Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Borgar sig að vera heiðarlegur?

Borgar sig að vera heiðarlegur?

27. kafli

Borgar sig að vera heiðarlegur?

HEFURÐU nokkurn tíma freistast til að ljúga? Kristinn sagði mömmu sinni að hann væri búinn að taka til í herberginu sínu, en í rauninni hafði hann bara sópað öllu draslinu undir rúmið. Skúli gerði jafnklaufalega tilraun til að kasta ryki í augu foreldra sinna. Hann sagðist hafa fallið á prófi vegna þess að ‚honum samdi ekki við kennarann‘ — en sannleikurinn var auðvitað sá að hann hafði ekki nennt að læra.

Foreldrar og aðrir fullorðnir sjá yfirleitt gegnum svona blekkingar. En það hindrar margan unglinginn ekki í að reyna að minnsta kosti að ljúga, hagræða sannleikanum eða hreinlega að beita brögðum þegar þeir halda að það borgi sig. Ástæðan er meðal annars sú að foreldrar taka því ekki alltaf með stillingu þegar allt fer í steik. Ef þú kemur heim tveim tímum seinna en þú áttir að gera, er kannski freistandi að segja að þú hafir tafist út af alvarlegu umferðarslysi á leiðinni, í stað þess að segja þeim sannleikann — að þú hafir hreinlega gleymt þér.

Oft reynir á heiðarleika unglinga í skólanum. Skólanemum finnst þeir stundum vera að kikna undan heimaverkefnunum, og samkeppni milli nemenda er stundum hörð. Kannanir í Bandaríkjunum sýna að yfir helmingur allra skólanema þar í landi svindlar eða hefur svindlað í skóla. Það getur verið freistandi að ljúga, og svindl getur virst vera auðveldasta leiðin út úr erfiðleikum. En borgar sig að vera óheiðarlegur?

Hvers vegna borgar það sig ekki að ljúga

Það getur virst snjallræði að ljúga til að umflýja refsingu. En Biblían varar við: „Sá sem fer með lygar, kemst ekki undan.“ (Orðskviðirnir 19:5) Miklar líkur eru á að upp komist um lygina og refsing verði ekki umflúin hvort eð er. Og þá verða foreldrarnir reiðir, ekki aðeins yfir hinu upprunalega broti heldur einnig lyginni!

Ætli það geti borgað sig að svindla í skólanum? Maður, sem fer með agamál í bandarískum háskólum, segir: „Hver sá nemandi, sem gerir sig sekan um óheiðarleika í námi, tekur þá miklu áhættu að spilla framtíðartækifærum sínum til atvinnu og menntunar.“

Margir virðast reyndar komast upp með það. Það má vel vera að þú getir náð góðri einkunn með prófsvindli, en hver skyldu áhrifin verða til langs tíma litið? Þú fellst sjálfsagt á að það sé heimskulegt að reyna að svindla í sundnámi. Hver vill vera eins og þorskur á þurru landi meðan allir hinir eru að skemmta sér í lauginni? Og ef þér væri hrint út í gæti svindlið jafnvel kostað þig lífið!

Áhrifin verða sjálfsagt ekki eins stórbrotin ef þú svindlar í stærðfræði eða íslensku — ekki í byrjun. En ef þú nærð ekki tökum á undirstöðugreinum í skóla áttu á hættu að „sökkva til botns“ á vinnumarkaðinum! Og prófskírteini, sem aflað er með svindli, dugir þá varla sem björgunarhringur. Biblían segir: „Fjársjóðir, sem aflað er með lygatungu, eru sem þjótandi vindblær.“ (Orðskviðirnir 21:6) Hagræðið af því að ljúga er oft skammlíft eins og gufa sem fýkur burt fyrir vindi. Það er miklu betra að taka námið föstum tökum en að komast gegnum skóla með lygum og svindli. „Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel,“ segja Orðskviðirnir 21:5.

Lygi og samviskan

Marta laug því upp á bróður sinn að hann hefði brotið skrautgrip á heimilinu. Síðar fann hún sig knúna til að játa fyrir foreldrunum að hún hefði logið. „Mér leið illa lengst af,“ segir Marta. „Foreldrar mínir höfðu treyst mér og ég brást þeim.“ Þetta er gott dæmi um starfsemi samviskunnar sem Guð hefur gefið öllum mönnum. (Rómverjabréfið 2:14, 15) Samviska Mörtu kvaldi hana með sektarkennd.

Að sjálfsögðu er hægt að þagga niður í samviskunni. En því oftar sem logið er, þeim mun ónæmari verður hún fyrir hinu ranga — menn verða eins og „brennimerktir á samvisku sinni.“ (1. Tímóteusarbréf 4:2) Langar þig virkilega til að þagga niður í samviskunni fyrir fullt og allt?

Viðhorf Guðs til lyga

„Lygin tunga“ var og er eitt af því sem Jehóva hatar. (Orðskviðirnir 6:16, 17) Það er skiljanlegt þegar haft er í huga að Satan djöfullinn er „lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Og Biblían gerir engan greinarmun á venjulegri lygi og svonefndri ‚hvítri lygi.‘ „Engin lygi getur komið frá sannleikanum.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:21.

Sá sem vill eiga vináttu Guðs verður því að vera heiðarlegur í einu og öllu. Fimmtándi sálmurinn spyr: „[Jehóva], hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?“ (1. vers) Við skulum íhuga svörin sem eru gefin í næstu fjórum versum:

„Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta.“ (2. vers) Hljómar þetta eins og verið sé að tala um búðarþjóf eða prófsvindlara? Getur þetta verið sá sem lýgur að foreldrum sínum eða þykist vera annað en hann er? Tæplega. Ef þú vilt vera vinur Guðs þarftu því að vera heiðarlegur, ekki aðeins í verki heldur einnig í hjarta.

„Sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til.“ (3. vers) Hefurðu nokkurn tíma verið með unglingum sem töluðu illa um aðra og tekið þátt í illmælgi þeirra? Þroskaðu með þér viljastyrk til að neita að taka þátt í slíku tali!

„Sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast [Jehóva], sá er sver sér í mein og bregður eigi af.“ (4. vers) Veldu þér ekki að vinum unglinga sem ljúga, svíkja eða gorta af siðlausum ‚hetjudáðum‘ sínum; þeir munu ætlast til hins sama af þér. Ungur piltur, Kjartan, segir: „Vinur, sem fær mann til að ljúga með sér, kemur manni í klandur. Maður getur ekki treyst slíkum vini.“ Veldu þér að vinum þá sem eru sannsögulir og heiðarlegir. — Samanber Sálm 26:4.

Tókstu eftir að Jehóva kann að meta þá sem halda orð sín? Segjum að þú hafir lofað að hjálpa til við heimilisverkin á laugardag en svo komi einhver vinur þinn og bjóði þér á völlinn sama dag. Myndirðu þá láta þér í léttu rúmi liggja hverju þú varst búinn að lofa, fara á völlinn með vinum þínum og láta foreldra þína um heimilisstörfin, eða muntu standa við orð þín?

„Sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum — sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.“ (5. vers) Stafar svindl og óheiðarleiki ekki aðallega af ágirnd? Skólanemar, sem svindla í prófum, ágirnast einkunnir sem þeir hafa ekki unnið fyrir. Fólk, sem þiggur mútur, metur peninga meira en réttlæti.

Sumir benda reyndar á stjórnmálamenn og fjármálamenn sem koma sínu fram með óheiðarleika. En hversu langlíf ætli velgengni slíkra manna sé? Sálmur 37:2 svarar: „Þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.“ Ef aðrir menn afhjúpa þá ekki munu þeir að lokum hljóta dóm Jehóva Guðs. Vinir Guðs munu aftur á móti „eigi haggast um aldur.“ Þeir eiga fyrir sér örugga, eilífa framtíð.

Þroskaðu með þér „góða samvisku“

Finnst þér ekki full ástæða til að forðast hvers kyns lygar og óheiðarleika? Páll postuli sagði um sig og félaga sína: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku.“ (Hebreabréfið 13:18) Er samviska þín líka næm fyrir ósannindum? Ef ekki skaltu þjálfa hana með því að nema Biblíuna og biblíutengd rit svo sem tímaritin Varðturninn og Vaknið!

Það hefur Kjartan gert með góðum árangri. Honum hefur lærst að breiða ekki lygavef yfir vandamálin. Samviska hans kemur honum til að leita til foreldra sinna og ræða málin af hreinskilni. Stundum hefur það kostað hann aga. Hann viðurkennir samt að honum líði betur fyrir það að vera heiðarlegur.

Það er ekki alltaf auðvelt að segja sannleikann. En sá sem ákveður að segja satt varðveitir góða samvisku, gott samband við vini sína og, það sem mestu skiptir, þau sérréttindi að „gista“ í tjaldi Guðs! Það er ekki bara að það borgi sig að vera heiðarlegur, það er það eina rétta fyrir kristna menn.

Spurningar til umræðu

◻ Hvenær getur verið freistandi að ljúga?

◻ Hvers vegna borgar það sig ekki að ljúga eða svindla? Geturðu sýnt fram á það með dæmi sem þú þekkir?

◻ Hvernig skaðar lygarinn samvisku sína?

◻ Lestu Sálm 15. Hvað segja versin um heiðarleika?

◻ Hvernig getur unglingur þroskað með sér góða samvisku?

[Rammi á blaðsíðu 212]

‚Hver sá nemandi, sem gerir sig sekan um óheiðarleika í námi, tekur mikla áhættu að spilla framtíðartækifærum sínum til atvinnu og menntunar.‘

[Rammi á blaðsíðu 216]

Biblían gerir engan greinarmun á venjulegri lygi og svonefndri hvítri lygi.

[Mynd á blaðsíðu 214]

Foreldrar sjá yfirleitt gegnum máttlausar tilraunir barna til að réttlæta óhlýðni sína.