Hoppa beint í efnið

Stjórnin sem koma mun á paradís

Stjórnin sem koma mun á paradís

Stjórnin sem koma mun á paradís

Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann fylgjendum sínum að biðja um Guðsríki: „Komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Hann talaði einnig án afláts um „fagnaðarerindið um ríkið.“ (Matteus 4:23) Satt að segja ræddi hann meira um Guðsríki en nokkuð annað. Hvers vegna? Vegna þess að Guðsríki er það tæki sem Guð mun nota til að leysa þau vandamál sem gera lífið nú á tímum svo erfitt. Fyrir tilstuðlan þessa ríkis mun Guð innan tíðar binda enda á styrjaldir, hungur, sjúkdóma og glæpi og koma til leiðar einingu og friði.

Hefur þú áhuga á að lifa í slíkum heimi? Sé svo ættir þú að lesa þennan bækling. Af honum munt þú læra að Guðsríki er raunveruleg stjórn. Það er hins vegar betra en nokkur stjórn sem hefur nokkru sinni ríkt yfir mönnunum. Þú munt einnig sjá hvernig Guð hefur á hrífandi hátt smám saman útskýrt fyrir þjónum sínum fyrirætlun sína og tilgang varðandi Guðsríki. Þar að auki munt þú koma auga á hvernig Guðsríki getur hjálpað þér jafnvel núna á þessum tímum.

Staðreyndin er sú að þú getur núna strax orðið þegn Guðsríkis. En áður en þú tekur ákvörðun um það þarft þú að vita meira um þetta ríki. Við hvetjum þig þess vegna til að kynna þér þennan bækling. Allt sem þar er sagt um Guðsríki er tekið frá Biblíunni.

Fyrst af öllu skulum við athuga hvers vegna við þörfnumst Guðsríkis svo mjög.

Í upphafi sögu mannsins skapaði Guð fullkominn mann og setti hann í paradís. Á þeim tíma var engin þörf fyrir Guðsríki.

En svo fór að Adam og Eva, fyrstu foreldrar okkar, hlustuðu á Satan, uppreisnargjarnan engil. Hann sagði þeim ósannindi um Guð og fékk þau til að gera einnig uppreisn gegn Guði. Þau verðskulduðu þess vegna dauða af því að „laun syndarinnar er dauði.“—Rómverjabréfið 6:23.

Ófullkominn, syndugur maður getur ekki átt fullkomin börn. Þess vegna fæddust öll börn Adams ófullkomin, syndug, ofurseld dauðanum.—Rómverjabréfið 5:12.

Upp frá því þurftu mennirnir á Guðsríki að halda til að hjálpa sér að komast undan bölvun syndarinnar og dauðans. Guðsríki mun einnig hreinsa nafn Guðs af rógburði Satans.

Jehóva Guð gaf það loforð að sérstakt „sæði“ (eða afkvæmi) myndi fæðast til að leysa mannkynið frá syndinni. (1. Mósebók 3:15) Þetta „sæði“ myndi vera konungur Guðsríkis.

Hver myndi það vera?

Um það bil 2000 árum eftir að Adam hafði syndgað var uppi trúfastur maður sem hét Abraham. Jehóva sagði Abraham að yfirgefa heimaborg sína og búa í tjöldum í landi því sem heitir Palestína.

Abraham gerði allt sem Jehóva sagði honum, þar með talið eitt sem var mjög erfitt. Jehóva sagði honum að fórna syni sínum, Ísak, á altari.

Jehóva vildi ekki í raun og veru mannsfórn. En hann vildi vita hversu mikinn kærleika Abraham bar til hans. Abraham var rétt kominn að því að drepa Ísak þegar Jehóva stöðvaði hann.

Vegna hinnar miklu trúar Abrahams lofaði Jehóva að gefa afkomendum hans Palestínu og sagði að hið fyrirheitna sæði myndi koma af ættlegg hans og af ættlegg sonar hans, Ísaks.—1. Mósebók 22:17, 18; 26:4, 5.

Ísak átti tvíburasyni, Esaú og Jakob. Jehóva sagði að hið fyrirheitna sæði myndi koma frá Jakob.—1. Mósebók 28:13-15.

Jakob, sem Jehóva kallaði einnig Ísrael, átti tólf syni og allir eignuðust þeir síðan börn. Þess vegna tók afkomendum Abrahams að fjölga.—1. Mósebók 46:8-27.

Þegar slæm hungursneyð ríkti í landinu fluttu Jakob og fjölskylda hans sig niður til Egyptalands í boði Faraós, stjórnanda Egyptalands.—1. Mósebók 45:16-20.

í Egyptalandi var þeim opinberað að fyrirheitna sæðið yrði afkomandi Júda, sonar Jakobs.—1. Mósebók 49:10.

Þegar tímar liðu andaðist Jakob og afkomendum hans fjölgaði svo að þeir urðu sem þjóð. Egyptar urðu þá hræddir við þá og gerðu þá að þrælum.—2. Mósebók 1:7-14.

Að því kom að Jehóva sendi Móse, mjög trúfastan mann, til að krefjast þess að sá Faraó, sem þá var uppi, leyfði börnum Ísraels að fara frjáls ferða sinna.—2. Mósebók 6:10, 11.

Faraó neitaði því og þess vegna leiddi Jehóva tíu plágur yfir Egypta. Sem síðustu pláguna sendi hann engil dauðans til að deyða alla frumgetna syni Egypta.—2. Mósebók, kafli 7 til 12.

Guð sagði ísraelsmönnum að ef þeir slátruðu lambi til kvöldverðar og bæru hluta af blóði þess á dyrastafi húsa sinna myndi engill dauðans fara fram hjá þeim húsum. Á þann hátt var frumburðum ísraelsmanna hlíft.—2. Mósebók 12:1-35.

Afleiðing þessa varð sú að Faraó skipaði ísraelsmönnum út úr Egyptalandi. En síðan snerist honum hugur og hann veitti þeim eftirför til að snúa þeim til baka.

Jehóva opnaði ísraelsmönnum undankomuleið gegnum Rauðahafið. Þegar síðan Faraó og herlið hans reyndi að fylgja þeim eftir var þeim öllum drekkt.—2. Mósebók 15:5-21.

Jehóva leiddi syni ísraels til Sínaífjallsins í eyðimörkinni. Þar gaf hann þeim lögmál sitt og sagði að héldu þeir það myndu þeir verða honum prestaríki og heilög þjóð. Þannig höfðu ísraelsmenn tækifæri, þegar tímar liðu, til að gegna mikilvægu hlutverki í Guðsríki.—2. Mósebók 19:6; 24:3-8.

Er ísraelsmenn höfðu verið við Sínaífjallið í um það bil eitt ár leiddi Jehóva þá í áttina að Palestínu, landinu sem hann hafði lofað forföður þeirra, Abraham.

í Palestínu leyfði Guð ísraelsmönnum síðar að fá yfir sig konung. Þá hafði Guð konungsríki á jörðinni.

Annar konungur ísraels var Davíð, afkomandi Júda. Davíð sigraði alla óvini ísraels og gerði Jerúsalem að höfuðborg þjóðarinnar.

Atburðir á ríkisstjórnarárum Davíðs sýna að þegar Jehóva styður konung geta engir jarðneskir stjórnendur sigrað hann.

Jehóva sagði að fyrirheitna sæðið yrði einn niðja Davíðs.—1. Kroníkubók 17:7, 11, 14.

Salómon, sonur Davíðs, tók við ríki eftir hann. Hann var vitur konungur og velsæld var í ísrael á ríkisstjórnarárum hans.

Salómon byggði einnig Jehóva fagurt musteri í Jerúsalem. Ástand mála í ísrael á stjórnarárum Salómons sýnir okkur hluta af þeirri margvíslegu blessun sem væntanlegt Guðsríki mun færa mannkyninu.—1. Konungabók 4:24, 25.

Margir konunganna, sem komu á eftir Salómon, sýndu hins vegar mjög mikla ótrúmennsku.

En á meðan niðjar Davíðs ríktu enn í Jerúsalem notaði Jehóva spámann sinn Jesaja til að segja frá afkomanda Davíðs sem uppi yrði í framtíðinni og myndi ríkja yfir allri jörðinni með trúfesti. Þessi sonur Davíðs yrði hið fyrirheitna sæði.—Jesaja 9:6, 7.

Jesaja spámaður sagði fyrir að ríki hans yrði jafnvel enn dýrlegra en Salómons.—Jesaja, kafli 11 og 65.

Núna, meira en nokkru sinni fyrr, veltu þjónar Guðs því fyrir sér hver myndi verða þetta sæði.

Áður en sæðið kom urðu konungar ísraels hins vegar svo mikil illmenni að Jehóva leyfði árið 607 fyrir okkar tímatal að Babýloníumenn ynnu sigur á ísraelsmönnum og mestur hluti þeirra var fluttur í útlegð til Babýlonar. En Guð hafði ekki gleymt loforði sínu. Sæðið myndi engu að síður koma fram í ættlegg Davíðs.—Esekíel 21:25-27.

Það sem kom fyrir ísrael sýnir að þó að vitur og trúfastur mennskur konungur geti komið góðu til leiðar eru umbætur hans sjaldnast varanlegar. Trúfastir menn deyja og arftakar þeirra þurfa ekki að reynast trúfastir. Hvernig var hægt að bæta úr því? Lausnin var hið fyrirheitna sæði.

Um síðir, eftir þúsundir ára, birtist sæðið. Hver var það?

Engill frá Guði gaf svarið ógiftri ísraelsmær sem hét María. Hann sagði henni að hún myndi eignast son sem heita myndi Jesús. Engillinn sagði:

„Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja [sem konungur].“—Lúkas 1:32, 33.

Jesús átti því að vera fyrirheitna sæðið og að lokum konungur Guðsríkis. En hvers vegna var Jesús ólíkur þeim trúföstu mönnum sem áður höfðu lifað?

Fæðing Jesú var kraftaverk. Móðir hans var mey og hann átti engan mennskan föður. Jesús hafði verið lifandi áður á himnum og heilagur andi Guðs, eða starfskraftur hans, flutti líf Jesú frá himni inn í móðurkvið Maríu. Þar af leiðandi erfði hann ekki synd Adams. Allt sitt líf drýgði Jesús ekki synd.—1. Pétursbréf 2:22.

Jesús var skírður þegar hann var þrítugur að aldri.

Hann sagði fólki frá Guðsríki og kynnti sig að lokum sem konung þess ríkis.—Matteus 4:23; 21:4-11.

Hann gerði einnig mörg kraftaverk.

Hann læknaði sjúka.—Matteus 9:35.

Með kraftaverki saddi hann þá sem hungraðir voru.—Matteus 14:14-22.

Hann jafnvel reisti menn upp frá dauðum.—Jóhannes 11:38-44.

Þessi kraftaverk sýna hvers konar hluti Jesús mun gera fyrir mannkynið sem konungur Guðsríkis.

Manst þú eftir hvernig Davíð konungur gerði Jerúsalem að höfuðborg ríkisins? Jesús tók fram að Guðsríki yrði ekki á jörðinni heldur á himnum. (Jóhannes 18:36) Af þeirri ástæðu er vísað til Guðsríkis sem „hinnar himnesku Jerúsalem.“—Hebreabréfið 12:22, 28.

Jesús tók fram grundvallaratriði þeirra laga sem væntanlegir þegnar Guðsríkis yrðu að hlýða. Þessi lög er núna að finna í Biblíunni. Mikilvægustu lögin voru þau að fólk skyldi elska Guð og hvert annað.—Matteus 22:37-39.

Jesús gerði einnig uppskátt að hann myndi ekki einn sinna stjórn Guðsríkis. Bæði konur og karlar yrðu valin til að fara til himna og ríkja þar með honum. (Lúkas 12:32; Jóhannes 14:3) Hversu margir myndu verða þar með honum? Opinberunarbókin 14:1 svarar: 144.000.

Ef aðeins 144.000 fara til himna til að ríkja með Jesú hver er þá von þeirra sem eftir eru af mannkyninu?

Biblían segir: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“—Sálmur 37:29.

Þeir sem munu lifa að eilífu á jörðinni eru kallaðir ‚aðrir sauðir.‘—Jóhannes 10:16.

Það er því um að ræða tvenns konar von. Jehóva Guð býður 144.000 að fara til himna og ríkja með Jesú Kristi. En milljónir annarra hafa þá öruggu von að fá að lifa að eilífu á jörðinni sem þegnar ríkis hans.—Opinberunarbókin 5:10.

Satan hataði Jesú og veitti honum mótspyrnu. Eftir að Jesús hafði prédikað í þrjú og hálft ár fékk Satan hann handtekinn og líflátinn með því að láta negla hann upp á staur. Hvers vegna leyfði Guð þetta?

Mundu eftir að vegna þess að við erum niðjar Adams syndgum við öll og verðskuldum þess vegna dauðann.—Rómverjabréfið 6:23.

Minnstu þess líka að vegna þess sérstaka kraftaverks sem tengdist fæðingu Jesú var hann fullkominn og verðskuldaði ekki dauðann. Guð leyfði Satan hins vegar að ‚merja hæl Jesú,‘ deyða hann. En Guð reisti hann aftur upp til lífs sem ódauðlega andaveru. Hann hélt hins vegar enn þá rétti sínum til fullkomins lífs sem maður og gat þess vegna notað hann núna til að kaupa okkur mennina lausa frá syndinni.—1. Mósebók 3:15; Rómverjabréfið 5:12, 21; Matteus 20:28.

Til þess að hjálpa okkur að skilja til fulls hver sé þýðing fórnar Jesú notar Biblían spádómlegar fyrirmyndir til þess að lýsa henni.

Manst þú til dæmis eftir hvernig Jehóva sagði Abraham að fórna syni sínum, til að reyna kærleika hans?

Þetta var spádómleg fyrirmynd um fórnina á Jesú. Hún sýndi hvernig kærleikur Jehóva til mannkynsins var svo mikill að hann leyfði að sonur sinn, Jesús, dæi fyrir okkur til þess að við mættum lifa.—Jóhannes 3:16.

Manst þú eftir á hvaða hátt Jehóva frelsaði ísraelsmenn út úr Egyptalandi og bjargaði frumburðum þeirra með því að láta engil dauðans fara fram hjá bústöðum þeirra?—2. Mósebók 12:12, 13.

Þetta var spádómleg fyrirmynd. Á sama hátt og blóð lambsins þýddi líf fyrir frumburði ísraelsmanna þýðir úthellt blóð Jesú líf fyrir þá sem trúa á hann. Og eins og atburðir þeirrar nætur þýddu frelsi fyrir ísraelsmenn veitir dauði Jesú mannkyninu frelsi frá synd og dauða.

Þess vegna er Jesús kallaður „Guðs lamb, sem ber [tekur í burtu] synd heimsins.“—Jóhannes 1:29.

Á meðan Jesús var á jörðinni safnaði hann einnig til sín lærisveinum, þjálfaði þá og kenndi þeim að prédika fagnaðarboðskapinn um Guðsríki, jafnvel að honum látnum.—Matteus 10:5; Lúkas 10:1.

Þessir menn voru þeir fyrstu sem Guð útvaldi til að ríkja með Jesú í ríki hans.—Lúkas 12:32.

Manst þú eftir að Guð lofaði Gyðingunum að héldu þeir lögmálið myndu þeir verða „prestaríki“? Núna höfðu þeir tækifæri til að eiga þátt í stjórn Guðsríki og þjóna sem himneskir prestar ef þeir tækju við Jesú og viðurkenndu hann. En flestir þeirra höfnuðu Jesú.

Upp frá því voru Gyðingar þess vegna ekki lengur útvalin þjóð Guðs; Palestína var ekki lengur fyrirheitna landið.—Matteus 21:43; 23:37, 38.

Frá tímum Jesú og fram á okkar daga hefur Jehóva verið að safna saman þeim sem munu ríkja á himni með Jesú. Fáein þúsund þeirra eru enn þá á lífi á jörðinni. Við köllum þá hinar smurðu leifar.—Opinberunarbókin 12:17.

Núna ertu farinn að sjá hvað Guðsríki er. Það er stjórn á himni. Konungur hennar er Jesús Kristur og með honum ríkja 144.000 menn, karlar og konur, sem komnir eru frá jörðinni. Guðsríki mun ríkja yfir trúföstu mannkyni á jörðinni og hafa vald til að koma á friði um hana alla.

Jesús var, eftir dauða sinn, reistur upp til lífs og fór til himna. Þar beið hann síðan eftir að Guð segði honum hvenær tími væri til þess kominn að hann tæki að stjórna sem konungur Guðsríkis. (Sálmur 110:1) Hvenær yrði það?

Stundum sendi Jehóva fólki drauma til að segja því frá hlutum er snerta ríki hans.

Á dögum Daníels sendi Jehóva slíkan draum til Nebúkadnesars, konungs Babýlonar. Hann var um gríðarstórt tré.—Daníel 4:10-37.

Tréð var höggvið niður og trjábolurinn bundinn fjötrum í sjö ár.

Tréð táknaði Nebúkadnesar. Á sama hátt og stofninn var í fjötrum í sjö ár missti Nebúkadnesar vitið í sjö ár. Að þeim loknum fékk hann vit sitt aftur.

Allt var þetta spádómleg fyrirmynd. Nebúkadnesar táknaði yfirráð Jehóva yfir öllum heiminum. í fyrstu voru afkomendur Davíðs konungs í Jerúsalem fulltrúar þessara yfirráða. Þegar Babýlon vann sigur á Jerúsalem árið 607 f.o.t. varð hlé á því að konungar af þeirri ætt ríktu. Aldrei aftur yrði annar afkomenda Davíðs konungur ‚uns sá kæmi, sem ætti réttinn til ríkis.‘ (Esekíel 21:27, neðanmáls) Sá aðili var Jesús Kristur.

Hversu langur tími myndi líða frá 607 f.o.t. þangað til Jesús byrjaði að ríkja? Sjö spádómleg ár. Þau jafngilda 2520 árum. (Opinberunarbókin 12:6, 14) Og 2520 ár frá 607 f.o.t. ná til ársins 1914 e.o.t.

Jesús hóf þess vegna að ríkja á himni árið 1914. Hvaða þýðingu hafði það?

Biblían greinir frá því með sýn sem Jóhannes postuli sá.

Hann sá konu á himni fæða sveinbarn.—Opinberunarbókin 12:1-12.

Konan táknaði himneskt skipulag Guðs, en það mynda allir þeir englar sem þjóna Guði á himni. Sveinbarnið táknaði ríki Guðs. Það ‚fæddist‘ árið 1914.

Hvað gerðist næst? Það fyrsta, sem Jesús gerði sem konungur, var að varpa Satan og englunum sem gerðu uppreisn með honum, út úr himninum og niður til jarðarinnar.—Opinberunarbókin 12:9.

Biblían segir okkur hver árangurinn varð: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“—Opinberunarbókin 12:12.

Þegar Jesús hóf að ríkja á himni urðu óvinir hans þess vegna mjög athafnasamir á jörðinni. Hann hóf að drottna mitt á meðal óvina sinna eins og Biblían spáði.—Sálmur 110:1, 2.

Hvað myndi það hafa í för með sér fyrir mannkynið?

Jesús sagði okkur það: ‚Styrjaldir, hungur, drepsóttir og jarðskjálfta.‘—Matteus 24:7, 8; Lúkas 21:10, 11.

Við höfum séð þetta eiga sér stað síðan árið 1914 og er það önnur ástæða fyrir því hvers vegna við vitum að Guðsríki tók völdin þá.

Einnig yrði „á jörðu angist þjóða, ráðalausra . . . Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða.“ (Lúkas 21:25, 26) Það höfum við einnig séð síðan árið 1914.

Páll postuli bætti við að menn yrðu „sérgóðir, fégjarnir, . . . foreldrum óhlýðnir, . . . ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir.“—2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Núna veist þú hvers vegna lífið er svona erfitt nú á dögum. Satan hefur verið mjög athafnasamur. En starfsemi Guðsríkis hefur einnig verið mikil.

Skömmu eftir 1914 hófu leifar þeirra sem eiga þá von að ríkja á himni með Jesú að kunngera þær góðu fréttir að Guðsríki væri stofnsett. Þetta starf hefur nú teygt sig út um alla jörðina eins og Jesús sagði að gerast myndi.—Matteus 24:14.

Hver er tilgangurinn með þessu prédikunarstarfi?

í fyrsta lagi er hann sá að segja fólki frá Guðsríki.

í öðru lagi er hann sá að hjálpa fólki að ákveða hvort það vilji verða þegnar Guðsríkis.

Jesús sagði að á okkar dögum yrði öllu mannkyninu skipt niður í tvo hópa, „sauði“ og „hafra.“—Matteus 25:31-46.

„Sauðirnir“ yrðu þeir sem elskuðu hann og bræður hans. „Hafrarnir“ yrðu þeir sem gerðu það ekki.

„Sauðirnir“ myndu öðlast eilíft líf en „hafrarnir“ ekki.

Þessu aðgreiningarstarfi er komið í kring með prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki.

Hér fer á eftir spádómur sem spámaðurinn Jesaja bar fram:

„Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.“—Jesaja 2:2.

Mannkynið stendur núna andspænis hinum „síðustu dögum.“

„Hús“ Jehóva, þar sem tilbeiðsla fer fram, ‚gnæfir upp yfir‘ falstrúarbrögðin.

„Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“—Jesaja 2:3.

Margir koma þess vegna frá öllum þjóðum til tilbeiðslunnar á Jehóva og bjóða öðrum með sér. Þeir læra hvernig menn skulu hegða sér í samræmi við vilja Jehóva.

„Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“—Jesaja 2:4.

Þeir sem tilbiðja Jehóva eru sameinaðir og friðsamir.

Árangurinn af þessari starfsemi Guðsríkis er sá að núna eru næstum þrjár milljónir manna um heim allan sem eru þegnar Guðsríkis.

Þeir safnast í kringum leifarnar, þá sem eftir eru af þeim sem eiga þá von að fara til himna og ríkja þar með Kristi.

Þeir taka við andlegri fæðu fyrir milligöngu skipulags Guðs.—Matteus 24:45-47.

Þeir eru alþjóðlegt bræðrafélag kristinna manna sem í sannleika elska hver annan.—Jóhannes 13:35.

Þeir njóta hugarfriðar og eiga sér framtíðarvon.—Filippíbréfið 4:7.

Innan tíðar mun lokið prédikun fagnaðarerindisins. „Sauðunum“ mun öllum hafa verið safnað saman. Hvað mun Guðsríki þá gera?

Manst þú eftir því að hinn trúfasti Davíð konungur vann sigur á öllum óvinum þjóðar Guðs? Konungurinn Jesús mun gera það sama.

Nebúkadnesar konung dreymdi eitt sinn geysistórt líkneski sem táknaði öll heimsveldi jarðarinnar frá hans dögum fram á okkar daga.

Þá sá hann stein losaðan úr fjalli og mölbraut hann líkneskið. Steinninn táknaði Guðsríki.

Þetta merkir eyðingu hins illa kerfis sem nú er á jörðinni.—Daníel 2:44.

Hér má sjá sumt af því sem Guðsríki mun kollvarpa.

Falstrúarbrögð munu hverfa eins og kvarnarsteinn sem kastað er í hafið.—Opinberunarbókin 18:21.

Af þeirri ástæðu eru allir þeir sem elska Guð hvattir til að yfirgefa falstrúarbrögðin NÚNA.—Opinberunarbókin 18:4.

Því næst mun konungurinn Jesús „slá þjóðirnar . . . og hann [mun stjórna] þeim með járnsprota.“—Opinberunarbókin 19:15.

Þar af leiðandi blanda vottar Jehóva sér ekki í stjórnmál þó að þeir greiði skatta sína og hlýði landslögunum.

Að lokum er sjálfum Satan, ‚drekanum‘ mikla, kastað í undirdjúpið.—Opinberunarbókin 20:2, 3.

Aðeins „sauðirnir,“ þeir sem lúta Jesú sem konungi, munu lifa af þessa þrengingu.—Matteus 25:31-34, 41, 46.

Jóhannes postuli sá í sýn „sauðina“ sem lifa af þrenginguna.

„Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.“—Opinberunarbókin 7:9.

Hinn ‚mikli múgur‘ eru allir þeir sem bregðast vel við boðun fagnaðarerindisins.

Þeir munu ‚koma út úr þrengingunni miklu.‘—Opinberunarbókin 7:14.

‚Pálmagreinarnar‘ sýna að þeir bjóða Jesú velkominn sem konung sinn.

Að þeir séu klæddir „hvítum skikkjum“ sýnir að þeir trúa á fórn Jesú.

‚Lambið‘ er Jesús Kristur.

Hvaða blessunar njóta þeir þá? Manst þú eftir hamingjunni og velsældinni í ísrael þegar Salómon konungur ríkti þar í trúfesti. Það gaf smækkaða mynd af hamingjunni á jörðinni undir konungsstjórn Jesú.

Þar mun verða bókstaflegur friður meðal manna og milli manna og dýra alveg eins og Jesaja spáði.—Sálmur 46:10; Jesaja 11:6-9.

Á sama hátt og Jesús læknaði sjúka, þegar hann var á jörðinni, mun hann fjarlægja sjúkdóma frá öllu mannkyninu.—Jesaja 33:24.

Á sama hátt og hann saddi mannfjöldann mun hann útrýma fæðuskorti af jörðinni.—Sálmur 72:16.

Á sama hátt og hann reisti látna upp frá dauðum mun hann reisa upp frá dauðum þá látnu sem höfðu ekki fullt tækifæri til að gerast þegnar Guðsríkis.—Jóhannes 5:28, 29.

Smám saman mun hann færa mannkynið aftur til þess fullkomleika sem Adam glataði.

Er þetta ekki dásamleg framtíð? Myndir þú vilja sjá hana? Sé svo skaltu gera það sem nauðsynlegt er til að þú getir núna gerst þegn Guðs og orðið einn „sauðanna.“

Þú skalt nema Biblíuna og kynnast Jehóva Guði og Jesú Kristi.—Jóhannes 17:3.

Hafðu samfélag við aðra sem eru einnig þegnar Guðsríkis.—Hebreabréfið 10:25.

Kynntu þér lög Guðsríkis og hlýddu þeim.—Jesaja 2:3, 4.

Vígðu líf þitt Jehóva til að þjóna honum og láttu skírast.—Matteus 28:19, 20.

Forðastu rangsleitni, eins og þjófnað, lygar, siðleysi og drykkjuskap sem allt er Jehóva Guði vanþóknanlegt.—1. Korintubréf 6:9-11.

Taktu þátt í boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki.—Matteus 24:14.

Þá munt þú með Guðs hjálp sjá þá paradís, sem Adam glataði fyrir sig og niðja sína, endurreista og þú munt sjá uppfyllingu þessa fyrirheits: „Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“—Opinberunarbókin 21:3, 4.

[Kort á blaðsíðu 20]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

607 f.o.t. 1914 e.o.t.

f.o.t. | e.o.t.

500 1000 1500 2000 2520

[Myndir á blaðsíðu 11]

Abraham

ísak

Jakob

Júda

Davíð

[Mynd á blaðsíðu 14]

144.000

[Myndir á blaðsíðu 16]

Jesús

Adam