„Þeir eru ekki af heiminum“
18. kafli
„Þeir eru ekki af heiminum“
1. (a) Hvers bað Jesús áður en hann dó? (b) Hvers vegna er afar mikilvægt að vera „ekki af heiminum“?
JESÚS bað fyrir lærisveinum sínum nóttina áður en hann var líflátinn. Hann vissi að Satan myndi beita þá miklum þrýstingi og sagði í bæn til föður síns: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:15, 16) Af hverju er svona mikilvægt að vera aðgreindur frá heiminum? Af því að heimurinn er undir stjórn Satans. Kristnir menn vilja ekki tilheyra heimi sem hann ræður yfir. — Lúkas 4:5-8; Jóhannes 14:30; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
2. Að hvaða leyti tilheyrði Jesús ekki heiminum?
2 Þó að Jesús tilheyrði ekki heiminum þótti honum samt vænt um mennina. Hann læknaði sjúka, reisti upp dána, kenndi og fræddi fólk um ríki Guðs. Hann gaf meira að segja líf sitt fyrir mannkynið. Hann elskaði hins vegar ekki óguðleg viðhorf og verk þeirra sem endurspegluðu það hugarfar sem einkennir heim Satans. Hann varaði til dæmis við siðlausum löngunum, efnishyggju og framagirni. (Matteus 5:27, 28; 6:19-21; Lúkas 20:46, 47) Eins og við er að búast forðaðist hann stjórnmál heimsins. Þótt hann væri Gyðingur tók hann ekki afstöðu í pólitískum deilum Rómverja og Gyðinga.
„Mitt ríki er ekki af þessum heimi“
3. (a) Hvaða sakir báru trúarleiðtogar Gyðinga á Jesú og hvers vegna? (b) Hvernig má sjá að Jesús hafði engan áhuga á að verða konungur á jörð?
3 Lítum á hvað gerðist þegar trúarleiðtogar Gyðinga létu handtaka Jesú og leiða hann fyrir rómverska landstjórann Pontíus Pílatus. Trúarleiðtogunum sveið að Jesús skyldi afhjúpa trúhræsni þeirra. Til að fá landstjórann til að dæma Jesú sekan ákærðu þeir hann og sögðu: „Þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur.“ (Lúkas 23:2) Þetta voru hreinar lygar vegna þess að Jesús hafði neitað að láta gera sig að konungi þegar mannfjöldinn hafði reynt það um það bil ári áður. (Jóhannes 6:15) Hann vissi að hann átti að verða konungur á himnum þegar fram liðu stundir. (Lúkas 19:11, 12) Og það voru ekki menn sem áttu að skipa hann konung heldur var það Jehóva.
4. Hvernig leit Jesús á skatta?
4 Aðeins þrem dögum áður en Jesús var handtekinn reyndu farísear að fá hann til að tala af sér og segja eitthvað saknæmt um greiðslu skatta. Hann svaraði hins vegar: „Sýnið mér denar [rómverskan pening]. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?“ Þeir sögðu: „Keisarans,“ og hann svaraði: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ — Lúkas 20:20-25.
5. (a) Hvaða lexíu kenndi Jesús lærisveinunum þegar hann var handtekinn? (b) Hvernig skýrði Jesús afstöðu sína fyrir Pílatusi? (c) Hvernig fóru réttarhöldin yfir honum?
5 Jesús prédikaði ekki uppreisn gegn yfirvöldum. Þegar hermenn komu ásamt fleirum til að handtaka hann dró Pétur sverð úr slíðrum, hjó til eins af mönnunum og skar af honum annað eyrað. Þá sagði Jesús: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:51, 52) Daginn eftir skýrði hann málið fyrir Pílatusi og sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum.“ (Jóhannes 18:36) Pílatus viðurkenndi að hann fyndi „enga . . . sök“ hjá Jesú en lét undan mannfjöldanum og framseldi hann til aftöku. — Lúkas 23:13-15; Jóhannes 19:12-16.
Lærisveinarnir fylgja fordæmi Jesú
6. Hvernig sýndu frumkristnir menn að þeir forðuðust hugarfar heimsins en elskuðu mennina?
6 Lærisveinar Jesú skildu mætavel hvað fólst í því að vera ekki af heiminum. Þeir þurftu að forðast óguðlegt hugarfar og hátterni heimsins, þar á meðal siðlaust og ofbeldisfullt skemmtiefni rómverska leikhússins og hringleikahússins. Fyrir vikið voru þeir kallaðir mannhatarar. En því fór fjarri að þeir hötuðu náungann því að þeir lögðu sig fram um að hjálpa fólki að njóta góðs af því hjálpræði sem Guð bauð mönnunum.
7. (a) Hvað máttu frumkristnir menn þola vegna þess að þeir voru ekki af heiminum? (b) Hvernig litu þeir á yfirvöld og skatta og hvers vegna?
7 Fylgjendur Jesú voru ofsóttir líkt og hann, oft að undirlagi valdamanna sem höfðu fengið villandi upplýsingar um þá. Þegar Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Róm árið 56 hvatti hann þá engu að síður til að hlýða veraldlegum yfirvöldum „því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði“, eins og hann sagði. Ekki svo að skilja að Jehóva setji ákveðnar stjórnir til valda heldur leyfir hann þeim að standa uns ríki hans tekur völd yfir allri jörðinni. Þess vegna ráðlagði Páll kristnum mönnum að virða yfirvöld og greiða skatta. — Rómverjabréfið 13:1-7; Títusarbréfið 3:1, 2.
8. (a) Hve langt á undirgefni kristinna manna við yfirvöld að ganga? (b) Hvernig fylgdu frumkristnir menn fordæmi Jesú?
8 En undirgefni við pólitísk yfirvöld á ekki að vera ótakmörkuð heldur skilyrðum háð. Þegar lög Jehóva og lög manna stangast á eiga þjónar Jehóva að hlýða lögum hans. Í bókinni On the Road to Civilization — A World History segir um frumkristna menn: „Kristnir menn neituðu að gegna vissum skyldum rómverskra borgara. Þeir . . . álitu það stríða gegn trú sinni að gegna herþjónustu. Þeir gegndu ekki pólitískum embættum. Þeir tilbáðu ekki keisarann.“ Þegar hæstiréttur Gyðinga bannaði lærisveinunum „stranglega“ að prédika svöruðu þeir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:27-29.
9. (a) Af hverju yfirgáfu kristnir menn Jerúsalem árið 66? (b) Að hvaða leyti er það fordæmi til eftirbreytni?
9 Lærisveinarnir voru algerlega hlutlausir gagnvart pólitískum deilum og hernaðarátökum. Árið 66 gerðu Gyðingar í Júdeu uppreisn gegn keisaranum. Innan skamms var Jerúsalem umkringd rómverskum her. Hvað gerðu kristnir menn í borginni? Þeir minntust orða Jesú þess efnis að þeir ættu að yfirgefa borgina. Þegar Rómverjar hörfuðu tímabundið flúðu kristnir menn austur yfir Jórdan og settust að í fjalllendi Pellu. (Lúkas 21:20-24) Hlutleysi þeirra var kristnum mönnum síðar fordæmi til eftirbreytni.
Kristnir menn nú á tímum verða að vera hlutlausir
10. (a) Hvaða starfi sinna vottar Jehóva ötullega og af hverju? (b) Í hvaða málum eru þeir hlutlausir?
10 Hefur einhver hópur manna varðveitt algert hlutleysi núna á síðustu dögum líkt og frumkristnir menn? Já, sagan sýnir að vottar Jehóva hafa gert það. Allt þetta tímabil hafa þeir boðað að ríki Guðs sé eina vonin um varanlegan frið og farsæld handa þeim sem elska réttlætið. (Matteus 24:14) Þeir hafa hins vegar verið algerlega hlutlausir gagnvart deilumálum þjóða.
11. (a) Hvernig stingur hlutleysi votta Jehóva í stúf við afstöðu presta og kennimanna? (b) Hvernig líta vottar Jehóva á þátttöku annarra í stjórnmálum?
11 Prestar og kennimenn þessa heims hafa aftur á móti blandað sér mjög í stjórnmál. Í sumum löndum hafa þeir barist með eða á móti frambjóðendum. Sumir prestar gegna jafnvel pólitískum embættum. Stundum þrýsta prestar á stjórnmálamenn til að fá þá til að styðja ákveðin málefni. En vottar Jehóva blanda sér ekki í stjórnmál. Þeir skipta sér ekki heldur af því hvort aðrir gangi í stjórnmálaflokka, sækist eftir pólitísku embætti eða greiði atkvæði í kosningum. Jesús sagði að lærisveinar sínir væru ekki af heiminum þannig að vottar Jehóva taka engan þátt í stjórnmálum.
12. Hvaða afleiðingar hefur það haft að trúfélög heims skuli ekki vera hlutlaus?
12 Þjóðir heims hafa æ ofan í æ háð stríð eins og Jesús spáði. Andstæðar fylkingar innan sömu þjóðar hafa jafnvel barist hver gegn annarri. (Matteus 24:3, 6, 7) Forystumenn trúfélaga hafa næstum alltaf tekið afstöðu með einni þjóð eða fylkingu og hvatt áhangendur sína til að gera það líka. Afleiðingin er sú að fólk, sem er sömu trúar, fer í stríð og drepur hvert annað af þeirri einu ástæðu að það tilheyrir ólíkum þjóðum eða ættflokkum. Þetta gengur í berhögg við vilja Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; 4:8, 20.
13. Hvað sýna staðreyndir varðandi hlutleysi votta Jehóva?
13 Vottar Jehóva hafa hins vegar verið algerlega hlutlausir í öllum átökum. Í Varðturninum 1. nóvember 1939 sagði: „Allir sem eru Drottins megin eru hlutlausir gagnvart stríðandi þjóðum.“ Þetta er enn þá afstaða votta Jehóva í hvaða landi sem þeir eru og við hvaða aðstæður sem þeir búa. Þeir láta ekki stjórnmál eða styrjaldir sundra alþjóðlegu bræðralagi sínu. Þeir „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“. Þar sem þeir eru hlutlausir temja þeir sér ekki hernað framar. — Jesaja 2:3, 4; 2. Korintubréf 10:3, 4.
14. Hvað hafa vottar Jehóva mátt þola af því að þeir halda sér aðgreindum frá heiminum?
14 Jesús benti á eitt sem hlutleysi þjóna hans myndi hafa í för með sér. Hann sagði: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Margir vottar Jehóva hafa verið hnepptir í fangelsi sökum þess að þeir þjóna Guði. Sumir hafa verið pyndaðir eða jafnvel myrtir, ekki ósvipað og kristnir menn máttu þola á fyrstu öld. Þetta stafar af því að „guð þessarar aldar“, Satan, berst gegn þjónum Jehóva sem tilheyra ekki heiminum. — 2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:12.
15. (a) Hvaða örlög bíða allra þjóða og hvers gæta vottar Jehóva þar af leiðandi? (b) Af hverju er svona mikilvægt að halda sér aðgreindum frá heiminum?
15 Þjónar Jehóva fagna því að þeir skuli ekki tilheyra heiminum vegna þess að allar þjóðir eiga eftir að farast í Harmagedón. (Daníel 2:44; Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21) Við umflýjum þau örlög vegna þess að við höldum okkur aðgreindum frá heiminum. Við erum sameinuð og hollir þegnar ríkis Guðs. Að vísu megum við þola háð heimsins og ofsóknir vegna þess að við tilheyrum honum ekki. En það tekur enda áður en langt um líður þegar illum heimi undir stjórn Satans verður eytt fyrir fullt og allt. Þeir sem þjóna Jehóva hljóta hins vegar eilíft líf í réttlátum nýjum heimi undir stjórn ríkis Guðs á himnum. — 2. Pétursbréf 3:10-13; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Til upprifjunar
• Hvernig sýndi Jesús hvað það merkti að ‚vera ekki af heiminum‘?
• Hvaða afstöðu tóku frumkristnir menn til (a) anda heimsins, (b) veraldlegra valdhafa og (c) skatta?
• Hvernig hafa vottar Jehóva á okkar tímum sýnt hlutleysi?
[Spurningar]
[Mynd á blaðíðu 165]
Jesús benti á að hann og fylgjendur hans ‚væru ekki af heiminum‘.