Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig veit ég hvort það er sönn ást?

Hvernig veit ég hvort það er sönn ást?

31. kafli

Hvernig veit ég hvort það er sönn ást?

ÁSTIN — þessi dularfulla sælukennd sem grípur manninn einu sinni á ævinni. Hún er mál hjartans sem ekki er hægt að skilja heldur bara skynja. Ástin sigrar allt og varir að eilífu . . .

Þetta er boðskapur ástarsagnanna. Og því er ekki að neita að það getur verið unaðsleg lífsreynsla að verða ástfanginn. En hvað er eiginlega sönn ást?

Ást við fyrstu sýn?

Davíð hitti Kristjönu fyrst í veislu. Hann hreifst strax af fögru vaxtarlagi hennar og því hvernig hárið féll fram yfir ennið þegar hún hló. Kristjana hreifst af dökkbrúnum augum hans og hnyttilegum tilsvörum. Þetta leit út fyrir að vera gagnkvæm ást við fyrstu sýn!

Davíð og Kristjana voru óaðskiljanleg næstu þrjár vikurnar. En kvöld eitt hringdi fyrrverandi vinur til hennar. Hún var miður sín eftir símtalið og hringdi til Davíðs til að leita hughreystingar. En hann var ráðvilltur og fannst sér ógnað, svo að hann var kuldalegur í viðmóti. Ástin, sem þau héldu að myndi vara að eilífu, dó þetta kvöld.

Eftir kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, bókum og tímaritum að dæma varir ást við fyrstu sýn að eilífu. Að vísu er það oftast aðlaðandi útlit sem fær karl og konu til að gefa hvort öðru auga fyrst í stað. Eins og ungur maður segir: „Það er erfitt að ‚sjá‘ persónuleika annarrar manneskju.“ En hvað er það sem fólk „elskar“ þegar kunningsskapurinn er aðeins nokkurra stunda eða nokkurra daga gamall? Er það ekki sú ímynd sem hin manneskjan gefur af sjálfri sér? Þú veist ekki mikið um hugsanir, vonir, ótta, áform, venjur, kunnáttu eða hæfni annars manns eftir svo stutt kynni. Það er bara yfirborðið sem fólk hefur kynnst, ekki „hinn huldi maður hjartans.“ (1. Pétursbréf 3:4) Hve varanleg getur slík ást verið?

Útlitið er villandi

Útlit manns getur gefið alranga mynd af honum. Biblían segir: „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull.“ Fallegar gjafaumbúðir segja ekkert um innihaldið. Undir skrautlegum gjafapappírnum getur leynst gagnslaus gjöf. — Orðskviðirnir 31:30.

Orðskviðirnir segja: „Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.“ (Orðskviðirnir 11:22) Nefhringir voru algengir skartgripir á biblíutímanum. Þeir voru fallegir og oft úr gagnheilu gulli. Ef kona bar nefhring var það að sjálfsögðu fyrsti skartgripurinn sem menn tóku eftir.

Það á vel við að orðskviðurinn skuli líkja ytri fegurð konu, sem „enga siðprýði kann,“ við ‚gullhring í svínstrýni.‘ Ef kona kann enga siðprýði er fegurðin einskis virði. Þegar til lengdar lætur gerir fegurðin hana ekkert frekar aðlaðandi en glæsilegur gullhringur fegrar svínið! Það eru því reginmistök að verða ‚ástfanginn‘ af útlitinu einu og láta skeika að sköpuðu um hinn innri mann.

„Svikult er hjartað“

Sumir halda að mannshjartanu geti ekki skjátlast þegar ástin er annars vegar. ‚Hlýddu á rödd hjartans,‘ segja þeir, ‚þá veistu hvenær það er sönn ást!‘ Staðreyndirnar segja því miður allt aðra sögu. Könnun, sem náði til 1079 ungmenna (á aldrinum 18 til 24 ára), leiddi í ljós að þau höfðu fram til þess tíma orðið ástfangin að meðaltali sjö sinnum. Flest þeirra viðurkenndu að ástir fortíðarinnar hefðu verið stundarhrifning — tilfinning sem leið fljótt hjá. Þó sögðu þessir unglingar „undantekningarlaust að núverandi tilfinning væri ást“! Þegar fram líða stundir eiga flestir þeirra þó sennilega eftir að líta núverandi samband sömu augum og hin fyrri — sem stundarhrifningu.

Það er sorglegt að ár hvert ganga þúsundir manna í hjónaband í þeirri trú að þeir séu ‚ástfangnir,‘ en uppgötva skömmu síðar að þeim skjátlaðist hrapallega. Stundarhrifning „lokkar grunlausa karla og konur út í slæmt hjónaband eins og lömb sem leidd eru til slátrunar,“ segir Ray Short í bók sinni Sex, Love, or Infatuation.

„Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi.“ (Orðskviðirnir 28:26) Því miður er dómgreind hjartans oft ekki upp á marga fiska. Reyndar segir Biblían: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru.“ (Jeremía 17:9) En orðskviðurinn hér á undan heldur áfram: „En sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ Þú getur líka forðast þær hættur og vonbrigði, sem önnur ungmenni hafa mátt þola, ef þú lærir að gera greinarmun á stundarhrifningu og þeirri ást sem lýst er í Biblíunni — kærleikanum sem aldrei bregst.

Munurinn á ást og stundarhrifningu

„Stundarhrifning er blind og vill helst vera þannig. Hún vill ekki horfast í augu við veruleikann,“ viðurkennir Karl, 24 ára. Sextán ára stúlka, Kristín, bætir við: „Þegar maður er yfir sig hrifinn af einhverjum heldur maður að allt sem hann gerir sé fullkomið.“

Stundarhrifning er gerviást. Hún er óraunsæ og sjálfselsk. Hinn ásthrifni segir gjarnan: ‚Mér finnst ég vera eitthvað þegar ég er með honum. Ég get ekki sofið. Þetta er alveg frábært,‘ eða: ‚Mér líður svo vel þegar ég er með henni.‘ Tekurðu eftir hve oft er talað í fyrstu persónu? Samband byggt á eigingirni er dauðadæmt! Lestu nú hið gagnstæða; lýsingu Biblíunnar á sannri ást: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.“ — 1. Korintubréf 13:4, 5.

Þar eð ást byggð á meginreglum Biblíunnar „leitar ekki síns eigin“ er hún hvorki upptekin af sjálfri sér né sjálfselsk. Að vísu geta tveir einstaklingar verið mjög hrifnir hvor af öðrum, en hrifningin er tempruð af skynsemi og gagnkvæmri virðingu. Sá sem elskar aðra manneskju lætur sér ekkert síður annt um velferð hennar og hamingju en sína eigin. Hann lætur ekki taumlausa hrifningu skyggja á góða dómgreind.

Dæmi um sanna ást

Frásögn Biblíunnar af Jakobi og Rakel er skýrt dæmi um þetta. Þau hittust fyrst við brunn þar sem Rakel var að brynna sauðfé föður síns. Jakob varð strax hrifinn af henni, ekki aðeins af því að hún var „bæði vel vaxin og fríð sýnum,“ heldur líka af því að hún tilbað Jehóva. — 1. Mósebók 29:1-12, 17.

Eftir að Jakob hafði búið hjá foreldrum Rakelar í mánuð gerði hann uppskátt að hann elskaði hana og vildi kvænast henni. Var þetta bara blind ástarhrifning? Alls ekki! Á þessum mánuði hafði hann haft tækifæri til að fylgjast með Rakel á heimavelli. Hann hafði veitt athygli hvernig hún kom fram við foreldra sína og aðra, hvernig hún rækti starf sitt sem fjárhirðir og hversu alvarlega hún tók tilbeiðslu sína á Jehóva. Vafalaust sá hann hana bæði í góðu og slæmu skapi. Ást hans var því ekki taumlaus stundarhrifning heldur óeigingjörn ást byggð á skynsemi og djúpri virðingu.

Þar af leiðandi gat Jakob lýst sig fúsan til að vinna í sjö ár hjá föður hennar til að eignast hana fyrir konu. Svo lengi gat skammlíf stundarhrifning ekki enst! Aðeins ósvikin ást, óeigingjörn umhyggja hans fyrir henni, gat látið honum finnast þessi ár „sem fáir dagar væru.“ Þessi sanna ást gerði þeim kleift að varðveita hreinleika sinn meðan þau biðu. — 1. Mósebók 29:20, 21.

Gefðu þér tíma!

Tíminn spillir ekki sannri ást. Tíminn getur einmitt verið besta leiðin til að prófa tilfinningar þínar til annarar manneskju. Sandra bendir á: „Enginn opinberar persónuleika sinn rétt sí svona og segir: ‚Svona er ég. Nú veistu allt um mig.‘“ Það tekur sinn tíma að kynnast þeim sem maður hefur áhuga á.

Tíminn gefur þér líka tækifæri til að skoða þann, sem þú ert hrifinn af, í ljósi Biblíunnar. Mundu að kærleikurinn „hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin.“ Hefur vinur þinn eða vinkona áhuga á áformum þínum — eða bara sínum eigin? Virðir hann eða hún sjónarmið þín og skoðanir? Hefur hann eða hún reynt að fá þig til að gera eitthvað ‚ósæmilegt‘ til að fullnægja eigingjörnum ástríðum sínum? Hefur hann eða hún tilhneigingu til að gera lítið úr þér frammi fyrir öðrum eða tala vel um þig? Spurningar af þessu tagi geta hjálpað þér að leggja hlutlægt mat á tilfinningar þínar.

Fljótfærni í ástamálum endar oft með ósköpum. „Ég féll bara kylliflöt fyrir honum,“ segir Lísa sem er tvítug. Þau giftust tveim mánuðum síðar, eftir hröð og stormasöm kynni. En skömmu síðar gerðu leyndir gallar vart við sig. Öryggisleysi og eigingirni Lísu kom upp á yfirborðið. Töfraljóminn hvarf líka af Reyni, manninum hennar, og eigingirni hans kom í ljós. Dag einn, eftir um tveggja ára hjónaband, æpti Lísa framan í hann að hann væri „auvirðilegur,“ „latur“ og „misheppnaður“ eiginmaður. Reynir svaraði henni með hnefahöggi í andlitið. Lísa hljóp grátandi á dyr — og út úr hjónabandinu.

Ráð Biblíunnar hefðu vafalaust hjálpað þeim að varðveita hjónaband sitt. (Efesusbréfið 5:22-33) En best hefði verið fyrir þau að kynnast betur áður en þau gengu í hjónaband! Þá hefðu þau ekki elskað einhverja „ímynd“ heldur hinn eiginlega persónuleika — með kostum hans og göllum. Þá hefðu þau verið raunsærri í væntingum sínum.

Sönn ást kviknar ekki á einni nóttu. Það er ekki heldur víst að sá eða sú, sem þér finnst ákaflega aðlaðandi, sé besti makinn fyrir þig. Barbara hitti til dæmis ungan mann sem henni fannst ekki sérlega aðlaðandi — í fyrstu. „Það breyttist þegar ég kynntist honum betur,“ segir hún. „Ég sá að Stefán var mjög umhyggjusamur og tók hag annarra alltaf fram yfir sinn eigin. Ég vissi að það væru góðir eiginleikar í fari eiginmanns. Fyrir vikið laðaðist ég að honum og fékk ást á honum.“ Afleiðingin varð sterkt og traust hjónaband.

Hvernig er þá hægt að þekkja sanna ást? Hvað svo sem hjartað segir skaltu treysta skynseminni sem þú hefur þjálfað með biblíunámi. Kynnstu meiru en aðeins ytri „ímynd“ manneskjunnar sem þú ert að draga þig eftir. Gefðu vináttu ykkar tíma til að vaxa. Mundu að stundarhrifning er skammvinn — hún blossar upp en kulnar fljótt. Sönn ást vex og styrkist með tímanum og verður „band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:14.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna er varhugavert að verða ástfanginn af útlitinu?

◻ Er hægt að treysta hjartanu til að bera skyn á sanna ást?

◻ Hver er munurinn á ást og stundarhrifningu?

◻ Hvers vegna slitnar oft upp úr sambandi fólks í hjónabandshugleiðingum? Er það alltaf rangt?

◻ Hvernig geturðu brugðist við ástarsorg ef þér hefur verið hafnað?

◻ Hvers vegna er þýðingarmikið að taka sér tíma til að kynnast vel?

[Rammi á blaðsíðu 242]

Er það sjálf persónan sem þú ert ástfanginn af eða aðeins „ímynd“?

[Rammi á blaðsíðu 247]

„Stundarhrifning er blind og vill helst vera þannig. Hún vill ekki horfast í augu við veruleikann.“ — 24 ára karlmaður.

[Rammi á blaðsíðu 250]

„Héðan í frá fá [ungu mennirnir] ekkert frá mér nema stutta kveðju. Ég hleypi engum að mér.“

[Rammi á blaðsíðu 248, 249]

Hvernig get ég komist yfir ástarsorg?

Þú bara veist að þetta er sá eða sú sem þú vilt giftast. Ykkur líður vel þegar þið eruð saman, þið hafið sameiginleg áhugamál og laðist hvort að öðru. En þá slitnar skyndilega upp úr öllu saman í reiðikasti — eða það leysist upp í táraflóði.

Í bókinni The Chemistry of Love, líkir dr. Michael Liebowitz nýkviknaðri ást við fyrstu áhrifin af sterkum vímugjafa. En eins og vímugjafinn getur slík ást valdið sterkum ‚fráhvarfseinkennum‘ ef hún deyr. Einu gildir hvort það var stundarhrifning eða „sönn ást.“ Hvort tveggja getur veitt þér svimandi sælu — og sálarkvöl ef upp úr slitnar.

Í kjölfarið kemur svo höfnunarkennd, móðgun og jafnvel reiði sem getur spillt jákvæðri afstöðu til framtíðarinnar. Ung kona, sem sagt var upp, segist vera ‚í sárum.‘ Hún segir: „Héðan í frá fá [ungu mennirnir] ekkert frá mér nema stutta kveðju. Ég hleypi engum að mér.“ Því sterkari sem böndin voru orðin, þeim mun sársaukafyllra verður það ef upp úr slitnar.

Já, frelsinu til að gefa undir fótinn þeim sem þú vilt fylgir áhætta: Kannski verður þér hafnað. Það er hreinlega engin trygging fyrir því að úr verði sönn ást. Ef einhver byrjaði að gera hosur sínar grænar fyrir þér í heiðarlegum tilgangi, en kæmist svo síðar að þeirri niðurstöðu að hjónaband væri ekki skynsamlegt, þarf það ekki að merkja að komið hafi verið illa fram við þig.

Vandinn er sá að jafnvel þótt fyllstu nærgætni og háttvísi sé gætt þegar sambandi ykkar er slitið, er óhjákvæmilegt að þú finnir til sársauka, finnist sem þér hafi verið hafnað. En það er engin ástæða til að glata sjálfsvirðingunni. Þótt þú hafir ekki verið „sá rétti“ eða „sú rétta“ í augum þessarar manneskju merkir það ekki að þú getir ekki orðið það í augum einhvers annars.

Reyndu að sjá hlutina í réttu ljósi. Sambandsslit ykkar drógu kannski fram í dagsljósið alvarlega bresti í fari þess sem þú áttir samband við — tilfinningalegan vanþroska, ístöðuleysi, ósveigjanleika, umburðarleysi eða tillitsleysi fyrir tilfinningum þínum. Þetta eru tæpast heppilegir eiginleikar í fari maka.

Hvað þá ef slitin eru algerlega einhliða og þú ert sannfærður um að hjónaband ykkar í milli hefði orðið farsælt? Þú hefur auðvitað rétt til að segja vini þínum eða vinkonu hvað þér finnst. Kannski kom hreinlega til ágreinings milli ykkar. En stóryrði og táraflóð eru til lítils. Ef hann eða hún vill endilega slíta sambandi ykkar hefurðu enga ástæðu til að niðurlægja þig og grátbæna hann eða hana um ást sem er augljóslega ekki fyrir hendi. Salómon sagði að það hafði sinn tíma ‚að leita og sinn tíma að líta á sem tapað.‘ — Prédikarinn 3:6, New World Translation.

En segjum að þú hafir rökstuddan grun um að hinn aðilinn hafi verið að nota þig og aldrei haft hjónaband í hyggju í alvöru. Það er engin ástæða til að hefna sín. Treystu að slík sviksemi fari ekki fram hjá Guði. Orð hans segir: „Hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.“ — Orðskviðirnir 11:17; samanber Orðskviðina 6:12-15.

Af og til getur sótt á þig einmanakennd eða minningar um brostnar ástir. Ef það gerist er ekkert að því að vatna músum. Það er líka gott að hafa nóg að gera, annaðhvort við eitthvað sem reynir á krafta eða hæfni eða í hinni kristnu þjónustu. (Orðskviðirnir 18:1) Hafðu hugann við það sem er ánægjulegt og uppbyggjandi. (Filippíbréfið 4:8) Trúðu góðum vini fyrir tilfinningum þínum. (Orðskviðirnir 18:24) Foreldrar þínir geta líka hughreyst þig, jafnvel þótt þér finnist þú nógu gamall til að standa á eigin fótum. (Orðskviðirnir 23:22) Og framar öllu öðru skaltu trúa Jehóva fyrir tilfinningum þínum.

Kannski kemurðu auga á það núna að þú þurfir að leggja rækt við vissa persónueiginleika. Ef til vill gerirðu þér betur grein fyrir því nú en áður hvaða eiginleika þú vilt sjá í fari væntanlegs maka. Og nú hefurðu kynnst ást og ástarsorg og þú ákveður kannski með sjálfum þér að vera ögn skynsamari í framtíðinni ef þú færð aftur augastað á einhverjum — sem er eflaust líklegra en þú heldur.

[Rammi á blaðsíðu 245]

Er það ást eða stundarhrifning?

ÁST STUNDARHRIFNING

1. Óeigingjörn umhyggja 1. Hún er eigingjörn og

fyrir velferð hins. kröfuhörð. ‚Hvað fæ ég út

úr þessu?‘

2. Ástin fer hægt af stað. 2. Hrifningin blossar snögglega

Hún er stundum mánuði upp, gjarnan á fáeinum

eða ár að vaxa. klukkustundum eða dögum.

3. Þú laðast að manneskjunni 3. Þú ert yfir þig hrifin(n)

í heild. Þú hrífst bæði af af útlitinu og leggur mest

persónuleika og andlegum upp úr því. (‚Hann hefur

eiginleikum. svo falleg augu.‘

‚Hún er svo vel vaxin.‘)

4. Ástin gerir þig að betri manni. 4. Hún brýtur niður og

setur lífið úr skorðum.

5. Þú ert raunsær og sérð 5. Hún er óraunsæ. Þú galla hinnar manneskjunnar trúir að hin manneskjan sé

en elskar hana þrátt fyrir það. fullkomin. Þú þaggar niður

þrálátan grun um alvarlega

skapgerðargalla.

6. Þið eruð ósammála um sumt 6. Þið rífist oft. Ekkert

en getið rætt málin og útkljáð þau. er útkljáð í alvöru.

Margt er „útkljáð“ með kossi.

7. Þig langar til að gefa 7. Þú hugsar mest um að

og njóta með öðrum. taka eða fá, ekki síst

að fullnægja kynhvötinni.

[Caption á blaðsíðu 244]

Karl eða kona, sem er aðlaðandi í útliti en kann ekki siðprýði, er „eins og gullhringur í svínstrýni.“

[Caption á blaðsíðu 246]

Ef hann gerir sífellt lítið úr þér frammi fyrir öðrum er líklegt að hann beri ekki sannaást til þín.