Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég bætt einkunnirnar?

Hvernig get ég bætt einkunnirnar?

18. kafli

Hvernig get ég bætt einkunnirnar?

ÞEGAR allmargir grunnskólanemar voru að því spurðir hverju þeir hefðu mestar áhyggjur af svaraði rúmlega helmingur: „Einkunnum!“

Það er ekkert undarlegt að unglingar skuli gera sér miklar áhyggjur af því hvaða einkunnir þeir fái. Einkunn getur ráðið því hvort þeir útskrifast eða falla, hvort þeir fá vellaunað starf eða bara lágmarkslaun og hvort þeir fá hrós foreldra sinna eða reiðilestur. Próf og einkunnir hafa óneitanlega sitt gildi. Jesús Kristur prófaði oft skilning lærisveina sinna á ýmsum málum. (Lúkas 9:18) Og bókin Measurement and Evaluation in the Schools segir: „Prófúrslit geta leitt í ljós á hvaða sviðum einstakir nemendur eru veikir eða sterkir og örvað þá til frekara náms.“ Einkunnir gefa líka foreldrum nokkra hugmynd um hvort börnum þeirra gengur vel eða illa í skóla.

Farðu hinn gullna meðalveg

Of miklar áhyggjur af einkunnum geta aftur á móti valdið lamandi streitu og harðri samkeppni. Í bók um unglingsárin er nefnt að nemendum, sem hyggja á háskólanám, sé sérstaklega hætt við að „sogast inn í samkeppnishringiðu þar sem lögð er meiri áhersla á einkunnir og stöðu í bekknum en lærdóm.“ Afleiðingin verður sú að nemendur „læra snemma á skólaárunum að spyrja í hverju verði prófað . . . og læra aðeins það efni,“ að því er dr. William Glasser segir.

Salómon konungur varaði við: „Ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:4) Hörð samkeppni, hvort heldur um auð eða lof, er lítils virði. Guðhræddir unglingar gera sér grein fyrir að þeir þurfa að leggja sig fram við skólanámið. En í stað þess að gera menntun að aðalmarkmiði lífsins leggja þeir rækt við andleg hugðarefni og treysta Guði til að fullnægja efnislegum þörfum þeirra. — Matteus 6:33; sjá 22. kafla sem fjallar um val á atvinnu.

Menntun er annað og meira en að næla sér í góðar einkunnir á prófum. Hún merkir að þroska það sem Salómon kallaði „íhygli“ eða hæfnina til að taka við hráum upplýsingum og draga af þeim skynsamlegar og gagnlegar ályktanir. (Orðskviðirnir 1:​4, New World Translation) Unglingur lærir aldrei að hugsa sjálfur nái hann prófi með ágiskunum, miklum próflestri á síðustu stundu eða jafnvel svindli. Og hvaða gagn er í góðri einkunn í stærðfræði ef þú uppgötvar síðar að þú kannt ekki að stemma af tékkareikninginn þinn.

Það er því mikilvægt fyrir þig að líta ekki á einkunnir sem markmið í sjálfu sér heldur sem mælikvarða á það hvernig þér sækist námið. En hvernig geturðu fengið einkunnir sem gefa rétta mynd af getu þinni?

Taktu sjálfur ábyrgðina á náminu

Linda Nielsen, sem er kennari, segir að slakir nemendur hafi tilhneigingu til að „skella skuldinni á óviðráðanlegar ástæður — ósanngjarnar prófspurningar, fordómafullan kennara, óheppni, örlög eða veðrið.“ En Biblían segir: „Sál letingjans girnist og fær ekki.“ (Orðskviðirnir 13:4) Lágar einkunnir stafa oft af hreinni leti.

Góðir nemendur taka sjálfir ábyrgð á námi sínu. Tímaritið ’Teen gerði einu sinni könnun meðal nokkurra framhaldsskólanema sem stóðu sig mjög vel í námi. Hver var leyndardómurinn að baki árangri þeirra? „Áhugi heldur manni gangandi,“ svaraði einn. „Maður þarf að gera áætlun og skipuleggja tímann,“ sagði annar. „Maður verður að setja sér markmið,“ sagði sá þriðji. Já, einkunnirnar velta að langmestu leyti á sjálfum þér og því hve hart þú leggur að þér í skólanum — ekki óviðráðanlegum, ytri aðstæðum.

‚En ég læri heima‘

Sumir unglingar eru sannfærðir um það. Þeim finnst í einlægni að þeir þræli og púli án árangurs. Fyrir fáeinum árum spurðu nokkrir rannsóknarmenn við Stanford háskóla í Bandaríkjunum um 770 skólanema hve mikið þeir teldu sig leggja á sig við skólanámið. Svo undarlegt sem það er fannst nemendum með lágar einkunnir þeir leggja jafnhart að sér og aðrir. Þegar námsvenjur þeirra voru skoðaðar nánar kom hins vegar í ljós að heimanám þeirra var miklu minna en nemenda sem stóðu sig mjög vel.

Hvað má læra af þessu? Ef til vill stundarðu ekki námið af jafnmiklu kappi og þú heldur og ættir kannski að breyta námsvenjum þínum. Í grein í tímaritinu Journal of Educational Psychology er á það bent að „það eitt að eyða meiri tíma í heimanámið hafi jákvæð áhrif á einkunnir framhaldsskólanema.“ Blaðið segir að „skólanemi með hæfni undir meðallagi geti með eins til þriggja stunda heimanámi á viku náð svipuðum einkunnum og skólanemi með hæfni í meðallagi sem lærir ekkert heima.“

Páll postuli þurfti í táknrænum skilningi að ‚leika líkama sinn hart‘ til að ná þeim markmiðum sem hann hafði sett sér. (1. Korintubréf 9:27) Þú gætir líka þurft að beita sjálfan þig hörðu, einkum ef þú lætur sjónvarp eða eitthvað annað draga athygli þína frá náminu. Þú gætir jafnvel prófað að hengja spjald á sjónvarpið með áletruninni: „Ekkert sjónvarp fyrr en ég er búinn að læra!“

Aðstæður við heimanámið

Flestir eiga auðveldast með að einbeita sér að lestri og námi á hljóðlátum stað. Gerðu þitt besta úr aðstæðunum ef þú deilir herbergi með öðrum eða húsrúm er takmarkað á heimilinu. Kannski er hægt að taka eldhúsið eða eitthvert herbergið frá sem lesstofu fyrir þig í eina klukkustund eða lengur á dag til þess að þú getir gert heimaverkefnin þar. Ef þú átt ekki um neitt annað að velja gætirðu reynt að finna afdrep á lestrarsal almenningsbókasafns eða heimili vinar þíns.

Ef hægt er skaltu sitja við skrifborð eða annað stórt borð þar sem þú getur haft öll námsgögn við hendina. Hafðu skriffæri handbær þannig að þú þurfir ekki sífellt að vera að sækja þér eitthvað. Og mundu að fæstir eiga auðvelt með að einbeita sér ef kveikt er á sjónvarpi eða útvarpi í herberginu. Símtöl og heimsóknir trufla einnig.

Gættu þess að lýsing sé nægileg og að ekki glampi af borði eða bókum. Góð lýsing dregur úr lesþreytu og verndar augun. Gættu þess eftir föngum að loftræsting sé góð og herbergishiti hæfilegur. Það er auðveldara að einbeita sér í svölu herbergi en heitu.

En hvað nú ef þú ert hreinlega ekki í skapi til að læra? Lífið leyfir okkur sjaldan þann munað að gera bara það sem við erum í skapi til þá stundina. Þegar þú færð vinnu úti þarftu að vinna á hverjum degi — hvort sem þú ert í skapi til þess eða ekki. Líttu því á heimaverkefnin sem sjálfsögun, sem æfingu fyrir það að stunda atvinnu síðar meir. Gakktu beint til verks. Uppeldis- og kennslufræðingur bendir á: „Ef mögulegt er ætti heimanámið að fara fram á sama stað og tíma á hverjum degi. Þar með verður reglulegt heimanám að venju og . . . það dregur úr mótstöðu gegn heimanámi.“

Námsvenjur þínar

Í Filippíbréfinu 3:16 hvatti Páll kristna menn til að ‚ganga þá götu sem þeir hefðu komist á.‘ Páll var að tala um hinn daglega vanagang kristilegs lífs, en vanagangur eða viss tilhögun er líka hjálpleg við heimanám. Reyndu til dæmis að skipuleggja hvað þú ætlar að nema. Forðastu að lesa líkar námsgreinar (svo sem tvö erlend tungumál) hverja á eftir annarri. Taktu þér stutt hlé milli námsgreina, einkum ef heimanámið er mikið að vöxtum.

Ef heimaverkefni krefst mikils lestrar gætirðu reynt eftirfarandi aðferð. Fyrst skaltu KANNA efnið. Renndu augunum yfir leskaflana, sem þér eru settir fyrir, og taktu eftir millifyrirsögnum, töflum og því um líku til að fá heildaryfirlit yfir efnið. Búðu síðan til SPURNINGAR byggðar á kaflaheitum eða setningum sem kynna efnið í hverjum kafla. (Það hjálpar þér að halda huganum við efnið.) LESTU nú efnið og leitaðu svara við spurningunum. Þegar þú hefur lesið hverja efnisgrein eða afmarkaðan hluta, ENDURSEGÐU þá í huganum það sem þú hefur lesið eins og þú manst það, án þess að líta í bókina. Og eftir að þú hefur lesið allt sem sett var fyrir skaltu RIFJA UPP með því að renna yfir fyrirsagnirnar og prófa hverju þú manst eftir úr hverjum kafla. Sumir segja að þessi aðferð geti hjálpað nemendum að muna allt að 80 af hundraði þess sem þeir lesa!

Uppeldis- og kennslufræðingur bætir við: „Mikilvægt er að nemendur geri sér ljóst að staðreynd stendur aldrei ein og einangruð heldur alltaf tengd öðrum upplýsingum.“ Reyndu því að tengja það sem þú lærir við það sem þú veist fyrir og þekkir af eigin raun. Reyndu að koma auga á hagnýtt gildi þess sem þú ert að læra.

Athyglisvert er að guðhræddir unglingar eru vel settir að þessu leyti því að Biblían segir: „Ótti [Jehóva] er upphaf þekkingar.“ (Orðskviðirnir 1:7) Eðlisfræðilögmál geta til dæmis virst tyrfinn leiðindalærdómur, en sú vitneskja að „hið ósýnilega eðli“ Guðs sé sýnilegt í sköpunarverkinu gefur námsefninu dýpri merkingu. (Rómverjabréfið 1:20) Í mannkynssögu er oft fjallað um efni sem snertir framvindu fyrirætlunar Jehóva. Biblían fjallar um sjö heimsveldi, þeirra á meðal hið núverandi ensk-ameríska tvíveldi. — Opinberunarbókin 17:10; Daníel 7. kafli.

Ef þú tengir það sem þú lærir því sem þú veist fyrir eða kristinni trú þinni, þá fara staðreyndir að hafa eitthvert gildi fyrir þig. Þekkingin breytist í skilning. Eins og Salómon komst að orði: „Hyggnum manni er þekkingin auðfengin.“ — Orðskviðirnir 14:6.

‚Það verður próf í næstu viku‘

Það er engin ástæða til að fá hnút í magann þegar kennarinn segir þetta. Reyndu fyrst og fremst að greina af orðum kennarans hvers konar próf þetta verður. Verður það krossapróf eða ritgerð? Dagana fyrir prófið skaltu hafa eyrun opin fyrir vísbendingum um það hverju verður prófað í. („Næsta atriði er mjög þýðingarmikið“ eða: „Munið vel eftir þessu“ eru dæmigerðar vísbendingar að sögn tímaritsins Senior Scholastic.) Því næst geturðu byrjað að fara yfir minnispunktana þína, námsbækur og heimaverkefni.

„Járn brýnir járn, og maður brýnir mann,“ áminnir Salómon. (Orðskviðirnir 27:17) Ef til vill getur vinur þinn eða annað foreldra þinna hjálpað þér með því að hlýða þér yfir efnið með spurningum eða með því að hlusta á þig endursegja það. Og kvöldið fyrir prófið skaltu reyna að slaka á og fá góðan nætursvefn. „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ spurði Jesús. — Matteus 6:27.

Fall á prófi

Sjálfsvirðingin verður ekki upp á marga fiska ef þú fellur á prófi, einkum ef þú hefur lagt hart að þér til að ná því. En uppeldis- og kennslufræðingurinn Max Rafferty segir: „Alla ævina er verið að dæma okkur eftir því hve mikið við vitum, hvaða árangri við náum . . . Skóli, sem fær nemendur til að halda að lífið sé dans á rósum, er ekki skóli. Hann er draumasmiðja.“ Sú auðmýking að falla á prófi er vel þess virði ef hún eggjar þig til að læra af mistökum þínum og bæta þig.

Það er ekkert skemmtilegt að valda foreldrum sínum vonbrigðum með því að koma heim með slæmar einkunnir. Óttinn við viðbrögð foreldranna hefur stundum leitt af sér hin flóknustu undanbrögð. „Ég var vanur að skilja einkunnirnar eftir á eldhúsborðinu, fara upp í herbergið mitt og reyna að sofa fram á næsta dag,“ segir unglingur. Annar segir: „Ég beið yfirleitt fram á síðustu stundu með að sýna mömmu það. Ég rétti henni það um morguninn þegar hún var að leggja af stað í vinnuna og sagði: ‚Þú þarft að skrifa undir þetta.‘ Þá hafði hún ekki tíma til að segja neitt“ — að minnsta kosti ekki þá stundina. Sumir unglingar hafa jafnvel falsað einkunnirnar!

En foreldrarnir eiga rétt á að vita hvernig þér gengur í skólanum. Þeir reikna að sjálfsögðu með að einkunnir þínar gefi raunhæfa mynd af hæfni þinni, og ef þær eru lægri en góðu hófi gegnir máttu búast við verðskulduðum aga. Vertu því heiðarlegur við foreldra þína. Og „hlýð . . . á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8) Ræddu málið við þau ef þér finnst þau gera óhóflegar kröfur til þín. — Sjá innskotsgreinina „Hvernig get ég sagt foreldrum mínum frá því?“ í 2. kafla.

Einkunnir skipta miklu máli en þær eru ekki endanlegur dómur á manngildi þitt. Notaðu samt vel þann tíma sem þú ert í skóla og lærðu eins mikið og þú getur. Slík ástundun endurspeglast yfirleitt í góðum einkunnum, þér og foreldrum þínum til ánægju.

Spurningar til umræðu

◻ Hvaða tilgangi þjóna einkunnir og hvers vegna er heilbrigt viðhorf til þeirra þýðingarmikið?

◻ Hvers vegna er mikilvægt að þú takir sjálfur ábyrgðina á námi þínu?

◻ Hvað er hyggilegt að hugleiða varðandi þátttöku í félags- og tómstundastarfi eftir að skóladegi lýkur?

◻ Nefndu nokkrar leiðir til að bæta einkunnirnar.

◻ Hvernig geturðu búið þig undir próf?

◻ Hvernig áttu að líta á fall á prófi? Ættirðu að fela það fyrir foreldrum þínum?

[Innskot á blaðsíðu 141]

Unglingur lærir aldrei að hugsa sjálfur nái hann prófi með ágiskunum, miklum próflestri á síðustu stundu eða jafnvel svindli.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 144. 145]

Hvað um félags- og tómstundastarf?

Margir unglingar hafa yndi af félags- og tómstundastarfi eftir skóla. „Ég var næstum í hverjum einasta klúbbi sem til var,“ segir piltur frá Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum. „Ég naut þess að fást við það sem mér þótti áhugavert. Ég var í bílaklúbbnum af því að ég hafði gaman af að vinna við bíla. Ég hef gaman af tölvum þannig að ég gekk í þann klúbb einnig. Svo gekk ég líka í klúbb fyrir radióamatöra af því að ég hef gaman af slíku.“ Nemendur, sem stefna á háskólanám, eru sérstaklega hvattir til að taka þátt í félags- og tómstundastarfi eftir skóla.

Hins vegar sagði talsmaður Bandaríkjastjórnar, sem er sjálfur fyrrverandi kennari, útgefendum tímaritsins Vaknið!: „Skólanemar eyða sennilega meiri tíma í starf utan námsskrár en skólanám, þannig að þeir eiga erfitt með að ná viðunandi einkunnum.“ Já, það er ekki auðvelt að fara meðalveginn ef mann langar til að taka þátt í margs konar félagslífi eftir að skóladegi lýkur. Cathy, sem lék í hafnaboltaliði skólans, segir: „Ég var of þreytt eftir æfingar til að gera nokkurn skapaðan hlut. Það hafði áhrif á skólanámið. Þess vegna lét ég ekki skrá mig í liðið í ár.“

Þá bætast við andlegar hættur. Kristinn maður lítur um öxl til unglingsáranna og segir: „Ég hélt að ég gæti sameinað þrenns konar starfsemi: skólanám, æfingar með hlaupaliðinu og andlega þjónustu. En þegar þetta þrennt rakst á voru það alltaf andlegu hugðarefnin sem ég fórnaði.“

Ungur maður, Themon, sem var í tveim íþróttaliðum í skólanum, tekur í sama streng: „Ég gat ekki sótt samkomurnar í ríkissalnum [þar sem veitt er andleg fræðsla] vegna þess að við vorum utanbæjar að spila á þriðjudögum, við fórum úr bænum á fimmtudögum og við fórum úr bænum á laugardögum og komum ekki heim aftur fyrr en klukkan tvö á nóttinni.“ Þótt ‚líkamleg æfing sé nytsamleg í sumu‘ er mikilvægt að hafa hugfast að „guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Hugsaðu líka um hinar siðferðilegu hættur. Munu þeir sem þú ert í slagtogi með hafa heilnæm áhrif á siðferði þitt? Um hvað tala þeir? Gætu félagar þínir í liðinu eða klúbbnum haft skaðleg áhrif á þig? „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum,“ varar 1. Korintubréf 15:33 við.

Fjöldi unglinga meðal votta Jehóva hefur kosið að nota tímann eftir að skóladegi lýkur til þess sem er langtum gagnlegra en íþróttir eða tómstundastarf: að hjálpa öðrum að kynnast skaparanum. Kólossubréfið 4:5 ráðleggur: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.“

[Mynd á blaðsíðu 143]

Unglingar gjalda oft slælegs heimanáms með lélegum einkunnum eða falli.

[Mynd á blaðsíðu 146]

Það er ekki auðvelt að finna rétta jafnvægið milli heimanáms og tómstundagamans.

[Mynd á blaðsíðu 148]

Foreldrar þínir taka lélegum einkunnum örugglega ekki fagnandi. Ræddu málið við þau ef þér finnst þau gera óhóflegar kröfur til þín.