Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?

Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?

13. kafli

Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?

Magga hafði alltaf uppfyllt drauma móður sinnar um hið fullkomna barn — uns hún varð sautján ára. Þá missti hún áhugann á skólanáminu, hætti að þiggja boð og virtist kæra sig kollótta þótt einkunnirnar hröpuðu niður úr öllu valdi. Þegar foreldrar hennar spurðu hana varfærnislega hvað væri að, hreytti hún út úr sér um leið og hún rauk burt: „Látið mig í friði! Það er ekkert að mér.“

Markús var hvatvís, árásarhneigður og skapbráður mjög þegar hann var fjórtán ára. Í skólanum var hann eirðarlaus og truflandi. Væri hann vonsvikinn eða reiður þeysti hann út um auðnir á vélhjóli eða renndi sér á fleygiferð niður brattar brekkur á hjólabretti.

MAGGA og Markús áttu bæði við sama vanda að glíma — þunglyndi. Dr. Donald McKnew við Bandarísku geðverndarstofnunina segir að 10 til 15 af hundraði skólabarna geti átt við skapferlisvanda að glíma. Eitthvað færri eiga við alvarlegt þunglyndi að stríða.

Stundum eru orsakirnar líffræðilegar. Sumir smit- eða innkirtlasjúkdómar, hormónasveiflur tíðahringsins, blóðsykurskortur, sum lyf, eitraðir málmar eða efnasambönd, ofnæmisviðbrögð, einhliða mataræði, blóðleysi — allt getur þetta hrint þunglyndi af stað.

Álag getur valdið þunglyndi

Töluvert tilfinningaálag getur fylgt unglingsárunum. Unglingur býr ekki að reynslu hins fullorðna í að taka skini og skúrum lífsins með jafnaðargeði. Honum getur fundist sem enginn kæri sig um hann og orðið mjög niðurdreginn jafnvel út af fremur hversdagslegum smámunum.

Depurð getur einnig sótt á unglinga ef þeim tekst ekki að uppfylla væntingar foreldra sinna, kennara eða vina. Donald fannst hann verða að skara fram úr í skóla til að þóknast velmenntuðum foreldrum sínum. Þegar það mistókst varð hann þunglyndur og það hvarflaði að honum að svipta sig lífi. „Ég hef aldrei getað gert neitt rétt. Ég hef alltaf brugðist vonum allra,“ stundi Donald.

Sú tilfinning að maður sé misheppnaður getur verið kveikja þunglyndis. Þannig fór fyrir Epafrodítusi sem var trúfastur kristinn maður á fyrstu öld. Hann var sendur sérstaklega til að aðstoða Pál postula sem sat í fangelsi. En skömmu eftir komuna til Páls veiktist hann þannig að Páll þurfti að annast hann í staðinn. Þú getur rétt ímyndað þér að Epafrodítusi hefur fundist hann algerlega misheppnaður og verið mjög niðurdreginn. Hann virðist hafa gleymt öllu því góða sem hann hafði gert áður en hann veiktist. — Filippíbréfið 2:25-30.

Missir og söknuður

Francine Klagsbrun segir í bók sinni Too Young to Die — Youth and Suicide: „Undirrót þunglyndis af tilfinningalegum orsökum er oft sár söknuður, sú tilfinning að maður hafi misst eitthvað eða einhvern sem var manni mjög kær.“ Þannig má stundum rekja þunglyndi unglings til þess að hann hefur misst annað foreldra sinna vegna dauða eða hjónaskilnaðar eða misst vinnuna eða heilsuna.

Einhver alvarlegasti missir, sem unglingur getur orðið fyrir, er þó missir kærleikans, sú tilfinning að hans sé ekki óskað eða að enginn kæri sig um hann. „Mér fannst ég svikin og yfirgefin þegar mamma fór frá okkur,“ segir ung kona sem heitir María. „Það urðu allt í einu endaskipti á veröldinni hjá mér.“

Ímyndaðu þér þá hve ráðvilltur og særður unglingur getur verið þegar upp kemur vandamál í fjölskyldunni svo sem hjónaskilnaður, drykkjusýki eða sifjaspell, móður eða börnum er misþyrmt eða börn misnotuð kynferðislega, eða þegar foreldri er svo upptekið af eigin vandamálum að það virðist hafa ‚gleymt‘ unglingnum. Orðskviður Biblíunnar er dagsannur: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill,“ meðal annars hæfnin til að sporna gegn þunglyndi. (Orðskviðirnir 24:10) Unglingur kennir sjálfum sér kannski ranglega um vandamál fjölskyldunnar.

Þekktu einkennin

Þunglyndi eða depurð getur verið á ýmsu stigi. Unglingur getur verið niðurdreginn út af einhverju atviki sem hefur komið honum úr jafnvægi, en slík depurð er venjulega skammlíf.

Ef depurðin heldur hins vegar áfram og unglingurinn er svartsýnn á flest, áhyggjufullur, reiður, og finnst hann einskis virði, þá getur það leitt til þess sem læknar kalla langvinnt þunglyndi á lágu stigi. Eins og sjá má af lýsingunum á Markúsi og Möggu (sem getið var í byrjun kaflans) geta einkennin verið æði breytileg. Einn getur fengið kvíðaköst en annar verið síþreyttur, lystarlaus, átt erfitt með svefn, lést eða orðið fyrir sífelldum óhöppum.

Sumir unglingar reyna að breiða yfir þunglyndið með því að sleppa fram af sér beislinu. Þeir þeysast úr einni svallveislunni í aðra, hlaupa milli bólfélaga, vinna skemmdarverk, drekka óhóflega og svo mætti lengi telja. „Ég veit eiginlega ekki af hverju ég þarf að vera á sífelldum þeytingi,“ játaði fjórtán ára piltur. „Ég veit bara að þegar ég er einn þá finn ég fyrir alvöru hvað mér líður illa.“ Það er alveg eins og Biblían lýsir: „Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til.“ — Orðskviðirnir 14:13.

Ef það er alvarlegra en tímabundin depurð

Ef langvinn depurð á lágu stigi er ekki meðhöndluð getur hún þróast yfir í alvarlegt þunglyndi. (Sjá blaðsíðu 107.) „Mér leið alltaf eins og ég væri ‚dauð‘ hið innra,“ segir María sem þjáðist af alvarlegu þunglyndi. „Ég var bara til og var tilfinningasljó. Það eina sem ég fann fyrir var stöðugur ótti.“ Þegar um alvarlegt þunglyndi er að ræða er depurðin og svartsýnin stöðug og gefur sig ekki, oft svo mánuðum skiptir. Þunglyndi af þessu tagi er því algengasta orsök sjálfsvíga meðal unglinga en þau eru núna álitin „dulinn faraldur“ víða um lönd.

Þrálátasta kenndin samfara alvarlegu þunglyndi — og langhættulegasta — er algert vonleysi. Prófessor John E. Mack segir frá fjórtán ára stúlku, Vivienne, sem þjáðist af alvarlegu þunglyndi. Hún virtist vera indæl og dugleg stúlka sem átti sér umhyggjusama foreldra. Samt sem áður hengdi hún sig í örvæntingu sinni. Prófessor Mack segir: „Vivienne gat ekki séð fram á að þunglyndinu myndi nokkurn tíma linna, að hún hefði nokkra minnstu von um að geta einhvern tíma losnað við kvöl sína, og það átti veigamikinn þátt í þeirri ákvörðun hennar að svipta sig lífi.“

Þeim sem þjást af alvarlegu þunglyndi finnst að þeir eigi aldrei eftir að ná sér og að það sé nánast enginn morgundagur framundan. Margir sérfræðingar segja að slík vonleysiskennd sé oft kveikja sjálfsvígshugsana.

En sjálfsvíg er engin lausn. María, sem fannst líf sitt vera ein allsherjarmartröð, segir: „Ég neita því ekki að það hvarflaði að mér að taka líf mitt, en ég gerði mér grein fyrir að svo lengi sem ég gerði það ekki væri einhver von.“ Það leysir engin vandamál að binda enda á lífið. Því miður er örvænting margra unglinga slík að þeim tekst ekki að koma auga á neina aðra kosti eða nokkurn möguleika á ánægjulegum málalokum. María reyndi að fela vandamál sín með því að sprauta sig með heróíni. „Ég hafði heilmikið sjálfstraust,“ segir hún, „þangað til eiturlyfið hætti að virka.“

Barist við dapurt geð

Hægt er að gera margt skynsamlegt til að berjast gegn depurð. „Sumir verða niðurdregnir þegar þá svengir,“ segir dr. Nathan S. Kline sem er sérfræðingur um þunglyndi. „Maður borðar kannski ekki morgunverð og sleppir hádegisverðinum einhverra orsaka vegna. Svo skilur maður ekki í því að manni skuli ekki líða vel um þrjúleytið.“

Það skiptir líka máli hvað þú borðar. Debbie, ung kona sem fékk oft örvæntingarköst, segir: „Ég gat ekki ímyndað mér að sjoppumatur hefði svona skaðleg áhrif á skapið. Ég borðaði mikið af slíkum mat. Ég tek eftir því núna að mér líður betur þegar ég borða minna af sætindum.“ Fleira getur hjálpað: Hreyfing af einhverju tagi getur létt lund þína. Í sumum tilvikum er ekki úr vegi að fara í læknisskoðun því að þunglyndi getur verið einkenni líkamlegra sjúkdóma.

Sigraðu í baráttu hugans

Neikvæðar hugsanir um sjálfan sig geta einnig framkallað þunglyndi eða gert það verra. „Þegar fullt af fólki hefur verið að gera lítið úr manni fer maður að halda að maður sé einskis virði,“ segir Evelyn sem er 18 ára.

En hugleiddu málið: Er það hlutverk annarra að leggja dóm á manngildi þitt? Páll postuli mátti einnig þola háð og spott. Sumir sögðu að hann væri lítill fyrir mann að sjá og lélegur ræðumaður. Missti Páll móðinn? Alls ekki! Hann vissi að það sem skipti máli var að uppfylla kröfur Guðs. Hann gat hrósað sér af því sem hann hafði áorkað með Guðs hjálp — hvað sem aðrir sögðu. Ef þú minnir sjálfan þig líka á að þú sért verðmætur í augum Guðs getur það nægt til að létta lund þína. — 2. Korintubréf 10:7, 10, 17, 18.

En hvað nú ef þú ert niðurdreginn vegna einhvers veikleika eða syndar sem þú hefur drýgt? Guð sagði Ísraelsmönnum: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ (Jesaja 1:18) Gleymdu aldrei umhyggju og þolinmæði föður okkar á himnum. (Sálmur 103:8-14) En leggur þú líka hart að þér til að sigrast á veikleika þínum? Þú verður að leggja þitt af mörkum ef þér á að takast að losna við sektarkenndina. Eins og orðskviðurinn segir: „Sá sem játar [yfirsjónir sínar] og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“ — Orðskviðirnir 28:13.

Önnur leið til að berjast gegn dapurleikanum er að setja sér raunhæf markmið. Þú þarft ekki að vera hæstur í bekknum til að vera ánægður með sjálfan þig. (Prédikarinn 7:16-18) Sættu þig við það að vonbrigði eru hluti af lífinu. Í stað þess að hugsa þegar móti blæs: ‚Öllum er sama hvað verður um mig og þannig verður það alltaf,‘ skaltu segja við sjálfan þig: ‚Ég kemst yfir þetta.‘ Og það er ekkert athugavert við að brynna músum af og til.

Gildi þess að áorka einhverju

„Örvænting hverfur ekki af sjálfu sér,“ segir Dagný sem vann bug á endurteknum vanmáttarköstum. „Maður verður að beina huganum á aðrar brautir eða taka til hendinni við eitthvað. Maður verður að hafa sig í að gera eitthvað.“ Linda sagði einu sinni þegar hún var að keppast við að ná sér upp úr depurð: „Ég er með saumaæði. Þegar ég er að sauma föt á mig gleymi ég smám saman öllum áhyggjum. Það hjálpar virkilega.“ Það getur byggt upp sjálfsálitið að leggja sig fram við það sem maður kann vel — og sjálfsálitið er ekki upp á marga fiska þegar þunglyndi hefur náð sér á strik.

Það getur líka hjálpað að gera eitthvað sem þér finnst skemmtilegt. Þú gætir prófað að kaupa eitthvað sem þig langar í, spila eitthvert spil, elda uppáhaldsmatinn þinn, skoða í hillurnar í bókabúð, fara út að borða, lesa eða jafnvel ráða krossgátu eins og þær sem birtast í tímaritinu Vaknið! á ýmsum tungumálum.

Debbie komst að raun um að það létti lund hennar að fara í stutt ferðalög eða setja sér einhver markmið sem auðvelt var að ná. Ekkert hjálpaði henni þó meira en að gera eitthvað fyrir aðra. „Ég hitti unga konu sem var mjög niðurdregin og fór að hjálpa henni að nema Biblíuna,“ segir Debbie. „Við hittumst vikulega og ég hafði tækifæri til að segja henni hvernig hún gæti sigrast á þunglyndi sínu. Biblían gaf henni sanna von og þetta hjálpaði mér um leið.“ Það er eins og Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.

Ræddu vandamálið við einhvern

„Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.“ (Orðskviðirnir 12:25) „Vingjarnlegt orð“ af vörum skilningsríks manns getur skipt sköpum um líðan þína. Enginn maður getur lesið hjarta þitt, þannig að þú þarft sjálfur að opna það og úthella raunum þínum fyrir einhverjum sem þú treystir og er fær um að hjálpa þér. „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir,“ segja Orðskviðirnir 17:17. „Ef maður byrgir þetta inni er það eins og að bera þunga byrði aleinn,“ segir Evan sem er 22 ára. „Byrðin verður miklu léttari við það að segja einhverjum, sem getur hjálpað manni, frá því hvernig manni líður.“

‚En ég er búinn að reyna það og það eina sem ég fékk að heyra var að ég skyldi horfa á björtu hliðarnar,‘ segirðu kannski. Hvar geturðu þá fundið skilningsríkan mann sem bæði hlustar á þig og getur ráðið þér heilt? — Orðskviðirnir 27:5, 6.

Hvar geturðu leitað hjálpar?

Byrjaðu á því að ‚gefa foreldrunum hjarta þitt.‘ (Orðskviðirnir 23:26) Þeir þekkja þig betur en nokkur annar og geta vafalítið hjálpað þér ef þú gefur þeim tækifæri. Telji þeir vandann á alvarlegu stigi gætu þeir jafnvel séð um að þú fáir sérfræðiaðstoð. *

Einnig er hægt að leita hjálpar innan kristna safnaðarins. „Í mörg ár hafði ég falið mig bak við grímu þannig að enginn vissi hvað ég var langt niðri,“ segir María. „En þá trúði ég einni af eldri systrunum í söfnuðinum fyrir vandamáli mínu. Hún var mjög skilningsrík. Hún þekkti af eigin raun sumt af því sem ég hafði mátt þola og opnaði augu mín fyrir því að aðrir hefðu gengið í gegnum eitthvað svipað og náð sér fyllilega.“

María sigraðist auðvitað ekki á þunglyndinu rétt eins og hendi væri veifað, en smám saman tókst henni að ná tökum á tilfinningum sínum jafnhliða því að hún styrkti samband sitt við Guð. Þú getur líka eignast vini og ‚fjölskyldu,‘ sem ber ósvikna umhyggju fyrir velferð þinni, meðal sannra tilbiðjenda Jehóva. — Markús 10:29, 30; Jóhannes 13:34, 35.

Kraftur umfram það sem venjulegt er

Besta hjálpin til að reka depurð og bölsýni á dyr er þó það sem Páll postuli kallaði „ofurmagn kraftarins.“ Sá kraftur kemur frá Guði. (2. Korintubréf 4:7) Hann getur hjálpað þér að berjast gegn þunglyndi ef þú reiðir þig á hann. (Sálmur 55:23) Hann getur beitt heilögum anda sínum til að gefa þér kraft umfram það sem þú ræður venjulega yfir.

Slíkt vináttusamband við Guð veitir manninum hugarfrið. „Ég bið mikið til Jehóva þegar ég er niðurdregin,“ segir ung kona að nafni Georgia. „Ég veit að Jehóva opnar mér undankomuleið, hversu alvarlegt sem vandamálið er.“ Dagný tekur í sama streng og bætir við: „Maður getur sagt Jehóva allt. Maður getur úthellt hjarta sínu fyrir honum og veit að hann skilur og ber umhyggju fyrir manni, jafnvel þótt enginn mennskur maður geti það.“

Ef þú ert niðurdreginn, þá skaltu biðja til Guðs og leita uppi einhvern vitran og skilningsríkan einstakling sem þú getur trúað fyrir tilfinningum þínum. Í kristna söfnuðinum er að finna „öldunga“ sem eru reyndir ráðgjafar. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Þeir eru reiðubúnir að hjálpa þér að varðveita vináttu þína við Guð. Og Guð skilur þig og býður þér að varpa áhyggjum þínum á sig ‚því að hann ber umhyggju fyrir þér.‘ (1. Pétursbréf 5:6, 7) Biblían lofar meira að segja: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:7.

[Neðanmáls]

^ gr. 40 Flestir sérfræðingar ráðleggja þeim sem þjást af alvarlegu þunglyndi að leita sérhæfðrar læknishjálpar vegna hættunnar á sjálfsvígi. Stundum getur verið þörf á lyfjum sem einungis læknir getur ávísað.

Spurningar til umræðu

◻ Nefndu nokkur dæmi um það sem getur gert ungling niðurdreginn eða þunglyndan. Hefur þú einhvern tíma verið það?

◻ Geturðu nefnt nokkur einkenni langvinns þunglyndis á lágu stigi?

◻ Geturðu borið kennsl á alvarlegt þunglyndi? Hvers vegna er það alvarlegur sjúkleiki?

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að berjast gegn depurð. Hefur einhver þeirra hjálpað þér?

◻ Hvers vegna er mjög þýðingarmikið að ræða opinskátt við einhvern ef þú ert alvarlega niðurdreginn?

[Innskot á blaðsíðu 106]

Alvarlegt þunglyndi er algengasta orsök sjálfsvíga meðal unglinga.

[Innskot á blaðsíðu 112]

Náið vináttusamband við Guð getur hjálpað þér að takast á við alvarlegt þunglyndi.

[Rammi á blaðsíðu 107]

Getur það verið alvarlegt þunglyndi?

Allir geta fundið fyrir einu eða fleiri eftirtalinna einkenna um skamman tíma án þess að nokkuð alvarlegt sé að. Ef hins vegar nokkur þessara einkenna sýna sig um alllangan tíma, eða eitthvert þeirra er nógu alvarlegt til að trufla daglegt líf og störf, getur verið um að ræða (1) líkamlegan kvilla sem þarfnast læknisrannsóknar eða (2) alvarlega hugsýki — þunglyndi á alvarlegu stigi.

Ekkert veitir þér ánægju. Þú hefur ekkert gaman af því sem þú hafðir ánægju af áður. Þér finnst þú óraunverulegur, líkt og þú gangir um í þoku og gerir allt vélrænt.

Þér finnst þú einskis virði. Þér finnst þú ekki geta stuðlað að neinu jákvæðu í lífinu og sért algerlega einskis nýtur. Áköf sektarkennd getur fylgt.

Mikil breyting á lunderni. Þú varst mannblendinn en ert nú orðinn mjög hlédrægur — eða hið gagnstæða. Ef til vill grætur þú oft.

Yfirþyrmandi vonleysi. Þér finnst allt vonlaust, það muni aldrei breytast og að þú getir ekkert gert til að bæta ástandið.

Þú óskar þér dauða. Þér líður svo illa að þú óskar þess oft að þú værir dáinn.

Þú getur ekki einbeitt þér. Sömu hugsanirnar sækja á þig aftur og aftur eða þú getur ekki skilið eða munað hvað þú varst að lesa.

Breytt matarlyst eða hægðir. Þú ert annaðhvort lystarlaus eða borðar yfir þig. Hægðatregða og niðurgangur skiptast á.

Breyttar svefnvenjur. Þú sefur annaðhvort illa eða allt of mikið. Þú færð oft óhugnanlega drauma eða martraðir.

Verkir. Höfuðverkir, krampar og verkir í kviðarholi og brjósti. Þú ert síþreyttur án nokkurrar eðlilegrar ástæðu.

[Mynd á blaðsíðu 108]

Depurð getur sótt á ungling ef honum tekst ekki að rísa undir væntingum foreldra sinna.

[Mynd á blaðsíðu 109]

Einhver besta leiðin til að mæta vandanum er sú að tala við aðra og úthella hjarta sínu fyrir þeim.

[Mynd á blaðsíðu 110]

Að gera eitthvað fyrir aðra er önnur góð leið til að sigrast á depurð og þunglyndi.