Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynlíf fyrir hjónaband – hvernig get ég sagt nei?

Kynlíf fyrir hjónaband – hvernig get ég sagt nei?

24. kafli

Kynlíf fyrir hjónaband – hvernig get ég sagt nei?

Í VÍÐTÆKRI könnun á vegum tímaritsins ’Teen kom í ljós að margir af hinum ungu lesendum blaðsins vildu fá svör við spurningunni: „Hvernig get ég sagt nei við kynmökum?“

Sálmaritarinn spurði svipaðrar spurningar í Sálmi 119:9: „Með hverju getur ungur maður [eða kona] haldið vegi sínum hreinum?“ Hann svarar: „Með því að gefa gaum að orði [Guðs].“ En það er ekki nóg bara að vita hvað er rétt og rangt. „Maður veit hvað Biblían segir um siðleysi,“ viðurkennir ung kona, „en hjartað er alltaf að reyna að þagga það niður.“ Sálmaritarinn bætti við þessum viðeigandi orðum: „Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.“ — Sálmur 119:11.

Verndaðu hjartað

Til að geta geymt orð Guðs í hjarta sínu þarf fyrst að lesa og nema Biblíuna og biblíutengd rit. Það getur hjálpað þér að sannfærast um gildi laga Guðs. Ef þú hins vegar hlustar á, horfir á eða lest efni sem örvar kynhvötina æsir það upp „losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Forðastu slíkt efni eins og pestina! Láttu hugann frekar dvelja við það sem er hreint og heiðvirt.

Rannsóknir hafa sýnt að nánir vinir geta haft mikil áhrif á hvort fólk er hreinlíft eða ekki. Sálmaritarinn sagði: „Ég er félagi allra þeirra er óttast þig [Guð] og varðveita fyrirmæli þín.“ — Sálmur 119:63.

Reyna vinir þínir í alvöru að ‚varðveita fyrirmæli Guðs‘? Ung kona, Jóhanna, segir um vinaval: „Ef maður umgengst fólk sem elskar Jehóva tileinkar maður sér sömu viðhorf í siðferðismálum og það. Ef maður til dæmis heyrir það segja að siðleysi sé ógeðslegt fer manni að finnast það líka. Ef maður er hins vegar með fólki sem stendur alveg á sama, þá verður maður fljótlega eins og það.“ — Orðskviðirnir 13:20.

En oft er hættan á siðleysi mest hjá ungu fólki sem byrjar að „vera saman.“ Í könnun, sem Robert Sorensen gerði í Bandaríkjunum, kom í ljós að 56 af hundraði ungra karla og 82 af hundraði ungra kvenna, sem höfðu haft kynmök, sögðust hafa gert það fyrst með þeim sem þau voru með „á föstu“ — eða þekktu að minnsta kosti vel og þótti vænt um. En hvað um fólk sem komið er á giftingaraldur og er að draga sig saman? Hvernig getur það kynnst vel en samt verið hreinlíft?

Varist tálgryfjur í tilhugalífinu

Biblían varar við: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ (Jeremía 17:9) Það er fullkomlega eðlilegt að laðast að einhverjum af hinu kyninu. En því meir sem þið eruð saman, þeim mun sterkara verður aðdráttaraflið. Og þetta eðlilega aðdráttarafl getur leitt hjartað á villigötur. „Frá hjartanu koma illar hugsanir, . . . saurlifnaður,“ sagði Jesús Kristur. — Matteus 15:19.

Oft er það ekki ætlunin hjá ungu pari að hafa kynmök. * Í flestum tilvikum gerist það sem framhald annarra atlota. Ógift móðir viðurkennir: „Hjá mér og flestum krökkum, sem ég þekki, gekk það bara örlítið lengra í hvert sinn, og það endar með því að maður er ekki hrein mey lengur. Það byrjar með smá atlotum og áður en maður veit af ræður maður ekki við sig lengur.“

Ef þú vilt ekki leiðast út í siðleysi verður þú að ráða yfir hjartanu í stað þess að láta það ráða yfir þér. (Orðskviðirnir 23:19) Hvernig er það hægt?

Settu takmörk: Ungur maður heldur kannski að vinkona hans ætlist til að hann byrji að kyssa hana og láta vel að henni, þótt hún vilji það alls ekki. „Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ (Orðskviðirnir 13:10) Þið getið verið ‚ráðþæg‘ með því að láta hvort annað vita hvað þið teljið viðeigandi og óviðeigandi. Skynsamlegt er að setja atlotum og blíðuhótum skýr takmörk. Og gættu þess að senda ekki mótsagnakennd skilaboð. Kynæsandi, þröng, næfurþunn eða flegin föt geta sent kolröng skilaboð.

Forðastu varhugaverðar aðstæður: Biblían segir frá ungri, ógiftri stúlku sem vinur hennar bauð í gönguferð á afvikinn stað upp til fjalla. Honum gekk ekkert annað til en að njóta fegurðar vorsins með henni. En bræður stúlkunnar komust á snoðir um fyrirætlanir þeirra og gerðu þær tafarlaust að engu. Héldu þeir að systir þeirra hefði einhverjar siðlausar tilhneigingar? Alls ekki. En þeir vissu hve sterk freistingin í þá átt getur verið við slíkar aðstæður. (Ljóðaljóðin 1:6; 2:8-15) Eins ættir þú að forðast aðstæður sem gætu leitt til freistinga, svo sem að vera einn í húsinu, íbúðinni eða í bíl á afviknum stað með þeim sem þú ert að gera hosur þínar grænar fyrir.

Þekktu takmörk þín: Á vissum tímum geturðu verið veikari fyrir kynferðislegri freistingu en endranær. Kannski ertu dapur yfir einhverjum mistökum eða ósætti við foreldrana. Vertu sérstaklega varkár þegar þú ert þannig stemmdur. (Orðskviðirnir 24:10) Gættu þín einnig í umgengni við áfenga drykki. Það getur verið erfitt að hafa hemil á sér undir áhrifum áfengis. „Vín og vínberjarlögur tekur vitið burt.“ — Hósea 4:11.

Segðu nei og meintu það: Hvað geta hjónaleysi gert þegar tilfinningarnar stigmagnast og þau gerast hættulega ástleitin hvort við annað? Annað þeirra verður að segja eða gera eitthvað til að stöðva keðjuverkunina. Dóra var úti að keyra með vini sínum þegar hann stöðvaði bílinn á afviknum stað til að þau gætu „talað saman.“ Þegar þau voru að missa stjórn á tilfinningunum sagði Dóra við hann: „Heyrðu, erum við ekki farin að kela? Eigum við ekki að hætta?“ Það dugði og hann ók henni heim þegar í stað. Að segja nei við slíkar aðstæður er kannski það erfiðasta sem þú hefur nokkurn tíma gert. En eins og tvítug kona, sem lét undan freistingunni til að hafa kynmök, sagði: „Mann iðrar þess eftir á ef maður stöðvar ekki leikinn!“

Verið ekki ein saman: Sumum finnst það ef til vill gamaldags að hafa velsæmisvörð með sér en það er samt góð hugmynd. „Það lítur út eins og okkur sé ekki treystandi,“ kvarta sumir. Kannski. En er skynsamlegt að treysta sjálfum sér? Orðskviðirnir 28:26 segja umbúðalaust: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ Sýndu þá visku að hafa einhvern eða einhverja með þegar þið hittist. „Ég ber mikla virðingu fyrir manni sem hefur velsæmisvörð með sér. Ég veit að hann hefur jafnmikinn áhuga og ég á að halda vegi sínum hreinum,“ segir Dóra. „Það er ekkert óþægilegt, því að ef maður vill segja eitthvað einslega er ekkert auðveldara en að víkja sér aðeins frá. Verndin sem það veitir er þess virði.“

Vinátta við Guð

Framar öllu öðru er það mikils virði að byggja upp náin vináttubönd við Guð, þekkja hann sem raunverulega persónu sem hefur tilfinningar. Það hjálpar þér að forðast hvaðeina sem myndi særa hann. Þú styrkir tengsl þín við hann ef þú opnar hjarta þitt fyrir honum og ræðir vandamál þín opinskátt við hann. Mörg hjónaleysi, sem hafa lagt sig fram um að varðveita hreinleika sinn, hafa jafnvel beðið sameiginlega til Guðs þegar þau hafa átt erfitt með að hafa hemil á tilfinningunum, og beðið hann að gefa sér nauðsynlegan styrk.

Jehóva svarar slíkum bænum örlátlega með ‚ofurmagni kraftarins.‘ (2. Korintubréf 4:7) Þú verður auðvitað að leggja þitt af mörkum, en þú mátt treysta því að með hjálp Guðs og blessun er vel hægt að forðast kynferðislegt siðleysi.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Samkvæmt einni könnun sögðu 60 af hundraði kvenna að kynmökin hefðu ekki verið fyrirfram ákveðin.

Spurningar til umræðu

◻ Nefndu sumt af því sem getur hjálpað þér að virða lög Jehóva í kynferðismálum.

◻ Hvernig geta vinir þínir haft áhrif á viðhorf þín til kynlífs fyrir hjónaband?

◻ Hvers vegna telur þú nauðsynlegt að gæta varúðar þegar þú ert með einhverjum af hinu kyninu?

◻ Hvað er hægt að gera í tilhugalífinu til að vernda sig gegn siðleysi?

[Rammi á blaðsíðu 193]

„Það byrjar með smá atlotum . . . “

[Rammi á blaðsíðu 194]

Forðist siðleysi í tilhugalífinu með því að einangra ykkur ekki.

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 195]

‚Haldið vegi ykkar hreinum‘ í tilhugalífinu

Forðist aðstæður sem gætu leitt til ástaratlota.

Verið í hóp með öðrum þegar þið farið út saman eða hafið velsæmisvörð.

Haldið samræðunum á uppbyggilegum nótum.

Láttu vita strax frá upphafi hvaða takmörk þú setur atlotum og blíðuhótum.

Klæddu þig sómasamlega og forðastu ögrandi framkomu.

Biddu um að farið sé heim með þig ef þér finnst hreinleiki þinn í hættu.

Forðist langdregnar kveðjustundir.

Verið ekki of seint úti á kvöldin.

[Mynd]

Margt er hægt að gera í tilhugalífinu án þess að einangra sig frá öðrum.

[Mynd á blaðsíðu 196]

Vertu nógu skynsamur til að segja nei ef ástríðurnar blossa upp — og meintu það!