hamingjusömu hjónabandi í tíu ár. „Þess vegna fylgdist ég með Rósu úr fjarlægð án þess að hún vissi að ég hefði áhuga á henni. Ég gat séð hvernig hún kom fram við aðra og hvort hún var daðurgjörn. Með því að rabba við hana af og til kynntist ég aðstæðum hennar og markmiðum.“ Það getur líka verið góð hugmynd að tala við einhvern sem þekkir viðkomandi manneskju vel, til að komast að því hvers konar orð fer af henni. — Samanber Orðskviðina 31:31.

Fyrstu stefnumótin

Þegar þú telur að þú hafir fundið manns-/konuefni gætirðu látið í ljós að þig langi til að kynnast honum/henni betur. * Séu undirtektir jákvæðar þarf fyrsta stefnumótið ekki að vera flókið mál. Þið gætuð kynnst betur til dæmis með því að fara út að borða eða jafnvel vera saman í vinahópi, þannig að þið getið gengið úr skugga um hvort þið viljið kynnast betur. Séu fundir ykkar ekki of hátíðlegir dregur það úr taugaspennu sem kann að gera vart við sig í byrjun. Og með því að forðast ótímabær loforð má draga úr höfnunartilfinningu eða vandræðagangi ef annað hvort ykkar missir áhugann.

Hvar og hvernig sem þið hittist skaltu vera stundvís og snyrtilega og smekklega til fara. Sýndu að þú kunnir að halda uppi samræðum og hlustaðu með athygli þegar hinn talar. (Jakobsbréfið 1:19) Þótt engar fastar reglur séu um slíkt er eðlilegt að ungur maður fylgi viðteknum kurteisisvenjum, svo sem að halda dyrunum opnum fyrir ungu konunni og vísa henni til sætis. Unga konan ætti ekki að ætlast til að komið sé fram við hana eins og prinsessu en hún ætti að virða viðleitni unga mannsins. Með því að sýna hvort öðru gagnkvæma virðingu geta þau sett sér fyrirmynd fyrir framtíðina. Eiginmanni er sagt að ‚veita konu sinni virðingu sem veikara keri‘ og konan á að ‚bera djúpa virðingu fyrir manni sínum.‘ — 1. Pétursbréf 3:7; Efesusbréfið 5:33.

Er viðeigandi að haldast í hendur, kyssast eða faðmast, og þá hvenær? Ef það er sprottið af ósvikinni ástúð en ekki eigingjörnum ástríðum getur það verið bæði hreint og viðeigandi að sýna væntumþykju með þeim hætti. Ljóðaljóð Biblíunnar segja að stúlkan Súlamít og fjárhirðirinn, sem hún unni og ætlaði að giftast, hafi látið vel hvort að öðru. (Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5) En þið verðið, líkt og þessi heiðvirðu hjónaleysi, að gæta þess að atlot ykkar verði ekki óhrein eða leiði til siðleysis. * (Galatabréfið 5:19, 21) Ástarjátningar af þessu tagi ættu auðvitað að bíða uns þið eruð bæði orðin viss um að þið viljið eigast og hjónaband virðist blasa við. Með sjálfsstjórn forðist þið að missa sjónar á meginmarkmiði velheppnaðs tilhugalífs sem er . . .

Að kynnast ‚hinum hulda manni hjartans‘

Hópur rannsóknarmanna sagði í maí 1980: „Hjónabönd virðast frekar endast og verða farsæl ef hjónin þekkja hinn innri mann hvort annars tiltölulega vel fyrir giftingu.“ (Journal of Marriage and the Family) Já, þið þurfið bæði að þekkja ‚hinn hulda mann hjartans‘ hvort hjá öðru. — 1. Pétursbréf 3:4.

En það kostar viðleitni og skarpskyggni að draga fram hvað býr í hjarta annars manns. (Orðskviðirnir 20:5) Þess vegna skuluð þið haga samverustundunum þannig að þið getið kynnst hinum innri manni. Í byrjun er kannski nóg að fara saman í bíó eða á tónleika, en ýmis önnur afþreying (svo sem að fara á skíði, skauta, í gönguferðir eða á söfn) er þó betur til þess fallin að tala saman og kynnast.

Reyndu að fá nasasjón af skoðunum vinar þíns eða vinkonu með því að spyrja spurninga svo sem: ‚Hvað gerirðu í frístundum?‘ ‚Hvað myndirðu gera ef þú ættir nóg af peningum?‘ ‚Hvað finnst þér skemmtilegast í þjónustunni við Guð? Hvers vegna?‘ Spurningar af þessu tagi bjóða upp á ítarleg svör sem gefa þér innsýn í hvað hinum er kærast.

Þegar böndin milli ykkar styrkjast og þið farið að hugsa alvarlega um hjónaband er þýðingarmikið að ræða alvarlega saman um mikilvæg mál svo sem gildismat ykkar, hvar og hvernig þið munuð búa, um fjármál, meðal annars hvort þið munuð bæði vinna úti eða ekki, um barneignir, getnaðarvarnir, um hlutverk ykkar beggja í hjónabandinu, ásamt skammtíma- og langtímamarkmiðum og því hvernig þið hyggist ná þeim. Margir ungir vottar Jehóva gerast boðberar fagnaðarerindisins í fullu starfi eftir að skólagöngu lýkur og vilja halda því áfram eftir stofnun hjónabands. Núna er rétti tíminn fyrir ykkur bæði að fullvissa ykkur um að andleg markmið ykkar fari saman. Núna er líka rétti tíminn til að segja frá ýmsu, ef til vill úr fortíð ykkar, sem gæti haft áhrif á hjónabandið, meðal annars skuldum eða öðrum skyldum. Þið ættuð líka að ræða opinskátt um heilsu ykkar, svo sem alvarlega sjúkdóma ef einhverjir eru.

Í samræðum ykkar um þessi mál skuluð þið fylgja fordæmi Elíhús sem sagði: „Orð mín eru hjartans hreinskilni.“ (Jobsbók 33:3) Ester segir frá því hvernig hún notaði tilhugalífið til að leggja grunninn að hamingjusömu hjónabandi: „Ég reyndi aldrei að vera með uppgerð eða segjast sammála Ólafi þegar ég var það ekki. Ég geri það heldur ekki núna. Ég reyni alltaf að vera hreinskilin.“

Reyndu aldrei að sniðganga viðkvæm mál eða breiða yfir þau af ótta við að stilla hinum upp við vegg. Elísabet gerði þau mistök þegar þau Jón voru að draga sig saman. Elísabet sagðist vera hlynnt því að spara og leggja fyrir peninga. Jón sagðist vera sama sinnis. Elísabet kannaði viðhorf hans ekki frekar og taldi víst að þau væru sammála um þetta. Síðar kom hins vegar á daginn að hugmyndir Jóns um sparnað fólust í því að safna fyrir nýjum sportbíl! Eftir að þau giftust gerðu ólíkar skoðanir á notkun peninga illilega vart við sig.

Slíkan misskilning má forðast. Lovísa, sem nefnd er fyrr í kaflanum, segir um tilhugalíf sitt: „Ég hefði átt að spyrja miklu fleiri spurninga svo sem: ‚Hvernig myndirðu bregðast við ef ég yrði ófrísk en þú hefðir ekki áhuga á að eignast barn?‘ eða ‚Hvað myndirðu gera ef við værum skuldug en ég vildi vera heima til að annast barnið?‘ Ég hefði tekið vandlega eftir viðbrögðum hans.“ Samræður af þessu tagi geta dregið fram hvað býr í hjartanu og afhjúpað ýmislegt sem best er að vita áður en stofnað er til hjónabands.

Við dagleg störf

„Sumir geta verið mjög indælir þegar maður er með þeim einum,“ segir Ester, „en þegar aðrir eru viðstaddir lenda þeir oft í óvæntri aðstöðu. Einhver af félögum þínum segir kannski eitthvað við vin þinn sem honum líkar ekki. Þá sérðu hvernig hann bregst við álagi. Segir hann honum til syndanna eða hæðist að honum?“ Hún heldur áfram: „Það var mikil hjálp fyrir okkur að vera hvort með annars vinum og fjölskyldum í tilhugalífinu.“

Auk afþreyingar er gott að nota einhvern tíma til að vinna saman. Farið saman út í boðunarstarfið og nemið orð Guðs saman. Reynið að gera í sameiningu það sem verður hluti af daglegu lífi eftir brúðkaupsdaginn — að kaupa inn, elda mat, þvo upp og gera hreint. Með því að vera saman í daglegu amstri geturðu skyggnst bak við útstillingargrímuna sem tilvonandi maki þinn notar kannski — og séð hann þegar hann er illa fyrirkallaður.

Fjárhirðirinn í Ljóðaljóðunum kynntist því hvernig stúlkan, sem hann unni, hegðaði sér þegar hún var vonsvikin eða stritaði í steikjandi sólinni — sveitt og þreytt. (Ljóðaljóðin 1:5, 6; 2:15) Hann sá líka hvernig hún stóðst gylliboð hins auðuga Salómons konungs. Eftir það sagði hann: „Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.“ (Ljóðaljóðin 4:7) Hann átti auðvitað ekki við að hún væri fullkomin heldur að það væru engar alvarlegar veilur í siðferði hennar. Siðferðisstyrkurinn undirstrikaði líkamlega fegurð hennar og vó upp á móti hverjum þeim veikleikum sem hún kann að hafa haft. — Samanber Jobsbók 31:7.

Það tekur sinn tíma að leggja slíkt mat á aðra manneskju. Flýttu þér því hægt í tilhugalífinu. (Orðskviðirnir 21:5) Fólk leggur sig oftast í framkróka til að vinna ástir hins útvalda. En slæmar venjur eða tilhneigingar koma yfirleitt í ljós með tímanum. Fólk, sem bæði tekur sér þann tíma og notar hann vel, á sennilega auðveldara með að aðlagast hvort öðru eftir brúðkaupið. Það gengur í hjónaband með augun opin í þeirri vissu að það geti leyst þau ágreiningsmál sem upp munu koma. Það hefur notað tilhugalífið til að búa sig undir farsælt og hamingjusamt hjónaband.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Þetta á við þar sem algengt er að fólk dragi sig saman með þessum hætti og það er talið viðeigandi fyrir kristna menn. Algengast er að karlmaðurinn eigi frumkvæðið, þótt Biblían meini ungri konu alls ekki að láta áhuga sinn háttvíslega í ljós ef ungi maðurinn virðist feiminn eða hikandi. — Samanber Ljóðaljóðin 8:6.

^ gr. 10 Sjá 24. kafla, „Kynlíf fyrir hjónaband — hvernig get ég sagt nei?“

Spurningar til umræðu

◻ Hvert er aðalmarkmið tilhugalífs og hvaða þýðingu hefur það fyrir hamingjusamt hjónaband?

◻ Hvernig getið þið kynnst hinum innri manni hvort annars?

◻ Hvers konar samræður stuðla að velheppnuðu tilhugalífi?

◻ Hvers vegna er gott að vera saman við margs konar ólíkar aðstæður?

◻ Hvað getur bent til að tvær manneskjur eigi ekki saman?

◻ Hvenær er rétt að slíta sambandinu?

[Rammi á blaðsíðu 255]

„Hjónabönd virðast frekar endast og verða farsæl ef hjónin þekkja hinn innri mann hvort annars tiltölulega vel fyrir giftingu.“ — Journal of Marriage and the Family.

[Rammi á blaðsíðu 256, 257]

Ættum við að slíta sambandinu?

Efasemdir eru ekki óalgengar þegar komið er að því að taka ákvörðun í ástamálum. Hvað áttu að gera ef slíkar efasemdir stafa af alvarlegum galla í fari þess sem þú hefur verið með eða af hnökrum á sambandi ykkar?

Það er eðlilegt að tvær manneskjur, sem elska hvor aðra, séu stundum ósammála. (Samanber 1. Mósebók 30:2; Postulasöguna 15:39.) En ef þið eruð ósammála um flest, ef samræður enda alltaf með rimmu eða samband ykkar einkennist af endalausum vináttuslitum og sáttum, þá skaltu fara varlega í sakirnar! Í skoðanakönnun, sem náði til 400 lækna, reyndist það nokkuð samdóma álit að stöðug rifrildi séu eindregin merki þess að fólk „hafi ekki tilfinningaþroska til að ganga í hjónaband,“ og geti jafnvel verið merki um „ósættanlegan ágreining hjónaleysanna.“

Alvarlegur skapgerðargalli, sem þú hefur uppgötvað í fari tilvonandi maka þíns, getur einnig valdið þér áhyggjum. Ofsafengið skap eða jafnvel vísbendingar um eigingirni, vanþroska, hverflyndi eða þrjósku, geta vakið hjá þér efasemdir um að þú treystir þér til að eiga þessa manneskju fyrir lífsförunaut. En margir loka augunum fyrir slíkum ágöllum eða reyna að réttlæta þá og virðast staðráðnir í að stofna til hjónabands hvað sem það kostar. Hvers vegna?

Þar eð tilhugalíf er með réttu álitið alvörumál meðal sannkristinna manna, kann sumum að finnast þeir nánast skuldbundnir til að giftast þeim sem þeir hafa stofnað til kynna við. Þeir veigra sér kannski við að segja honum hvað þeim býr í brjósti, af ótta við að særa hann. Aðrir eru kannski bara smeykir við að þeim takist ekki að finna neinn annan. En ekkert af þessu eru nægilega góðar ástæður til að framlengja samband sem ótal annmarkar eru á.

Tilgangur tilhugalífs eða samdráttar kynjanna er sá að leita sér að heppilegum lífsförunaut. Ef kristinn maður stofnar til slíkra kynna í góðri trú ber honum engin skylda til að halda þeim áfram ef þau reynast ekki heppileg. Og væri það ekki hreinlega rangt og eigingjarnt að viðhalda sambandi, sem ekki reynist heppilegt, á þeirri forsendu að það takist kannski ekki að finna einhvern annan? (Samanber Filippíbréfið 2:4.) Það er því mikilvægt að þið horfist í augu við innbyrðis vandamál ykkar en sneiðið ekki hjá þeim. Byrjaðu á því að horfa gagnrýnum augum á þann sem þú ert að bera víurnar í.

Sérðu til dæmis merki þess að þú hafir fundið konu sem á eftir að vera undirgefin og væn eiginkona? (Orðskviðirnir 31:10-31) Virðist þér þú hafa fundið kærleiksríkan og fórnfúsan mann sem á eftir að sjá vel fyrir fjölskyldu sinni? (Efesusbréfið 5:28, 29; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Hlutaðeigandi segist kannski vera kostgæfinn þjónn Guðs en hvað segja verkin? — Jakobsbréfið 2:17, 18.

Ef þú hefur lagt mikinn tíma í að byggja upp samband ykkar og tilfinningatengsl skaltu auðvitað ekki slíta því í fljótræði vegna þess að þú hefur uppgötvað að tilvonandi maki er ekki fullkominn. (Jakobsbréfið 3:2) Kannski geturðu vel sætt þig við gallana.

En ef ekki, hvað þá? Ræðið málið opinskátt. Er reginmunur á markmiðum ykkar eða skoðunum? Eða er þetta bara einhver misskilningur? Þurfið þið bæði að læra að ‚hafa stjórn á skapsmunum ykkar‘ og útkljá málin með meiri ró? (Orðskviðirnir 25:28) Ef eitthvert persónuleikasérkenni tilvonandi maka fer í taugarnar á þér, játar hann þá auðmjúklega galla sína og sýnir löngun til að bæta sig? Þarftu ef til vill að læra að taka hlutina ekki svona nærri þér? (Prédikarinn 7:9) Að ‚umbera hver annan í kærleika‘ er lífæð góðs hjónabands. — Efesusbréfið 4:2.

Ræðið málið. Það er alls ekki víst að upp úr slitni hjá ykkur við það. Kannski leiðir það í ljós að samband ykkar getur styrkst og þroskast! En ef samtalið endar með ósætti einu sinni enn er óskynsamlegt að loka augunum fyrir augljósum merkjum um yfirvofandi stórslys. (Orðskviðirnir 22:3) Það eru litlar líkur á að ástandið batni eftir að þið eruð gift. Þá getur verið best fyrir ykkur bæði að slíta sambandinu.

[Mynd á blaðsíðu 253]

Með því að gefa hvort öðru auga innan um annað fólk er tækifæri til að kynnast án þess að stofna til tilfinningatengsla.

[Mynd á blaðsíðu 254]

Fylgdu viðteknum kurteisisvenjum; það er gott upphaf gagnkvæmrar virðingar sem getur viðhaldist áfram í hjónabandi.

[Mynd á blaðsíðu 259]

Þegar ljóst er að samdráttur ykkar ætlar ekki að leiða til farsæls hjónabands er rétt að ræða málið augliti til auglitis og útskýra hvers vegna samband ykkar verði að taka enda.