Deilumálið sem við eigum öll aðild að
6. kafli
Deilumálið sem við eigum öll aðild að
1, 2. (a) Hvaða deilumál kveikti Satan í Eden? (b) Hvernig kom það fram í orðum hans?
ÞÚ ÁTT aðild að mikilvægasta deilumáli sem mannkynið hefur átt í. Afstaða þín ræður því hvort þú átt eilífa framtíð fyrir þér. Þetta deilumál kom upp þegar uppreisn braust út í Eden. Satan spurði Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Hún svaraði því til að Guð hefði sagt um ávöxt eins trés: „Af honum . . . megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Satan sakaði þá Guð um að ljúga og sagði að hvorki líf hennar né Adams væri háð því að hlýða Guði. Hann fullyrti að Guð neitaði sköpunarverum sínum um ákveðin gæði — að fá að nota hæfileikann til að setja sér eigin lífsreglur. Hann staðhæfði: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ — 1. Mósebók 3:1-5.
2 Í rauninni hélt Satan því fram að mennirnir væru betur settir ef þeir tækju sjálfstæðar ákvarðanir en ef þeir hlýddu lögum Guðs. Hann véfengdi að Guð stjórnaði rétt. Þar með kom upp háalvarleg deila um drottinvald Guðs, það er að segja um rétt hans til að stjórna. Spurningin var: Hvort er betra fyrir mennina að Guð stjórni þeim eða þeir séu óháðir honum? Nú hefði Jehóva getað tekið Adam og Evu af lífi þegar í stað en það hefði tæplega útkljáð deiluna um drottinvaldið svo vel færi. Með því að leyfa mannlegu samfélagi að þróast um alllangan tíma gat Guð sýnt fram á hvaða afleiðingar það hefði að vera óháður honum og lögum hans.
3. Hvaða annað deilumál kveikti Satan?
3 Satan lét sér ekki nægja að véfengja rétt Jehóva til að stjórna, líkt og hann gerði þarna í Eden, heldur dró hann líka í efa hollustu annarra við hann. Þar með vakti hann annað deilumál sem er nátengt hinu fyrra. Þessi ögrun náði bæði til afkomenda Adams og Evu og til allra andasona Guðs, líka til frumgetins sonar hans. Á dögum Jobs fullyrti Satan til dæmis að þeir sem þjónuðu Jehóva gerðu það af eigingjörnum hvötum en ekki af því að þeir elskuðu Jehóva eða virtu stjórnarfar hans. Hann hélt því fram að allir myndu þeir láta eigingirni ráða ferðinni ef þrengt væri að þeim. — Jobsbók 2:1-6; Opinberunarbókin 12:10.
Hvað hefur sagan leitt í ljós?
4, 5. Hvernig sýnir sagan að maðurinn er ekki fær um að stýra skrefum sínum?
4 Mikilvægt er að hafa eitt í huga varðandi deilumálið um drottinvaldið: Guð skapaði ekki mennina þannig að þeir gætu verið óháðir honum og vegnað vel. Hann gerði þá háða réttlátum lögum sínum og það var þeim til góðs. Jeremía spámaður sagði: „Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Við erum því hvött í Biblíunni til að ‚treysta Drottni af öllu hjarta en reiða okkur ekki á eigið hyggjuvit‘. (Orðskviðirnir 3:5) Jehóva gerði mennina þannig úr garði að þeir verða að virða náttúrulögmálin til að geta lifað. Að sama skapi setti hann manninum siðferðileg lög sem skapa friðsælt samfélag ef þeim er fylgt.
5 Guð vissi greinilega að mannkyninu tækist aldrei að stýra eigin málum svo vel færi án þess að lúta stjórn hans. Mennirnir hafa af veikum mætti reynt að vera óháðir Guði og hafa í því skyni komið sér upp alls konar trúar-, stjórnmála- og efnahagskerfum. Og þetta hefur valdið endalausum átökum sem hafa leitt til ofbeldis, styrjalda og dauða. „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu,“ eins og segir í Biblíunni. (Prédikarinn 8:9) Þannig hefur mannkynssagan verið. Vondir menn og svikarar hafa „magnast í vonskunni“ eins og sagt var fyrir í orði Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:13) Og á 20. öldinni, þegar gríðarlegar framfarir urðu á sviði vísinda og iðnaðar, urðu jafnframt verstu hörmungar sögunnar. Orðin í Jeremía 10:23 hafa margsannast — mönnunum var ekki áskapað að stýra skrefum sínum.
6. Hvað ætlar Guð bráðlega að gera?
6 Skelfilegar afleiðingar þess fyrir mennina að reyna að vera óháðir Guði hafa sýnt fram á í eitt skipti fyrir öll að þeir geta aldrei stjórnað sjálfum sér svo vel fari. Eina leiðin til þess að menn geti verið sameinaðir og lifað hamingjusömu og heilbrigðu lífi er sú að Guð sé við stjórnvölinn. Og í Biblíunni kemur fram að Jehóva ætlar ekki að leyfa mönnunum að fara með völdin mikið lengur. (Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Innan skamms ætlar hann að skerast í leikinn og verja stöðu sína sem stjórnandi jarðar. Í einum af spádómum Biblíunnar segir: „Á dögum þessara konunga [núverandi stjórna manna] mun Guð himnanna hefja ríki [á himnum], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða [menn fá aldrei að stjórna jörðinni framar]. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Að komast inn í nýjan heim Guðs
7. Hverjir komast lífs af þegar ríki Guðs bindur enda á stjórn manna?
7 Hverjir komast lífs af þegar ríki Guðs bindur enda á stjórn manna? Biblían svarar og segir: „Hinir hreinskilnu [þeir sem styðja rétt Guðs til að stjórna] munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu [þeir sem styðja ekki rétt Guðs til að stjórna] munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Sálmaskáldið tók í sama streng: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:10, 29.
8. Hvernig mun Guð endanlega sanna rétt sinn til að fara með æðsta vald?
8 Eftir að heimi Satans er eytt gengur nýr heimur Guðs í garð. Ofbeldi, stríð, fátækt, þjáningar, sjúkdómar og dauði, sem hafa haldið mannkyninu í heljargreipum um þúsundir ára, verður þá liðin tíð. Í Biblíunni er að finna undurfagra lýsingu á þeirri blessun sem bíður hlýðinna manna: „Hann [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Guð notar himneskt ríki sitt í höndum Krists til að sanna endanlega rétt sinn til að fara með æðsta vald yfir mannkyni. — Rómverjabréfið 16:20; 2. Pétursbréf 3:10-13; Opinberunarbókin 20:1-6.
Afstaða þeirra til deildumálsins
9. (a) Hvernig hafa trúir þjónar Jehóva litið á orð hans? (b) Hvernig sýndi Nói hollustu sína og hvað getum við lært af dæmi hans?
9 Alla sögu mannkyns hafa verið uppi karlar og konur sem hafa sýnt Jehóva hollustu. Þau vissu að líf þeirra var undir því komið að hlusta á hann og hlýða honum. Nói var einn þeirra. Guð sagði við hann: „Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn . . . Gjör þú þér örk.“ Nói gerði eins og Jehóva sagði honum. Samtímamenn Nóa létu viðvaranir sem vind um eyrun þjóta og lifðu lífinu eins og ekkert óvenjulegt væri í aðsigi. En Nói smíðaði risastóra örk og var ötull að boða öðrum réttláta vegi Jehóva. Frásagan heldur áfram: „Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mósebók 6:13-22; Hebreabréfið 11:7; 2. Pétursbréf 2:5.
10. (a) Hvernig studdu Abraham og Sara drottinvald Jehóva? (b) Hvað getum við lært af dæmi Abrahams og Söru?
10 Abraham og Sara studdu sömuleiðis drottinvald Jehóva og gerðu hvaðeina sem hann sagði þeim að gera. Þau bjuggu í blómlegri borg sem hét Úr og var í Kaldeu. En þegar Jehóva sagði Abraham að flytjast til ókunnugs lands gerði hann „eins og Drottinn hafði sagt honum“. Sara hafði eflaust átt sér notalegt heimili og lifað þægilegu lífi í nábýli við vini og ættingja. En hún var undirgefin Jehóva og eiginmanni sínum og fór til Kanaanlands þó að hún vissi ekki hvers konar líf beið hennar þar. — 1. Mósebók 11:31–12:4; Postulasagan 7:2-4.
11. (a) Við hvaða aðstæður studdi Móse drottinvald Jehóva? (b) Hvað getum við lært af Móse?
11 Móse var einnig maður sem studdi drottinvald Jehóva. Og hann gerði það við erfiðustu aðstæður — augliti til auglitis við faraó Egyptalands. Ekki svo að skilja að Móse hafi verið sjálfsöruggur maður heldur efaðist hann um að hann væri nógu vel máli farinn til að gegna þessu hlutverki. En hann hlýddi Jehóva. Með stuðningi Jehóva og hjálp Arons, bróður síns, flutti hann hinum þrjóska einvaldi orð Jehóva æ ofan í æ. Sumir Ísraelsmenn gagnrýndu Móse meira að segja harðlega. En Móse gerði dyggilega allt sem Jehóva sagði honum og Ísraelsmenn voru frelsaðir frá Egyptalandi með hjálp hans. — 2. Mósebók 7:6; 12:50, 51; Hebreabréfið 11:24-27.
12. (a) Hvað sýnir að hollusta við Jehóva er annað og meira en að hlýða bara því sem hann hefur látið rita niður? (b) Hvernig getur hollusta af þessu tagi hjálpað okkur að fara eftir 1. Jóhannesarbréfi 2:15?
12 Trúir þjónar Jehóva hugsuðu ekki sem svo að það væri nóg að hlýða bara því sem Guð hefði látið rita niður. Þegar kona Pótífars reyndi að tæla Jósef til að eiga siðlaus mök við sig var ekki til neitt skriflegt boðorð frá Guði sem bannaði hjúskaparbrot. En Jósef vissi að Jehóva hafði stofnsett hjónabandið í Eden. Hann vissi að Guð hefði vanþóknun á því að hann hefði kynmök við konu annars manns. Hann hafði engan áhuga á að prófa hve langt hann gæti gengið í þá átt að líkjast Egyptum. Hann sýndi Jehóva hollustu með því að hugleiða samskipti hans við mennina og gera síðan samviskusamlega það sem hann taldi vera vilja Jehóva. — 1. Mósebók 39:7-12; Sálmur 77:12, 13.
13. Hvernig sannaðist að Satan fór með rangt mál í sambandi við (a) Job? (b) Hebreana þrjá?
13 Þeir sem þekkja Jehóva í alvöru snúa ekki baki við honum þó að þeir lendi í alvarlegustu prófraunum. Jehóva lýsti yfir að hann hefði velþóknun á Job en Satan fullyrti að Job myndi hætta að þjóna Guði ef hann missti öll auðæfi sín eða heilsuna. En Job sannaði að Satan fór með rangt mál þó svo að Job vissi ekki af hverju öll þessi ógæfa dundi yfir hann. (Jobsbók 2:9, 10) Öldum síðar reyndi Satan enn að sanna mál sitt. Hann fékk þá bálreiðan konung Babýlonar til að hóta þrem ungum Hebreum bráðum bana í eldsofni ef þeir féllu ekki fram og tilbæðu líkneski sem hann hafði látið reisa. Þeir þurftu að velja milli þess að hlýða skipun konungs eða banni Jehóva við skurðgoðadýrkun. Þeir tilkynntu óhikað að þeir þjónuðu Jehóva og hann færi með æðsta vald yfir þeim. Það var þeim meira virði að vera trúir Guði en halda lífinu. — Daníel 3:14-18.
14. Hvernig geta ófullkomnir menn verið Jehóva trúir í einu og öllu?
14 Ber okkur að skilja þessi dæmi svo að maður þurfi að vera fullkominn til að vera Guði trúr? Höfum við brugðist Guði algerlega ef okkur verða á mistök? Auðvitað ekki. Í Biblíunni segir frá því að Móse hafi stundum orðið á. Jehóva hafnaði honum ekki þó að honum mislíkaði það sem hann gerði. Postular Jesú Krists áttu líka við ýmsa veikleika að stríða. Jehóva tekur tillit til þess að við höfum erft ófullkomleikann og hefur velþóknun á okkur ef við sniðgöngum aldrei vilja hans af ásettu ráði. Ef við gerum eitthvað rangt sökum veikleika er mikilvægt að iðrast einlæglega og fara ekki að stunda hið ranga. Þannig sýnum við að við elskum það sem Jehóva segir vera gott og hötum það sem hann bendir á að sé illt. Við getum verið hrein í augum Guðs vegna þess að fórn Jesú friðþægir fyrir syndir okkar. — Amos 5:15; Postulasagan 3:19; Hebreabréfið 9:14.
15. (a) Hvaða maður var Guði fullkomlega ráðvandur og hvað sannaðist með því? (b) Hvernig er fordæmi Jesú okkur til hjálpar?
15 En getur hugsast að menn séu hreinlega ekki færir um að hlýða drottinvaldi Jehóva fullkomlega? Svarið við þessari spurningu var „leyndardómur“ í ein 4000 ár. (1. Tímóteusarbréf 3:16) Adam var skapaður fullkominn en var samt ekki fullkomlega trúr Guði. Hver gæti þá verið það? Ekki var það á færi syndugra afkomenda hans. Eini maðurinn, sem gerði það, var Jesús Kristur. (Hebreabréfið 4:15) Þar með sannaði Jesús að Adam, sem bjó við mun betri aðstæður, hefði getað verið fullkomlega ráðvandur ef hann hefði viljað. Sköpunarverk Guðs var ekki gallað. Við reynum því að líkja eftir fordæmi Jesú Krists með því að hlýða lögum Guðs og sömuleiðis með því að sýna honum, drottni alheims, tryggð og trúfesti. — 5. Mósebók 32:4, 5.
Hvaða afstöðu tekur þú?
16. Hvers vegna þurfum við að hafa stöðuga gát á því hvernig við hugsum um drottinvald Jehóva?
16 Við þurfum öll að taka afstöðu í deilumálinu um drottinvaldið yfir alheiminum. Ef við höfum lýst yfir að við stöndum Jehóva megin verðum við skotspónn Satans. Hann þjarmar að okkur á alla vegu og heldur því áfram þangað til þessi illi heimur líður undir lok. Við megum aldrei slaka á verðinum. (1. Pétursbréf 5:8) Við sýnum með hegðun okkar hvaða afstöðu við tökum í deilumálinu mikla um drottinvald Jehóva og sömuleiðis í deilumálinu um ráðvendni við Guð í prófraunum. Við getum ekki leyft okkur að hugsa sem svo að það sé allt í lagi að vera Guði ótrú fyrst það er algengt í heiminum. Til að vera Jehóva trú þurfum við að leggja okkur fram um að fylgja réttlátum lögum hans á öllum sviðum í lífinu.
17. Hvers vegna ber okkur að forðast lygar og þjófnað?
17 Við megum til dæmis ekki líkja eftir Satan sem er „lyginnar faðir“. (Jóhannes 8:44) Við verðum að vera heiðarleg í einu og öllu. Í heimi Satans er algengt að unglingar fari á bak við foreldra sína. En kristnir unglingar varast það og afsanna þar með þá ásökun Satans að fólk Guðs bregðist honum þegar á reynir. (Jobsbók 1:9-11; Orðskviðirnir 6:16-19) Í viðskiptalífinu er beitt ýmsum aðferðum sem eru einkennandi fyrir ‚lyginnar föður‘ en ekki Guð sannleikans. Við forðumst slíka viðskiptahætti. (Míka 6:11, 12) Og það er aldrei réttlætanlegt að stela jafnvel þó að maður sé nauðstaddur eða sá sem stolið er frá sé efnaður. (Orðskviðirnir 6:30, 31; 1. Pétursbréf 4:15) Þó að það sé kannski algengt að stela er það engu að síður brot á lögum Guðs, hversu litlu sem er stolið. — Lúkas 16:10; Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 4:28.
18. (a) Hvaða prófraun bíður mannkyns þegar þúsund ára stjórn Krists lýkur? (b) Hvað ættum við að temja okkur núna?
18 Í þúsundáraríkinu verða Satan og illu andarnir í haldi í undirdjúpi og ófærir um að hafa áhrif á mannkynið. Hvílíkur léttir! En að þúsund árunum liðnum verður þeim sleppt lausum um stuttan tíma. Þá munu Satan og fylgjendur hans þjarma að þeim mönnum sem hafa varðveitt ráðvendni við Guð. (Opinberunarbókin 20:7-10) Hvaða afstöðu ætli við tökum í deilunni um drottinvaldið yfir alheiminum ef við fáum að vera á lífi á þeim tíma? Allir menn verða þá orðnir fullkomnir og hver sem brýtur lög Guðs gerir það af ásetningi og verður endanlega afmáður. Það er því ákaflega mikilvægt að temja sér núna að fylgja fyrirmælum Jehóva í einu og öllu, hvort sem þau koma frá orði hans eða söfnuðinum. Með því að gera það sýnum við honum, Drottni alheims, tryggð og hollustu.
Til upprifjunar
• Í hvaða deilumáli þurfum við öll að taka afstöðu? Hvernig drógumst við inn í það?
• Hvað er eftirtektarvert við hollustu karla og kvenna á biblíutímanum gagnvart Jehóva?
• Af hverju er mikilvægt að sýna Jehóva virðingu alla daga með hegðun sinni?
[Spurningar]