„Hafið brennandi kærleika hver til annars“
16. kafli
„Hafið brennandi kærleika hver til annars“
1. Hverju tekur fólk oft eftir þegar það kemur í fyrsta sinn á samkomu hjá Vottum Jehóva?
MARGIR, sem koma á samkomu hjá Vottum Jehóva í fyrsta sinn, minnast á kærleikann sem þeir finna fyrir. Þeir finna hann í hlýlegum móttökum sem þeir fá og hlýlegu andrúmslofti í söfnuðinum. Gestir á fjölmennum mótum hjá okkur nefna það sama. Fréttamaður sagði um mót sem hann var viðstaddur: „Enginn var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þarna voru engin hróp og köll, enginn troðningur eða hrindingar. Engar formælingar eða blótsyrði. Engir grófir brandarar eða klúrt mál. Engin reykingastybba. Ekkert hnupl. Enginn kastaði dósum á grasflötina. Þetta var afar óvenjulegt.“ Allt eru þetta merki um kærleika sem „hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin“. — 1. Korintubréf 13:4-8.
2. (a) Hvernig ætti kærleikur okkar að þroskast? (b) Hvers konar kærleika þurfum við að þroska með okkur að fyrirmynd Jesú?
2 Bróðurást er aðalsmerki sannkristins manns. (Jóhannes 13:35) Þegar við þroskumst í trúnni lærum við að tjá kærleika okkar enn betur. Páll postuli bað þess að kærleikur trúsystkina hans mætti aukast „enn þá meir og meir“. (Filippíbréfið 1:9) Jóhannes postuli nefndi að kærleikurinn ætti að vera fórnfús. Hann skrifaði: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.“ (1. Jóhannesarbréf 3:16; Jóhannes 15:12, 13) Værum við tilbúin til að láta lífið fyrir trúsystkini okkar? Að öllum líkindum þurfum við aldrei að gera það. En í hvaða mæli erum við fús til að leggja lykkju á leið okkar til að hjálpa þeim, jafnvel þegar stendur illa á hjá okkur?
3. (a) Hvernig getum við sýnt kærleika í enn ríkari mæli? (b) Af hverju er mikilvægt að hafa brennandi kærleika hvert til annars?
3 Auk þess að sýna fórnfýsi í verki þurfum við að láta okkur þykja vænt um trúsystkini okkar. Við erum hvött til þess í orði Guðs. „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð,“ segir þar. (Rómverjabréfið 12:10) Öllum þykir vænt um einhverja. En er hægt að læra að láta sér þykja vænt um fleiri? Eftir því sem dregur nær endi þessa gamla heims er æ mikilvægara að styrkja böndin við trúsystkini okkar. „Endir allra hluta er í nánd,“ segir í Biblíunni. „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ — 1. Pétursbréf 4:7, 8.
Þegar árekstrar verða
4. (a) Af hverju getur komið til árekstra milli fólks í söfnuðinum? (b) Hvað gott getur hlotist af því að fara eftir ráðum Biblíunnar þó að okkur gæti fundist það erfitt?
4 Eins lengi og við erum ófullkomin gerist það af og til að við móðgum eða særum aðra með einhverjum hætti. Og trúsystkini okkar gera eflaust eitthvað á hlut okkar líka. (1. Jóhannesarbréf 1:8) Hvað áttu að gera ef eitthvað slíkt hendir? Biblían gefur leiðbeiningar um það. Þær fara hins vegar ekki alltaf saman við tilhneigingar ófullkominna manna. (Rómverjabréfið 7:21-23) En með því að gera okkar besta til að fylgja ráðum Biblíunnar sýnum við að okkur langar í einlægni til að þóknast Jehóva. Og þannig styrkjum við líka kærleika okkar til annarra.
5. Af hverju ættum við ekki að svara í sömu mynt ef einhver móðgar okkur eða særir?
5 Stundum reynir fólk að ná sér niðri á þeim sem hefur móðgað það eða sært. En það gerir bara illt verra. Ef þörf er á einhverju endurgjaldi ættum við að láta það vera í höndum Guðs. (Orðskviðirnir 24:29; Rómverjabréfið 12:17-21) Sumir reyna ef til vill að eiga sem minnst samskipti við þann sem gerði á hlut þeirra. Það ættum við hins vegar ekki að gera þegar trúsystkini eiga í hlut vegna þess að velþóknun Guðs er að nokkru leyti undir því komin að við elskum trúsystkini okkar. (1. Jóhannesarbréf 4:20) Páll postuli skrifaði: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ (Kólossubréfið 3:13) Geturðu gert þetta?
6. (a) Hve oft ættum við að fyrirgefa trúsystkini? (b) Hvað auðveldar okkur að bregðast rétt við þegar einhver gerir á hlut okkar?
6 En segjum nú að einhver geri á hlut þinn æ ofan í æ, en þó ekki svo alvarlega að það gæti komið til þess að honum yrði vikið úr söfnuðinum. Pétur postuli hugsaði sér að það mætti fyrirgefa „svo sem sjö sinnum“ þegar um minni háttar syndir væri að ræða. Jesús sagði hins vegar: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ Hann benti síðan á hve gríðarlega skuld við ættum Guði að gjalda í samanburði við það sem menn gætu skuldað okkur. (Matteus 18:21-35) Við syndgum daglega gegn Guði á ýmsan hátt — í orðum eða hugsun, með því að gera eitthvað í eigingirni eða með því að gera ekki eitthvað sem við eigum að gera. Oft áttum við okkur ekki einu sinni á því að við erum að gera rangt. (Rómverjabréfið 3:23) En Guð er miskunnsamur við okkur. (Sálmur 103:10-14; 130:3, 4) Hann ætlast til þess að við gerum hið sama í samskiptum hvert við annað. (Matteus 6:14, 15; Efesusbréfið 4:1-3) Þá sýnum við kærleika sem „er ekki langrækinn“. — 1. Korintubréf 13:4, 5; 1. Pétursbréf 3:8, 9.
7. Hvað ættum við að gera ef einhver í söfnuðinum hefur eitthvað á móti okkur?
7 Sú staða getur komið upp að við verðum þess áskynja að einhver í söfnuðinum hefur eitthvað á móti okkur þó að við berum engan kala til hans. Við gætum ákveðið að láta ‚kærleikann hylja það‘ eins og lagt er til í 1. Pétursbréfi 4:8. En við gætum líka talað við hann að fyrra bragði og reynt að koma á góðum samskiptum á nýjan leik. — Matteus 5:23, 24.
8. Hvað er til ráða ef trúsystkini gerir eitthvað sem angrar okkur?
8 Hugsanlegt er að trúbróðir geri eitthvað sem angrar bæði þig og aðra. Væri þá ekki ráðlegt að ræða við hann? Ef til vill. Vel má vera að það skili góðum árangri að útskýra málið fyrir honum á vinsamlegan hátt. En fyrst ættirðu að spyrja þig hvort hann sé að gera eitthvað sem stangast á við Biblíuna. Eða er málið aðallega það að ég er af öðrum uppruna en hann? Gættu þess að setja þér ekki viðmið eftir eigin höfði og dæma svo aðra eftir þeim. (Jakobsbréfið 4:11, 12) Jehóva er óhlutdrægur. Hann tekur við fólki af alls konar uppruna og sýnir því þolinmæði meðan það er að þroskast í trúnni.
9. (a) Hverjir hafa það hlutverk að taka á alvarlegum syndum innan safnaðarins? (b) Í hvaða tilfelli á sá sem syndgað er gegn að stíga fyrsta skrefið og hvert á að vera markmið hans?
9 Ef einhver í söfnuðinum gerir sig sekan um alvarlega synd, svo sem siðleysi, ætti að bregðast skjótt við. Það er hlutverk öldunganna að taka á slíkum málum. (Jakobsbréfið 5:14, 15) En ef einhver syndgar gegn öðrum einstaklingi, til dæmis í viðskiptum eða með skaðlegu tali, þá ætti sá sem syndgað var gegn að reyna fyrst að tala einslega við hinn brotlega. (Matteus 18:15) Ef það dugir ekki þarf málið að ganga lengra eins og útlistað er í Matteusi 18:16, 17. Ef við elskum trúbróður okkar og langar til að endurheimta hann reynum við að höfða til hjarta hans. — Orðskviðirnir 16:23.
10. Hvað hjálpar okkur að sjá hlutina í réttu ljósi þegar einhver gerir eitthvað rangt?
10 Ef einhver gerir eitthvað rangt, hvort sem það er í stóru eða smáu, er alltaf gott að reyna að skilja hvernig Jehóva hugsar. Hann er ekki sáttur við synd af nokkru tagi og þegar hann telur það tímabært fjarlægir hann úr söfnuði sínum þá sem stunda grófar syndir en iðrast ekki. En gleymum ekki að við syndgum öll í einhverju smáu og erum háð miskunn hans og langlyndi. Þannig gefur Jehóva okkur fordæmi sem við eigum að líkja eftir þegar aðrir gera á hlut okkar. Við endurspeglum kærleika hans með því að vera miskunnsöm. — Efesusbréfið 5:1, 2.
Reyndu að láta „verða rúmgott“ hjá þér
11. Hvers vegna hvatti Páll Korintumenn til að láta „verða rúmgott“ hjá sér?
11 Páll notaði marga mánuði til að byggja upp söfnuðinn í Korintu í Grikklandi. Hann lagði sig í líma við að hjálpa trúsystkinum sínum þar og þótti innilega vænt um þau. En sum þeirra endurguldu ekki væntumþykju hans heldur voru mjög gagnrýnin. Hann hvatti þau til að láta „verða rúmgott“ hjá sér með því að sýna meiri ást og umhyggju. (2. Korintubréf 6:11-13; 12:15) Við ættum öll að hugleiða að hve miklu leyti við sýnum öðrum kærleika og reyna að gera það í enn ríkari mæli. — 1. Jóhannesarbréf 3:14.
12. Hvernig getum við átt hlýlegra samband við alla í söfnuðinum?
12 Finnst okkur erfitt að eiga hlýlegt samband við suma í söfnuðinum? Ef við leggjum okkur sérstaklega fram um að horfa fram hjá ólíkum persónuháttum annarra — eins og við viljum að þeir geri gagnvart okkur — getur það stuðlað að hlýlegri samskiptum. Við getum líka byggt upp hlýrri tilfinningar í garð annarra ef við horfum eftir kostum þeirra og einbeitum okkur að þeim. Það styrkir kærleiksböndin. — Lúkas 6:32, 33, 36.
13. Hvernig getum við leitast við að sýna öðrum í söfnuðinum meiri kærleika?
13 Því eru auðvitað takmörk sett sem við getum gert fyrir aðra. Óvíst er að við getum heilsað öllum á hverri samkomu. Við getum kannski ekki haft alla með þegar við bjóðum vinum í mat. En gætum við notað þó ekki væri nema fáeinar mínútur til að reyna að kynnast einhverjum í söfnuðinum betur? Gætum við af og til boðið einhverjum sem við þekkjum ekki mikið með okkur í boðunarstarfið?
14. Hvernig getum við sýnt brennandi kærleika þegar við erum meðal trúsystkina sem við höfum ekki hitt áður?
14 Mótin, sem söfnuðurinn heldur, bjóða upp á prýðistækifæri til að láta „verða rúmgott“ í hjörtum okkar. Hundruð eða þúsundir manna sækja mótin. Við getum ekki heilsað upp á þá alla en við getum hins vegar sýnt með hegðun okkar að við tökum velferð þeirra fram yfir eigin þægindi. Í dagskrárhléum getum við sýnt þeim áhuga með því að heilsa sumum af þeim sem eru í kringum okkur. Einn góðan veðurdag verða allir jarðarbúar bræður og systur, sameinaðir í tilbeiðslu á hinum sanna Guði og föður allra. Það verður einstaklega ánægjulegt að fá að kynnast þeim. Við gerum það ef við höfum brennandi kærleika til þeirra. Væri ekki þjóðráð að byrja strax?
Til upprifjunar
• Hvað ættu kristnir einstaklingar að gera þegar árekstrar verða milli þeirra og hvers vegna?
• Hvernig ætti kærleikur okkar að vaxa samhliða því að við þroskumst í trúnni?
• Hvernig er hægt að sýna fleirum en nánustu vinum brennandi kærleika?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 148]
Hægt er að sýna kristinn kærleika með ýmsum hætti, til dæmis á safnaðarsamkomum.