Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga

Fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga

21. kafli

Fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga

1, 2. (a) Hvaða fyrirætlun hefur Jehóva með allar vitibornar sköpunarverur sínar? (b) Hverjir tilheyrðu sameinaðri fjölskyldu þeirra sem tilbáðu Guð?

 ÞAÐ er hin háleita fyrirætlun Jehóva að allar vitibornar sköpunarverur séu sameinaðar í tilbeiðslu á honum og njóti dýrðarfrelsis sem börn hans. Þetta er líka ósk allra sem elska réttlætið.

2 Jehóva byrjaði að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd þegar hann hóf sköpunarstarf sitt. Fyrsta sköpunarverkið var sonur sem hefur, frá því að hann var reistur upp, verið kallaður „ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans“. (Hebreabréfið 1:1-3) Þessi sonur var einstakur að því leyti að Guð stóð einn að sköpun hans. Það var síðan fyrir atbeina þessa sonar sem allir aðrir voru skapaðir, fyrst englarnir á himni og síðan mennirnir á jörð. (Jobsbók 38:7; Lúkas 3:38) Saman mynduðu þeir eina alheimsfjölskyldu. Jehóva var Guð þeirra allra, ástríkur faðir og alheimsdrottinn.

3. (a) Hvað erfðum við öll frá Adam og Evu? (b) Hvað gerði Jehóva fyrir afkomendur Adams?

3 Adam og Eva, foreldrar mannkyns, voru rekin út úr Eden þegar þau syndguðu að yfirlögðu ráði og voru dæmd til dauða. Guð afneitaði þeim og þau tilheyrðu ekki lengur alheimsfjölskyldu hans. (1. Mósebók 3:22-24; 5. Mósebók 32:4, 5) Við erum öll afkomendur þeirra og höfum því frá fæðingu tilhneigingu til að syndga. En Jehóva vissi að sumir af afkomendum þeirra myndu elska réttlætið. Hann gerði því í kærleika sínum ráðstafanir til að þeir gætu hlotið ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. — Rómverjabréfið 8:20, 21.

Ísraelsmenn glata forréttindum sínum

4. Hvaða tækifæri veitti Jehóva Ísraelsmönnum forðum daga?

4 Um 2500 árum eftir að Adam var skapaður veitti Jehóva vissum mönnum tækifæri til að eiga sérstakt samband við sig. Hann útvaldi Ísraelsmenn og gaf þeim lögmál sitt. (1. Mósebók 12:1, 2) Hann gerði þá að þjóð og þeir þjónuðu mikilvægu hlutverki í fyrirætlun hans. (5. Mósebók 14:1, 2; Jesaja 43:1) En þeir voru eftir sem áður í fjötrum syndar og dauða og nutu ekki þess dýrlega frelsis sem Adam og Eva höfðu haft í upphafi vega.

5. Hvernig glötuðu Ísraelsmenn sérstöku sambandi sínu við Guð?

5 Ísraelsmenn nutu engu að síður velþóknunar Guðs. Sú skylda hvíldi á þeim að virða Jehóva sem föður og vinna í samræmi við fyrirætlun hans. Jesús lagði áherslu á að það væri mikilvægt að þeir ræktu þessa skyldu. (Matteus 5:43-48) En Ísraelsmenn gerðu það ekki. Þeir sögðu að vísu: „Einn föður eigum vér, Guð,“ en Jesús benti á að verkin og hugarfarið sýndu allt annað. (Jóhannes 8:41, 44, 47) Árið 33 nam Jehóva lögmálið úr gildi og Ísraelsmenn áttu ekki lengur sérstakt samband við hann. En þýddi það að fólk gæti aldrei notið velþóknunar Guðs?

Að safna „því, sem er á himnum“

6. Hvaða markmiði þjónar sú ákvörðun Guðs sem Páll nefnir í Efesusbréfinu 1:9, 10?

6 Páll postuli sýndi fram á að sumir menn gætu eignast sérstakt samband við Guð. Hann skrifaði til dæmis um þá ráðstöfun Guðs að þeir sem sýndu trú gætu orðið heimamenn hans: „[Guð] kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ (Efesusbréfið 1:9, 10) Jesús Kristur fer með aðalhlutverk í að framkvæma þessa ákvörðun Guðs. Fyrir atbeina Krists geta menn hlotið velþóknun Guðs. Takmarkaður fjöldi þeirra hlýtur von um að fara til himna en langtum fleiri hljóta eilíft líf á jörð.

7. Hverjir tilheyra hópnum „sem er á himnum“?

7 Í fyrstu, frá og með hvítasunnu árið 33, beindist athyglin að „því, sem er á himnum“, það er að segja að þeim sem áttu að verða samerfingjar Krists að ríkinu á himnum. Guð lýsti þá réttláta vegna trúar þeirra á fórn Jesú. (Rómverjabréfið 5:1, 2) Þegar fram liðu stundir áttu bæði Gyðingar og fólk af þjóðunum að tilheyra hópnum „sem er á himnum“, alls 144.000 manns. (Galatabréfið 3:26-29; Opinberunarbókin 14:1) Af þeim eru aðeins fáir eftir á jörðinni.

Að safna „því, sem er á jörðu“

8. Hverjir tilheyra hópnum „sem er á jörðu“ og hvernig samband eiga þeir við Jehóva?

8 Samkvæmt ákvörðun Guðs er einnig verið að safna „því, sem er á jörðu“. Milljónir manna hafa safnast í þann hóp og eiga í vændum að lifa að eilífu á jörðinni. Þeir dýrka Jehóva og upphefja nafn hans ásamt þeim sem eftir eru af erfingjum Guðsríkis. (Jesaja 2:2, 3; Sefanía 3:9) Þeir ávarpa Jehóva líka sem „föður“ vegna þess að þeir viðurkenna að hann er uppspretta lífsins. Og þeir njóta velþóknunar hans vegna þess að þeir trúa á úthellt blóð Jesú. (Opinberunarbókin 7:9, 14) En þar sem þeir eru ófullkomnir eru þeir ekki enn þá viðurkenndir að fullu sem börn Guðs.

9. Hvaða fyrirheit fær mannkynið í Rómverjabréfinu 8:21?

9 Þeir sem eiga jarðneska von bíða með óþreyju þess tíma þegar mennirnir verða leystir úr „ánauð forgengileikans“. (Rómverjabréfið 8:21) Þetta lausnarferli hefst eftir að Kristur og himneskar hersveitir hans leiða þrenginguna miklu til lykta í stríðinu við Harmagedón. Þá verður illum heimi Satans gereytt og við tekur öll sú blessun sem þúsundáraríkið í höndum Krists hefur í för með sér. — Opinberunarbókin 19:17-21; 20:6.

10. Hvaða lofsöng munu þjónar Jehóva syngja?

10 Það verður einstaklega gleðilegt fyrir þjóna Jehóva um alla jörðina að taka undir með þjónum hans á himnum sem syngja fagnandi: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ (Opinberunarbókin 15:3, 4) Já, allir þjónar Jehóva munu tilbiðja hinn eina sanna Guð í sameiningu. Hinir dánu verða meira að segja reistir upp og þeir fá tækifæri til að lofa Jehóva ásamt hinum. — Postulasagan 24:15.

Unaðslegt frelsi fram undan

11. Hvaða unaðslega frelsis munu menn njóta eftir þrenginguna miklu?

11 Eftir að illskan hefur verið upprætt af jörðinni í þrengingunni miklu og Harmagedónstríðinu verður Satan djöfullinn ekki lengur „guð þessarar aldar“. Dýrkendur Jehóva þurfa ekki lengur að berjast gegn illum áhrifum Satans. (2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 20:1, 2) Engin fölsk trúarbrögð verða til sem gefa ranga mynd af Jehóva eða sundra mannlegu samfélagi. Þjónar Guðs þurfa ekki lengur að búa við óréttlæti og arðrán af hendi yfirvalda. Það verður unaðslegt frelsi.

12. Hvernig verða allir leystir undan syndinni og áhrifum hennar?

12 Jesús, „Guðs lamb, sem ber synd heimsins“, mun nota andvirði fórnar sinnar til að þurrka út syndir mannkyns. (Jóhannes 1:29) Þegar Jesús var á jörð fyrirgaf hann manni syndir hans og sannaði það með því að lækna hann. (Matteus 9:1-7; 15:30, 31) Í hlutverki sínu sem himneskur konungur Guðsríkis mun hann sömuleiðis vinna það kraftaverk að lækna blinda, mállausa, heyrnarlausa, þá sem eru fatlaðir, eiga við geðræn vandamál að stríða eða eru haldnir öðrum sjúkdómum. (Opinberunarbókin 21:3, 4) „Lögmál syndarinnar“ verður að engu gert svo að hugsanir og verk hlýðinna þjóna Guðs verða sjálfum þeim og honum að skapi. (Rómverjabréfið 7:21-23) Þegar þúsund árin eru á enda verða þeir allir orðnir fullkomnir eftir mynd hins eina sanna Guðs, líkir honum. — 1. Mósebók 1:26.

13. Hvað gerir Kristur þegar þúsundáraríkið er á enda og af hverju?

13 Þegar Kristur hefur veitt mönnum fullkomleika afhendir hann föðurnum að nýju það umboð sem hann fékk til þessa hlutverks. „Hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.“ (1. Korintubréf 15:24, 25) Þúsundáraríkið hefur náð tilgangi sínum í einu og öllu þannig að það er ekki lengur þörf á að þessi umboðsstjórn hafi milligöngu milli Jehóva og manna. Og þar sem synd og dauði verða liðin tíð og búið að endurleysa mannkynið er ekki lengur þörf fyrir Jesú sem lausnara. Í Biblíunni segir: „Þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.“ — 1. Korintubréf 15:28.

14. Hvað verða allir fullkomnir menn látnir gera og hvers vegna?

14 Eftir þetta verður fullkomnum mönnum gefið tækifæri til að sýna að þeir kjósi að þjóna hinum eina sanna Guði að eilífu. En áður en Jehóva tekur þá fullkomlega að sér sem börn sín lætur hann þá gangast undir lokapróf. Satan og illu öndunum verður sleppt úr undirdjúpinu. Það verður ekki til varanlegs tjóns fyrir nokkurn sem elskar Jehóva í sannleika. En þeir sem eru ekki trúir Guði heldur óhlýðnast honum verða afmáðir endanlega ásamt fyrsta uppreisnarseggnum og illu öndunum. — Opinberunarbókin 20:7-10.

15. Í hvaða stöðu verða allar vitibornar sköpunarverur Jehóva á nýjan leik?

15 Eftir þetta ættleiðir Jehóva sem börn sín alla fullkomna menn sem styðja drottinvald hans í lokaprófinu. Þaðan í frá njóta þeir að fullu dýrðarfrelsis Guðs barna og tilheyra alheimsfjölskyldu hans. Allar vitibornar sköpunarverur á himni og jörð verða aftur sameinaðar í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði. Fyrirætlun Jehóva hefur þá náð fullkomlega fram að ganga. Langar þig til að tilheyra þessari hamingjusömu og eilífu alheimsfjölskyldu? Þá hvetjum við þig til að hafa hugföst orðin í 1. Jóhannesarbréfi 2:17: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“

Til upprifjunar

• Hvers konar samband áttu allir dýrkendur Jehóva við hann fyrir uppreisnina í Eden?

• Hvaða ábyrgð hvílir á þeim sem þjóna Jehóva?

• Hverjir eiga eftir að verða börn Guðs og hvernig tengist það fyrirætlun hans um sameinaða tilbeiðslu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 190]

Hlýðnir menn hljóta eilíft líf í paradís sem teygir sig um allan heim.