Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er eðlilegt að syrgja eins og ég geri?

Er eðlilegt að syrgja eins og ég geri?

16. kafli

Er eðlilegt að syrgja eins og ég geri?

MAGNÚS hugsar til baka til dagsins þegar faðir hans dó: „Ég var sem lamaður af áfallinu. . . . ‚Það getur ekki verið satt,‘ sagði ég við sjálfan mig hvað eftir annað.“

Ef til vill hefur þú misst ástvin í dauðann — foreldri, systkini eða vin. Sorg þín er kannski blandin reiði og ótta og þú ert ringlaður. Þú reynir að halda aftur af tárunum en getur það ekki, eða þá að þú lokar sársaukann inni með þér.

Það er fullkomlega eðlilegt að komast í geðshræringu þegar ástvinur deyr. Jafnvel Jesús Kristur ‚komst við í anda‘ og „grét“ er hann frétti af láti náins vinar. (Jóhannes 11:33-36; samanber 2. Samúelsbók 13:28-39.) Sorgin getur verið léttbærari fyrir þig ef þú gerir þér grein fyrir að öðrum hefur verið eins innanbrjósts.

Neitun

Í fyrstu getur þér fundist þú dofinn. Innst inni vonarðu kannski að þetta sé allt saman vondur draumur og að bráðum verðir þú vakinn af svefni og uppgötvir að allt sé eins og áður var. Cindy, sem missti móður sína af völdum krabbameins, segir: „Ég hef ekki áttað mig almennilega á að hún sé dáin. Þegar eitthvað gerist, sem ég myndi hafa talað um við hana, stend ég sjálfa mig að því að hugsa með mér: ‚Ég þarf að segja mömmu frá þessu.‘“

Þeir sem misst hafa ástvin hafa tilhneigingu til að afneita því að það hafi gerst. Þeir halda sig jafnvel skyndilega sjá hinn látna á götunni, í strætisvagni sem ekur fram hjá eða annars staðar. Ef þeir sjá bregða fyrir svip með öðrum og látnum ástvini getur það vakið þá von að kannski sé þetta allt saman misskilningur. Mundu að Guð skapaði manninn til að lifa, ekki deyja. (1. Mósebók 1:28; 2:9) Þess vegna er eðlilegt að við skulum eiga erfitt með að sætta okkur við dauðann.

„Hvernig gat hún gert mér þetta?“

Vertu jafnvel viðbúinn því að finna stundum til svolítillar reiði í garð hins látna. Sigrún segir: „Þegar mamma dó hugsaði ég stundum með mér: ‚Þú sagðir okkur ekki einu sinni að þú myndir deyja. Þú stakkst bara af.‘ Mér fannst ég yfirgefin.“

Systkinamissir getur vakið svipaðar kenndir. „Það er næstum fáránlegt að vera reiður þeim sem er dáinn,“ segir Karen, „en ég gat ekki að því gert þegar systir mín dó. Hugsanir eins og: ‚Hvernig gat hún dáið og skilið mig eina eftir? Hvernig gat hún gert mér þetta?‘ sóttu á mig aftur og aftur.“ Sumir eru reiðir við systkini sitt vegna alls sársaukans sem dauði þess hefur valdið. Sumum finnst þeir afskiptir og eru jafnvel afbrýðisamir vegna alls þess tíma og athygli sem veikur bróðir eða systir fékk fyrir dauða sinn. Harmi lostnir foreldrar geta líka vakið upp óvild í garð hins látna með því að taka skyndilega upp á því að reyna að ofvernda önnur börn sín sökum óttans við að missa þau líka.

„Bara að ég hefði . . . “

Sektarkennd er einnig algeng viðbrögð. Spurningar og efasemdir leita á hugann. ‚Hefðum við getað gert eitthvað meira? Hefðum við átt að leita til annars læknis?‘ Og þá koma annars konar sjálfsásakanir: ‚Bara að við hefðum ekki rifist svona mikið.‘ ‚Bara að ég hefði verið betri við hann.‘ ‚Bara að ég hefði farið í búð í staðinn.‘

Magnús segir: „Ég vildi óska að ég hefði verið þolinmóðari og skilningsríkari við pabba eða hjálpað meira til á heimilinu til að létta undir með honum þegar hann kom heim.“ Og Elisa segir: „Þegar mamma veiktist og dó skyndilega sat ég uppi með allar þessar tilfinningar sem við bárum hvor til annarrar. Nú sækir á mig sektarkennd þegar ég hugsa um allt það sem ég hefði átt að segja við hana, allt það sem ég hefði ekki átt að segja og allt það sem ég gerði rangt.“

Þér getur jafnvel fundist þú bera sök á því hvernig fór. Cindy segir: „Ég fann til sektarkenndar vegna allra rifrildanna sem við höfðum átt í og alls álagsins sem ég hafði valdið mömmu. Mér fannst að álagið, sem ég olli henni, væri kannski ein af orsökunum fyrir því að hún veiktist.“

„Hvað á ég að segja vinum mínum?“

Ekkja sagði um son sinn: „Jón átti mjög erfitt með að segja öðrum börnum að pabbi hans væri dáinn. Það gerði hann vandræðalegan og svo varð hann reiður út af því að hann skyldi vera vandræðalegur.“

Bókin Death and Grief in the Family segir: „Spurningin: ‚Hvað á ég að segja vinum mínum?‘ skiptir miklu máli fyrir marga [sem hafa misst systkini]. Oft finnst þeim að vinir þeirra skilji ekki hvernig þeim líður. Þegar þau reyna að skýra hvaða áhrif dauðsfallið hefur á þau er horft sviplaust á þau eða með spyrjandi augnaráði. . . . Þess vegna finnst börnum, sem hafa misst systkini í dauðann, oft að þeim sé vísað á bug, þau séu ein á báti eða jafnvel eitthvað afbrigðileg.“

Gerðu þér líka ljóst að aðrir vita ekki alltaf hvað þeir eiga að segja við sorgmæddan vin sinn — og segja þá ekkert. Missir þinn getur líka minnt þá á að þeir gætu misst ástvin. Þá langar ekki til að láta minna sig á slíkt og þess vegna hörfa þeir kannski frá þér.

Sættu þig við sorgina

Um leið og þú gerir þér grein fyrir að sorgin er eðlileg ertu á góðri leið með að ná tökum á henni. Hins vegar dregur það sorgina einungis á langinn að neita að horfast í augu við veruleikann. Sumar fjölskyldur skilja eftir autt sæti við matarborðið þar sem hinn látni var vanur að sitja, rétt eins og hans sé von á hverri stundu. Ein fjölskylda fór öðruvísi að. Móðirin segir: „Við sátum aldrei í sömu sætum við eldhúsborðið eftir þetta. Maðurinn minn settist í sætið hans Davids og það hjálpaði okkur að fylla í tómarúmið.“

Það hjálpar líka ef þú skilur að enda þótt þú hefðir átt að segja eða gera ýmislegt — eða láta það ógert — er það yfirleitt ekki ástæðan fyrir því að ástvinur þinn dó. Auk þess minnir Biblían á að „allir hrösum vér margvíslega.“ — Jakobsbréfið 3:2.

Segðu öðrum frá tilfinningum þínum

Dr. Earl Grollman ráðleggur: „Það er ekki nóg að horfast í augu við tilfinningarótið; þú þarft að takast á við það fyrir opnum tjöldum . . . Þetta er tíminn til að segja öðrum frá tilfinningum sínum.“ Þetta er ekki rétti tíminn til að einangra sig frá öðrum. — Orðskviðirnir 18:​1, New World Translation.

Dr. Grollman segir að með því að afneita sorginni sé „einungis verið að gera kvölina langdregnari og seinka sorgarferlinu.“ Hann ráðleggur þeim sem syrgja að „finna einhvern góðan áheyranda, vin sem skilur að tilfinningarótið er eðlileg afleiðing djúprar sorgar.“ Foreldri, bróðir, systir, vinur eða öldungur í kristna söfnuðinum getur verið til mikillar hjálpar.

Og hvað áttu að gera ef þig langar til að gráta? Dr. Grollman segir: „Fyrir suma eru tárin besta ráðið til að slaka á tilfinningaspennunni, jafnt fyrir karla sem konur og börn. Grátur er eðlileg leið til að gefa sorginni og sársaukanum útrás.“

Hjálpist að sem fjölskylda

Foreldrar þínir geta einnig verið þér mikil hjálp ef þú missir ástvin — og þú getur verið þeim mikil hjálp. Jane og Sarah á Englandi misstu bróður sinn Darrall, 23 ára. Hvernig komust þær yfir sorgina? Jane svarar: „Þar sem við vorum fjögur var ég stöðugt með pabba en Sarah með mömmu. Þannig vorum við ekki ein á báti.“ Hún bætir við: „Ég hafði aldrei séð pabba gráta fyrr. Hann grét nokkrum sinnum og á vissan hátt fannst mér það gott. Þegar ég lít um öxl er ég ánægð með að ég skyldi vera hjá honum til að hughreysta hann.“

Von sem heldur manni uppi

David á Englandi missti 13 ára systur sína, Janet, af völdum Hodgkins-sjúkdóms. Hann segir: „Einn ritningartexti, sem vitnað var í við jarðarförina, hjálpaði mér mikið. Hann er svona: ‚Því að Guð hefur sett dag þegar hann ætlar að láta dæma alla heimsbyggðina með réttvísi, og hann hefur sannað það öllum mönnum með því að reisa hann, Jesú, upp frá dauðum.‘ Ræðumaðurinn lagði áherslu á þessa ‚sönnun‘ fyrir upprisunni. Það var mikil uppörvun fyrir mig eftir jarðarförina.“ — Postulasagan 17:31; sjá einnig Markús 5:35-42; 12:26, 27; Jóhannes 5:28, 29; 1. Korintubréf 15:3-8.

Upprisuvon Biblíunnar eyðir ekki sorginni. Við gleymum aldrei ástvini sem við höfum misst. Margir hafa hins vegar sótt mikla hughreystingu í loforð Biblíunnar og það hefur hjálpað þeim að ná sér smám saman eftir þann sársauka sem ástvinamissirinn olli.

Spurningar til umræðu

◻ Finnst þér eðlilegt að syrgja látinn ástvin?

◻ Hvaða tilfinningum getur syrgjandi maður fundið fyrir og hvers vegna?

◻ Hvernig getur syrgjandi unglingur náð tökum á tilfinningum sínum?

◻ Hvernig er hægt að hughreysta vin sem syrgir látinn ástvin?

[Innskot á blaðsíðu 128]

„Ég hef ekki áttað mig almennilega á að hún sé dáin . . . Ég stend mig að því að hugsa með mér: ‚Ég þarf að segja mömmu frá þessu.‘“

[Innskot á blaðsíðu 131]

„Þegar mamma dó hugsaði ég . . . : ‚Þú sagðir okkur ekki einu sinni að þú myndir deyja. Þú stakkst bara af.‘ Mér fannst ég yfirgefin.“

[Mynd á blaðsíðu 129]

„Þetta getur ekki verið satt!“

[Mynd á blaðsíðu 130]

Við höfum ríka þörf fyrir hluttekningu annarra þegar við missum ástvin í dauðann.