Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að hætta í skóla?

Ætti ég að hætta í skóla?

17. kafli

Ætti ég að hætta í skóla?

JACK hefur haft umsjón með mætingu nemenda í liðlega aldarfjóðung. Skrópari þarf því töluverða hugkvæmni til að finna upp á afsökun sem Jack hefur ekki heyrt áður. „Krakkarnir hafa komið með alls konar afsakanir,“ segir hann, „svo sem: ‚Ég hélt að ég yrði veikur í dag‘ . . . ‚Afi minn í Alaska dó.‘“ Einhver besta „afsökun,“ sem Jack man eftir, kom frá þrem drengjum sem staðhæfðu að þeir „hefðu bara ekki fundið skólann fyrir þoku.“

Þessar vandræðalegu og lélegu afsakanir barna fyrir að mæta ekki í skóla lýsa vel þeirri andúð sem margir hafa á skólanum. Andúðin getur spannað allt litrófið frá áhugaleysi („Það er svo sem allt í lagi með skólann“) til beinnar óbeitar („Ég hef ógeð á skólanum!“). Tökum Garðar sem dæmi. Honum varð óglatt um leið og hann bjó sig undir að fara í skólann á morgnana. „Ég varð taugaóstyrkur og svitnaði þegar ég nálgaðist skólann . . . ,“ segir hann. „Ég bara varð að snúa við og fara heim aftur.“ Margir unglingar eru haldnir sjúklegum ótta við skólann — stundum kallaður skólafælni. Oft er það ofbeldi í skólanum, einelti eða ótti við að fá lágar einkunnir sem veldur. Slíkir unglingar þrauka í skólanum fyrir fortölur foreldra sinna en eru jafnan taugaóstyrkir og jafnvel líkamlega veikir.

Það kemur því engum á óvart að ótrúlegur fjöldi barna og unglinga kýs að mæta alls ekki í skólann. Í Bandaríkjunum eru um tvær og hálf milljón nemenda í almennum grunnskólum fjarverandi á degi hverjum. Dagblaðið New York Times segir að svo margir (um þriðjungur) séu svo „oft fjarverandi“ frá almennum framhaldsskólum í New Yorkborg að það sé „nánast ógerlegt að kenna þeim.“

Sumir unglingar ganga skrefi lengra. „Skólinn var þrautleiðinlegur og allt of strangur,“ sagði Valtýr sem hætti í framhaldsskóla. Antonía hætti einnig því að hún átti í erfiðleikum með námið. „Hvernig átti ég að geta stundað nám fyrst ég skildi ekki það sem ég las?“ spurði hún. „Ég sat bara þarna og varð heimskari og heimskari svo ég hætti.“

Því er auðvitað ekki að leyna að alvarleg vandamál hrjá skóla og fræðslukerfi víða um heim, en er það nægileg ástæða til að missa áhugann og hætta í skóla fyrir tímann? Hvaða áhrif getur slík uppgjöf haft á líf fólks síðar meir? Eru góð rök fyrir því að sækja skólann uns þú útskrifast?

Gildi menntunar

Míkael settist aftur á skólabekk til að taka stúdentspróf. Aðspurður sagðist hann hafa ‚gert sér ljóst að hann þarfnaðist menntunar.‘ En í hverju er „menntun“ fólgin? Er hún sá hæfileiki að geta þulið upp langa romsu þekkingaratriða? Nei, það er ekki menntun frekar en timburstafli er hús.

Menntun á að búa unga fólkið undir lífið. Allen Austill, sem verið hefur skólameistari í 18 ár, talar um „menntun sem kennir fólki að hugsa, leysa úr verkefnum, bera skyn á hvað sé rökrétt og órökrétt, þroskar skýra hugsun sem er undirstöðuhæfileiki, kennir mönnum að bera skyn á staðreyndir og upplýsingar, að skilja samhengið milli einstakra hluta og heildarinnar, að vega og meta hlutina og kennir því að læra.“

Og hvert er hlutverk skólans í þessu? Endur fyrir löngu skrifaði Salómon konungur orðskviði „til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingunum þekking og aðgætni [„íhygli,“ NW].“ (Orðskviðirnir 1:1-4) Unglingar eru reynslulitlir en skólinn getur hjálpað þeim að þroska með sér íhygli eða hæfnina til að hugsa skýrt. Það er ekki aðeins hæfileiki til að þylja upp staðreyndir heldur líka til að greina þær sundur, skoða og láta þær kveikja nytsamar hugmyndir. Þótt margir hafi gagnrýnt kennsluhætti skólanna verður því ekki neitað að skólanám neyðir þig til að nota hugann. Meðan á námi stendur finnst þér kannski lítils virði fyrir lífið og tilveruna að leysa rúmfræðidæmi eða leggja merkisár mannkynssögunnar á minnið. En Barbara Mayer benti á umhugsunarvert dæmi í bókinni The High School Survival Guide: „Það eiga ekki allir eftir að muna staðreyndirnar og þekkingarmolana, sem kennarar spyrja gjarnan um á prófum, en sá sem lærir að læra og skipuleggja týnir því aldrei niður.“

Þrír háskólaprófessorar, sem rannsökuðu langtímaáhrif menntunar, komust að þeirri niðurstöðu að „þeir sem hafa betri menntun hafa víðtækari og dýpri þekkingu, ekki aðeins á bóklegum fræðum heldur líka heimi samtíðarinnar, og séu líklegri til að afla sér þekkingar og nýta sér heimildargögn. . . . Það hefur sýnt sig að þessi munur helst, þó að fólk eldist og mörg ár séu liðin frá því að skólagöngu lauk.“ — The Enduring Effects of Education.

Mikilvægast er þó það að skólanám getur gert þig hæfari til að bera síðar meir ábyrgð þína sem kristinn maður. Ef þú hefur tamið þér góðar námsvenjur og náð góðum tökum á lestri áttu auðveldara með að nema orð Guðs en ella væri. (Sálmur 1:2) Ef þú hefur lært í skólanum að tjá þig frammi fyrir öðrum áttu auðveldara með að kenna öðrum sannindi Biblíunnar. Þekking á mannkynssögu, efnafræði, eðlisfræði, náttúrufræði, landafræði og stærðfræði er einnig gagnleg og getur hjálpað þér að ná sambandi við fólk af ýmsum uppruna og trú og með ólík áhugamál.

Skóli og atvinna

Skólanám getur einnig ráðið miklu um atvinnuhorfur þínar. Hvernig þá?

Hinn vitri konungur Salómon sagði um mann sem er fær í verki sínu: „Hann getur boðið konungum þjónustu sína, eigi mun hann bjóða sig ótignum mönnum.“ (Orðskviðirnir 22:29) Þannig er það enn þann dag í dag. „Án kunnáttu og þekkingar eru margar dyr mönnum lokaðar alla ævi,“ segir Ernest Green hjá Atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Atvinnuhorfur þeirra sem hætta í skóla eru skiljanlega frekar slæmar. Valtýr, sem getið er hér að framan, lærði það af reynslunni. „Ég hef oft sótt um vinnu en ekki fengið vegna þess að ég hef ekki prófskírteini.“ Hann bætti við: „Stundum notar fólk orð sem ég skil ekki og þá líður mér eins og kjána.“

Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16 til 24 ára, sem hefur hætt í mennta- eða fjölbrautaskóla, „er næstum tvöfalt algengara en meðal jafnaldra þeirra, sem luku námi, og næstum þrefalt meira en almennt gerist.“ (The New York Times) „Þeir sem halda ekki áfram í skóla eru að loka dyrum tækifæranna,“ segir rithöfundurinn F. Philip Rice í bók sinni The Adolescent. Sá sem hefur hætt of snemma í skóla hefur líklega ekki náð tökum á því sem þarf til að valda einfaldasta starfi.

Paul Copperman segir í bók sinni The Literacy Hoax: „Nýlegar athuganir gefa til kynna að þörf sé sjöunda bekkjar lestrarkunnáttu til að geta starfað sem matreiðslumaður, áttunda bekkjar kunnáttu til að geta unnið sem vélvirki og níunda eða tíunda bekkjar kunnáttu til að geta verið afgreiðslumaður í birgðageymslu.“ Hann heldur áfram: „Ég held að það sé rökrétt ályktun að kennari, hjúkrunarfræðingur, bókhaldari eða verkfræðingur þurfi enn betri lestrarkunnáttu.“

Augljóst er því að skólafólk, sem leggur sig vel fram við að læra undirstöðugreinar svo sem lestur, eykur til mikilla muna möguleika sína á að fá atvinnu. En skólaganga veitir fólki annað sem það býr að alla ævi.

Betra fólk

Það gagn, sem skólaganga gerir þér og þú býrð að alla ævi, er þekking á styrkleika þínum og veikleika. Michelle, sem nýlega fékk starf hjá tölvufyrirtæki, segir: „Í skólanum lærði ég að vinna undir álagi, að taka próf og tjá mig.“

‚Skólinn kenndi mér að sjá mistök í réttu ljósi,‘ segir önnur ung kona. Hún hafði tilhneigingu til að kenna öðrum um þegar henni gekk illa. Aðrir hafa notið góðs af þeirri ögun sem reglubundið skólanám útheimtir. Margir gagnrýna skólana fyrir það og segja að aginn bæli unglingana niður. En Salómon hvatti unglinga til að ‚kynnast visku og aga.‘ (Orðskviðirnir 1:2) Skólar, sem halda uppi góðum aga, hafa mótað marga agaða en skapandi einstaklinga.

Það er því skynsamlegt að notfæra sér skólaárin sem allra best. Hvernig geturðu gert það? Við skulum byrja á því að fjalla um skólanámið sjálft.

Spurningar til umræðu

◻ Hvers vegna hafa margir unglingar neikvæða afstöðu til skólans? Hvað finnst þér um skólann?

◻ Hvernig getur skólinn hjálpað þér að þroska skýra hugsun?

◻ Hvaða áhrif gæti það haft á atvinnumöguleika þína ef þú hættir í skóla og hvers vegna?

◻ Hvaða aðra kosti hefur það að hætta ekki of snemma í skóla?

[Innskot á blaðsíðu 135]

„Ég sat bara þarna og varð heimskari og heimskari svo ég hætti.“

[Innskot á blaðsíðu 138]

„Nýlegar athuganir gefa til kynna að þörf sé sjöunda bekkjar lestrarkunnáttu til að geta starfað sem matreiðslumaður, áttunda bekkjar kunnáttu til að geta unnið sem vélvirki og níunda eða tíunda bekkjar kunnáttu til að geta verið afgreiðslumaður í birgðageymslu.“

[Mynd á blaðsíðu 136]

Sú ögun, sem skólanám veitir þér, getur komið þér að góðum notum alla ævi.

[Mynd á blaðsíðu 137]

Atvinnuhorfur þeirra, sem hafa ekki náð tökum á þeim undirstöðugreinum sem kenndar eru í skóla, eru ekki góðar.