Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég fengið vinnu – og haldið henni?

Hvernig get ég fengið vinnu – og haldið henni?

21. kafli

Hvernig get ég fengið vinnu – og haldið henni?

Í KÖNNUN, sem gerð var í eldri bekkjum nokkurra bandarískra framhaldsskóla, voru nemendur beðnir að nefna hvaða markmið í lífinu þeir teldu „mjög mikilvæg.“ Að sögn tímaritsins Senior Scholastic svöruðu 84 af hundraði: „Að fá fasta vinnu.“

Kannski langar þig til að fá vinnu með skóla til að hafa vasapeninga eða til að geta lagt eitthvað til heimilisins. Ef til vill ertu að leita þér að vinnu hluta úr degi til að geta séð fyrir þér sem boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi. (Sjá 22. kafla.) Hvað sem því líður er verðbólga og minnkandi eftirspurn eftir ófaglærðum starfsmönnum alls staðar í heiminum, þannig að erfitt getur verið að fá vinnu, sérstaklega fyrir ungt fólk. Hvernig er þá hægt að komast vandræðalítið út á vinnumarkaðinn?

Líttu á skólanám sem starfsþjálfun

Cleveland Jones, atvinnuráðgjafi með margra ára starfsreynslu, ráðleggur: „Aflaðu þér góðrar framhaldsskólamenntunar. Ég get ekki lagt nógu þunga áherslu á góða lestrar- og skriftarkunnáttu og gott málfar. Lærðu einnig háttprýði og góða siði þannig að þú getir umgengist fólk í atvinnulífinu.“

Strætisvagnastjóri þarf að geta lesið tímaáætlanir. Iðnverkamaður þarf að geta útfyllt vinnuseðla og vinnuskýrslur. Afgreiðslumaður þarf að geta lagt saman, dregið frá og reiknað prósentur. Í nálega öllum starfsgreinum þurfa menn að kunna að tjá sig og eiga samskipti við fólk. Allt þetta er hægt að læra í skólanum.

Þrautseigja borgar sig

„Gefstu ekki upp ef þú ert búinn með skólann og ert í atvinnuleit,“ segir Cleveland Jones. „Farðu ekki heim og bíddu átekta eftir tvö eða þrjú viðtöl. Þá færðu aldrei vinnu.“ Sævar var heila sjö mánuði að leita sér að vinnu áður en hann var ráðinn. „Ég sagði við sjálfan mig: ‚Ég er í vinnu við að leita mér að vinnu.‘ Í sjö mánuði notaði ég átta tíma á dag alla virka daga í atvinnuleit. Ég byrjaði snemma morguns og ‚vann‘ til klukkan fjögur síðdegis. Á kvöldin var ég oft sárfættur. Næsta morgun þurfti ég að telja í mig kjark til að hefja leitina á ný.“

Hvað hélt Sævari gangandi? „Í hvert sinn sem ég gekk inn í starfsmannahald einhvers fyrirtækis mundi ég eftir orðum Jesú um að ‚leggja sig kappsamlega fram,‘“ svarar hann. „Ég hugsaði sífellt um að einn góðan veðurdag myndi ég fá vinnu og þá væri þetta leiðindatímabil afstaðið.“ — Lúkas 13:24.

Hvar er hægt að fá vinnu?

Ef þú býrð í dreifbýli geturðu byrjað leitina hjá bændunum í kring. Ef þú býrð í bæ eða borg geturðu lesið atvinnuauglýsingar dagblaða. Þær gefa vísbendingar um hvaða hæfileika og menntun þurfi til vissra starfa og geta hjálpað þér að sannfæra vinnuveitanda um að þú fullnægir kröfunum. Foreldrar, kennarar, vinnumiðlanir, starfsmannastjórar fyrirtækja, vinir og nágrannar geta líka gefið þér góð ráð.

Hvernig er hægt að halda vinnunni?

Þegar afturkippur verður í efnahagslífinu með tilheyrandi atvinnuleysi, eru það því miður yfirleitt yngstu starfsmennirnir sem missa vinnuna fyrst. En það þarf ekki að henda þig. „Þeir halda starfinu sem eru fúsir til að vinna og gera hvaðeina sem vinnuveitandinn biður um,“ segir Cleveland Jones.

Gæði vinnunnar, sem þú skilar, eru að nokkru leyti undir viðhorfum þínum komin — hvað þér finnst um vinnuveitendur þína og vinnufélaga. Yfirmaðurinn dæmir þig ekki aðeins eftir afköstum heldur líka viðhorfum og hugarfari.

„Láttu vinnuveitandann sjá að þú getir bæði fylgt fyrirmælum og gert meira en krafist er af þér án þess að vera undir stöðugu eftirliti,“ heldur Cleveland Jones áfram. „Þegar segja þarf upp starfsfólki eru það ekki alltaf þeir sem hafa unnið lengst hjá fyrirtækinu sem halda vinnunni, heldur þeir sem skila góðum afköstum.“

Sævar komst að raun um það. Hann segir: „Ég reyndi alltaf að gera vinnuveitandanum til hæfis. Ég var sveigjanlegur þegar þess var krafist, fylgdi fyrirmælum og sýndi yfirmönnunum virðingu.“ Þetta minnir á hvatningarorð Biblíunnar: „Hlýðið jarðneskum húsbændum ykkar í öllu, og gerið það ekki aðeins þegar þeir fylgjast með ykkur til þess eins að hljóta velþóknun þeirra, heldur gerið það af hreinu hjarta vegna lotningar ykkar fyrir Drottni.“ — Kólossubréfið 3:22, Good News for Modern Man.

Vertu óhræddur

Trúlega ertu eilítið taugaóstyrkur fyrstu dagana í nýju starfi. Þú hugsar kannski með þér: ‚Hvað ætli þeim finnist um mig? Ætli ég ráði við starfið? Ætli þeir verði ánægðir með störf mín? Ég vona að ég geri mig ekki að fífli.‘ Hér þarftu að gæta að þér til að óttinn spilli ekki jákvæðum viðhorfum þínum.

Þú getur flýtt þér að aðlagast starfinu og róa taugarnar með því að fræðast meira um fyrirtækið. Hafðu augu og eyru opin og lestu þér til. Spyrðu yfirmanninn skynsamlegra spurninga um starf þitt og afköst þegar það á við — það gerir þig ekkert kjánalegan. Spyrðu sjálfan þig: ‚Hvaða þýðingu hefur starf mitt í deildinni þar sem ég vinn og fyrir fyrirtækið í heild?‘ Svörin geta hjálpað þér að temja þér góða starfshætti og vinnugleði.

Gott samband við vinnufélagana

Öllum störfum fylgja einhver mannleg samskipti. Til að halda vinnunni er mikilvægt að vera þægilegur í umgengni við aðra. „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Það getur hlíft þér við óþörfum árekstrum eða deilum á vinnustað.

Sumir vinnufélaganna geta verið af öðrum uppruna en þú og gerólíkar manngerðir. En líttu ekki niður á nokkurn mann þótt hann sé ólíkur þér. Virtu rétt hans til að vera frábrugðinn. Enginn vill láta sýna sér óvirðingu; þá finnst honum traðkað á sér. Allir vilja finna að þeirra sé þörf og þeir geri gagn. Þú getur áunnið þér virðingu samstarfsmanna þinna og vinnuveitanda með því að virða þá.

Forðastu slúður

„Maður á ekki að hlusta á slúður,“ segir Sævar, „því að það getur gefið manni ranga mynd af yfirmanninum eða öðrum.“ Það er óvarlegt að trúa kviksögum. Þær einkennast yfirleitt af stórkostlegum ýkjum sem geta spillt bæði mannorði þínu og annarra. Haltu því aftur af lönguninni til að slúðra.

Mundu líka að engum er um þann gefið sem er síkvartandi. Ef þú ert óánægður með eitthvað í vinnunni, þá skaltu tala við yfirmanninn í stað þess að nöldra við vinnufélagana. En ryðstu ekki inn á skrifstofuna hans í reiðikasti þannig að þú þurfir síðar að iðrast hvatvísi þinnar. Forðastu líka að tala illa um vinnufélagana. Haltu þig við staðreyndir. Lýstu vandamálinu eins skýrt og heiðarlega og þú getur. Ef til vill gætirðu byrjað eitthvað á þessa leið: ‚Ég þarfnast hjálpar þinnar . . . ‘ eða: ‚Kannski skjátlast mér, en . . . ‘

Stundvísi er mikilvæg

Óstundvísi og fjarvistir úr vinnu eru tvær algengar ástæður fyrir því að fólk missir vinnuna. Atvinnu- og fræðsluráðgjafi í fjölmennri iðnaðarborg segir um unga starfsmenn: „Þeir verða að læra að vakna á morgnana og að taka við fyrirskipunum. Ef þeir geta ekki lært það verða þeir bara atvinnulausir áfram.“

Sævar lærði af reynslunni hve mikilvægt er að vera stundvís. „Ég missti fyrsta starfið eftir aðeins þrjá mánuði vegna óstundvísi,“ segir hann og andvarpar, „og eftir það var enn erfiðara að fá vinnu.“

Heiðarleiki er mikilvægur

Atvinnuráðgjafinn Cleveland Jones segir: „Heiðarleiki hjálpar manni að halda vinnunni.“ Að vera heiðarlegur er bæði að forðast að stela efnislegum verðmætum frá vinnuveitandanum og einnig tíma með því að slóra í vinnunni. Heiðarlegur verkamaður er mikils metinn og honum er treyst.

Ungur vottur Jehóva, sem vann í dýrri og fínni fataverslun, hafði orð á sér fyrir að vera heiðarlegur. „Dag einn,“ segir hann, „fann framkvæmdastjórinn föt inni á lager, falin inni í öðrum fötum. Einn af starfsmönnunum var að stela frá versluninni. Þegar búið var að loka fór ég upp á skrifstofu framkvæmdastjórans og mér til undrunar voru allir starfsmennirnir samankomnir þar. Þar þurftu þeir að bíða uns búið var að leita á þeim. Ég var eini starfsmaðurinn sem ekki var leitað á.“

Mörg kristin ungmenni hafa orðið fyrir svipaðri reynslu og eru mikils metnir starfsmenn. Leggðu þig fram við að leita að vinnu. Vertu þrautseigur. Gefstu ekki upp. Og þegar þú finnur vinnuna, sem þú hefur leitað svo mikið að, þá skaltu leggja hart að þér til að halda henni!

Spurningar til umræðu

◻ Hvernig getur skólanámið haft áhrif á atvinnumöguleika þína?

◻ Hvers vegna þarftu að vera þrautseigur þegar þú ert í atvinnuleit?

◻ Hvar geturðu leitað og hverja geturðu ráðfært þig við þegar þú leitar vinnu?

◻ Hvernig er gott að bera sig að í viðtali við væntanlegan vinnuveitanda?

◻ Hvað geturðu gert til að koma í veg fyrir að þér verði sagt upp störfum?

[Innskot á blaðsíðu 166]

„Ég get ekki lagt nógu þunga áherslu á góða lestrar- og skriftarkunnáttu og gott málfar.“

[Innskot á blaðsíðu 170]

„Ég sagði við sjálfan mig: ‚Ég er í fullri vinnu við að leita mér að vinnu.‘“

[Rammi/mynd á blaðsíðu 168, 169]

Hvernig á ég að bera mig að í viðtali?

„Áður en þú mætir í viðtal hjá væntanlegum vinnuveitanda skaltu muna að það skiptir mestu máli hvernig þú kemur honum fyrst fyrir sjónir,“ segir atvinnuráðgjafinn Cleveland Jones. Hann varar við gallabuxum og íþróttaskóm þegar mætt er í viðtal og leggur ríka áherslu á að vera hreinn og snyrtilegur. Vinnuveitendur reikna oft með að fólk vinni líkt og það klæðist.

Klæddu þig eins og skrifstofumaður ef þú ert að sækja um skrifstofustarf. Vertu í hreinum buxum, hreinni og nýstraujaðri skyrtu og snyrtilegum skóm ef þú ert að sækja um verksmiðjustarf. Stúlkur ættu einnig að vera smekklega klæddar og nota snyrtivörur í hófi. Og stúlka, sem sækir um skrifstofustarf, ætti að vera í kjól, pilsi eða snyrtilegum síðbuxum — en undir öllum kringumstæðum smekklega til fara.

Mættu alltaf einn í viðtal við vinnuveitanda, ráðleggur Cleveland Jones. Ef þú tekur móður þína eða vini með í viðtalið kann vinnuveitandinn að álykta að þú sért óþroskaður.

‚Hvað á ég að segja ef ég er spurður hvort ég hafi einhverja starfsreynslu?‘ hugsarðu kannski með þér. Vertu heiðarlegur. Reyndu ekki að gera meira úr sjálfum þér en efni standa til. Vinnuveitendur sjá yfirleitt gegnum ýkjur.

Þótt þú sért að sækja um fyrstu „alvöruvinnuna“ hefurðu trúlega einhverja reynslu af vinnu nú þegar. Hefurðu einhvern tíma haft sumarvinnu? Gætt barna? Haft föst skyldustörf á heimilinu? Hefurðu haft einhver ábyrgðarstörf á tilbeiðslustað? Hefurðu fengið þjálfun í opinberri ræðumennsku? Ef svo er geturðu nefnt það í viðtalinu eða talið það upp á umsóknareyðublaðinu — það sýnir að þú ert fær um að taka á þig ábyrgð.

Annað mikilvægt mál, sem vinnuveitendur vilja kanna, er áhugi þinn á fyrirtækinu og starfinu sem þér stendur til boða. Þú þarft að sannfæra vinnuveitandann um að þú viljir fá starfið og ráðir við það. Hann missir fljótt áhugann á þér ef hann sér að þú ert fyrst og fremst að hugsa um launaumslagið.

Þú ert fullkomlega fær um að sækja um heilsdagsvinnu eða hlutastarf. Þegar þú lítur á vinnuna sem leið til að hjálpa öðrum, ekki bara sjálfum þér, þá færðu auk þess ánægjuna í bónus.

[Rammi á blaðsíðu 171]

Viðtal við væntanlegan vinnuveitanda

Sýndu þroska og vertu fumlaus. Heilsaðu vinnuveitandanum vingjarnlega og kurteislega.

Sittu uppréttur á stólnum með báða fætur á gólfi. Vertu áhugasamur á svipinn. Ef þú undirbýrð þig fyrirfram hjálpar það þér að vera rólegum og yfirveguðum í fasi.

Hugsaðu áður en þú svarar spurningum. Vertu kurteis, nákvæmur, heiðarlegur og hreinskilinn. Veittu allar upplýsingar sem um er beðið. Montaðu þig ekki.

Hafðu meðferðis yfirlit yfir öll fyrri störf, hvenær þú gegndir þeim, hvaða laun þú hafðir, hvers konar störf þú vannst og hvers vegna þú hættir.

Vertu tilbúinn að rökstyðja hvernig menntun þín og starfsreynsla muni hjálpa þér að valda starfinu sem þú ert að sækja um.

Gefðu upp nöfn og heimilisföng tveggja til þriggja ábyggilegra manna sem eru kunnugir þér og störfum þínum og geta mælt með þér.

Sýndu sjálfstraust og eldmóð en ýktu ekki. Talaðu gott og skýrt mál. Talaðu ekki of mikið.

Hlustaðu vel; vertu kurteis og háttvís. Forðastu umfram allt að lenda í þrætu við væntanlegan vinnuveitanda.

Vinnuveitandinn hefur eingöngu áhuga á því hve vel þú munt ráða við starfið. Talaðu ekki um persónulega erfiðleika, fjölskylduvandamál eða fjárkröggur.

Ef þér virðist þú ekki ætla að fá starfið, spyrðu þá um möguleikann á því að fá annað starf hjá fyrirtækinu sem kynni að losna síðar.

Ef við á gætirðu sent vinnuveitandanum stutt þakkarbréf strax að viðtalinu loknu. *

[Neðanmáls]

^ gr. 65 Sótt í bæklinginn How to „Sell Yourself“ to an Employer, gefinn út af atvinnumiðlun New York-ríkis.

[Mynd á blaðsíðu 167]

Það sem þú lærir í skólanum getur reynst mikilvægt í atvinnulífinu síðar meir.