Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frelsi þeirra sem tilbiðja Jehóva

Frelsi þeirra sem tilbiðja Jehóva

5. kafli

Frelsi þeirra sem tilbiðja Jehóva

1, 2. (a) Hvers konar frelsi gaf Guð fyrstu hjónunum? (b) Nefndu nokkur af þeim lögum sem stýrðu gerðum Adams og Evu.

 ÞEGAR Jehóva skapaði fyrsta manninn og fyrstu konuna nutu þau langtum meira frelsis en núlifandi menn þekkja. Þau bjuggu í undurfögrum garði, paradísinni Eden. Hugur þeirra og líkami var fullkominn svo að sjúkdómar og veikindi vörpuðu ekki skugga á líf þeirra. Dauðinn beið þeirra ekki eins og hann hefur beðið allra manna þaðan í frá. Og þau voru ekki viljalaus verkfæri því að þeim var gefinn frjáls vilji svo að þau gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir. En til að njóta þessa unaðslega frelsis til frambúðar urðu þau að virða lög Guðs.

2 Lítum til dæmis á náttúrulögmálin sem Guð setti. Þessi lögmál voru auðvitað hvergi skráð en Adam og Eva voru þannig úr garði gerð að það var eðlilegt fyrir þau að hlýða þeim. Hungurtilfinning gaf þeim merki um að þau þyrftu að borða, þorsti að þau þyrftu að drekka og sólsetur að þau þyrftu að hvílast. Jehóva fól þeim líka verk að vinna. Verkefnið var í rauninni lagaboð vegna þess að það átti að ráða stefnu þeirra í lífinu. Þau áttu að eignast börn, fara með yfirráð yfir öðrum lífverum jarðar og stækka paradísina uns hún næði út um allan hnöttinn. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Þetta lagaboð var þeim til góðs. Með því var þeim falið gefandi verk að vinna og það gerði þeim kleift að nota hæfileika sína til fulls á heilnæman hátt. Og þau höfðu gott svigrúm til að ákveða sjálf hvernig þau inntu verkefni sitt af hendi. Var hægt að fara fram á nokkuð meira?

3. Hvernig gátu Adam og Eva lært að nota frelsi sitt viturlega?

3 En þó að Adam og Eva fengju að taka eigin ákvarðanir var ekki þar með sagt að þær yrðu alltaf til góðs. Frelsi þeirra til að taka ákvarðanir takmarkaðist við þann ramma sem lög og meginreglur Guðs settu. Þau gátu kynnt sér lög hans og reglur með því að hlusta á hann og virða fyrir sér verk hans. Og skaparinn gaf Adam og Evu vit til að nota það sem þau lærðu. Þar eð þau voru sköpuð fullkomin var þeim eðlislægt að endurspegla eiginleika Guðs þegar þau tóku ákvarðanir. Þau myndu gæta þess vandlega að gera það ef þau kynnu að meta allt sem Guð gerði fyrir þau og langaði til að þóknast honum. — 1. Mósebók 1:26, 27; Jóhannes 8:29.

4. (a) Var það einhver skerðing á frelsi Adams og Evu að þau skyldu ekki mega borða ávöxt eins trés? (b) Af hverju var þetta viðeigandi lagaboð?

4 Þar sem Jehóva var lífgjafi þeirra ákvað hann með réttu að prófa hollustu þeirra og vilja til að halda sig innan þeirra marka sem hann hafði ákveðið. Hann sagði Adam: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Eftir að Eva var sköpuð var hún einnig upplýst um þetta ákvæði. (1. Mósebók 3:2, 3) Var þetta einhver skerðing á frelsi þeirra? Alls ekki. Þau höfðu meira en nóg af alls konar gómsætri fæðu þó að þau borðuðu ekki ávöxt þessa eina trés. (1. Mósebók 2:8, 9) Það var fullkomlega eðlilegt að þau viðurkenndu að jörðin tilheyrði Guði sem skapaði hana. Hann hefur því fullan rétt til að setja lög sem þjóna tilgangi hans og eru mönnunum til góðs. — Sálmur 24:1, 10.

5. (a) Hvernig glötuðu Adam og Eva frelsinu sem þau höfðu notið? (b) Hvað kom í stað frelsisins, sem Adam og Eva höfðu haft, og hvaða áhrif hefur það haft á okkur?

5 En hvað gerðist? Metnaðargirni varð til þess að engill misbeitti frjálsum vilja sínum og gerði sig að Satan sem merkir „andstæðingur“. Hann blekkti Evu með því að telja henni trú um eitthvað sem var andstætt vilja Guðs. (1. Mósebók 3:4, 5) Adam tók síðan þátt í því með Evu að brjóta lög Guðs. Með því að taka það sem þau áttu ekki glötuðu þau hinu unaðslega frelsi sem þau höfðu haft. Syndin varð húsbóndi þeirra og dauðinn fylgdi í kjölfarið eins og Guð hafði varað þau við. Þau gáfu afkomendum sínum syndina í arf en hún birtist í meðfæddri tilhneigingu til að gera rangt. Syndin hafði einnig í för með sér ýmsa veikleika sem ollu sjúkdómum, öldrun og dauða. Satan kyndir undir tilhneigingu manna til að gera rangt. Það hefur skapað mannfélag með langa sögu haturs, glæpa, kúgunar og styrjalda sem hafa kostað milljónir manna lífið. Þetta er harla ólíkt frelsinu sem Guð gaf mönnunum í upphafi. — 5. Mósebók 32:4, 5; Jobsbók 14:1, 2; Rómverjabréfið 5:12; Opinberunarbókin 12:9.

Þar sem frelsi er að finna

6. (a) Hvar er raunverulegt frelsi að finna? (b) Hvers konar frelsi talaði Jesús um?

6 Þegar á það er litið hve slæmt ástandið er alls staðar í heiminum kemur ekki á óvart að fólk skuli þrá meira frelsi. En hvar er raunverulegt frelsi að finna? Jesús sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:31, 32) Þetta er annars konar frelsi en menn vonast eftir þegar þeir velja einn stjórnanda eða eitt stjórnarform fram yfir annað. Þetta er frelsi sem byggist á því að komast fyrir rætur mannlegra vandamála. Jesús var að ræða um frelsi úr fjötrum syndarinnar. (Jóhannes 8:24, 34-36) Sá sem gerist lærisveinn Jesú Krists í raun upplifir mikla breytingu á lífi sínu. Hann öðlast frelsi.

7. (a) Í hvaða skilningi getum við verið laus úr fjötrum syndarinnar nú þegar? (b) Hvað þurfum við að gera til að hafa þetta frelsi?

7 Þetta þýðir ekki að sannkristnir menn finni ekki lengur fyrir meðfæddri tilhneigingu til að gera rangt. Þeir hafa fengið syndina í arf og eiga enn þá í baráttu við hana. (Rómverjabréfið 7:21-25) En sá sem lifir eftir kenningum Jesú er ekki lengur þræll syndarinnar. Syndin er honum ekki eins og einræðisherra sem hann verður að hlýða í blindni. Hann er ekki fastur í fjötrum lífernis sem hefur lítinn tilgang og veldur honum slæmri samvisku. Hann hefur fengið fyrirgefningu fyrri synda af því að hann trúir á fórn Krists og hefur því hreina samvisku gagnvart Guði. Syndugar tilhneigingar reyna stundum að taka völdin en hann spyrnir við fótum vegna þess að hann hefur hreinar kenningar Krists í huga og sýnir þannig að syndin er ekki lengur húsbóndi hans. — Rómverjabréfið 6:12-17.

8. (a) Hvaða frelsi fylgir kristinni trú? (b) Hvernig ættum við að líta á stjórnvöld?

8 Lítum nánar á frelsið sem kristnir menn njóta. Við erum frjáls undan áhrifum falskenninga, ánauð hjátrúar og þrælkun syndar. Sannleikurinn um dauðann og upprisuna hefur leyst okkur undan óþörfum ótta við dauðann. Við höfum eignast von vegna þess að við vitum að ófullkomnar stjórnir manna víkja bráðlega fyrir réttlátu ríki Guðs. (Daníel 2:44; Matteus 6:10) En þetta frelsi réttlætir ekki að við vanvirðum stjórnvöld og lög þeirra. — Títusarbréfið 3:1, 2; 1. Pétursbréf 2:16, 17.

9. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að njóta eins mikils frelsis og menn geta notið núna? (b) Hvernig getum við tekið skynsamlegar ákvarðanir?

9 Jehóva ætlast ekki til að við notum happa- og glappaaðferðina til að finna út hvernig best sé að lifa lífinu. Hann veit hvernig við erum úr garði gerð, hvað veitir okkur hamingju og hvað er okkur fyrir bestu þegar á eilífðina er litið. Hann veit hvaða hugsanir og hegðun geta spillt sambandi manna við hann og við aðra menn og jafnvel komið í veg fyrir að þeir komist inn í nýja heiminn. Í kærleika sínum segir Jehóva okkur frá öllu þessu í Biblíunni og fyrir milligöngu safnaðarins. (Markús 13:10; Galatabréfið 5:19-23; 1. Tímóteusarbréf 1:12, 13) Það er síðan undir sjálfum okkur komið að nota frjálsa viljann til að ákveða hvað við gerum. Ef við höfum tileinkað okkur það sem Biblían kennir tökum við viturlegar ákvarðanir, ólíkt Adam. Við sýnum þá að okkur finnst mest um vert að eiga gott samband við Jehóva.

Löngunin í annars konar frelsi

10. Hvers konar frelsi hafa sumir vottar sóst eftir?

10 Stundum vaknar löngun í annars konar frelsi hjá ungu fólki í söfnuði Votta Jehóva, og það getur reyndar líka gerst hjá þeim sem eru ekki unglingar lengur. Þeim finnst heimurinn spennandi, og því meira sem þeir hugsa um það þeim mun sterkari verður löngunin til að gera ýmislegt ókristilegt sem er stundað í heiminum. Þeir ætla sér trúlega ekki að neyta fíkniefna, drekka í óhófi eða drýgja hór. En þeir fara að leggja lag sitt við fólk sem er ekki vottar Jehóva og þá langar til að falla inn í hópinn. Þeir fara jafnvel að líkja eftir því í tali og hegðun. — 3. Jóhannesarbréf 11.

11. Hvaðan kemur stundum freistingin til að gera rangt?

11 Freistingin til að gera eitthvað ókristilegt kemur stundum frá einstaklingum sem segjast þjóna Jehóva. Þetta gerðist meðal frumkristinna manna og hið sama getur gerst á okkar tímum. Þá langar gjarnan til að gera eitthvað sem þeir halda að sé ánægjulegt þó að það brjóti í bága við lög Guðs. Þeir hvetja aðra til að „skemmta sér“ svolítið. „Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar.“ — 2. Pétursbréf 2:19.

12. Hvaða dapurlegu afleiðingar hefur það að brjóta gegn lögum Guðs og meginreglum?

12 Afleiðingarnar eru alltaf slæmar vegna þess að þetta svokallaða frelsi er fólgið í því að óhlýðnast lögum Guðs. Siðlaust kynlíf getur til dæmis haft í för með sér tilfinningarót, sjúkdóma, dauða, óæskilega þungun og ef til vill hjónaskilnað. (1. Korintubréf 6:18; 1. Þessaloníkubréf 4:3-8) Neysla fíkniefna getur valdið skapstyggð, drafandi tali, sjóntruflunum, svima, öndunarerfiðleikum, skynvillum og dauða. Hún getur orðið að fíkn sem getur leitt fólk út í afbrot til að fjármagna neysluna. Ofnotkun áfengis hefur að mörgu leyti sömu afleiðingar. (Orðskviðirnir 23:29-35) Þeir sem leiðast út í líferni af þessu tagi halda kannski að þeir séu frjálsir en þeir uppgötva um seinan að þeir eru orðnir þrælar syndarinnar. Og syndin er grimmur húsbóndi. Með því að hugsa skynsamalega núna getum við hlíft okkur við lífsreynslu af þessu tagi. — Galatabréfið 6:7, 8.

Undirrót vandans

13. (a) Hvernig kviknar oft girndin sem er undanfari rangrar breytni? (b) Sjónarmið hvers þurfum við að þekkja til að vita hvað er „vondur félagsskapur“? (c) Svaraðu spurningunum í 13. grein og dragðu fram sjónarmið Jehóva.

13 Hvar er algengt að vandamálin eigi upptök sín? Í Biblíunni segir: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ ( Jakobsbréfið 1:14, 15) Hvað kveikir girndina? Það sem fer inn í hugann. Oft má rekja það til félagsskapar við fólk sem fer ekki eftir meginreglum Biblíunnar. Við vitum auðvitað öll að við eigum að forðast ‚vondan félagsskap‘. (1. Korintubréf 15:33) En hvaða félagsskapur er vondur? Hvernig lítur Jehóva á það? Með því að velta fyrir okkur eftirfarandi spurningum og fletta upp á ritningarstöðunum ættum við að komast að réttri niðurstöðu.

 Er fólk, sem virðist vera prýðisfólk, alltaf góður félagsskapur? (1. Mósebók 34:1, 2, 18, 19)

 Getur tal annarra og ef til vill brandarar gefið til kynna hvort þeir séu heppilegur félagsskapur? (Efesusbréfið 5:3, 4)

 Hvernig myndi Jehóva líta á það ef við ættum náinn félagsskap við fólk sem elskar hann ekki? (2. Kroníkubók 19:1, 2)

 Af hverju þurfum við að vera varkár í umgengni við vinnufélaga eða skólasystkini sem eru ekki sömu trúar og við? (1. Pétursbréf 4:3, 4)

 Hægt er að eiga félagsskap við aðra með því að horfa á sjónvarp og kvikmyndir, nota Netið og lesa bækur, tímarit og dagblöð. Hvers konar efni þurfum við að vara okkur á? (Orðskviðirnir 3:31; Jesaja 8:19; Efesusbréfið 4:17-19)

 Hvernig getur Jehóva séð af vinahópi okkar hvers konar manneskjur við erum? (Sálmur 26:1, 4, 5; 97:10)

14. Hvaða stórfenglega frelsi bíður þeirra sem fara dyggilega eftir orði Guðs núna?

14 Nýr heimur Guðs er rétt fram undan. Himneskt ríki hans mun leysa mannkynið undan áhrifum Satans og hins illa heims sem hann ræður yfir. Smám saman losna hlýðnir menn við öll áhrif syndarinnar og þeir verða fullkomnir á líkama og huga. Þá getum við lifað að eilífu í paradís. Allt sköpunarverkið mun að lokum njóta frelsis sem er í einu og öllu í samræmi við ‚anda Drottins‘ Jehóva. (2. Korintubréf 3:17) Væri nokkurt vit í því að stofna öllu þessu í hættu með því að hunsa leiðbeiningar Biblíunnar? Með því að beita kristnu frelsi okkar viturlega núna getum við sýnt ótvírætt að við þráum að njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna“. — Rómverjabréfið 8:21.

Til upprifjunar

• Hvers konar frelsis nutu fyrstu hjónin? Hvernig er það í samanburði við lífið eins og það er núna?

• Hvers konar frelsi hafa sannkristnir menn? Hvernig er það ólíkt því sem heimurinn kallar frelsi?

• Af hverju er mikilvægt að forðast vondan félagsskap? Hvern látum við ákveða fyrir okkur hvað sé illt, ólíkt því sem Adam gerði?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 46]

Í orði Guðs segir: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“