Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju fæ ég ekki að vera í friði?

Af hverju fæ ég ekki að vera í friði?

19. kafli

Af hverju fæ ég ekki að vera í friði?

Það nægir að líta á göngulagið til að sjá að hann er kjörið fórnarlamb. Hann er taugaspenntur, óöruggur með sig og augljóslega áttavilltur í þessu framandi umhverfi. Eldri nemendurnir taka strax eftir að hann er nýr í skólanum. Eftir örskamma stund er hann umkringdur unglingum sem ausa yfir hann fúkyrðum! Stokkrauður í framan flýr hann á næsta griðastað — klósettið. Hláturinn bergmálar um skólann.

MÖRG börn og unglingar líta nánast á það sem tómstundagaman að stríða, smána eða áreita aðra. Þess voru jafnvel dæmi á biblíutímanum. Til dæmis áreitti strákahópur Elísa spámann einu sinni. Þeir lítilsvirtu embætti hans og kölluðu: „Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!“ (2. Konungabók 2:23-25) Enn er mjög algengt að börn og unglingar geri gys að öðrum og reyni að særa þá.

„Ég var rindillinn í níunda bekk,“ segir einn af höfundum bókarinnar Growing Pains in the Classroom. „Það var alveg glatað að vera bæði klárastur í bekknum og minnstur. Þeir sem ekki lömdu mig af því að ég var rindill lömdu mig af því að ég var gáfnaljós. Ég hafði óteljandi uppnefni — svo sem ‚gleraugnaglámur‘ og ‚gangandi orðabók.‘ Höfundur bókarinnar The Loneliness of Children bætir við: „Börn með líkamlega fötlun, málgalla eða augljós sérkenni í vaxtarlagi eða háttum eru auðveld bráð barna sem vilja stríða.“

Stundum verjast börn og unglingar með því að svara í sömu mynt sem er reyndar ekkert annað en grimmileg keppni um hver geti svívirt hinn mest (oft með því að svívirða foreldra hvors annars). En börn og unglingar eru oft algerlega varnarlaus þegar skólafélagar leggja þá í einelti. Ungur maður minnist þess að suma daga var hann svo hræddur og vansæll, vegna þess að bekkjarfélagarnir stríddu honum og lögðu í einelti, að hann ‚hélt að hann myndi kasta upp.‘ Hann óttaðist svo hvað hinir myndu gera honum að hann gat ekki einbeitt sér að náminu.

Ekkert grín

Hefur þú verið skotspónn skólafélaganna? Það er kannski hughreysting fyrir þig að Guð skuli ekki líta á það sem neitt grín. Biblían segir frá veislu sem haldin var til að fagna því að Ísak, sonur Abrahams, hafði verið vaninn af brjósti. Eldri sonurinn, Ísmael, fór þá að ‚gera gys‘ að Ísak, greinilega vegna öfundar yfir þeim arfi sem Ísak átti að fá. Hér var ekki um góðlátlegt grín að ræða heldur hreina ‚ofsókn.‘ (Galatabréfið 4:29) Sara, móðir Ísaks, skynjaði fjandskapinn í stríðninni. Hún sá hana sem lítilsvirðingu við þann tilgang Jehóva að leiða fram „afkvæmi“ eða Messías af ættlegg Ísaks, sonar hennar. Að beiðni Söru var Ísmael og móður hans vísað af heimilinu. — 1. Mósebók 21:8-14, sjá New World Translation of the Holy Scriptures.

Það er heldur ekkert grín ef unglingar leggja þig í einelti, einkum ef þeir gera það af því að þú reynir að lifa eftir stöðlum Biblíunnar. Kristin ungmenni eru til dæmis þekkt fyrir að tala við aðra um trú sína, en eins og hópur ungra votta Jehóva sagði: „Krakkarnir gera grín að okkur vegna þess að við prédikum hús úr húsi og þeir lítilsvirða okkur fyrir það.“ Líkt og trúfastir þjónar Guðs til forna þurfa mörg kristin ungmenni að „sæta háðsyrðum.“ (Hebreabréfið 11:36) Þau eiga hrós skilið fyrir hugrekki sitt og þolgæði.

Af hverju gera þeir þetta?

Þú spyrð kannski hvernig þú getir fengið kvalara þína til að láta þig í friði. Hugleiddu fyrst hver geti verið ástæðan fyrir stríðninni. „Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til,“ segir Biblían í Orðskviðunum 14:13. Hlátur brýst út þegar hópur krakka eða unglinga hrellir einhvern annan, en það er ekki ‚fögnuður og hjartans gleði‘ sem að baki býr. (Jesaja 65:14) Oft eru krakkarnir bara að reyna að breiða yfir öryggisleysi og innri kvöl. Á bak við mannalætin eru kvalararnir kannski að segja við sjálfa sig: ‚Við erum óánægðir með sjálfa okkur, en okkur líður ögn skár ef við niðurlægjum aðra.‘

Árásirnar geta einnig sprottið af öfund. Biblían segir frá unglingspilti sem hét Jósef. Bræður hans snerust gegn honum vegna þess að hann var í uppáhaldi hjá föður sínum. Svo mikil var öfundin að þeir létu sér ekki nægja að svívirða hann með orðum heldur lögðu jafnvel á ráðin um að myrða hann! (1. Mósebók 37:4, 11, 20) Nemandi, sem er óvenjuduglegur eða vel liðinn af kennurum sínum, getur á sama hátt vakið öfund bekkjarsystkinanna. Með því að svívirða hann finnst þeim þau geta lækkað í honum rostann.

Stríðnin og áreitnin er sem sagt oft sprottin af öfund, öryggisleysi eða lítilli sjálfsvirðingu. Er nokkur ástæða fyrir þig til að glata sjálfsvirðingunni þótt einhver annar unglingur hafi gert það og sé óöruggur með sig?

Að stöðva áreitnina

„Sæll er sá maður, er . . . eigi situr í hópi háðgjarnra,“ segir sálmaritarinn. (Sálmur 1:1, Biblían 1912) Þú gerir bara illt verra ef þú reynir að beina athyglinni frá sjálfum þér með því að gjalda í sömu mynt. „Gjaldið engum illt fyrir illt,“ ráðleggur skapari okkar. „Sigra þú illt með góðu.“ — Rómverjabréfið 12:17-21.

Og Prédikarinn 7:9 segir: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ Er einhver ástæða til að taka stríðnina alvarlega? Vissulega er það særandi ef gert er gys að vaxtarlagi þínu eða hent gaman að andlitslýtum. En það er ekki alltaf illa meint sem sagt er þótt það sé ósmekklega orðað. Er nokkur ástæða til að vera niðurbrotinn maður ef einhver kemur við auman blett hjá þér í mesta sakleysi — eða kannski ekki í mesta sakleysi? Reyndu að sjá skoplegu hliðina ef það sem sagt var um þig var ekki klúrt eða dónalegt. „Að hlæja hefir sinn tíma“ og það er óþarfi að móðgast við góðlátlegt glens. — Prédikarinn 3:4.

En hvað nú ef stríðnin er illkvittin eða beinlínis grimmileg? Mundu þá að sá sem stríðir þér vill skemmta sér yfir viðbrögðum þínum, hafa gaman af vanlíðan þinni. Ef þú svarar í sömu mynt, ferð í varnarstöðu eða brestur í grát, er líklegt að það verki sem hvatning fyrir hann til að halda áfram að hrella þig. Hvers vegna að gera honum það til geðs að komast í uppnám? Besta leiðin til að losna við stríðni er oft sú að láta eins og ekkert sé.

Salómon konungur hélt áfram: „Gef þú ekki heldur gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér. Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.“ (Prédikarinn 7:21, 22) Ef þú ‚gefur gaum‘ að meiðandi orðum spottaranna værir þú að gera þér óþarfar áhyggjur af því hvað þeim finnst um þig. Eru þeir þess umkomnir að meta manngildi þitt? Páll postuli varð fyrir ósanngjarnri árás öfundsjúkra manna, en hann svaraði: „En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. . . . [Jehóva] er sá sem dæmir mig.“ (1. Korintubréf 4:3, 4) Samband Páls við Guð var nógu sterkt til að gefa honum það sjálfstraust og þann innri styrk sem þurfti til að þola ósanngjarnar árásir.

Láttu ljós þitt skína

Stundum kann að vera gert grín að þér vegna þess að þú ert kristinn. Meira að segja Jesús Kristur þurfti að þola slíkan „fjandskap.“ (Hebreabréfið 12:3) Jeremía var líka hafður „að stöðugu athlægi“ vegna þess að hann boðaði boðskap Guðs djarflega. Svo linnulaus var áreitnin að hann missti móðinn um stund. „Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni,“ sagði hann við sjálfan sig. En kærleikurinn til Guðs og sannleikans hjálpaði honum loks að sigrast á óttanum. — Jeremía 20:7-9.

Sumir kristnir unglingar nú á tímum hafa misst kjarkinn. Sumir hafa reynt að binda enda á stríðnina með því að leyna því að þeir væru kristnir. En kærleikurinn til Guðs hefur oft komið þeim til að sigrast á óttanum fyrr eða síðar og ‚láta ljós sitt skína.‘ (Matteus 5:16) Unglingspiltur sagði til dæmis: „Viðhorf mín breyttust. Ég hætti að líta á það sem byrði að vera kristinn og fór að líta á það sem eitthvað til að vera stoltur af.“ Þú getur líka ‚hrósað þér‘ af þeim sérréttindum að þekkja Guð og vera verkfæri hans til að hjálpa öðrum. — 1. Korintubréf 1:31.

Varastu þó að kalla yfir þig óvild annarra með því að vera sífellt að finna að þeim eða láta sem þú sért betri en þeir. Segðu frá trú þinni þegar tækifæri gefast en þó „með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:16) Gott orðspor vegna góðrar breytni getur verið besta verndin fyrir þig í skólanum. Þótt aðrir séu ekkert hrifnir af hugrekki þínu má vel vera að þeir öfundi þig og virði fyrir það.

Vigdís var lögð í einelti. Stelpnahópur gerði aðsúg að henni. Þær börðu hana, hrintu, slógu bækur úr höndum hennar — til að reyna að æsa hana og fá hana til að gjalda líku líkt. Einu sinni helltu þær meira að segja mjólkurhristingi yfir höfuðið á henni og yfir hreinan og hvítan kjólinn hennar. Samt missti hún aldrei stjórn á skapi sínu. Síðar hitti Vigdís forsprakka hópsins á móti votta Jehóva! „Ég þoldi þig ekki . . . ,“ sagði þessi fyrrverandi kúgari. „Mig langaði til að sjá þig missa stjórn á þér bara einu sinni.“ Það vakti forvitni stúlkunnar að Vigdís skyldi geta haldið ró sinni og það varð til þess að hún þáði biblíunám með vottum Jehóva. „Ég hreifst af því sem ég lærði,“ hélt hún áfram, „og á morgun læt ég skírast.“

Láttu ekki „fjandskap“ skólafélaganna buga þig. Sýndu að þú hafir skopskyn þegar það á við. Launaðu illt með góðu. Ef þú hellir ekki olíu á stríðniseldinn hætta kvalarar þínir að hafa gaman af því að hrella þig, því að „þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn.“ — Orðskviðirnir 26:20.

Spurningar til umræðu

◻ Hvernig lítur Guð á þá sem gera grín að öðrum af illum hug?

◻ Hvað býr oft að baki áreitni eða einelti meðal unglinga?

◻ Hvernig geturðu dregið úr eða jafnvel bundið enda á áreitnina?

◻ Hvers vegna er mikilvægt að þú ‚látir ljós þitt skína‘ í skólanum, jafnvel þegar þér er strítt?

◻ Hvað geturðu gert til að vernda þig gegn ofbeldi í skólanum?

[Innskot á blaðsíðu 155]

Á bak við mannalætin eru kvalararnir kannski að segja við sjálfa sig: ‚Við erum óánægðir með sjálfa okkur en okkur líður ögn skár ef við niðurlægjum aðra.‘

[Rammi á blaðsíðu 152]

Hvernig get ég forðast líkamsárás?

‚Maður er með lífið í lúkunum þegar maður fer í skólann,‘ segja margir nemendur. En að bera vopn er heimskuleg leið til að verja sig og býður hættunni heim. (Orðskviðirnir 11:27) Hvernig geturðu þá varið þig?

Forðastu hættulega staði. Gangar, stigar og búningsklefar eru vandræðastaðir í sumum skólum. Salerni eru sums staðar svo illræmd fyrir slagsmál og fíkniefnanotkun að margir vilja frekar leggja á sig nokkur óþægindi en nota þau.

Gættu að félagsskap þínum. Unglingur getur lent í slagsmálum vegna þess að hann velur sér ranga félaga. (Sjá Orðskviðina 22:24, 25.) Að sjálfsögðu er ekki ástæða til að vera kuldalegur við skólafélagana; það gæti gert þá fráhverfa þér og jafnvel fjandsamlega. Ef þú ert vingjarnlegur og kurteis í viðmóti eru meiri líkur á að þeir láti þig í friði.

Forðastu slagsmál. Biblían ráðleggur okkur að ‚áreita ekki hver annan.‘ (Galatabréfið 5:26) Þú berð kannski hærri hlut í slagsmálum, en þú mátt búast við að andstæðingurinn bíði síns tíma til að jafna um þig. Reyndu fyrst að afstýra slagsmálum með því að tala þig út úr klípunni. (Orðskviðirnir 15:1) Ef það dugir ekki skaltu ganga burt — eða jafnvel hlaupa — áður en til átaka kemur. Mundu að „lifandi hundur er betri en dautt ljón.“ (Prédikarinn 9:4) Ef þér er engrar undankomu auðið skaltu reyna að vernda þig eða verja með öllum tiltækum en skynsamlegum ráðum. — Rómverjabréfið 12:18.

Talaðu við foreldra þína. Unglingar „segja foreldrunum sjaldan frá þeim ógnum sem mæta þeim í skólanum af ótta við að foreldrarnir haldi að þeir séu huglausir eða skammi þá fyrir að berja ekki frá sér.“ (The Loneliness of Children) Oft eru afskipti foreldra þó eina leiðin til að leysa vandann.

Biddu til Guðs. Guð lofar ekki að þér verði hlíft við líkamsmeiðingum. En hann getur gefið þér hugrekki til að horfast í augu við ógnanir og visku til að draga úr spennunni. — Jakobsbréfið 1:5.

[Mynd á blaðsíðu 151]

Margir unglingar verða fyrir áreitni í skólanum.

[Mynd á blaðsíðu 154]

Spottarinn vill hafa gaman af vanlíðan þinni. Ef þú svarar í sömu mynt eða brestur í grát getur það hvatt hann til að halda áfram að hrella þig.

[Mynd á blaðsíðu 156]

Reyndu að sjá skoplegu hliðina þegar þér er strítt.