Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég barist gegn sjálfsfróun?

Hvernig get ég barist gegn sjálfsfróun?

26. kafli

Hvernig get ég barist gegn sjálfsfróun?

„FÍKNIN er mjög sterk,“ segir ungur maður sem barðist gegn sjálfsfróun í 15 ár. „Hún getur verið jafn vanabindandi og fíkniefni eða áfengi.“

Páll postuli vissi að ástríður holdsins geta verið harður húsbóndi og gætti þess að verða ekki þræll þeirra. Hann sagði: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Hann var harður við sjálfan sig! Hver sem er getur sigrast á þeim ávana að fróa sér, ef hann er harður við sjálfan sig.

„Búið hugi ykkar til verka“

Fyrir marga er sjálfsfróun leið til að losa um taugaspennu og áhyggjur. En það eru auðvitað barnaleg viðbrögð við vandamálum. (Samanber 1. Korintubréf 13:11.) Betra er að sýna „hyggindi“ og ráðast gegn sjálfu vandamálinu. (Orðskviðirnir 1:4) Þegar erfiðleikar og áhyggjur virðast yfirþyrmandi er kominn tími til að ‚varpa allri áhyggju sinni á Guð.‘ — 1. Pétursbréf 5:6, 7.

Segjum að þú sjáir eða heyrir af tilviljun eitthvað sem hefur kynæsandi áhrif á þig. Biblían ráðleggur: „Búið hugi ykkar til verka; sýnið sjálfstjórn.“ (1. Pétursbréf 1:13, New International Version) Beittu huganum af alefli og rektu burt hina siðlausu hugsun. Þá rennur æsingurinn fljótt af þér.

Óhreinar hugsanir eru sérstaklega erfiðar viðfangs að næturþeli þegar maður er einn. Ung kona ráðleggur: „Það besta, sem hægt er að gera, er að snara sér út úr rúminu og fara að gera eitthvað eða fá sér smásnarl, til að beina huganum að einhverju öðru.“ Já, neyddu sjálfan þig til að ‚hugfesta allt sem er göfugt, rétt og hreint, elskuvert og gott afspurnar.‘ — Filippíbréfið 4:8.

Reyndu að líkja eftir hinum trúfasta Davíð konungi ef þú átt erfitt með að festa svefn. Hann skrifaði: „Ég minnist þín [Guðs] í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.“ (Sálmur 63:7) Oft er hægt að rjúfa vítahring rangra hugsana með því að neyða sig til að hugsa um Guð og eiginleika hans. Það er líka gott að hugsa um það hvernig Guð lítur á þennan óhreina ávana. — Sálmur 97:10.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því,“ sagði hinn innblásni spekingur. (Orðskviðirnir 22:3) Vitur maður sýnir fyrirhyggju. Ef þú uppgötvar til dæmis að ákveðnar athafnir, þröng föt eða vissar fæðutegundir hafa kynörvandi áhrif á þig, þá skaltu fyrir alla muni forðast slíkt. Áfengi getur til dæmis dregið úr hömlum og torveldað sjálfstjórn. Forðastu líka eins og pestina allt kynæsandi lesefni, sjónvarpsefni eða kvikmyndir. „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma,“ bað sálmaritarinn. — Sálmur 119:37.

Ef þú finnur að þú ert sérstaklega veikur fyrir á vissum tímum geturðu líka gert fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ung kona veit kannski að kynhvöt hennar er sterkari á vissum tímum mánaðarins en endranær. Sárindi eða depurð geta einnig haft sitt að segja. „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill,“ segja Orðskviðirnir 24:10 í viðvörunartón. Reyndu þá að vera ekki einn lengi í senn. Leggðu drög að uppbyggjandi viðfangsefnum sem gera kröfur til hugans og gefa honum sem minnst tækifæri til siðlausra hugsana.

Andleg sókn

Tuttugu og sjö ára gamall maður, sem hafði barist gegn sjálfsfróun síðan hann var ellefu ára, vann að lokum sigur. „Það sem réði úrslitum var að fara úr vörn í sókn,“ segir hann. „Ég las undantekningarlaust minnst tvo kafla í Biblíunni hvern einasta dag.“ Hann hefur gert það staðfastlega í þrjú ár. Annar kristinn maður ráðleggur: „Lestu eitthvað fyrir háttinn sem tengist andlegum málum. Það er mjög mikilvægt að síðustu hugsanir dagsins séu andlegar. Auk þess er mjög gagnlegt að biðja á þeim tíma.“

Að ‚vera síauðugur í verki Drottins,‘ svo sem því starfi að kenna öðrum með hjálp Biblíunnar, er einnig gott. (1. Korintubréf 15:58) Kona, sem sigraðist á sjálfsfróun, sagði: „Eitt sem hjálpar mér mikið núna að forðast þennan ávana er að vera boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi. Þá einbeiti ég huga mínum og kröftum að því að hjálpa öðrum að eiga velþóknun Guðs.“

Í innilegri bæn geturðu sárbænt Guð um „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) ‚Úthelltu hjarta þínu fyrir Guði.‘ (Sálmur 62:9) Ung kona segir: „Bænin veitir manni styrk á augabragði. Það kemur tvímælalaust að gagni að biðja þegar löngunin vaknar.“ Það er líka gott að tjá Guði ásetning sinn strax að morgni og nefna hann í bænum sínum yfir daginn og sárbæna hann um styrk heilags anda. — Lúkas 11:13.

Hjálp annarra

Ef viðleitni þín dugir ekki til skaltu leita til einhvers sem getur hjálpað þér, til dæmis föður þíns, móður eða öldungs í kristna söfnuðinum. Ung stúlka getur kannski leitað til þroskaðrar kristinnar konu. (Títusarbréfið 2:3-5) Ungur maður, sem rambaði á barmi örvæntingar, segir: „Ég talaði einslega um þetta við pabba eitt kvöldið. Ég þurfti að taka á öllu sem ég átti til að segja honum frá því. Ég skammaðist mín svo mikið að ég grét þegar ég sagði honum frá því. En ég mun aldrei gleyma því sem hann sagði. Hann brosti vingjarnlega og sefandi og sagði: ‚Ég er stoltur af þér.‘ Hann vissi hvað ég þurfti að leggja á mig til að leita til hans. Ekkert hefði getað uppörvað mig og styrkt ásetning minn meira.“

Ungi maðurinn heldur áfram: „Pabbi sýndi mér síðan fáeina ritningarstaði til að benda mér á að það væri ekki algerlega úti um mig, og svo nokkra í viðbót til að fullvissa sig um að ég skildi alvöruna í því ranga sem ég gerði. Hann sagði mér að ‚halda vegi mínum hreinum‘ um ákveðinn tíma og síðan myndum við ræða málið á ný. Hann hvatti mig til að missa ekki kjarkinn þótt ég hrasaði, heldur sjá bara til þess að það liði lengri tími þar til ég hrasaði á ný.“ Ungi maðurinn hefur nú sigrast algerlega á vandamáli sínu og segir: „Mesta hjálpin var sú að það skyldi einhver annar vita af vandamáli mínu og styðja mig.“

Ef þú hrasar

Ungur maður hrasaði á bataveginum eftir að hafa lagt hart að sér til að sigrast á þessum ávana. Hann viðurkennir: „Þetta hvíldi á mér eins og mara. Mér fannst ég vera til háborinnar skammar. Síðan hugsaði ég: ‚Ég er búinn að ganga of langt. Ég hef ekki velþóknun Jehóva hvort eð er þannig að ég hef enga ástæðu til að vera harður við sjálfan mig.‘“ En hrösun á bataveginum er ekki það sama og að tapa stríðinu. Nítján ára stúlka segir: „Í fyrstu gerðist það hjá mér næstum á hverri nóttu, en svo fór ég að reiða mig meira á Jehóva, og með hjálp anda hans er það komið niður í svona sex skipti á ári. Mér líður hræðilega á eftir en í hvert sinn, sem mér mistekst, er ég miklu sterkari þegar freistingin kemur yfir mig næst.“ Hún er því smám saman að sigra í baráttunni.

Þegar þú hrasar á bataveginum skaltu brjóta aðdragandann til mergjar. Ung stúlka segir: „Ég rifja upp hvað ég hef verið að lesa eða hugsa um. Ég get næstum alltaf fundið ástæðuna fyrir því að ég féll. Þannig get ég leiðrétt sjálfa mig og hætt því.“

Umbun góðrar baráttu

Ungur maður, sem sigraðist á sjálfsfróun, segir: „Síðan ég sigraðist á vandamálinu hef ég haft hreina samvisku frammi fyrir Jehóva, og hana vildi ég ekki láta í skiptum fyrir nokkuð annað!“

Já, góð samviska, aukin sjálfsvirðing, meira siðferðisþrek og nánara samband við Guð eru launin fyrir harða baráttu gegn sjálfsfróun. Ung kona, sem sigraði eftir langa baráttu, segir: „Trúið mér, sigur á þessum ósið er fyrirhafnarinnar virði.“

Spurningar til umræðu

◻ Af hverju er hættulegt að láta hugann dvelja við ástarlífið? Hvað getur unglingur gert til að beina huganum inn á aðrar brautir?

◻ Hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir geta dregið úr freistingunni til að fróa sér?

◻ Hvers vegna kemur andleg sókn að gagni?

◻ Hvert er hlutverk bænarinnar í því að sigrast á sjálfsfróun?

◻ Hvers vegna er gott að trúa öðrum fyrir vandamáli sínu?

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 208, 209]

Klám – vanabindandi og hættulegt!

„Klámið er alls staðar. Maður gengur eftir götunni og það blasir við manni á blaðsölustöðunum,“ segir Róbert sem er 19 ára. „Sumir af kennurunum okkar höfðu klámrit með sér í skólann og lásu þau við kennaraborðið meðan þeir biðu eftir næsta tíma.“ Já, margir lesa klámrit af áfergju og virðist aldur, uppruni og menntun skipta þar litlu máli. Sverrir segir: „Mér fannst mjög spennandi að lesa klámblöð og skoða myndirnar! . . . Ég beið spenntur eftir nýjum blöðum vegna þess að mér fannst ekki jafnæsandi að fletta gömlu blöðunum aftur. Þetta er vanabindandi.“ En er þetta góður ávani?

Boðskapur klámsins er skýr og ótvíræður: ‚Kynlífið snýst um það að fullnægja sjálfum sér.‘ Að stórum hluta er það gagnsýrt nauðgunum, kvalalosta og öðru ofbeldi. Þeir sem horfa á klámkvikmyndir og skoða klámblöð komast fljótt að raun um að hinar „mildari“ útgáfur hætta að hafa æsandi áhrif á þá, og þá leita þeir uppi enn grófari myndir eða kvikmyndir! Ernest van den Haag, sem er aðstoðarprófessor við New York University, segir: „Klámið hvetur okkur til að skynja aðra bara sem kjötstykki, sem brúkunarhold til að fullnægja eigin fýsnum.“

Klám gefur afskræmda mynd af kynlífinu og gerir það að hálfgerðum átrúnaði sem leiðir síðan oft til vandamála í hjónabandi. Ung eiginkona segir: „Lestur klámrita vakti hjá mér löngun í þær óeðlilegu athafnir sem ritin lýstu. Það leiddi til stöðugra vonbrigða í kynlífinu.“ Árið 1981 var gerð könnun meðal nokkur hundruð kvenna á áhrifum kláms á tengsl þeirra við karlmennina í lífi þeirra. Fram kom hjá nálega helmingi þeirra að það ylli alvarlegum vandamálum. Meira að segja eyðilagði það hjónabönd eða trúlofanir í nokkrum tilvikum. Ein eiginkona kvartaði: „Þörf [mannsins míns] fyrir klámrit til að fá fullnægju getur einungis látið mig fá á tilfinninguna að ég nægi honum ekki . . . Ég vildi að Guð gæfi að ég væri þannig kona sem gæti fullnægt honum, en hann tekur plast og pappír fram yfir, og þessi þörf hans hefur eyðilagt eitthvað hið innra með mér. . . . Klám er . . . andhverfa kærleikans . . . Það er ljótt, grimmt og skaðlegt.“

Það sem skiptir kristna unglinga þó langmestu máli er að klám vinnur beinlínis gegn viðleitni þeirra til að halda sér hreinum í augum Guðs. (2. Korintubréf 6:17-7:1) Biblían segir frá því að hið „harða hjarta“ sumra manna til forna hafi gert þá ‘tilfinningalausa‘ og valdið því að þeir ‘ofurseldu sig lostalífi svo að þeir frömdu alls konar siðleysi af græðgi.‘ (Efesusbréfið 4:18, 19) Langar þig til að verða slíkri spillingu að bráð? Mundu að jafnvel þótt þú leyfir þér ekki að horfa á klámfengið efni nema af og til getur það gert samvisku þína ónæmari. Klám hefur leitt sum kristin ungmenni út í sjálfsfróun, og það sem verra er, siðleysi. Það er því viturlegt að leggja sig alla fram við að halda sér frá klámi.

„Klámrit blasa oft við mér þar sem ég er á ferli,“ segir Þráinn. „Oft kemst ég ekki hjá því að reka augun í þau, en ég þarf ekki að horfa á þau í annað sinn.“ Já, láttu það vera að renna augunum þangað sem klámritin blasa við og neitaðu að láta undan hvatningu bekkjarfélaganna til að horfa á þau. Karen, 18 ára, hefur lög að mæla: „Sem ófullkominni manneskju finnst mér nógu erfitt að reyna að halda huganum við það sem er hreint og lofsvert. Væri það ekki enn þá erfiðara ef ég læsi klámrit?“

[Mynd á blaðsíðu 206]

„Bænin veitir manni styrk á augabragði. Það kemur tvímælalaust að gagni að biðja þegar löngunin vaknar.“