Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu fast við orð Guðs

Haltu fast við orð Guðs

3. kafli

Haltu fast við orð Guðs

1. (a) Hvernig kynntust Ísraelsmenn af eigin raun að orð Guðs væru áreiðanleg? (b) Af hverju er það áhugavert fyrir okkur?

 „ÞÉR skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst.“ (Jósúabók 23:14-16) Svo mælti Jósúa við öldunga Ísraels eftir að þeir höfðu sest að í fyrirheitna landinu. Fyrirheit Jehóva reyndust áreiðanleg. Frásagan af því — sem og Biblían í heild — var varðveitt til þess að við „héldum von vorri“. — Rómverjabréfið 15:4.

2. (a) Í hvaða skilningi er Biblían „innblásin af Guði“? (b) Hvaða ábyrgð fylgir því að vita að Biblían sé innblásin af Guði?

2 Um 40 menn voru notaðir til að færa Biblíuna í letur en Jehóva Guð er engu að síður höfundur hennar. Merkir það að hann hafi beinlínis stýrt öllu sem þar er skrifað? Já. Hann beitti máttugum starfskrafti sínum, heilögum anda, til þess. Páll postuli sagði réttilega: „Sérhver ritning er innblásin af Guði . . . til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ Þeir sem eru sannfærðir um það gefa gaum að orðum Biblíunnar og lifa í samræmi við boðorð hennar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 1. Þessaloníkubréf 2:13.

Hjálpaðu öðrum að meta Biblíuna

3. Hver er besta leiðin til að hjálpa mörgum sem eru ekki sannfærðir um að Biblían sé orð Guðs?

3 Margir viðmælendur okkar eru ekki sannfærðir eins og við um að Biblían sé orð Guðs. Hvernig getum við hjálpað þeim? Oft er besta aðferðin sú að opna Biblíuna og sýna þeim hvað stendur í henni. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) „Orð Guðs“ er ekki bara ævaforn saga heldur er það lifandi og kröftugt! Fyrirheit Biblíunnar nálgast uppfyllingu sína jafnt og þétt. Boðskapur hennar getur haft sterkari áhrif á dýpstu hjartarætur fólks en nokkuð sem við getum sagt frá eigin brjósti.

4. Hvað hefur breytt afstöðu margra til Biblíunnar og hvers vegna?

4 Margir hafa farið að rýna í Biblíuna eftir að hafa séð nafn Guðs í henni. Sumir ákváðu að kynna sér efni hennar þegar þeir sáu hvað hún segir um tilgang lífsins, hvers vegna Guð leyfir hið illa, hvað atburðir líðandi stundar merkja eða fyrirheit hennar um eilíft líf í paradís á jörð. Í löndum þar sem trúariðkanir hafa gert fólk berskjalda fyrir ásókn illra anda hafa margir fengið áhuga á Biblíunni eftir að hafa séð hvað hún segir um orsakirnar og um leiðina til að losna undan þessum áhrifum. Af hverju vekur þetta áhuga einlægs fólks? Af því að það er aðeins Biblían sem gefur áreiðanlegar upplýsingar um þessi mikilvægu mál. — Sálmur 119:130.

5. (a) Hver getur ástæðan verið þegar fólk segist ekki trúa Biblíunni? (b) Hvernig getum við hugsanlega hjálpað slíku fólki?

5 En hvað er til ráða ef fólk segist ekki trúa Biblíunni? Ætti það að binda enda á samtalið? Ekki ef viðmælandinn er fús til að rökræða málin. Vera má að hann líti á Biblíuna sem bók kristna heimsins. Kannski er hann neikvæður gagnvart Biblíunni af því að hann horfir á hræsni kirkjufélaga, stjórnmálaafskipti þeirra og sífellda fjáröflun. Við gætum spurt hvort það sé ástæðan. Ef til vill vaknar áhugi hans ef hann sér hvernig Biblían fordæmir veraldarvafstur kirkjufélaga og honum er bent á muninn á kristna heiminum og sannri kristni. — Míka 3:11, 12; Matteus 15:7-9; Jakobsbréfið 4:4.

6. (a) Hvað sannfærir þig um að Biblían sé orð Guðs? (b) Hvaða önnur rök má nota til að sýna fólki fram á að Biblían sé frá Guði komin?

6 Aðrir gætu haft gagn af því að ræða hreinlega um sönnunargögnin fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði. Hvað sannar fyrir þér að Biblían sé frá Jehóva Guði? Eru það skýringar hennar sjálfrar á uppruna sínum? Eða er það sú staðreynd að Biblían hefur að geyma fjölda spádóma sem vitna um nákvæma þekkingu á framtíðinni, spádóma sem hljóta að vera komnir frá æðri máttarvöldum? (2. Pétursbréf 1:20, 21) Er það kannski innra samræmi Biblíunnar þó að hún sé skrifuð af 40 mönnum á um það bil 1600 árum? Eða er það vísindaleg nákvæmni hennar sem er harla ólík öðrum ritum frá sama tíma? Eða hreinskilni ritaranna? Eða varðveisla Biblíunnar þótt lagt hafi verið ofurkapp á að eyðileggja hana? Allt sem hefur áhrif á þig getur líka haft áhrif á aðra. *

Biblíulestur

7, 8. (a) Hvernig ættum við að nýta okkur Biblíuna? (b) Hvað þurfum við að gera auk þess að lesa Biblíuna sjálf? (c) Hvernig fékkst þú skilning á fyrirætlunum Jehóva?

7 Við þurfum að taka okkur tíma til að lesa reglulega í Biblíunni, auk þess að hjálpa öðrum að trúa henni. Gerirðu það? Af öllum bókum, sem skrifaðar hafa verið, er Biblían sú mikilvægasta. Þetta merkir auðvitað ekki að það sé nóg fyrir okkur að lesa Biblíuna út af fyrir okkur. Biblían varar fólk við því að einangra sig. Við megum ekki ímynda okkur að við getum fundið svör við öllum spurningum okkar með því að rannsaka Biblíuna upp á eigin spýtur. Við þurfum bæði að stunda sjálfsnám og sækja samkomur þjóna Jehóva til að varðveita heilbrigða hugsun og góða dómgreind sem kristnir menn. — Orðskviðirnir 18:1; Hebreabréfið 10:24, 25.

8 Í Biblíunni er sagt frá eþíópskum embættismanni sem var að lesa spádóm Jesaja. Engill vísaði kristna trúboðanum Filippusi á hann. Filippus spurði manninn hvort hann skildi það sem hann var að lesa. Maðurinn svaraði auðmjúkur í bragði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ Hann bað Filippus að skýra ritningargreinina. Nú var Filippus ekki maður sem las Biblíuna út af fyrir sig og kom svo með eigin skýringar. Hann átti náið samband við söfnuð Guðs þannig að hann gat miðlað Eþíópíumanninum af fræðslunni sem Jehóva lét í té fyrir milligöngu safnaðarins. (Postulasagan 6:5, 6; 8:5, 26-35) Eins er það núna að enginn fær réttan skilning á fyrirætlunum Jehóva án aðstoðar. Við þurfum öll á þeirri hjálp að halda sem Jehóva veitir í kærleika sínum fyrir atbeina safnaðarins.

9. Hvaða biblíulestraráætlun getum við öll haft gagn af?

9 Söfnuður Jehóva gefur út vönduð rit með biblíutengdu efni til að hjálpa okkur að skilja Biblíuna. Auk þess er látin í té biblíulestraráætlun í tengslum við Boðunarskólann sem er starfræktur í öllum söfnuðum Votta Jehóva í heiminum. Það er ákaflega gagnlegt fyrir okkur að rannsaka Heilaga ritningu. (Sálmur 1:1-3; 19:8, 9) Reyndu umfram allt að lesa reglulega í Biblíunni. Þú færð góða heildarsýn yfir hana þó að þú skiljir ekki allt sem þú lest. Það er ákaflega verðmætt. Þú þarft ekki að lesa nema fjórar til fimm blaðsíður á dag til að komast yfir alla Biblíuna á einu ári.

10. (a) Hvenær lest þú í Biblíunni? (b) Hverjir aðrir ættu að taka þátt í lestrinum og af hverju er reglufesta mikilvæg?

10 Hvenær geturðu lesið í Biblíunni? Þú hefur mikið gagn af lestrinum þó að þú takir þér ekki nema 10 til 15 mínútur á dag. Ef það hentar ekki ættirðu að minnsta kosti að taka þér ákveðnar stundir í hverri viku til biblíulestrar og halda þeirri reglu. Ef þú ert í hjónabandi getið þið hjónin lesið upp úr Biblíunni hvort fyrir annað. Ef þið eigið börn, sem eru orðin læs, geta þau tekið þátt í upplestrinum. Biblíulestur ætti að vera lífsvenja, rétt eins og það að borða. Eins og þú veist kemur það niður á heilsunni ef við borðum ekki reglulega. Hið sama gildir um andlegu heilsuna og þar með eilífa lífið. Það er undir því komið að við nærumst reglulega á „hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni“. — Matteus 4:4.

Markmið okkar

11. Hvaða markmið ættum við að hafa þegar við lesum í Biblíunni?

11 Hvaða markmið ættum við að hafa þegar við lesum í Biblíunni? Það ætti ekki einungis að vera að komast yfir ákveðinn blaðsíðufjölda. Markmiðið ætti að vera að kynnast Guði betur, elska hann heitar og tilbiðja hann eins og hann vill að við gerum. (Jóhannes 5:39-42) Við ættum að hugsa eins og biblíuritarinn sem bað: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.“ — Sálmur 25:4.

12. (a) Af hverju er nákvæm þekking nauðsynleg og hvað getum við þurft að leggja á okkur til að hljóta hana? (b) Hvaða fjögur sjónarhorn geta hjálpað okkur að hugleiða það sem við lesum í Biblíunni? (Sjá mynd og texta á bls. 30.) (c) Svaraðu spurningunum í greininni og sýndu fram á hvernig gott getur verið að hugleiða efnið frá þessum sjónarhornum. Flettu upp á versunum sem er vísað í en eru ekki skrifuð út.

12 Þegar við tökum við kennslu frá Jehóva ættum við að hafa löngun til að afla okkur „fullkominnar þekkingar“. Við getum auðvitað ekki beitt orði hans rétt í lífi okkar eða útskýrt það rétt fyrir öðrum nema við höfum nákvæma þekkingu. (Kólossubréfið 3:10; 2. Tímóteusarbréf 2:15) Til að fá nákvæma þekkingu þurfum við að lesa Biblíuna vandlega, og ef efnið er þungskilið getum við þurft að lesa það oftar en einu sinni til að skilja það. Það er líka gagnlegt að gefa sér tíma til að hugleiða efnið og velta því fyrir sér frá ýmsum hliðum. Á blaðsíðu 30 er bent á fjóra þætti sem gott er að skoða. Gagnlegt getur verið að hugleiða margt í Biblíunni út frá þessum sjónarhornum, einu eða fleirum. Þú kemst að raun um það þegar þú svarar spurningunum á næstu blaðsíðum.

 (1) Oft getur það sem þú lest í Biblíunni sagt þér eitthvað um eiginleika Jehóva. Sálmur 139:13, 14 lýsir til dæmis umhyggju Jehóva fyrir hinum ófæddu: „Þú hefir . . . ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ Sköpunarverk Jehóva eru stórkostleg. Það ber vitni um kærleika hans til okkar mannanna hvernig við erum úr garði gerð.

 Jóhannes 14:9, 10 bendir á að við getum fengið skýra mynd af Jehóva þegar við lesum hvernig Jesús kom fram við fólk. Hvað lærum við þá um Jehóva þegar við lesum um atvikin sem sagt er frá í Lúkasi 5:12, 13 og Lúkasi 7:11-15?

 (2) Hugleiddu hvernig það sem þú lest tengist kjarnanum í boðskap Biblíunnar: að upphefja drottinvald Jehóva og helga nafn hans fyrir atbeina Guðsríkis í höndum Jesú Krists sem er fyrirheitna sæðið.

 Hvernig lögðu Esekíel og Daníel áherslu á kjarnann í boðskap Biblíunnar? (Esekíel 38:21-23; Daníel 2:44; 4:17; 7:9-14)

 Hvernig kemur það skýrt fram í Biblíunni að Jesús sé hið fyrirheitna sæði? (Galatabréfið 3:16)

 Hvernig nær boðskapur Biblíunnar um Guðsríki stórkostlegu hámarki eins og lýst er í Opinberunarbókinni? (Opinberunarbókin 11:15; 12:7-10; 17:16-18; 19:11-16; 20:1-3; 21:1-5)

 (3) Spyrðu þig hvernig þú getir farið eftir því sem þú lest. Við lesum til dæmis í 2. til 5. Mósebók um siðleysi og uppreisnargirni Ísraelsmanna. Við sjáum að viðhorf þeirra og hátterni hafði miður góðar afleiðingar. Okkur ætti að langa til að þóknast Jehóva með því að fara ekki að dæmi þeirra. „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:11.

 Hvaða lærdómur er fólginn í frásögunni af því þegar Kain myrti Abel? (1. Mósebók 4:3-12; Hebreabréfið 11:4; 1. Jóhannesarbréf 3:10-15; 4:20, 21)

 Eiga leiðbeiningar Biblíunnar til kristinna manna með himneska von einnig við þá sem eiga von um eilíft líf á jörð? (4. Mósebók 15:16; Jóhannes 10:16)

 Af hverju þurfum við að íhuga hvernig við getum farið enn betur eftir leiðbeiningum Biblíunnar, þó að við séum í góðu áliti í kristna söfnuðinum? (2. Korintubréf 13:5; 1. Þessaloníkubréf 4:1)

 (4) Hugleiddu hvernig þú getur notað það sem þú lest til að hjálpa öðrum. Sjúkdómar og veikindi eru alltaf áhyggjuefni. Við getum lesið með fólki það sem Jesús gerði til að sýna hvað hann á eftir að framkvæma í mun meira mæli þegar hann ríkir sem konungur Guðsríkis: „Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra . . . og hann læknaði þá.“ — Matteus 15:30.

 Hverjir gætu haft gagn af frásögunni af því þegar dóttir Jaírusar var reist upp frá dauðum? (Lúkas 8:41, 42, 49-56)

13. Hvaða gagn höfum við af reglulegum biblíulestri og námi með söfnuði Jehóva?

13 Biblíulestur verður mjög auðgandi ef við hugleiðum efnið frá þeim fjórum sjónarhornum sem hér hefur verið lýst. Það kostar vissulega átak að lesa Biblíuna en það getur orðið okkur til góðs ævilangt vegna þess að það styrkir okkar andlega mann. Við eignumst sterkara samband við ástríkan föður okkar, Jehóva, og trúsystkini okkar ef við lesum reglulega í Biblíunni. Og það hjálpar okkur að ‚halda fast við orð lífsins‘. — Filippíbréfið 2:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Í bæklingnum Bók fyrir alla menn er fjallað nánar um það hvers vegna það sé þess virði að kynna sér Biblíuna. Bæklingurinn er gefinn út af Vottum Jehóva.

Til upprifjunar

• Til hvers var Biblían skrifuð og varðveitt fram á okkar dag?

• Hvernig getum við hjálpað öðrum að skilja Biblíuna og kunna að meta hana?

• Af hverju er gagnlegt að lesa reglulega í Biblíunni? Hvaða fjögur sjónarhorn geta hjálpað okkur að ígrunda það sem við lesum?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 30]

HUGLEIDDU EFTIRFARANDI ÞEGAR ÞÚ LEST Í BIBLÍUNNI

Hvað segir þetta mér um eiginleika Jehóva?

Hvernig tengist það kjarnanum í boðskap Biblíunnar?

Hvaða áhrif ætti það að hafa á líf mitt?

Hvernig get ég notað það til að hjálpa öðrum?