Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju er ég svona feiminn?

Af hverju er ég svona feiminn?

15. kafli

Af hverju er ég svona feiminn?

„ALLIR segja mér að ég sé svo myndarleg,“ sagði ung kona í lesandabréfi í dagblaði. Svo hélt hún áfram: „Ég á erfitt með að tala við fólk. Ef ég horfist í augu við þann sem ég er að tala við eldroðna ég og kem varla upp orði . . . Ég hef heyrt sagt um mig nokkrum sinnum í vinnunni að ég sé montin af því að ég tali ekki við neinn. . . . Ég er ekkert montin, bara feimin.“

Í könnun sögðust 80 af hundraði aðspurðra hafa verið feimnir einhvern tíma á ævinni og 40 af hundraði töldu sig vera feimna þegar könnunin fór fram. Feimni hefur reyndar fylgt mannkyninu frá upphafi. Biblían segir okkur að sökum feimni hafi Móse veigrað sér við að vera talsmaður Guðs frammi fyrir Ísraelsþjóðinni. (2. Mósebók 3:11, 13; 4:1, 10, 13) Kristni lærisveinninn Tímóteus virðist einnig hafa verið óframfærinn og feiminn við að láta í sér heyra og gegna forystu með myndugleik. — 1. Tímóteusarbréf 4:12; 2. Tímóteusarbréf 1:6-8.

Hvað er feimni?

Feimni er það að vera þvingaður meðal fólks — ókunnugra, valdsmanna, einstaklinga af hinu kyninu eða jafnvel kunningja sinna. Feimni birtist í mögnuðu uppburðarleysi og hefur mismunandi áhrif á fórnarlömb sín. Sumir verða vandræðalegir; þeir horfa í gaupnir sér, hjartað slær örar og þeir koma varla upp orði. Aðrir tapa stillingu sinni og láta dæluna ganga viðstöðulaust. Og sumir eiga erfitt með að segja hvað þeim finnst og hvað þeir vilja.

Reyndar hefur það sína kosti að vera feiminn að vissu marki. Feimni á skylt við háttvísi og lítillæti, og eitt af því sem Guð leitar að í fari manna og talar lofsamlega um er ‚að framganga í lítillæti fyrir Guði sínum.‘ (Míka 6:8) Það er kostur að vera orðvar og hæverskur en ekki oflætisfullur og framhleypinn um of. Feiminn maður er oft mikils metinn sem áheyrandi. En þegar feimnin tekur að hamla fólki og koma í veg fyrir að það fái notið sín, eða hefur óæskileg áhrif á samband þess við aðra, vinnu og tilfinningalíf, þá er kominn tími til að gera eitthvað í málinu!

Það er góð byrjun að skilja eðli vandans. (Orðskviðirnir 1:5) Feimni segir ekkert um það hvaða mann þú hefur að geyma; hún lýsir atferli þínu, viðbrögðum við mismunandi aðstæðum og þeirri framkomu sem þú hefur tamið þér og styrkt af samskiptareynslu þinni af öðrum. Þú heldur að aðrir hafi lítið álit á þér og geðjist ekki að þér. Þú heldur að aðrir séu betri eða eðlilegri en þú. Þú heldur að allt fari úr böndum ef þú reynir að blanda geði við annað fólk. Þú reiknar með að eitthvað fari úrskeiðis og það gerist líka oft — vegna þess að þú ert taugaóstyrkur og hegðar þér í samræmi við það sem þú ímyndar þér.

Hvernig feimni hefur áhrif á líf þitt

Með því að draga þig inn í skel, segja ekki orð eða vera svo upptekinn af sjálfum þér að þú tekur ekki eftir öðrum, geturðu gefið þeim þá hugmynd um þig að þú sért montinn, óvinsamlegur, þér leiðist eða jafnvel að þú sért fáfróður eða þér sé sama um aðra. Það er erfitt fyrir þig að fylgjast með samræðum annarra ef þú ert að hugsa um sjálfan þig. Þá fylgist þú ekki nógu vel með því sem fram fer og þá gerist það sem þú óttast mest: þú sýnist hálf kjánalegur.

Í hnotskurn má segja að þú hafir læst sjálfan þig inni í fangelsi feimninnar og kastað lyklinum. Þú grípur ekki þau tækifæri sem þér gefast. Þú tekur við hlutum eða sættir þig við aðstæður sem þér er eiginlega ekkert gefið um — aðeins vegna þess að þú þorir ekki að segja skoðun þína. Þú ferð á mis við gleðina af því að hitta fólk og eignast nýja vini eða gera eitt og annað sem myndi auðga líf þitt. En aðrir fara líka á mis við það að kynnast þér í raun og veru.

Sigrast á feimni

Með markvissri viðleitni geturðu smám saman unnið bug á feimninni. Fyrst og fremst skaltu hætta að gera þér áhyggjur af því hvort aðrir séu að virða þig fyrir sér. Þeir eru sennilega of uppteknir af sjálfum sér og því sem þeir ætla að segja eða gera til að hugsa um þig. Og ef einhver er svo barnalegur að gera gys að þér verðurðu að láta þér skiljast að það er eitthvað að hjá honum. „Sá er óvitur sem gerir lítið úr náunga sínum.“ (Orðskviðirnir 11:12, Revised Standard Version) Þeir sem eru vináttu þinnar virði dæma þig ekki eftir ytra útliti heldur innri manni.

Reyndu líka að hugsa á jákvæðum nótum. Enginn er fullkominn; allir hafa sínar sterku og veiku hliðar. Mundu að hægt er að sjá hlutina ólíkum augum og smekkur manna er misjafn. Þótt einhver sé annarrar skoðunar en þú þýðir það alls ekki að hann sé að hafna þér sem persónu.

Lærðu líka að leggja sanngjarnt mat á aðra. Ungur maður, sem áður var mjög feiminn, segir: „Ég komst að raun um tvennt í sambandi við sjálfan mig . . . Í fyrsta lagi var ég of upptekinn af sjálfum mér. Ég hugsaði of mikið um sjálfan mig og gerði mér áhyggjur af því hvað öðrum fyndist um það sem ég segði. Í öðru lagi gerði ég öðrum upp illar hvatir — ég treysti þeim ekki og fannst þeir líta niður á mig.“

Ungi maðurinn sótti samkomu hjá vottum Jehóva. „Ég heyrði þar ræðu sem hjálpaði mér mikið,“ segir hann. ‚Ræðumaðurinn benti á að kærleikurinn sé félagslyndur og að kærleiksríkur maður trúi hinu besta um fólk, ekki hinu versta. Það kenndi mér að ég ætti ekki að gera öðrum upp rangar hvatir. Ég sagði við sjálfan mig: „Þeir verða áreiðanlega skilningsríkir, þeir verða áreiðanlega vingjarnlegir, þeir verða áreiðanlega tillitssamir.“ Ég byrjaði að treysta fólki. Ég gerði mér ljóst að sumir myndu kannski leggja rangt mat á mig en nú fannst mér það vera þeirra vandamál.‘

„Mér lærðist líka að ég þyrfti að eiga frumkvæðið að því að sýna öðrum kærleika, að gefa öðrum meira af sjálfum mér,“ heldur hann áfram. „Ég reyndi það fyrst í samskiptum við þá sem voru yngri en ég og síðar fór ég að heimsækja aðra. Mér lærðist að taka eftir þörfum annarra og hugsa um hvernig ég gæti hjálpað þeim.“ Þannig lærðist honum sannleiksgildi orða Jesú í Lúkasi 6:37, 38: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. . . . Gefið, og yður mun gefið verða. . . . Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“

Fyrstu skrefin

Lærðu að vera mannblendinn — að heilsa öðrum og koma af stað samræðum. Það þarf ekki að vera flóknara en fáein orð um veðrið. Mundu að þú berð aðeins helming ábyrgðarinnar; hinn helmingurinn hvílir á viðmælanda þínum. Láttu þér ekki finnast þú hafa klúðrað öllu ef þú kemst klaufalega að orði. Ef aðrir hlæja að þér geturðu hlegið með þeim og sagt: „Þetta kom eitthvað skakkt út úr mér.“ Það dregur úr taugaspennu og samræðurnar geta haldið áfram.

Klæddu þig þannig að þér líði vel og gættu þess að fötin séu hrein og snyrtileg. Þú hefur ekki áhyggjur af klæðnaði þínum ef þú veist að þú ert vel til fara og þá geturðu einbeitt þér að samræðunum. Stattu beinn en þó ekki stífur. Vertu viðkunnanlegur á svip og brostu. Eigðu vingjarnlegt augnasamband við þann sem þú talar við og kinkaðu kolli eða taktu undir það sem hann segir.

Þegar þú stendur í ströngu, til dæmis vegna viðtals við væntanlegan vinnuveitanda eða ræðustúfs sem þú átt að flytja, þá skaltu vera eins vel undirbúinn og þú getur. Æfðu fyrirfram það sem þú ætlar að segja. Með æfingu er einnig hægt að vinna bug á talörðugleikum eða draga úr þeim. Það tekur sinn tíma, alveg eins og það tekur tíma að ná færni á öllum öðrum sviðum, en þegar þú sérð árangurinn örvar hann þig til að halda áfram.

Ekki má líta fram hjá þeirri hjálp sem Guð getur veitt. Sál, fyrsti konungur Ísraels til forna, var með afbrigðum feiminn í byrjun. (1. Samúelsbók 9. og 10. kafli) En þegar sú stund rann upp að Sál þurfti að láta til sín taka „kom andi Guðs yfir“ hann og hann leiddi þjóðina fram til sigurs! — 1. Samúelsbók 11. kafli.

Kristin ungmenni bera ábyrgð á því að hjálpa öðrum að kynnast Guði og hinum nýja, réttláta heimi sem hann hefur lofað. (Matteus 24:14) Það verkefni að flytja þessi fagnaðartíðindi og vera fulltrúi æðsta yfirvalds í alheiminum veitir þér áreiðanlega sjálfstraust og hjálpar þér að beina athygli þinni frá sjálfum þér. Þú mátt vera viss um að Guð blessar þig og hjálpar þér að yfirstíga feimnina, ef þú þjónar honum í trúfesti.

Spurningar til umræðu

◻ Hvað er feimni og hvernig er feiminn maður í návist annarra? Ertu stundum feiminn?

◻ Hvers vegna missir feiminn maður sjálfstraustið í viðurvist annarra?

◻ Hvernig getur feimni komið manni til að fara á mis við margt?

◻ Nefndu nokkur ráð til að vinna bug á feimni. Hafa einhver þeirra hjálpað þér?

[Innskot á blaðsíðu 121]

Feiminn maður fer á mis við tækifæri, meðal annars til að eignast nýja vini.

[Rammi á blaðsíðu 124]

Þú getur sigrast á feimni

Láttu þig langa til að breyta þér og trúðu að þú getir það.

Láttu neikvæðar hugsanir víkja fyrir framtakssemi.

Settu þér raunhæf og verðug markmið.

Lærðu að slaka á og ráða við kvíða.

Æfðu fyrirfram hvað þú ætlar að segja og gera við tilteknar aðstæður.

Byggðu jafnt og þétt upp sjálfstraust með markvissum framförum.

Mundu að skoðanamunur er eðlilegur og að öðrum getur líka skjátlast.

Þjálfaðu færni þína í mannlegum samskiptum og tileinkaðu þér nýja kunnáttu.

Vertu hjálpsamur og kærleiksríkur við aðra.

Klæddu þig smekklega og vertu öruggur í framkomu.

Treystu á þá hjálp sem Guð getur veitt.

Taktu þátt í kristnum samkomum og segðu öðrum frá trú þinni.

[Mynd á blaðsíðu 123]

Feiminn maður ímyndar sér að aðrir hafi lítið álit á honum.

[Mynd á blaðsíðu 125]

Lærðu að vera mannblendinn — að brosa, heilsa fólki og halda uppi samræðum.