Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað um kynlíf fyrir hjónaband?

Hvað um kynlíf fyrir hjónaband?

23. kafli

Hvað um kynlíf fyrir hjónaband?

ER ÞAÐ ekki allt í lagi ef við elskum hvort annað? Eða ætti maður að bíða fram til hjónabands?‘ ‚Ég hef ekki haft kynmök enn þá. Er eitthvað að mér?‘ Spurningar af þessu tagi leita oft á unglinga.

Alan Guttmacher-stofnunin skýrði frá því árið 1981 að ‚það heyrði til undantekninga að fólk hefði ekki kynmök á táningsaldri.‘ Áfram var haldið: „Átta af hverjum 10 körlum og sjö af hverjum 10 konum segjast hafa haft kynmök á táningsaldri.“

‚Og hvað er að því?‘ spyrja sumir. Þegar allt kemur til alls er fullkomlega eðlilegt að maður vilji láta þykja vænt um sig. Á unglingsárunum getur kynhvötin verið svo sterk að erfitt er að hugsa um nokkuð annað. Og svo má ekki gleyma áhrifum jafnaldranna. Þeir tala um hve kynlífið sé skemmtilegt og segja að það sé bara eðlilegt að strákur og stelpa, sem þykir vænt hvort um annað, hafi kynmök. Sumir segja jafnvel að það sé þroskamerki að hafa kynmök. Og fæstir vilja láta líta á sig sem einhver viðundur, þannig að ungu fólki finnst þrýst mjög á sig að hafa kynmök.

Ólíkt því sem margir halda liggur ekki öllum unglingum á að hafa kynmök í fyrsta sinn. Ung, ógift kona, Ester að nafni, fór í læknisskoðun. Meðan á henni stóð spurði læknirinn eins og ekkert væri sjálfsagðara: „Hvaða getnaðarvarnir notarðu?“ Þegar Ester sagðist engar getnaðarvarnir nota svaraði læknirinn undrandi: „Hvað segirðu! Viltu verða barnshafandi? Hvernig heldurðu að þú komist hjá því ef þú notar engar getnaðarvarnir?“ „Vegna þess að ég hef aldrei kynmök!“ svaraði Ester.

Læknirinn starði vantrúaður á hana. „Þetta er lygilegt,“ sagði hann. „Hingað koma þrettán ára krakkar sem eru byrjaðir að stunda kynlíf. Þú ert óvenjuleg manneskja.“

Hvað gerði Ester ‚óvenjulega‘? Það að hún hlýddi áminningum Biblíunnar: „Líkaminn er ekki fyrir saurlífi [meðal annars kynlíf fyrir hjónaband]. . . . Flýið saurlifnaðinn!“ (1. Korintubréf 6:13, 18) Hún leit á kynlíf fyrir hjónaband sem alvarlega synd gegn Guði. „Það er vilji Guðs,“ segir 1. Þessaloníkubréf 4:3, „að þér haldið yður frá frillulífi.“ En hvers vegna skyldi Biblían banna kynlíf fyrir hjónaband?

Eftirköstin

Kynlíf fyrir hjónaband var þekkt jafnvel á biblíutímanum. Biblían lýsir siðlausri konu sem reynir með fortölum að lokka ungan mann til að gefa ástíðunum lausan tauminn: „Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.“ (Orðskviðirnir 7:18) En Biblían varar við því að unaður dagsins í dag geti haft slæm eftirköst á morgun. „Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía,“ sagði Salómon. Síðan bætti hann við: „En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.“ — Orðskviðirnir 5:3, 4.

Eftirköstin geta verið samræðissjúkdómar. Hugsaðu þér hugarangrið ef þú uppgötvaðir mörgum árum síðar að siðlaus verknaður hafi valdið þér óbætanlegu tjóni, ef til vill ófrjósemi eða alvarlegum heilsubresti! Eins og Orðskviðirnir 5:11 vara við: „Og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp.“ Af öðrum hugsanlegum eftirköstum mætti nefna óskilgetið barn (sjá bls. 184-5), fóstureyðingu og skyndihjónaband sem allt hefur sársaukafullar afleiðingar, hvert á sinn veg. Það er vissulega engum ofsögum sagt að kynlíf fyrir hjónaband sé ‚synd á móti eigin líkama.‘ — 1. Korintubréf 6:18.

Þessar hættur voru dr. Richard Lee tilefni til að skrifa í tímaritinu Yale Journal of Biology and Medicine: „Við stærum okkur við unga fólkið af miklum framförum á sviði getnaðarvarna og meðferðar á kynsjúkdómum en minnumst ekki á öruggustu, markvissustu, ódýrustu og skaðlausustu aðferðina til að koma bæði í veg fyrir þungun og kynsjúkdóma — hina fornu, heiðvirðu og meira að segja heilbrigðu aðferð sem nefnist skírlífi.“

Sektarkennd og vonbrigði

Margir unglingar hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með kynmök fyrir hjónaband. Þeir hafa setið uppi með samviskubit, sektarkennd og sjálfsásökun. Kristján, 23 ára, segir: „Það voru mikil vonbrigði — engin vellíðan eða ástarylur eins og ég hafði búist við. Í staðinn rann ljóslega upp fyrir mér hve rangt þetta var. Ég skammaðist mín ákaflega fyrir að hafa ekki sýnt sjálfsstjórn.“ Ung kona viðurkennir: „Ég vaknaði aftur til veruleikans með andfælum. . . . Partýið var búið, mér var óglatt og fannst ég auvirðileg og óhrein. Mér leið ekkert betur við að heyra hann segja: ‚Af hverju í ósköpunum stoppaðirðu okkur ekki áður en við gengum of langt?‘“

Slík viðbrögð eru ekki fátíð að því er dr. Jay Segal segir. Eftir að hafa rannsakað kynlíf 2436 háskólanema komst hann að þessari niðurstöðu: „Nánast helmingi fleiri voru vonsviknir og óánægðir með fyrstu kynmök sín en ánægðir og spenntir. Bæði karlar og konur minntust þess að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum.“ Að vísu eiga hjón stundum líka við vandamál að glíma í kynlífinu, en í hjónabandi, þar sem byggt er á sönnum kærleika og trúfesti, er að jafnaði hægt að leysa slík vandamál.

Gjaldið sem greiða þarf

Sumir unglingar finna reyndar ekki til neinnar sektarkenndar. Þeir hella sér út í siðleysið og hlaupa frá einum rekkjunaut til annars. Richard Sorensen, sem rannsakað hefur kynferðismál unglinga, segir að slíkir unglingar gjaldi lauslæti sitt dýru verði. Hann skrifar: „Í einkaviðtölum okkar hafa margir [lauslátir unglingar] gert uppskátt . . . að þeim finnist líf sitt tilgangslítið og hamingjusnautt.“ Fjörutíu og sex af hundraði þeirra féllust á fullyrðinguna: „Eins og ég lifi lífinu núna fara flestir hæfileikar mínir til spillis.“ Sorensen komst að þeirri niðurstöðu að lauslátir unglingar hefðu lítið „sjálfstraust og sjálfsvirðingu.“

Þetta kemur heim og saman við Orðskviðina 5:9: Þeir sem stunda siðleysi „gefa öðrum sæmd“ sína. — New World Translation.

Morguninn eftir

Oft líta piltur og stúlka hvort annað öðrum augum eftir að hafa haft kynmök. Tilfinningar piltsins til stúlkunnar hafa kannski kólnað svolítið; ef til vill finnst honum hún ekki jafnaðlaðandi. Stúlkunni finnst hann kannski hafa misnotað sig. Biblían segir frá ungum manni sem Amnon hét. Hann var ástsjúkur í Tamar sem var hrein mey. En eftir að hafa þvingað hana til að hafa kynmök við sig „fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni.“ — 2. Samúelsbók 13:15.

María varð fyrir svipaðri lífsreynslu. Eftir að hafa haft kynmök viðurkenndi hún: „Ég hataði sjálfa mig (fyrir veikleika minn) og ég hataði strákinn sem ég var með. Kynmökin, sem við héldum að myndu styrkja böndin milli okkar, bundu enda á samband okkar. Ég vildi ekki einu sinni sjá hann framar.“ Þegar fólk hefur haft kynmök fyrir hjónaband verður ekki aftur snúið!

Paul H. Landis, virtur rannsóknarmaður á sviði fjölskyldumála, segir: „Í fyrstu geta áhrifin [af kynlífi fyrir hjónaband] verið þau að styrkja sambandið, en þegar til lengdar lætur geta þau verið gagnstæð.“ Meiri líkur eru á að það slitni upp úr sambandi hjónaleysa, sem hafa kynmök, en þeirra sem ekki gera það! Ástæðan er sú að kynmökin kveikja afbrýði og tortryggni. Ungur piltur viðurkennir: „Eftir að hafa haft kynmök við stúlku hugsa sumir piltar með sér: ‚Fyrst hún hefur haft mök við mig hefur hún kannski haft þau við einhvern annan líka.‘ Reyndar hugsaði ég þannig sjálfur. . . . Ég var ákaflega afbrýðisamur og tortrygginn.“

Þetta er harla ólíkt ósviknum kærleika sem „öfundar ekki [„er ekki afbrýðisamur,“ New World Translation] . . . hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Sá kærleikur, sem byggir upp traust og varanlegt samband, byggist ekki á blindum ástríðum.

Kostir hreinlífis — friður og sjálfsvirðing

Skírlífi gerir meira en að firra unglinga vandræðum og sársauka. Biblían segir frá ungri stúlku sem varðveitti meydóm sinn þrátt fyrir brennandi kærleika til unnusta síns. Þar af leiðandi gat hún sagt stolt í bragði: „Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar.“ Hún var ekki eins og „hurð“ sem lét greiðlega undan siðlausum þrýstingi. Siðferðilega var hún eins og ókleifur virkisveggur með óvinnandi turnum. Hún verðskuldaði að kallast „hrein“ og gat sagt um væntanlegan eiginmann sinn: „Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna.“ Hugarfriður hennar stuðlaði að lífshamingju þeirra beggja. — Ljóðaljóðin 6:9, 10; 8:9, 10.

Ester, sem getið var fyrr í kaflanum, naut sams konar innri friðar og sjálfsvirðingar. Hún segir: „Ég var ánægð með sjálfa mig. Jafnvel þegar vinnufélagar gerðu gys að mér leit ég á meydóm minn sem demant, verðmætan af því að hann er svo sjaldgæfur.“ Unglingar eins og Ester eru ekki þjakaðir af samviskubiti. „Ekkert er yndislegra en að hafa góða samvisku gagnvart Jehóva Guði,“ segir Stefán, 19 ára kristinn maður.

‚En hvernig getur ungt fólk kynnst vel án þess að hafa kynmök?‘ spyrja unglingar gjarnan.

Að byggja upp náið samband sem endist

Kynmök ein sér duga ekki til þess að byggja upp traust og varanlegt samband, og það er ekki heldur hægt með kossum og atlotum. Anna varar við: „Mér lærðist af reynslunni að stundum er hægt að komast allt of fljótt í allt of nána snertingu.“ Þegar ungt par eyðir samverustundunum í blíðuhót verður lítið um marktækar samræður og skoðanaskipti. Þannig er oft breitt yfir alvarlega bresti sem koma ekki í ljós fyrr en síðar, eftir að fólk er gift. Seinna meir, þegar Anna tók að kynnast manninum sem hún átti eftir að giftast, gætti hún þess vel að þau yrðu ekki of nærgöngul hvort við annað. Hún segir: „Við notuðum tímann til að leysa vandamál og ræða markmið okkar í lífinu. Ég kynntist hvaða mann hann hafði að geyma. Það sem kom mér á óvart eftir að við vorum gift var allt saman ánægjulegt.“

Var það erfitt fyrir Önnu og vin hennar að sýna slíka sjálfsstjórn? „Já, það var það!“ viðurkennir hún. „Ég er mjög ástrík að eðlisfari, en við ræddum saman um hætturnar og hjálpuðumst að. Okkur var báðum mikið í mun að þóknast Guði og spilla ekki væntanlegu hjónabandi okkar.“

En er samt ekki gott fyrir nýbökuð hjón að hafa vissa kynlífsreynslu fyrir? Nei, þvert á móti, það spillir oft fyrir! Þegar fólk hefur kynmök fyrir hjónaband er öll áherslan lögð á hina líkamlegu þætti kynlífs og eigin fullnægingu. Stjórnlausar ástríður grafa undan gagnkvæmri virðingu. Það er erfitt að breyta slíku eigingjörnu mynstri eftir að það hefur myndast, og með tíð og tíma getur það haft í för með sér hin alvarlegustu vandamál.

Sjálfsstjórn er aftur á móti nauðsynleg til að hið nána samlíf hjóna sé heilbrigt og farsælt. Bæði hjónin þurfa að leggja áherslu á að gefa, að ‚gæta skyldu sinnar gagnvart hvort öðru,‘ í stað þess að fá. (1. Korintubréf 7:3, 4) Skírlífi hjálpar ungu fólki að þroska með sér slíka sjálfsstjórn. Það kennir því að taka óeigingjarna umhyggju fyrir velferð hins aðilans fram yfir eigin langanir. Og gleymdu ekki að hjónabandssælan byggist ekki á kynlífinu eingöngu. Félagsfræðingurinn Seymour Fisher segir að kynferðisleg svörun konu sé einnig háð því að hún finni til „öryggis, tryggðar og hlýju“ og að eiginmaðurinn sé „fær um að lifa sig inn í tilfinningar konu sinnar og . . . trausti hennar til hans.“

Í könnun, sem náði til 177 giftra kvenna, kom í ljós að þrjár af hverjum fjórum þeirra, sem höfðu stundað kynlíf fyrir hjónaband, áttu við erfiðleika að stríða í kynlífinu fyrstu tvær vikurnar eftir brúðkaupið. Allar, sem áttu við að stríða langvinna erfiðleika í kynlífinu, „höfðu haft kynmök fyrir hjónaband.“ Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að hjúskaparbrot er tvöfalt líklegra hjá þeim sem hafa kynmök fyrir hjónaband en þeim sem hafa það ekki! Svo sannarlega er Biblían raunsæ er hún segir: „Hór, . . . tekur vitið burt.“ — Hósea 4:11.

Það eru orð að sönnu að ‚við uppskerum það sem við sáum.‘ (Galatabréfið 6:7, 8) Sá sem sáir girnd og ástríðum uppsker ósköpin öll af efasemdum og öryggisleysi. Sá sem sáir sjálfsstjórn uppsker ríkulega tryggð og öryggi. Ester, sem áður er getið, hefur nú verið í hamingjusömu hjónabandi í nokkur ár. Eiginmaður hennar segir: „Það er ólýsanleg gleði að geta komið heim til konu sinnar og vitað að við tilheyrum bara hvort öðru. Ekkert getur komið í stað þessarar tryggðartilfinningar.“

Þeir sem bíða fram til hjónabands hafa einnig hugarfrið, vitandi að þeir þóknast Guði. Það er þó hvergi nærri auðvelt að halda sér siðferðilega hreinum nú á dögum. Hvað getur hjálpað þér til þess?

Spurningar til umræðu

◻ Hve algengt er kynlíf meðal unglinga sem þú þekkir? Hefur það áhrif á þig?

◻ Hvaða eftirköst getur kynlíf fyrir hjónaband haft? Þekkirðu einhverja unglinga sem hafa orðið fyrir slíku?

◻ Er örugglega hægt að forðast þungun með því að nota getnaðarvarnir?

◻ Hvers vegna finna sumir til vonbrigða og sektar eftir óleyfileg kynmök?

◻ Heldurðu að það stuðli að betra hjónabandi að hafa kynmök áður? Af hverju svararðu þannig?

◻ Hvernig getur ungt par kynnst vel í tilhugalífinu?

◻ Hvaða kosti telurðu það hafa að bíða með kynmök til hjónabands?

[Rammi á blaðsíðu 182]

„Það heyrir til undantekninga að fólk hafi ekki kynmök á táningsaldri.“ — Alan Guttmacher-stofnunin.

[Rammi á blaðsíðu 187]

„Það voru mikil vonbrigði — engin vellíðan og ástarylur eins og ég hafði búist við.“

[Rammi á blaðsíðu 190]

Þegar fólk hefur haft kynmök fyrir hjónaband verður ekki aftur snúið!

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 184, 185]

Barnshafandi unglingsstúlkur — ‚Það getur ekki komið fyrir mig!‘

„Yfir tíu af hundraði unglingsstúlkna verða barnshafandi árlega og hlutfallið fer hækkandi. Ef þróunin snýst ekki við verða fjórar af hverjum 10 stúlkum barnshafandi minnst einu sinni á táningsaldri,“ segir í skýrslunni Teenage Pregnancy: The Problem That Hasn’t Gone Away. Hvers konar stúlkur eru það sem verða barnshafandi? Tímaritið Adolescence svarar: „Stúlkur á skólaaldri, sem verða barnshafandi, koma úr öllum stéttum þjóðfélags og efnahags . . . af öllum kynþáttum, öllum trúarbrögðum, öllum landshlutum, jafnt til bæja sem sveita.“

Fæstar stúlkur vilja verða barnshafandi. Í tímamótakönnun Franks Furstenbergs, Jr., sem náði til yfir 400 barnshafandi unglingsstúlkna, „endurtóku flestar aftur og aftur í viðtölunum: ‚Mér datt aldrei í hug að það kæmi fyrir mig.‘“

Margar þeirra áttu vinkonur sem stunduðu kynlíf án þess að verða barnshafandi og héldu sig geta gert það líka. Furstenberg bætir við: „Margar sögðust hafa haldið að það væri ekki hægt að verða barnshafandi ‚strax.‘ Sumar héldu að þær gætu haft kynmök ‚af og til‘ án þess að verða barnshafandi. . . . Því lengur sem þeim tókst það án þess að verða barnshafandi, þeim mun líklegra var að þær tækju meiri áhættu.“

Sannleikurinn er hins vegar sá að hvenær sem stúlka hefur kynmök er hætta á að hún verði barnshafandi. (Af hópi 544 stúlkna ‚varð nálega fimmtungur barnshafandi innan hálfs árs eftir að þær byrjuðu að hafa kynmök.‘) Margar kusu af ásettu ráði að nota ekki getnaðarvarnir, eins og Sigga sem er nú einstæð móðir. Líkt og margir unglingar óttaðist hún að getnaðarvarnarpillur gætu verið skaðlegar heilsunni. „Ef ég hefði orðið mér úti um getnaðarvarnir,“ segir hún, „hefði ég þurft að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég væri að gera rangt. Það gat ég ekki. Þess vegna lokaði ég bara fyrir allar hugsanir um það hvað ég var að gera og vonaði að ekkert kæmi fyrir.“

Slíkur hugsanagangur er algengur meðal ógiftra mæðra. Í könnun Furstenbergs sagði „nálega helmingur táninganna að það væri mjög mikilvægt fyrir konu að láta kynlíf bíða fram til hjónabands . . . Óneitanlega var augljóst ósamræmi milli orða og verka . . . Þær höfðu lært einar lífsreglur og tamið sér að lifa eftir öðrum.“ Þessi tilfinningaárekstur „gerði þessum konum sérstaklega erfitt að mæta afleiðingum kynhegðunar sinnar af raunsæi.“

Getnaðarvarnir eru engin trygging gegn þungun. Bókin Kids Having Kids minnir á: „Engin aðferð er fullkomlega örugg . . . Jafnvel þótt ógiftir unglingar notuðu alltaf getnaðarvarnir . . . myndu 500.000 stúlkur [í Bandaríkjunum] verða barnshafandi ár hvert.“ Síðan er haft eftir sextán ára ógiftri móður sem heitir Steinunn: „Ég tók [getnaðarvarnarpillurnar] alltaf. Ég gleymdi þeim ekki einn einasta dag.“

„Villist ekki,“ segir Biblían í viðvörunartón: „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Þungun er aðeins ein af óæskilegum afleiðingum siðleysis. Sem betur fer geta ógiftar mæður, líkt og allir aðrir sem hafa fest sig í snöru siðleysisins, snúið við og leitað til Guðs með sama iðrunarhug og Davíð konungur sem bað: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni.“ (Sálmur 51:4) Guð mun blessa viðleitni þeirra, sem iðrast, til að ala börn sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.

Best er þó að halda sér frá kynlífi fyrir hjónaband! Láttu ekki blekkjast af þeim sem segja að þú komist upp með það.

[Mynd á blaðsíðu 183]

Eftir siðlaus kynmök finnst unglingi oft að hann hafi verið misnotaður eða jafnvel auðmýktur.

[Mynd á blaðsíðu 186]

Kynlíf fyrir hjónaband hefur oft samræðissjúkdóma í för með sér.

[Mynd á blaðsíðu 188]

Taumlaus ástaratlot geta haft siðferðilegar hættur í för með sér og takmarkað gagnlegar samræður og skoðanaskipti.

[Mynd á blaðsíðu 189]

Hamingja í hjónabandi er háð fleiru en holdlegu sambandi.