Hvernig get ég losnað við einmanaleikann?
14. kafli
Hvernig get ég losnað við einmanaleikann?
Það er laugardagskvöld. Drengurinn situr einn í herberginu sínu.
„Ég hata helgarnar!“ hrópar hann. En enginn heyrir til hans. Hann tekur upp tímarit og rekur augun í mynd af hópi ungs fólks í útivistarferð. Hann hendir blaðinu í vegginn. Tárin spretta fram. Hann bítur í neðri vörina en allt kemur fyrir ekki. Hann ræður ekki lengur við grátinn, lætur fallast í rúmið sitt og kjökrar: „Af hverju verð ég alltaf útundan?“
LÍÐUR þér stundum þannig — einmana, fullur tómleika, finnst þú gagnslaus og eins og slitinn úr tengslum við umheiminn? Ef svo er skaltu ekki örvænta. Það er að vísu ekkert gaman að vera einmana en það er ekki heldur banvænn sjúkdómur. Einmanaleiki er í rauninni viðvörunarmerki. Líkt og svengd minnir þig á að þú þurfir að borða er einmanakennd áminning um að þú þarfnist félagsskapar, hlýju og náins sambands við aðra. Við þurfum að borða til að líkaminn starfi vel. Við þörfnumst líka félagsskapar til að okkur líði vel.
Hefur þú nokkurn tíma horft á hrúgu af glóandi kolum? Ef einn kolamoli er tekinn úr hrúgunni kulnar glóðin í honum. Sé hann settur aftur á hrúguna byrjar hann að glóa á ný. Við mennirnir njótum okkar ekki heldur ef við erum lengi einir og einangraðir. Við höfum meðfædda þörf fyrir félagsskap.
Einn en ekki einmana
Rithöfundurinn Henry David Thoreau skrifaði: „Ég hef aldrei fundið jafnviðfelldinn félaga og einveruna.“ Geturðu tekið undir það? Villi, sem er tvítugur, svarar játandi. „Ég er náttúruunnandi. Stundum ýti ég litla bátnum mínum frá landi og ræ út á vatn. Þar get ég setið einn svo klukkustundum skiptir. Það gefur mér tíma til að íhuga hvernig ég nota líf mitt. Mér finnst það mjög gott.“ Stefán tekur undir það, en hann er 21 árs. „Ég bý í stóru fjölbýlishúsi,“ segir hann, „og stundum fer ég upp á þak til að geta verið einn. Þar get ég hugsað og beðist fyrir í ró og næði. Það er hressandi.“
Einvera getur verið mjög auðgandi sé hún vel notuð. Jesús naut slíkra stunda: „Árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.“ (Markús 1:35) Þegar Jehóva sagði: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall,“ átti hann ekki við að maðurinn hefði ekki gott af því að vera stundum einn. Hann átti við að það væri ekki gott fyrir manninn að vera einn til langframa. (1. Mósebók 2:18-23) Það er langvarandi einvera eða einangrun sem getur valdið einmanakennd. Biblían varar við: „Sá sem einangrar sig leitar sinnar eigingjörnu þrár; hann illskast gegn allri skynsemi.“ — Orðskviðirnir 18:1, New World Translation.
Tímabundin einmanakennd
Stundum geta óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem búferlaflutningur, valdið aðskilnaði náinna vina og einmanakennd.
Stefán segir: „Heima vorum við Jakob vinir, tengdir sterkari böndum en bræður. Ég vissi að ég myndi sakna hans þegar ég flutti burt.“ Stefán þagnar um stund eins og hann lifi aftur upp skilnaðarstundina í huganum. „Ég kom ekki upp orði þegar ég þurfti að fara út í flugvélina. Við föðmuðumst og síðan fór ég. Mér fannst ég hafa glatað gersemi.“Hvernig spjaraði Stefán sig í nýju umhverfi? „Það var erfitt,“ segir hann. „Ég var vel liðinn heima en hérna komu sumir af nýju vinnufélögunum fram við mig eins og ég væri einskis virði. Ég man að ég leit stundum á klukkuna og taldi fjórar stundir til baka (það var tímamunurinn) og reyndi að sjá fyrir mér hvað við Jakob gætum verið að gera á því augnabliki. Ég var einmana.“
Þegar allt gengur ekki eins og í sögu höfum við tilhneigingu til að hugsa um ánægjulegri stundir sem við áttum í fortíðinni. En Biblían áminnir: „Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir?“ (Prédikarinn 7:10) Hvers vegna segir Biblían þetta?
Meðal annars vegna þess að aðstæðurnar geta breyst til hins betra. Þess vegna tala rannsóknarmenn oft um „tímabundna einmanakennd.“ Stefáni tókst til dæmis að yfirvinna einmanaleikann. Hvernig? „Það hjálpaði mér mikið að tala við mann sem sýndi mér umhyggju. Maður
getur ekki lifað í fortíðinni. Ég neyddi mig til að blanda geði við aðra og sýna þeim áhuga. Það hreif og ég eignaðist nýja vini.“ Og hvað um vináttu hans við Jakob? ‚Ég hafði alrangt fyrir mér — vinátta okkar var ekki á enda þótt ég flyttist búferlum. Ég hringdi til hans um daginn. Við töluðum og töluðum í klukkutíma og korter.‘Langvarandi einmanakennd
Stundum virðist nagandi einmanakennd ekki ætla að hverfa þótt tíminn líði og engin leið að losna við hana. Ronny, sem er í framhaldsskóla, segir: „Ég hef gengið í skóla í þessu hverfi í átta ár en ekki tekist að eignast einn einasta vin allan þann tíma! . . . Enginn veit hvernig mér líður og öllum er sama. Stundum finnst mér ég ekki geta haldið það út lengur!“
Margir unglingar líða af langvinnri einmanakennd, líkt og Ronny, og hún er alvarlegri en tímabundin einmanakennd. Rannsóknarmenn segja að það sé jafnmikill munur á langvinnri og skammvinnri einmanakennd „og á kvefi og lungnabólgu.“ En það er hægt að vinna bug á langvinnri einmanakennd líkt og hægt er að lækna lungnabólgu. Fyrsta skrefið er að reyna að skilja orsökina. (Orðskviðirnir 1:5) Rósa, 16 ára, bendir á algengustu orsök langvinnrar einmanakenndar er hún segir: „Ég held að ég sé svona einmana af því að maður getur ekki átt vini ef maður er óánægður með sjálfan sig. Og ég er víst ekkert sérstaklega hrifin af sjálfri mér.“ — Lonely In America.
Einmanakennd Rósu kemur innan frá. Minnimáttarkenndin hindrar hana í að opna sig fyrir öðrum og eignast vini. Rannsóknarmaður segir: „‚Ég er óaðlaðandi,‘ ‚ég er leiðinlegur,‘ ‚ég er einskis nýtur,‘ er algengt viðkvæði hjá þeim sem eru haldnir langvarandi einmanakennd.“ Leiðin til að vinna bug á einmanakenndinni getur því verið sú að byggja upp sjálfsvirðingu sína. (Sjá 12. kafla.) Um leið og þú þroskar það sem Biblían kallar ‚hinn nýja mann‘ eða nýja persónuleika, sem einkennist af góðvild, hógværð og mildi, mun sjálfsvirðing þín tvímælalaust vaxa! — Kólossubréfið 3:9-12.
Um leið og þér fer að geðjast að sjálfum þér byrja aðrir líka að taka eftir aðlaðandi eiginleikum þínum. En á sama hátt og þú sérð ekki öll litbrigði blóms fyrr en það er alveg sprungið út geta aðrir ekki lært að meta mannkosti þína nema þú opnir þig fyrir þeim.
Brjóttu ísinn
‚Besta ráðið, sem hægt er að gefa einmana manni, er að blanda geði við fólk,‘ segir í riti sem Bandaríska geðverndarstofnunin gaf út fyrir nokkru. Þetta ráð kemur fyllilega heim og saman við þá hvatningu Biblíunnar að við ‚látum verða rúmgott í hjörtum okkar,‘ séum „hluttekningarsöm“ og setjum okkur í spor annarra. (2. Korintubréf 6:11-13; 1. Pétursbréf 3:8) Það hrífur. Umhyggja fyrir öðrum leiðir ekki bara athygli þína frá einsemd þinni heldur hvetur líka aðra til að sýna þér áhuga.
Natalie, 19 ára, einsetti sér að sitja ekki með hendur í skauti og bíða eftir að fólk heilsaði upp á hana. ‚Ég verð
sjálf að vera vingjarnleg líka,‘ segir hún, ‚annars heldur fólk bara að ég sé montin.‘ Bros er góð byrjun. Kannski brosir hinn á móti.Næsta skrefið er að brydda upp á samræðum. Lilja, sem er 15 ára, játar: „Ég var dauðhrædd í fyrsta sinn sem ég talaði við ókunnuga. Ég óttaðist að mér yrði ekki tekið vel.“ Hvernig bryddar Lilja upp á samræðum? „Ég spyr einfaldra spurninga svo sem: ‚Hvaðan ertu?‘ ‚Þekkirðu þennan eða hinn?‘ Kannski þekkjum við sama fólkið, og áður en maður veit af eru komnar af stað samræður,“ segir hún. Gjafmildi, vinsemd og hjálpsemi getur á sama hátt hjálpað þér að byggja upp dýrmæt vináttubönd. — Orðskviðirnir 11:25.
Mundu líka að þú getur átt þér vin sem aldrei bregst. Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum: ‚Ég er ekki einn því faðirinn er með mér.‘ (Jóhannes 16:32) Jehóva getur líka orðið nánasti vinur þinn. Kynnstu honum með því að lesa Biblíuna og virða fyrir þér sköpunarverk hans. Styrktu vináttubönd þín við hann með bæn. Vinátta við Jehóva Guð er besta lækningin á einmanakennd.
Vertu ekki órólegur þótt þú sért eftir sem áður einmana stundum. Það er fullkomlega eðlilegt. En hvað geturðu gert ef þú ert svo feiminn að það hindrar þig í að eignast vini og vera með öðrum?
Spurningar til umræðu
◻ Er það endilega slæmt að vera einn? Er einvera stundum til góðs?
◻ Hvers vegna er einmanakennd yfirleitt skammvinn? Þekkir þú það af eigin raun?
◻ Hvað er langvinn einmanakennd og hvernig er hægt að berjast gegn henni?
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að ‚brjóta ísinn‘ í samskiptum við aðra. Hvað hefur reynst þér vel?
[Innskot á blaðsíðu 119]
‚Besta ráðið, sem hægt er að gefa einmana manni, er að blanda geði við fólk,‘ að sögn Bandarísku geðverndarstofnunarinnar.
[Myndir á blaðsíðu 116, 117]
Vinir geta haldið sambandi þótt langt sé milli þeirra.
[Mynd á blaðsíðu 118]
Einverustundir geta verið ánægjulegar.