Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég látið mér lynda við kennarann?

Hvernig get ég látið mér lynda við kennarann?

20. kafli

Hvernig get ég látið mér lynda við kennarann?

„ÉG ÞOLI ekki ósanngjarnan kennara,“ segir Valdís. Sjálfsagt ert þú sama sinnis. Þegar gerð var könnun árið 1981 meðal 160.000 bandarískra unglinga sökuðu 76 af hundraði kennara sína um að mismuna nemendum með einhverjum hætti!

Unglingum finnst ranglátt að fá lága einkunn fyrir verkefni sem þeir hafa lagt mikla vinnu í. Þeim gremst það ef agi virðist of harður, óþarfur eða stafa af fordómum. Þeir reiðast þegar kennarinn tekur uppáhaldsnemandann fram yfir aðra eða veitir honum sérstaka athygli.

Kennarar eru auðvitað langt frá því að vera óskeikulir. Þeir hafa allir sína duttlunga, erfiðleika og jafnvel fordóma. En Biblían varar við: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast.“ (Prédikarinn 7:9) Jafnvel kennarar ‚hrasa margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.‘ (Jakobsbréfið 3:2) Gætirðu verið umburðarlyndur við kennarann þinn?

Friðrik tók eftir því að kennari hans „hreytti ónotum í alla.“ Hann gaf sig háttvíslega á tal við kennarann og komst að raun um hvað amaði að. „Ég lenti bara í vandræðum með bílinn í morgun,“ sagði kennarinn til skýringar. „Hann ofhitnaði á leiðinni í skólann og ég mætti of seint.“

Kennarar og uppáhaldsnemendur

Hvað um það ef kennarinn á sér uppáhaldsnemendur sem hann hyglir sérstaklega? Mundu að miklar kröfur eru gerðar til kennara og mikið álag hvílir á þeim. Bókin Being Adolescent lýsir því þannig að kennarar séu í „mjög erfiðri aðstöðu.“ Þeir þurfi að reyna að halda vakandi athygli unglingahóps „sem er venjulega með hugann við annað . . . Þeir hafa fyrir framan sig hóp sérlega mislyndra, einbeitingarlausra unglinga sem eru yfirleitt óvanir að einbeita sér að nokkru lengur en stundarfjórðung í senn.“

Er þá nokkur furða að kennari skuli veita þeim nemanda sérstaka athygli sem leggur hart að sér við námið, fylgist vel með eða sýnir honum virðingu? Það fer kannski í taugarnar á þér að sumir virðast geta komið sér í mjúkinn hjá kennaranum og fengið meiri athygli en þú. En hvaða ástæða er til að komast í uppnám eða vera öfundsjúkur vegna þess að einhver ástundunarsamur nemandi er í uppáhaldi hjá kennaranum — svo framarlega sem hann vanrækir ekki að kenna þér? Auk þess væri það kannski þjóðráð fyrir þig að stunda námið betur sjálfur.

Stríð í kennslustofunni

Skólanemi segir um kennara sinn: „Hann var sannfærður um að við hefðum öll lýst stríði á hendur honum og hafði einsett sér að vera fyrri til að koma höggi á okkur. Hann var aldeilis haldinn ofsóknarkennd.“ Sumum kennurum finnst þeir samt hafa ærið tilefni til að hafa svolitla „ofsóknarkennd.“ Eins og Biblían sagði fyrir lifum við á ‚örðugum tímum‘ og nemendur eru oft „taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Til dæmis sagði í tímaritinu U.S. News & World Report: „Kennarar í mörgum borgarskólum lifa í stöðugum ótta við ofbeldi.“

Roland Betts, sem er fyrrverandi kennari, segir: „Börn líta á það sem sjálfsagða skyldu . . . að erta [kennarana] einungis til að sjá hve mikið þeir þola án þess að ganga af göflunum . . . Þegar krakkarnir finna að nýi kennarinn þeirra er hársbreidd frá því að bugast, þá erta þeir hann svolítið meira.“ Hefur þú eða bekkjarfélagar þínir tekið þátt í að áreita kennara? Þá þarftu ekki að vera hissa á viðbrögðum hans.

Biblían segir: „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ (Prédikarinn 7:7) Í því andrúmslofti ótta og virðingarleysis, sem ræður ríkjum í sumum skólum, er skiljanlegt að sumir kennarar bregðist stundum einum of hart við og séu mjög strangir. Bókin The Family Handbook of Adolescence segir: „Nemendum, sem . . . virðast með hegðun sinni gera lítið úr skoðunum kennarans, er venjulega svarað í sömu mynt.“ Nemendur eiga oft sjálfir sök á því ef kennarinn er þeim óvinveittur!

Íhugaðu líka þau áhrif sem alvarleg skammarstrik í bekknum hafa. Valgerður er ekkert að ýkja þegar hún talar um að forfallakennarar megi þola “kvöl og pínu“ af hendi nemenda. Roland Betts segir: „Forfallakennarar eru oft hrelldir miskunnarlaust, stundum með þeim afleiðingum að þeir fara á taugum.“ Nemendurnir eru vissir um að þeir komist upp með skammarstrikin og gera sér að leik að fá skyndileg klaufskuköst — svo sem að „missa“ bækurnar sínar eða blýantana á gólfið allir í einu. Þeir geta gert at í kennaranum með því að þykjast ekki skilja orð af því sem hann segir. „Við spillum kennslunni okkur til skemmtunar,“ segir Siggi.

En ef þú ‚sáir‘ alls kyns skammarstrikum í kennslustundum skaltu ekki vera hissa ef þú ‚uppskerð‘ óvinveittan og geðillan kennara. (Samanber Galatabréfið 6:7.) Mundu eftir gullnu reglunni: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Taktu ekki þátt í strákapörum í bekknum. Fylgstu vel með í tímum. Vertu samstarfsfús. Þá verður kennarinn kannski eilítið vinsamlegri með tímanum — að minnsta kosti við þig.

‚Kennaranum mínum er illa við mig‘

Stundum getur misskilningur eða ólíkir persónuleikar gert kennara mótsnúinn nemanda sínum; forvitni er misskilin sem frekja eða smávægilegir duttlungar sem heimska. Ef kennara geðjast ekki að þér getur hann haft tilhneigingu til að reyna að koma þér í bobba eða auðmýkja þig. Þess háttar getur hæglega breyst í gagnkvæma óvild.

Biblían segir: „Gjaldið engum illt fyrir illt. . . . Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:17, 18) Reyndu að fá kennarann ekki upp á móti þér. Forðastu óþarfa árekstra. Gefðu kennaranum enga gilda ástæðu til að kvarta undan þér. Reyndu að vera vingjarnlegur. ‚Vingjarnlegur? Við hann?‘ spyrð þú. Já, sýndu af þér góða mannasiði með því að heilsa kennaranum vingjarnlega þegar þú (eða hann) kemur inn í skólastofuna. Ef þú ert alltaf kurteis — og brosir jafnvel stöku sinnum — gæti hann kannski skipt um skoðun á þér. — Rómverjabréfið 12:20, 21.

Vissulega geturðu ekki brosað þig út úr vandræðum. En Prédikarinn 10:4 ráðleggur: „Ef reiði drottnarans [eða þess sem fer með yfirráð] rís í gegn þér [þannig að hann hirtir þig], þá yfirgef ekki stöðu þína, því að stilling afstýrir stórum glappaskotum.“ Mundu líka að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ — Orðskviðirnir 15:1.

‚Ég átti betri einkunn skilda‘

Þetta er algeng kvörtun. Reyndu að tala um það við kennarann. Biblían segir frá því hvernig Natan leysti af hendi það erfiða verkefni að afhjúpa alvarlega synd Davíðs konungs. Natan óð ekki inn í höllina og jós stóryrðum yfir Davíð heldur ræddi háttvíslega við hann. — 2. Samúelsbók 12:1-7.

Þú gætir á sama hátt rætt við kennarann með hógværð og stillingu. Bruce Weber, sem er fyrrverandi kennari, minnir á: „Mótþrói hjá nemanda vekur þrjósku hjá kennaranum. Þér verður ekkert ágengt með því að bölsótast eða fullyrða að þú hafir verið beittur grófu misrétti og hóta hefndum.“ Reyndu að sýna meiri þroska en það. Ef til vill geturðu hafið samtalið með því að biðja kennarann að skýra einkunnagjöfina fyrir þér. Eftir það, segir Weber, geturðu „reynt að sýna fram á að kennaranum hljóti að hafa yfirsést eða að hann hafi reiknað einkunnina skakkt, frekar en að saka hann um dómgreindarskort. Þú gætir notað einkunnakerfi kennarans og bent honum á hvar þú telur einkunnina misreiknaða.“ Jafnvel þótt þú fáir engu breytt um einkunnina mun þroski þinn trúlega hafa góð áhrif á kennarann.

Láttu foreldra þína vita

Stundum gagnar ekki að tala við kennarann. Súsanna er dæmi um það. Hún hafði alltaf verið úrvalsnemandi og brá mjög er einn af kennurum hennar byrjaði að gefa henni falleinkunnir. Hver var ástæðan? Súsanna var vottur Jehóva og kennarinn svo gott sem játaði að það væri ástæðan fyrir því að honum geðjaðist ekki að henni. „Það var mjög ergilegt og ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð,“ segir hún.

Súsanna heldur áfram: „Svo tók ég í mig kjark og sagði mömmu [sem er einstæð móðir] frá kennaranum. ‚Nú, kannski get ég talað við kennarann þinn,‘ sagði hún þá. Þegar haldinn var foreldrafundur sneri hún sér að kennara mínum og spurði hvað væri að. Ég hélt að mamma myndi reiðast en hún gerði það ekki. Hún talaði bara stillilega við kennarann“ sem sá til þess að Súsanna fengi annan kennara eftir það.

Vissulega eru ekki öll vandamál svona auðleyst. Stundum er ekkert annað að gera en að þrauka. Reyndu að hafa frið við kennarann þinn út skólaárið, og á því næsta geturðu kannski byrjað upp á nýtt með nýjum bekkjarfélögum — og ef til vill nýjum kennara sem þú getur látið þér lynda vel við.

Spurningar til umræðu

◻ Hvað geturðu haft í huga ef kennarinn er ósanngjarn?

◻ Hvers vegna sýna kennarar uppáhaldsnemendum sínum oft mikla athygli?

◻ Hvernig geturðu lært hjá kennara sem virðist leiðinlegur?

◻ Hvers vegna virðast kennarar stundum óvinveittir nemendum sínum?

◻ Hvernig geturðu fylgt gullnu reglunni í skólanum?

◻ Hvað geturðu gert ef þér finnst þér ekki sýnd sanngirni?

[Innskot á blaðsíðu 158]

Sú athygli, sem uppáhaldsnemandinn fær, vekur oft gremju annarra.

[Innskot á blaðsíðu 163]

„Kennarar í mörgum borgarskólum lifa í stöðugum ótta við ofbeldi.“ — U.S. News & World Report.

[Rammi/​mynd á blaðsíðu 160, 161]

‚Kennarinn minn er leiðinlegur!‘

Í bókinni The Family Handbook of Adolescence stendur: „Sumar kannanir sýna að þorri nemenda á gelgjuskeiði er gagnrýninn á kennara sína og segir að þeir séu leiðinlegir og hafi ekkert skopskyn.“ Fyrr eða síðar færðu kannski líka kennara sem þér finnst hreinlega hrútleiðinlegur. Hvað geturðu gert?

Tilraun leiddi í ljós að athyglisgáfa unglinga er býsna góð til dæmis í handavinnu og myndmennt og í leikfimi- og tónlistartímum. Síðan hrapar hún í tungumála- og mannkynssögutímum.

Ætli leikfimi- eða tónlistarkennarar séu að jafnaði hæfileikaríkari en kennarar í bóklegum greinum? Trúlega ekki. Ljóst er að margir nemendur hafa einfaldlega neikvæða afstöðu til bóklegra greina. Og ef nemendur eru fyrirfram sannfærðir um að ákveðin námsgrein sé leiðinleg myndi jafnvel kennari með hæfileika Sókratesar eiga erfitt með að halda athygli þeirra vakandi! Þarftu þá kannski hreinlega að endurskoða viðhorf þín til vissra námsgreina? Ef þú sýnir meiri áhuga á því sem þú ert að læra uppgötvarðu trúlega að skólinn er alls ekkert leiðinlegur.

Stundum kvarta jafnvel námfúsir nemendur undan því að þeir hafi „slæma“ kennara. En hvað er þá „góður“ kennari? Ung stúlka segir: „Ég er ánægð með stærðfræðikennarann vegna þess að hann er svo skemmtilegur.“ Drengur einn hrósaði enskukennaranum fyrir ‚að segja fullt af bröndurum.‘

En þótt það geti verið kostur fyrir kennara að vera vel liðinn eða skemmtilegur þarf hann líka að vera ‚fær um að kenna öðrum.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:2) Þótt Biblían sé hér að tala um andlega hæfileika leggur hún áherslu á þá staðreynd að góður kennari þurfi að þekkja námsefnið til hlítar.

Því miður fara þekking og litríkur persónuleiki ekki alltaf saman. Páll postuli hafði til dæmis frábæra hæfileika til að fræða aðra í orði Guðs. Samt kvörtuðu sumir kristnir menn á hans dögum undan því að ‚hann væri lítill fyrir mann að sjá og enginn tæki mark á ræðu hans.‘ Páll svaraði: „Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu.“ (2. Korintubréf 10:10; 11:6) Ef einhverjir gáfu ekki gaum að því sem Páll sagði og einblíndu á það sem þeim fannst vera að honum sem ræðumanni, þá fóru þeir á mis við verðmæta þekkingu. Gerðu ekki þau mistök í skólanum! Áður en þú stimplar kennara „slæman“ skaltu spyrja þig: ‚Veit hann hvað hann er að tala um? Get ég lært af honum?‘

Ef kennarinn er tilþrifalítill geturðu þurft að leggja þig sérstaklega fram til að hafa sem mest gagn af kennslunni. Reyndu að skrifa hjá þér minnisatriði til að festa hugann við það sem hann er að segja. Bættu upp dauflegar kennslustundir með ítarlegra heimanámi.

Barbara Mayer, sem sjálf er kennari, bætir við: „Kennurum hættir til að festast í ákveðnu fari eftir að hafa sennilega þulið sömu upplýsingarnar oftar en þeir kæra sig um að muna.“ Hvað geturðu gert til að lífga upp á kennsluna? „Réttu upp höndina til tilbreytingar og biddu um ítarlegri upplýsingar . . . Fáðu kennarann til að segja allt sem hann veit.“ Ætli kennarinn taki því illa? Ekki ef þú gerir það með virðingu. (Kólossubréfið 4:6) Barbara Mayer segir: „Þú kemst að raun um að kennarinn kemur örlítið betur undirbúinn í tíma og ekki einungis með yfirborðslegar upplýsingar.“

Eldmóður er smitandi og námfýsi þín getur ef til vill blásið svolitlu lífi í kennarann. Þú skalt reyndar ekki búast við byltingarkenndri breytingu. Stundum verðurðu bara að þrauka sem best þú getur í tímum. En ef þú hlustar vel og hefur einlægan áhuga á því sem fram fer í skólastofunni geturðu alltaf lært — jafnvel hjá leiðinlegum kennara.

[Mynd á blaðsíðu 162]

Vaxandi ofbeldi í skólanum hefur gert kennarastarfið erfitt.

[Mynd á blaðsíðu 164]

Ræddu með ró og stillingu við kennarann ef þér finnst þér ekki sýnd sanngirni.