Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Svör sem duga

Svör sem duga

Formálsorð

Svör sem duga

‚AF HVERJU skilja foreldrar mínir mig ekki?‘ ‚Er eitthvað að því að maður drekki eða prófi fíkniefni?‘ ‚Er kynlíf fyrir hjónaband í lagi?‘ ‚Hvernig veit ég hvort þetta er sönn ást?‘ ‚Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir mig?‘

Þú ert hvorki fyrsti unglingurinn né sá síðasti sem spyr slíkra spurninga. En svörin, sem unglingarnir fá við þessum stóru spurningum, eru oft mjög mótsagnakennd. Hvað um áfengi, til dæmis? Sumir foreldrar banna börnum sínum að bragða áfengi en drekka þó sjálfir. Í kvikmyndum og blöðum er drykkja nánast dásömuð. Og félagarnir hvetja þig til að prófa. Það er því ekkert undarlegt að margt ungt fólk skuli ekki vita í hvorn fótinn það á að stíga.

Unga fólkið þarf að fá góð, heiðarleg svör — hagnýt ráð sem geta hjálpað því að leysa vandamál sín. Það var til að mæta þessari þörf sem greinaflokkur undir heitinu „Ungt fólk spyr“ hóf göngu sína í tímaritinu Vaknið! * í janúar 1982 og fékk strax mjög jákvæðar viðtökur lesenda. „Þessar greinar bera vitni um stöðugan áhuga ykkar á velferð unga fólksins,“ skrifaði þakklátur lesandi. „Það er von mín og bæn að þessi greinaröð taki aldrei enda,“ skrifaði annar.

Enn einn ungur lesandi sagði: ‚Ég er 14 ára og mér datt aldrei í hug að það gæti verið svona erfitt að alast upp. Krakkar eru undir gífurlegu álagi nú á tímum. Þess vegna er ég innilega þakklátur fyrir greinarnar. Á hverju kvöldi þakka ég Guði fyrir birtingu þeirra.‘ En greinarnar voru hvorki skrifaðar á barnamáli né í neinum yfirlætistón. Þess vegna hafa fullorðnir einnig kunnað að meta greinarnar „Ungt fólk spyr.“ Fertugur faðir skrifaði: „Þessar greinar eru eins og Guðs gjöf til okkar foreldranna.“ Þær hafa reynst kristnum öldungum sérstaklega góð hjálp til að skilja unga fólkið í söfnuðunum og leiðbeina því.

Hvers vegna er fólk svona hrifið af greinunum „Ungt fólk spyr“? Vegna þess að þar er að finna svör sem duga! Ítarlegar rannsóknir liggja að baki hverri einustu grein. Greinahöfundar Vaknið! hafa þar að auki talað við hundruð unglinga í öllum heimshornum til að ganga úr skugga um hvernig ungt fólk hugsar og hvernig því líður innst inni. Hreinskilnislegar athugasemdir unglinganna hafa átt drjúgan þátt í að gera greinarnar raunsæjar og gagnlegar.

En hinn raunverulegi leyndardómur að baki þessum góðu viðtökum, sem greinarflokkurinn „Ungt fólk spyr“ hefur hlotið, er þó sá að svörin eru ekki byggð á fræðikenningum eða persónulegum skoðunum manna, heldur hinum eilífu sannindum sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni. Biblíunni? Já, hún á mikið erindi til unga fólksins. (Sjá Orðskviðina 1.-7. kafla; Efesusbréfið 6:1-3.) Hún er innblásin af skapara okkar sem er fullkunnugt um „æskunnar girndir.“ (2. Tímóteusarbréf 2:20-22; 3:16) Og þótt mannlegt samfélag hafi breyst mikið síðan Biblían var skrifuð hafa langanir og þrár unga fólksins lítið breyst. Biblían er því sígild. Við höfum samt lagt okkur fram við að koma heilræðum hennar þannig á framfæri að unga fólkinu finnist ekki að verið sé að prédika yfir því heldur rökræða við það. Og þótt efnið hafi fyrst og fremst verið samið fyrir ungt fólk meðal votta Jehóva geta allir, sem bera virðingu fyrir hagnýtri visku Biblíunnar, notið góðs af því.

Margir lesendur hafa óskað eftir því að greinunum „Ungt fólk spyr“ verði safnað saman í bók og við höfum orðið við þeirri ósk. Í hinum 39 köflum bókarinnar höfum við dregið saman efni úr liðlega 100 af þeim nálega 200 greinum í greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ sem birtust í Vaknið! frá 1982-1989. Nokkru nýju efni hefur einnig verið aukið við. Bókin er enn fremur prýdd fjölda ljósmynda af unglingum ólíkra landa og kynþátta.

Renndu augunum yfir efnisyfirlitið og flettu upp á þeim spurningum sem mest leita á þig. Við hvetjum þig til að taka þér tíma síðar til að lesa bókina spjaldanna á milli og fletta upp í þinni eigin Biblíu þeim ritningarstöðum sem vísað er til.

Samræður og skoðanaskipti foreldra og barna eru oft stirð og erfið, og stundum engin. Þess vegna eru nokkrar spurningar settar í lok hvers kafla undir yfirskriftinni „Spurningar til umræðu.“ Spurningarnar gera ekki ráð fyrir að farið sé yfir kaflana grein fyrir grein. Foreldrar eiga ekki heldur að nota þær til að yfirheyra börnin sín. Þeim er ætlað að glæða samræður milli foreldra og unglinga. Margar spurninganna gefa unga fólkinu tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós eða heimfæra efni kaflans á sjálft sig.

Margar fjölskyldur munu vafalaust nota þessa bók af og til sem grundvöll að fjölskyldunámi. Fjölskyldumeðlimir geta skipst á að lesa greinarnar og ritningarstaðina sem vísað er til. Nota má umræðuspurningarnar við lok kaflans, annaðhvort eftir að efnið undir samsvarandi millifyrirsögn hefur verið lesið eða þá allur kaflinn. Hvetja ætti alla til að tjá sig opinskátt og hreinskilnislega. Ungt fólk getur einnig haft gagn af því að tala saman um efni bókarinnar.

Okkar tímar eru „örðugar tíðir,“ ekki síst fyrir unga fólkið. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þekking á orði Guðs getur hins vegar hjálpað þér að komast klakklaust gegnum þetta erfiða æviskeið. (Sálmur 119:9) Það er okkur því fagnaðarefni að láta ykkur í té þetta safn hagnýtra, biblíulegra svara við spurningum sem sækja á ykkur. Þetta eru svör sem duga!

Útgefendur

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Kemur út tvisvar í mánuði á mörgum erlendum tungumálum en fjórum sinnum á ári á íslensku. Útgefandi er Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.