Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju er ég óánægður með sjálfan mig?

Af hverju er ég óánægður með sjálfan mig?

12. kafli

Af hverju er ég óánægður með sjálfan mig?

„MÉR finnst bara alls ekkert varið í mig,“ sagði Lára mæðulega. Ert þú líka stundum óánægður með sjálfan þig?

Allir þurfa að hafa einhverja sjálfsvirðingu. Sjálfsvirðing hefur verið kölluð „það sem gefur mannlífinu reisn.“ Biblían segir líka: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 19:19) Og ef þú ert óánægður með sjálfan þig ertu trúlega óánægður með aðra líka.

‚Ég get aldrei gert neitt rétt!‘

Af hverju skyldirðu stundum vera svona óánægður með sjálfan þig? Kannski ertu vonsvikinn vegna þess að þú finnur að þú hefur þín takmörk. Á vissu skeiði uppvaxtarins er ungt fólk eilítið klaufskt og alltaf að reka sig á eða missa hluti. Sem unglingur býrðu ekki heldur að reynslu fullorðins manns í að taka vonbrigðum með jafnaðargeði. Og þar eð ‚skilningarvit‘ þín hafa ekki enn ‚tamist‘ eða þjálfast nægilega í skóla reynslunnar, tekurðu ef til vill ekki alltaf viturlegustu ákvarðanirnar. (Hebreabréfið 5:14) Stundum finnst manni maður alls ekki geta gert nokkurn skapaðan hlut rétt!

Sjálfsvirðingin getur einnig beðið hnekki ef þér tekst ekki að uppfylla vonir og væntingar foreldranna. „Ef ég fæ 9 í einkunn spyrja pabbi og mamma af hverju ég hafi ekki fengið 10 og segja mér að ég sé auli,“ segir piltur einn. Að sjálfsögðu er það eðlilegt að foreldrar hvetji börnin sín til að gera sitt besta. Þegar börnunum tekst ekki að uppfylla sanngjarnar kröfur foreldra sinna fá þau örugglega að heyra það. Biblían ráðleggur: „Hlýð þú, son minn [eða dóttir], á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8, 9) Í stað þess að missa kjarkinn er best að taka gagnrýninni með jafnaðargeði og læra af henni.

En hvað geturðu gert ef foreldrar þínir gera óhagstæðan samanburð á þér og öðrum? („Af hverju geturðu ekki verið eins og hann Páll, eldri bróðir þinn? Hann fékk alltaf hæstu einkunnir.“) Þótt slíkur samanburður geti verkað særandi í byrjun má samt læra af honum. Foreldrar þínir vilja þér hið besta. Ef þér finnst þeir kröfuharðir um of, væri þá ekki ráð að ræða það stillilega við þá?

Byggðu upp sjálfsvirðingu

Hvernig geturðu hresst upp á sjálfsvirðinguna? Byrjaðu á því að horfast hreinskilnislega í augu við kosti þína og galla. Þá kemstu að raun um að margir af hinum svokölluðu göllum þínum eru ósköp smávægilegir. Ef þú kemur auga á alvarlega galla, svo sem skapbræði eða eigingirni, skaltu leggja þig samviskusamlega fram við að vinna bug á þeim. Það eykur vafalítið sjálfsvirðinguna.

Og lokaðu ekki augunum fyrir því að þú hefur ýmsa kosti til að bera. Þér finnst það kannski lítils virði að geta eldað mat eða skipt um dekk á bíl, en svangur maður eða ökumaður, sem kann ekki að skipta um dekk, kynni vel að meta hæfni þína. Hugsaðu líka um mannkosti þína. Ertu námfús? Þolinmóður? Tillitssamur? Örlátur? Vingjarnlegur? Þessir eiginleikar eru miklu þyngri á metunum en ýmsir smágallar.

Eftirfarandi ábendingar geta einnig hjálpað þér:

Settu þér raunhæf markmið: Þú getur orðið fyrir sárum vonbrigðum ef þú setur markið alltaf of hátt. Settu þér markmið sem þú getur náð. Hvernig væri að læra til dæmis vélritun, hljóðfæraleik eða nýtt tungumál? Þú gætir lagt þig fram við að bæta lestrarkunnáttu þína og lesa fjölbreyttara efni. Árangur á einhverju sviði eykur sjálfsvirðinguna.

Skilaðu góðu verki: Þú ert tæplega ánægður með sjálfan þig ef þú ert hroðvirkur. Guð hafði ánægju af sköpunarstarfi sínu og lýsti „gott“ það sem hann gerði á hverju sköpunartímabili. (1. Mósebók 1:3-31) Þú getur líka haft ánægju af hverju því verki, sem þú vinnur heima fyrir eða í skólanum, með því að skila því vel og samviskusamlega af hendi. — Sjá Orðskviðina 22:29.

Gerðu eitthvað fyrir aðra: Enginn byggir upp sjálfsvirðingu með því að láta aðra þjóna sér í bak og fyrir. Jesús sagði að ‚sá sem vildi vera mikill ætti að vera þjónn‘ annarra. — Markús 10:43-45.

Sautján ára stúlka, Kim, varði til dæmis 60 klukkustundum á mánuði í sumarleyfinu til að hjálpa öðrum að kynnast sannleika Biblíunnar. Hún segir: „Það hefur fært mig nær Jehóva. Það hefur líka hjálpað mér að láta mér þykja vænt um fólk.“ Það er ekki líklegt að þessa ánægðu, ungu stúlku skorti sjálfsvirðingu!

Vandaðu vinaval þitt: „Ég er ósköp óánægð með sjálfa mig,“ sagði Barbara sem er 17 ára. „Þegar ég er með fólki, sem treystir mér, vinn ég vel. Í návist þeirra sem koma fram við mig eins og ég sé utanveltu finnst mér ég vera heimsk.“

Yfirleitt líður fólki ekki vel í návist þeirra sem líta stórt á sjálfa sig eða óvirða aðra. Veldu þér að vinum þá sem láta sér annt um þig og hafa uppbyggileg áhrif á þig. — Orðskviðirnir 13:20.

Gerðu Guð að besta vini þínum: ‚Jehóva er bjarg mitt og vígi,‘ sagði sálmaritarinn Davíð. (Sálmur 18:3) Hann reiddi sig ekki á sjálfan sig heldur náin vináttubönd sín við Jehóva. Þess vegna gat hann þolað alvarlegar ákúrur þegar móti blés síðar á ævinni, án þess að tapa stillingu sinni. (2. Samúelsbók 16:7, 10) Þú getur líka ‚nálægt þig Guði‘ og þannig ‚hrósað þér,‘ ekki af sjálfum þér heldur Jehóva. — Jakobsbréfið 2:21-23; 4:8; 1. Korintubréf 1:31.

Blindgötur

Rithöfundur segir: „Stundum reynir unglingur með veika sjálfsvitund og lítið sjálfstraust að sýnast annað en hann er til að geta horfst í augu við heiminn.“ Þú þekkir vafalaust yfirbragð sumra: „Töffarann,“ lausláta gleðskaparmanninn eða „pönkarann“ sem er fáránlega til fara. En undir skelinni eru þessir unglingar enn að berjast við minnimáttarkenndina. — Orðskviðirnir 14:13.

Hugsaðu til dæmis um stúlkuna sem steypir sér út í lauslæti í því skyni að „losna við þunglyndið, auka sjálfstraustið og láta þykja vænt um sig. Þá gefur hún blíðu sína og með því að verða barnshafandi fær hún ást og skilyrðislausa viðurkenningu annarrar mannveru — barnsins.“ (Coping With Teenage Depression) Vonsvikin, ung kona skrifaði: „Ég reyndi að leita hughreystingar í kynmökum í stað þess að reyna að byggja upp traust samband við skapara minn. Það eina, sem ég hafði upp úr því, var tómleiki, einmanakennd og meira þunglyndi.“ Gættu þín að lenda ekki á slíkum blindgötum.

Varnaðarorð

Athyglisvert er að Ritningin skuli oftsinnis vara fólk við því að hugsa of hátt um sjálft sig. Hvers vegna skyldi hún gera það? Trúlega vegna þess að flestum okkar hættir til að skjóta yfir markið þegar við erum að reyna að byggja upp sjálfstraust. Margir verða eigingjarnir og montnir og ýkja stórlega hæfni sína og kunnáttu. Sumir upphefja sig með því að niðurlægja aðra.

Á fyrstu öldinni varð ákafur metingur í kristna söfnuðinum í Róm milli Gyðinga og manna af öðrum þjóðum. Þess vegna minnti Páll postuli þá á, sem ekki voru Gyðingar, að það væri einungis vegna „gæsku Guðs“ sem þeir hefðu öðlast velvild hans. (Rómverjabréfið 11:17-36) Hinir sjálfumglöðu Gyðingar urðu einnig að horfast í augu við ófullkomleika sinn. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ sagði Páll. — Rómverjabréfið 3:23.

Páll rændi þá ekki sjálfsvirðingunni heldur sagði: „Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber.“ (Rómverjabréfið 12:3) Þótt sjálfsvirðing sé nauðsynleg að vissu marki má hún ekki fara út í öfgar.

Dr. Allan Fromme segir: „Sá sem hefur hæfilega sjálfsvitund er ekki dapur í lund en hann þarf ekki heldur að vera ofsakátur. . . . Hann er ekki svartsýnn en bjartsýni hans er heldur ekki taumlaus. Hann er hvorki fífldjarfur né algerlega óttalaus . . . Hann gerir sér grein fyrir að hann er hvorki mesti afreksmaður mannkynssögunnar né algerlega misheppnaður.“

Vertu því hógvær. „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (Jakobsbréfið 4:6) Gerðu þér grein fyrir kostum þínum en lokaðu ekki augunum fyrir göllunum. Reyndu heldur að bæta úr þeim. Af og til verður þú óánægður með sjálfan þig, en þú þarft aldrei að efast um manngildi þitt eða umhyggju Guðs fyrir þér, því „ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.“ — 1. Korintubréf 8:3.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna eru unglingar stundum óánægðir með sjálfa sig? Geturðu sett þig í spor þeirra sem líður þannig?

◻ Hvernig gætirðu brugðist við kröfum foreldra þinna?

◻ Hvað er hægt að gera til að byggja upp sjálfsvirðingu?

◻ Hvernig ætti ekki að reyna að byggja upp sjálfsvirðingu?

◻ Af hverju þarftu að gæta þess að gera þér ekki of háar hugmyndir um sjálfan þig?

[Innskot á blaðsíðu 98]

Sjálfsvirðing hefur verið kölluð „það sem gefur mannlífinu reisn.“

[Mynd á blaðsíðu 99]

Ertu stundum dapur eða með minnimáttarkennd? Hægt er að ráða bót á því.

[Mynd á blaðsíðu 101]

Gort og stærilæti hjálpar ekki þeim sem skortir sjálfsvirðingu.

[Mynd á blaðsíðu 102]

Finnst þér stundum að þú getir aldrei gert neitt rétt?