Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Allir spámennirnir báru honum vitni

Allir spámennirnir báru honum vitni

4. kafli

Allir spámennirnir báru honum vitni

1. Hvernig varpar fortilvera Jesú ljósi á samband hans við Jehóva?

 „FAÐIRINN elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur.“ (Jóhannes 5:20) Greinilegt er að sonurinn átti innilegt samband við Jehóva, föður sinn. Þetta nána samband hófst þegar hann var skapaður, óralöngu áður en hann fæddist sem maður. Hann var eingetinn sonur Guðs, það er að segja sá eini sem Jehóva skapaði einsamall. Allt annað á himni og jörð var skapað með þátttöku þessa frumgetna sonar. (Kólossubréfið 1:15, 16) Hann var einnig „Orðið“ eða talsmaðurinn sem Guð notaði til að kunngera öðrum vilja sinn. Þessi sonur, sem var Guði svo kær, varð síðar maðurinn Jesús Kristur. — Orðskviðirnir 8:22-30; Jóhannes 1:14, 18; 12:49, 50.

2. Í hvaða mæli er fjallað um Jesú í spádómum Biblíunnar?

2 Áður en Guð vann það kraftaverk að láta frumgetinn son sinn fæðast sem mann var skráður fjöldi innblásinna spádóma um hann. Pétur postuli sagði Kornelíusi: „Honum bera allir spámennirnir vitni.“ (Postulasagan 10:43) Jesús gegnir svo stóru hlutverki í Biblíunni að engill sagði Jóhannesi postula: „Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ (Opinberunarbókin 19:10) Þessir spádómar sýndu svo ekki varð um villst að hann var Messías. Þeir vöktu athygli á ýmsum hlutverkum sem hann myndi gegna til að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga. Við ættum að hafa brennandi áhuga á þessum málum.

Hvað opinberuðu spádómarnir?

3. (a) Hverja tákna höggormurinn, ‚konan‘ og ‚sæði höggormsins‘ í spádóminum í 1. Mósebók 3:15? (b) Af hverju yrði það þjónum Jehóva til góðs að ‚höfuð höggormsins yrði marið‘?

3 Sá fyrsti af þessum spádómum var borinn fram eftir uppreisnina í Eden. Jehóva sagði við höggorminn: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Í rauninni er Jehóva að ávarpa Satan en höggormurinn táknar hann. ‚Konan‘ er dyggur söfnuður Jehóva á himnum sem er honum eins og trú eiginkona. ‚Sæði höggormsins‘ eru allir englar og menn sem láta í ljós sama hugarfar og Satan, þeir sem snúast gegn Jehóva og þjónum hans. Að ‚merja höfuð höggormsins‘ merkir að gert verði út af við uppreisnarsegginn Satan sem rægði Jehóva og olli mannkyni miklum hörmungum. En hver er öðrum fremur ‚sæðið‘ sem á að merja höfuð höggormsins? Það var ‚leyndardómur‘ um aldaraðir. — Rómverjabréfið 16:20, 25, 26.

4. Hvernig benti ætterni Jesú til þess að hann væri fyrirheitna sæðið?

4 Um 2000 árum síðar gaf Jehóva nánari vísbendingar. Hann upplýsti að sæðið myndi koma af ætt Abrahams. (1. Mósebók 22:15-18) Ættleggur sæðisins yrði þó ekki háður mannlegu ætterni heldur útvalningu Guðs. Þó að Abraham þætti vænt um soninn Ísmael, sem hann eignaðist með Hagar, sagði Jehóva: „Minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér.“ (1. Mósebók 17:18-21) Síðar staðfesti Jehóva þennan sáttmála við Jakob, forföður hinna 12 ættkvísla Ísraels, en ekki við frumburðinn Esaú. (1. Mósebók 28:10-14) Seinna meir kom fram að sæðið myndi fæðast af ættkvísl Júda og vera afkomandi Davíðs. — 1. Mósebók 49:10; 1. Kroníkubók 17:3, 4, 11-14.

5. Hvað sýndi að Jesús var Messías þegar hann hóf þjónustu sína á jörð?

5 Hvaða fleiri vísbendingar voru gefnar um það hvert sæðið væri? Meira en 700 árum áður en Jesús fæddist var þess getið í Biblíunni að hið fyrirheitna sæði myndi fæðast í Betlehem. Þar kom einnig fram að sæðið hefði verið til „frá fortíðar dögum“, það er að segja frá því að Jesús var skapaður á himnum. (Míka 5:1) Í spádómi Daníels var tímasett nákvæmlega hvenær Messías myndi koma fram. (Daníel 9:24-26) Og þegar Jesús var smurður með heilögum anda og varð þar með hinn smurði heyrðist rödd Guðs af himni segja að hann væri sonur sinn. (Matteus 3:16, 17) Sæðið var komið fram! Þess vegna gat Filippus sagt með sannfæringu: „Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú.“ — Jóhannes 1:45.

6. (a) Hvað rann upp fyrir fylgjendum Jesú samkvæmt Lúkasi 24:27? (b) Hver er öðrum fremur ‚sæði konunnar‘ og hvað merkir það að hann merji höfuð höggormsins?

6 Í framhaldi af því gerðu fylgjendur Jesú sér ljóst að miklum fjölda spádóma um hann hafði verið fléttað inn í hina innblásnu frásögu Biblíunnar. (Lúkas 24:27) Nú varð enn ljósara en áður að Jesús var öðrum fremur ‚sæði konunnar‘ sem átti að merja höfuð höggormsins og þar með útrýma Satan. Öll fyrirheit Guðs eiga eftir að rætast fyrir atbeina Jesú — allt sem við mennirnir þráum svo heitt. — 2. Korintubréf 1:20.

7. Hvað ættum við að gera auk þess að glöggva okkur á spádómunum um Messías?

7 Hvaða áhrif ætti þessi vitneskja að hafa á okkur? Í Biblíunni segir frá eþíópskum hirðmanni sem hafði lesið suma af spádómunum um frelsarann og Messías en skildi þá ekki. Hann spurði Filippus trúboða: „Um hvern segir spámaðurinn þetta?“ Hirðmaðurinn fékk svar en lét ekki þar við sitja. Eftir að hafa hlustað á skýringar Filippusar og skilið hvernig spádómurinn hafði ræst gerði hann sér ljóst að hann yrði að sýna þakklæti sitt í verki. Hann áttaði sig á því að hann yrði að láta skírast. (Postulasagan 8:32-38; Jesaja 53:3-9) Eru viðbrögð okkar þannig?

8. (a) Hvað var fyrirmyndað með því þegar Abraham ætlaði að fórna Ísak? (b) Af hverju sagði Jehóva Abraham að allar þjóðir myndu hljóta blessun vegna afkvæmis hans og hvernig snertir það okkur?

8 Við skulum einnig líta á hina hrífandi frásögu af því þegar Abraham ætlaði að fórna Ísak, eina syninum sem hann átti með Söru. (1. Mósebók 22:1-18) Þetta var fyrirmynd um það sem Jehóva átti eftir að gera, það er að segja að fórna eingetnum syni sínum: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Fyrst Jehóva gaf eingetinn son sinn til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga getum við treyst að hann muni líka gefa okkur allt annað. (Rómverjabréfið 8:32) Hvað þurfum við þá að gera? Eins og fram kemur í 1. Mósebók 22:18 sagði Jehóva Abraham að afkvæmi hans myndi verða öllum þjóðum á jörðinni til blessunar ‚vegna þess að hann hlýddi rödd Guðs‘. Við þurfum líka að hlýða Jehóva og syni hans: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ — Jóhannes 3:36.

9. Hvað gerum við ef við kunnum að meta vonina um eilíft líf sem fórn Jesú hefur í för með sér?

9 Ef við kunnum að meta vonina um eilíft líf sem fórn Jesú hefur í för með sér, langar okkur líka til að fara eftir því sem Jehóva talaði til okkar fyrir milligöngu Jesú. Þannig getum við sýnt Guði og náunganum kærleika. (Matteus 22:37-39) Jesús benti á að kærleikurinn til Jehóva ætti að vera okkur hvöt til að kenna öðrum ‚að halda allt sem hann bauð okkur‘. (Matteus 28:19, 20) Og við viljum sýna öðrum þjónum Jehóva kærleika okkar með því að sækja safnaðarsamkomur reglulega ásamt þeim. (Hebreabréfið 10:25; Galatabréfið 6:10) Og þó að okkur beri að hlýða Guði og syni hans ættum við ekki að halda að þeir hljóti að ætlast til fullkomleika af okkur. Í Hebreabréfinu 4:15 segir að Jesús, æðstiprestur okkar, geti „séð aumur á veikleika vorum“. Þetta er ákaflega hughreystandi, ekki síst þegar við leitum til Guðs í bæn fyrir milligöngu Krists og biðjum hann um hjálp til að sigrast á veikleikum okkar. — Matteus 6:12.

Trúum á Krist

10. Af hverju er ekki hjálpræði í neinum öðrum en Jesú Kristi?

10 Eftir að Pétur postuli hafði bent hæstarétti Gyðinga í Jerúsalem á að spádómar Biblíunnar hefðu ræst á Jesú sagði hann með áhersluþunga: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ (Postulasagan 4:12) Allir afkomendur Adams eru syndugir þannig að dauði þeirra hefur ekkert gildi sem lausnargjald fyrir aðra. En Jesús var fullkominn svo að líf hans hafði gildi sem fórn. (Sálmur 49:7-10; Hebreabréfið 2:9) Hann færði Guði lausnargjald sem var nákvæmlega jafn verðmætt og hið fullkomna líf sem Adam glataði. (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Þar með getum við átt möguleika á eilífu lífi í nýjum heimi Guðs.

11. Hvernig getur fórn Jesú verið okkur til góðs?

11 Lausnarfórn Jesú er okkur til góðs á ýmsa vegu, einnig núna. Lítum á dæmi. Þó að við séum syndug gerir fórn Jesú okkur kleift að hafa hreina samvisku vegna þess að syndir okkar eru fyrirgefnar. Þetta er mun meira en Ísraelsmenn gátu nokkurn tíma hlotið með dýrafórnunum sem færðar voru í samræmi við ákvæði Móselaganna. (Postulasagan 13:38, 39; Hebreabréfið 9:13, 14; 10:22) Fyrirgefningin útheimtir hins vegar að við viðurkennum í einlægni hve sárlega við þörfnumst fórnar Krists: „Ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki synd,‘ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss. Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:8, 9.

12. Af hverju er niðurdýfingarskírn mikilvægur þáttur í því að hljóta góða samvisku fyrir Guði?

12 Hvernig geta syndugir menn látið í ljós að þeir trúi á Krist og fórn hans? Þeir sem tóku trú á fyrstu öld sýndu það opinskátt með því að láta skírast. Af hverju? Af því að Jesús hafði gefið þau fyrirmæli að allir lærisveinar hans skyldu skírast. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 8:12; 18:8) Sá sem er snortinn í hjarta sér af kærleiksverkinu, sem Jehóva vann fyrir milligöngu Jesú, hikar ekki við að gera nauðsynlegar breytingar á líferni sínu, vígjast Guði í bæn og gefa tákn um það með niðurdýfingarskírn. Með því að sýna trú sína á þennan hátt fer hann með „bæn til Guðs um góða samvisku“. — 1. Pétursbréf 3:21.

13. Hvað ættum við að gera ef okkur verður ljóst að við höfum syndgað og hvers vegna?

13 En syndugt eðli okkar lætur auðvitað á sér kræla þó að við höfum látið skírast. Hvað er þá til ráða? Jóhannes postuli sagði: „Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Ber að skilja þetta svo að allt sé í himnalagi ef við biðjum bara Guð að fyrirgefa okkur þegar við gerum eitthvað rangt? Það er ekki sjálfgefið. Sönn iðrun er forsenda þess að hljóta fyrirgefningu. Einnig getur verið nauðsynlegt að leita aðstoðar hjá eldri og reyndari safnaðarmönnum. Við þurfum að viðurkenna að við höfum gert rangt og harma það þannig að við leggjum okkur einlæglega fram um að endurtaka það ekki. (Postulasagan 3:19; Jakobsbréfið 5:13-16) Ef við gerum það getum við treyst að Jesús hjálpi okkur og að við endurheimtum velþóknun Jehóva.

14. (a) Hvaða mikilvæga möguleika gefur fórn Jesú? (b) Hvað gerum við ef við trúum í raun og veru á fórn Jesú?

14 Fórn Jesú gefur ‚lítilli hjörð‘ möguleika á eilífu lífi á himnum, en hún er hluti af sæðinu sem talað er um í 1. Mósebók 3:15. (Lúkas 12:32; Galatabréfið 3:26-29) Sömuleiðis veitir hún milljörðum annarra manna möguleika á eilífu lífi í paradís á jörð. (Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 20:11, 12; 21:3, 4) Eilíft líf er „náðargjöf Guðs . . . í Kristi Jesú, Drottni vorum“. (Rómverjabréfið 6:23; Efesusbréfið 2:8-10) Ef við trúum á þessa gjöf og erum þakklát fyrir að hún skuli hafa verið látin í té á þennan hátt sýnum við það í verki. Við gerum okkur grein fyrir að Jehóva notaði Jesú með einstökum hætti til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Við áttum okkur einnig á hve mikilvægt það er að feta vandlega í fótspor hans. Það er okkur hvöt til að láta boðun fagnaðarerindisins sitja í fyrrirúmi. Trú okkar sýnir sig þegar við segjum öðrum af sannfæringu frá þessari stórfenglegu gjöf Guðs. — Postulasagan 20:24.

15. Hvernig er trúin á Jesú Krist sameiningarafl?

15 Slík trú sameinar. Hennar vegna löðumst við að Jehóva, syni hans og hvert öðru innan kristna safnaðarins. (1. Jóhannesarbréf 3:23, 24) Við trúum og fögnum því að Jehóva skuli hafa gefið syni sínum „nafnið, sem hverju nafni er æðra [nema nafni Guðs], til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“. — Filippíbréfið 2:9-11.

Til upprifjunar

• Af hverju báru þeir sem trúðu orði Guðs kennsl á Messías þegar hann kom fram?

• Hvað ættum við að gera til að sýna þakklæti okkar fyrir fórn Jesú?

• Hvernig höfum við notið góðs af fórn Jesú nú þegar? Hvernig er það okkur til hjálpar þegar við biðjum Jehóva að fyrirgefa syndir okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 36]

Jesús sagði fylgjendum sínum að kenna öðrum að halda boðorð Guðs.