Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Baráttan við andaverur vonskunnar

Baráttan við andaverur vonskunnar

8. kafli

Baráttan við andaverur vonskunnar

1. Af hverju ættum við að gefa sérstakan gaum að starfsemi illra anda?

 MARGIR gera gys að þeirri hugmynd að til séu illir andar. En þetta er ekkert grín. Illir andar eru til, hvort sem fólk trúir því eða ekki, og þeir reyna að hafa áhrif á alla menn. Þjónar Jehóva eru ekki undanskildir heldur eru þeir helsti skotspónn illu andanna. Páll postuli vekur athygli á því og segir: „Baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin [hin ósýnilegu], við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Efesusbréfið 6:12) Áhrif illu andanna hafa aldrei verið meiri en nú því að Satan hefur verið úthýst af himnum og er óður af reiði vegna þess að hann veit að hann hefur nauman tíma. — Opinberunarbókin 12:12.

2. Hvernig getum við sigrað í baráttunni gegn ofurmannlegum andaverum?

2 Er hægt að sigra í baráttunni gegn ofurmannlegum andaverum? Já, en aðeins með því að reiða sig í einu og öllu á Jehóva. Við verðum að hlusta á hann og hlýða orði hans, Biblíunni. Þá getum við að miklu leyti komist undan þeim líkamlega, siðferðilega og tilfinningalega skaða sem Satan veldur þeim sem hann hefur á valdi sínu. — Jakobsbréfið 4:7.

Heimsdrottnar í himingeimnum

3. Gegn hverjum berst Satan grimmilega og hvernig?

3 Jehóva dregur upp lifandi mynd af því hvernig heimsmálin líta út frá sjónarhóli hans á himnum. Hann lét Jóhannes postula sjá sýn þar sem Satan birtist eins og „mikill dreki rauður“. Drekinn beið þess að gleypa Messíasarríki Guðs ef hann gæti um leið og það var stofnað á himnum árið 1914. Þegar það mistókst ofsótti hann grimmilega fulltrúa þessa ríkis hér á jörð. (Opinberunarbókin 12:3, 4, 13, 17) Hvernig berst Satan gegn þeim? Hann notar til þess mannleg öfl sem hann hefur á valdi sínu.

4. Hvaðan fá stjórnir manna völd sín og hvernig vitum við það?

4 Þessu næst sér Jóhannes dýr með sjö höfuð og tíu horn. Dýrið hefur vald „yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð“ og það táknar stjórnmálakerfi jarðar í heild. Jóhannesi er sagt að drekinn, Satan djöfullinn, hafi gefið því „mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið“. (Opinberunarbókin 13:1, 2, 7) Stjórnir manna hafa sem sagt fengið völd sín og mátt frá Satan. Hinir raunverulegu ‚heimsdrottnar‘ eru því „andaverur vonskunnar í himingeimnum“ eins og Páll postuli sagði, og þessar andaverur ráða yfir stjórnum manna. Allir sem vilja tilbiðja Jehóva verða að gera sér fulla grein fyrir hvað þetta þýðir. — Lúkas 4:5, 6.

5. Hvert er verið að safna valdhöfum heims?

5 Margir pólitískir valdhafar segjast vissulega vera trúaðir en engin þjóð er þó undirgefin stjórn Jehóva eða konungi hans, Jesú Kristi. Valdhafar heims ríghalda í völd sín. Eins og lýst er í Opinberunarbókinni eru „djöfla andar“ að safna þeim saman „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:13, 14, 16; 19:17-19.

6. Af hverjum þurfum við að gæta þess að láta ekki leiðast út í að styðja heim Satans?

6 Pólitísk, þjóðfélagsleg, efnahagsleg og trúarleg átök sundra mannkyninu, og þessi átök snerta fólk alla daga. Algengt er að fólk taki afstöðu, í orði eða verki, með þeirri þjóð, kynþætti, málhópi eða þjóðfélagsstétt sem það tilheyrir. Og jafnvel þó að fólk taki ekki beinan þátt í einhverjum átökum eða deilum er algengt að það aðhyllist málstað einhvers í deilunni. En hvern er það að styðja í raun og veru, óháð því hvaða manneskju eða málstað það aðhyllist? Í Biblíunni stendur skýrum stöfum: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvernig er þá hægt að komast hjá því að láta afvegaleiðast ásamt fjöldanum? Aðeins með því að styðja ríki Guðs af heilum hug og vera algerlega hlutlaus gagnvart deilumálum heimsins. — Jóhannes 17:15, 16.

Slóttug brögð hins vonda

7. Hvernig hefur Satan með kænsku notað fölsk trúarbrögð?

7 Satan hefur á öllum tímum ofsótt fólk með orðum eða ofbeldi til að fæla það frá sannri tilbeiðslu. Hann hefur einnig beitt lúmskum og lævísum aðferðum til þess. Með kænsku hefur hann notað fölsk trúarbrögð til að halda stórum hluta mannkyns í andlegu myrkri og telja fólki trú um að það þjóni Guði. Þeir sem hafa ekki nákvæma þekkingu á Guði eða elska ekki sannleikann laðast ef til vill að dulrænum og tilfinningaþrungnum trúarathöfnum eða hrífast af kraftaverkum sem þeir sjá. (2. Þessaloníkubréf 2:9, 10) En í Biblíunni er varað við því að jafnvel sumir sem tilbiðja hinn sanna Guð muni „ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda“. (1. Tímóteusarbréf 4:1) Hvernig getur það gerst?

8. Hvernig getur Satan tælt okkur út í falstrú þó að við tilbiðjum Jehóva?

8 Satan notar sér veikleika okkar með slóttugum hætti. Erum við enn þá haldin mannhræðslu? Ef svo er gætum við látið undan þrýstingi frá ættingjum eða nágrönnum og tekið þátt í einhverju sem á ættir að rekja til falskra trúarbragða. Erum við stolt? Þá gætum við móðgast ef okkur eru gefnar leiðbeiningar eða aðrir vilja ekki samþykkja hugmyndir sem við aðhyllumst. (Orðskviðirnir 15:10; 29:25; 1. Tímóteusarbréf 6:3, 4) Í stað þess að tileinka okkur sama hugarfar og Kristur gætum við hallast á sveif með þeim sem ‚kitla eyru‘ okkar með því að halda fram að það sé nóg að lesa í Biblíunni og vera góð manneskja. (2. Tímóteusarbréf 4:3) Satan er alveg sama hvort við göngum í lið með öðrum trúarhópi eða fylgjum bara eigin trúarhugmyndum. Hann er ánægður svo framarlega sem við tilbiðjum ekki Jehóva í samræmi við þær leiðbeiningar sem gefnar eru í Biblíunni og fyrir milligöngu safnaðarins.

9. Hvernig notfærir Satan sér kynhvöt fólks til að ná fram markmiðum sínum?

9 Satan lokkar fólk einnig til að fullnægja eðlilegum löngunum á rangan hátt. Hann notfærir sér meðal annars kynhvöt fólks. Margir í heiminum hafna siðferðisreglum Biblíunnar og líta á kynmök ógiftra sem eðlilega skemmtun eða sem leið til að sanna að þeir séu fullorðið fólk. Og margt gift fólk heldur fram hjá maka sínum. Mörg hjón slíta samvistum eða skilja og fara að búa með öðrum jafnvel án þess að hjúskaparbrot komi til. Markmið Satans er að tæla fólk til að lifa fyrir líðandi stund og hugsa ekki um þau áhrif sem slíkt líferni hefur til langs tíma litið. Hann reynir að fá fólk til að loka augunum fyrir þeim áhrifum sem það hefur á sjálft sig og aðra með þessu. Sérstaklega vill hann fá fólk til að hunsa þau áhrif sem slíkt líferni hefur á samband þess við Jehóva og son hans. — 1. Korintubréf 6:9, 10; Galatabréfið 6:7, 8.

10. Hvernig reynir Satan að breyta afstöðu okkar til ofbeldis og siðleysis?

10 Það er líka eðlilegt að vilja gera eitthvað sér til afþreyingar og skemmtunar. Heilnæm afþreying getur verið hressandi fyrir líkama og sál. En hvað gerum við þegar Satan reynir á slóttugan hátt að nota þær stundir, þegar við slökum á, til að gera okkur afhuga Guði? Við vitum að Jehóva hatar siðleysi og ofbeldi, svo dæmi sé tekið. En sitjum við bara og höldum áfram að horfa þegar slíku bregður fyrir í kvikmynd, sjónvarpsþætti eða leikhúsi? Við skulum líka hafa hugfast að „vondir menn og svikarar . . . magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir“. (2. Tímóteusarbréf 3:13) Satan býr svo um hnútana að skemmtiefni verður æ spilltara eftir því sem styttist í það að honum verði varpað í undirdjúpið. (Opinberunarbókin 20:1-3) Þess vegna þurfum við að vera stöðugt á varðbergi gagnvart brögðum hans. — 1. Mósebók 6:13; Sálmur 11:5; Rómverjabréfið 1:24-32.

11. Hvernig gæti sá sem þekkir sannleikann um spíritisma fallið í gildru ef hann er ekki á varðbergi?

11 Við vitum líka að Jehóva hefur andstyggð á þeim sem koma nálægt spíritisma í einhverri mynd — hvort sem það er fólgið í spásögnum, göldrum eða því að reyna að ná sambandi við framliðna. (5. Mósebók 18:10-12) Við myndum því aldrei láta okkur til hugar koma að leita til andamiðla og ekki myndum við bjóða þeim inn á heimili okkar til að stunda andakukl sitt. En myndum við hlusta á þá ef þeir kæmu fram í sjónvarpinu eða á Netinu? Aldrei myndum við leita til manna sem stunda trúarlækningar. En myndum við banka í tré af ótta við að góðar óskir eða hrós gæti annars snúist upp í andhverfu sína? Eða myndum við leyfa dávaldi að ná valdi yfir huga okkar í ljósi þess að Biblían fordæmir særingar og gjörninga? — Galatabréfið 5:19-21.

12. (a) Hvernig er tónlist notuð til að reyna að fá okkur til að hugsa um það sem við vitum að er rangt? (b) Hvernig getur fólk gefið til kynna með klæðnaði sínum, hártísku eða talsmáta að það sé hrifið af líferni sem Jehóva hefur vanþóknun á? (c) Hvað þurftum við að gera til að standast klækjabrögð Satans?

12 Í Biblíunni segir að óhreinleiki og saurlifnaður eigi ekki að nefnast á nafn meðal okkar, það er að segja af óhreinu tilefni. (Efesusbréfið 5:3-5) En hvað nú ef þess háttar fylgir tónlist með fallegri laglínu, grípandi hljómfalli eða sterkum takti? Förum við þá að raula texta sem hampa kynlífi án hjónabands, fíkniefnaneyslu eða öðru syndsamlegu? Við vitum auðvitað að við eigum ekki að líkja eftir líferni fólks sem stundar slíkt. En höfum við tilhneigingu til að herma eftir klæðnaði þess, hártísku eða talsmáta? Það má með sanni segja að Satan beiti lúmskum aðferðum til að snúa fólki á sveif með spilltum hugsunarhætti sínum. (2. Korintubréf 4:3, 4) Ef við viljum ekki falla fyrir klækjabrögðum hans verðum við að berjast á móti straumnum. Við þurfum að hafa hugfast hverjir eru ‚heimsdrottnar þessa myrkurs‘ og berjast af alefli gegn áhrifum þeirra. — 1. Pétursbréf 5:8.

Búin til sigurs

13. Hvernig getum við öll sigrað heim Satans þó að við séum ófullkomin?

13 „Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn,“ sagði Jesús við postulana skömmu áður en hann dó. (Jóhannes 16:33) Þeir gátu líka sigrað heiminn. Jóhannes postuli skrifaði um 60 árum síðar: „Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?“ (1. Jóhannesarbréf 5:5) Við sýnum slíka trú með því að hlýða fyrirmælum Jesú og reiða okkur á orð Guðs líkt og hann. Við þurfum líka að halda okkur þétt við söfnuðinn sem hann er höfuðið yfir. Þegar okkur verður eitthvað á þurfum við að iðrast í einlægni og biðja Guð fyrirgefningar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Þá sigrum við heiminn þó að við séum ófullkomin og gerum ýmis mistök. — Sálmur 130:3, 4.

14. Lestu Efesusbréfið 6:13-17. Notaðu síðan spurningarnar og ritningarstaðina í greininni til að draga fram hvernig andlegu herklæðin koma að gagni.

14 Til að vera sigursæl þurfum við að klæðast „alvæpni Guðs“. Ekkert má vanta. Flettu upp á Efesusbréfinu 6:13-17 og lestu lýsinguna á alvæpni Guðs. Svaraðu síðan eftirfarandi spurningum og hugleiddu hvernig hver hluti andlegu herklæðanna er þér til verndar.

 „Gyrtir sannleika um lendar.“

 Hvernig er reglulegt sjálfsnám til verndar þó að við þekkjum sannleikann? Hvaða vernd er fólgin í því að hugleiða sannleika Biblíunnar og sækja samkomur? (1. Korintubréf 10:12, 13; 2. Korintubréf 13:5; Filippíbréfið 4:8, 9)

 „Klæddir brynju réttlætisins.“

 Hver ákveður hvað sé réttlæti? (Opinberunarbókin 15:3)

 Hvaða dæmi sýna að það er manni til tjóns að fylgja ekki réttlátum mælikvarða Guðs? (5. Mósebók 7:3, 4; 1. Samúelsbók 15:22, 23)

 „Skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.“

 Hvernig er það okkur til verndar að vera önnum kafin að tala við fólk um það hvernig Guð ætlar að koma á friði? (Sálmur 73:2, 3; Rómverjabréfið 10:15; 1. Tímóteusarbréf 5:13)

 ‚Skjöldur trúarinnar.‘

 Hvað gerir sá sem hefur sterka trú ef reynt er að hræða hann eða vekja efasemdir hjá honum? (2. Konungabók 6:15-17; 2. Tímóteusarbréf 1:12)

 ‚Hjálmur hjálpræðisins.‘

 Hvernig getur vonin um hjálpræði komið í veg fyrir að við höfum óhóflegan áhuga á efnislegum hlutum? (1. Tímóteusarbréf 6:7-10, 19)

 ‚Sverð andans.‘

 Hvað ættum við alltaf að nota til varnar þegar gerð er atlaga að andlegu hugarfari okkar eða annarra? (Sálmur 119:98; Orðskviðirnir 3:5, 6; Matteus 4:3, 4)

 Hvað annað er nauðsynlegt í andlegum hernaði okkar? Hve oft ætti að beita því og í þágu hverra? (Efesusbréfið 6:18, 19)

15. Hvernig getum við sótt fram í andlega hernaðinum?

15 Við erum hermenn Krists og tilheyrum stórum her sem á í andlegu stríði. Ef við erum árvökur og notum alvæpni Guðs til hins ýtrasta föllum við ekki í valinn heldur styðjum og styrkjum samþjóna okkar. Þá erum við alltaf reiðubúin að leggja til atlögu og útbreiða fagnaðarerindið um ríki Guðs og Messíasar, himnesku stjórnina sem Satan berst gegn af svo miklum ofsa.

Til upprifjunar

• Af hverju eru þjónar Jehóva algerlega hlutlausir gagnvart deilumálum heimsins?

• Nefndu dæmi um slóttug brögð sem Satan beitir til að reyna að fella kristna menn.

• Hvernig er alvæpni Guðs okkur til verndar í andlega hernaðinum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 76]

Verið er að safna þjóðum heims til stríðsins við Harmagedón.