Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða þýðingu hefur eining í tilbeiðslu á okkar dögum?

Hvaða þýðingu hefur eining í tilbeiðslu á okkar dögum?

1. kafli

Hvaða þýðingu hefur eining í tilbeiðslu á okkar dögum?

1, 2. (a) Hvaða hreyfing er að verki nú á tímum? (b) Hvaða björtu von eiga hjartahreinir menn?

 UM HEIM allan er að verki hreyfing sem stuðlar að sameinaðri tilbeiðslu. Hún tengir saman milljónir manna af öllum þjóðum, kynþáttum og tungum. Og þeim fjölgar ár frá ári. Í Biblíunni eru þeir kallaðir „vottar“ Jehóva og eru sagðir vera „mikill múgur“. Þeir „þjóna [Guði] dag og nótt“. (Jesaja 43:10-12; Opinberunarbókin 7:9-15) Af hverju gera þeir það? Af því að þeir hafa komist að raun um að Jehóva er hinn eini sanni Guð. Það vekur löngun hjá þeim til að laga líferni sitt að réttlátum meginreglum hans. Og þeir vita að við erum uppi á „síðustu dögum“ hins illa heims. Þeir vita líka að Guð ætlar að eyða illum heimi innan skamms og að þá tekur við nýr heimur sem verður paradís. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; 2. Pétursbréf 3:10-13.

2 Í orði Guðs er lofað: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:10, 11) „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.

3. Hvernig næst eining í tilbeiðslu?

3 Þeir sem sameinast í hreinni tilbeiðslu núna verða fyrstu íbúar hins nýja heims. Þeir hafa kynnt sér hver sé vilji Guðs og fylgja honum eins vel og þeir geta. Jesús benti á hve mikilvægt það væri þegar hann sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Jóhannes postuli skrifaði: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Hvað þýðir einingin?

4. (a) Hvað þýðir það að verið sé að safna svona mörgum til sameinaðrar tilbeiðslu? (b) Hvernig er þessari samansöfnun lýst í Biblíunni?

4 Hvað þýðir það að verið sé að safna svona mörgum til sameinaðrar tilbeiðslu? Það er glöggt merki þess að hinni illi heimur er í þann mund að líða undir lok og nýr heimur Guðs að ganga í garð. Við erum sjónarvottar að því hvernig spádómar Biblíunnar um þessa samansöfnun eru að rætast. Í einum þeirra segir: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á [hin háleita tilbeiðsla á honum], mun grundvallað verða á fjallatindi [ofar allri annarri guðsdýrkun] . . . og þangað munu lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ — Míka 4:1, 2; Sálmur 37:34.

5, 6. (a) Í hvaða skilningi streyma þjóðir til Jehóva? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

5 Engar þjóðir í heild sinni eru á leið til hins andlega tilbeiðsluhúss Jehóva. Hins vegar streyma þangað milljónir manna sem eru af alls konar þjóðerni. Þessir einstaklingar fræðast um fyrirætlun Jehóva og aðlaðandi persónuleika hans. Það snertir hjörtu þeirra og þeir leggja sig einlæglega fram um að kynna sér vilja hans. Þeir biðja eins og sálmaskáldið sem orti: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ — Sálmur 143:10.

6 Sérðu sjálfan þig í þessum fjölmenna hópi sem Jehóva er að safna saman til tilbeiðslu? Viðurkennir þú að Jehóva sé uppspretta biblíufræðslunnar sem þú hefur fengið? Sýnirðu það í verki? Að hvaða marki ætlarðu að „ganga á hans stigum“?

Hvernig er einingunni náð?

7. (a) Að hvaða marki á eftir að nást eining í tilbeiðslu? (b) Af hverju er áríðandi að tilbiðja Jehóva núna og hvernig getum við hjálpað öðrum til þess?

7 Það er ætlun Jehóva að allar skynsemigæddar sköpunarverur séu sameinaðar í sannri tilbeiðslu. Við þráum þann dag þegar allir sem lifa tilbiðja hinn eina sanna Guð. (Sálmur 103:19-22) En áður en það getur orðið þarf Jehóva að ryðja úr vegi öllum sem neita að fylgja réttlátum vilja hans. Í miskunn sinni lætur hann vita fyrir fram af því sem hann ætlar að gera þannig að allir menn hafi tækifæri til að breyta um stefnu. (Jesaja 55:6, 7) Þess vegna er „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ boðið: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Hefurðu þegið boðið? Ef svo er hefurðu það verkefni að bjóða öðrum að kynnast hinum sanna Guði og tilbiðja hann.

8. Hvað ættum við að gera eftir að hafa kynnt okkur grundvallarkenningar Biblíunnar?

8 Jehóva vill ekki fá tilbeiðslu manna sem segjast trúa á hann en halda svo áfram að sinna eigin hagsmunum. Hann vill að fólk ‚fyllist þekkingu á vilja sínum‘ og sýni það í verki. (Kólossubréfið 1:9, 10) Þeir sem kynna sér grundvallarkenningar Biblíunnar og kunna að meta þær vilja ná þroska í trúnni. Þá langar til að kynnast Jehóva nánar, fá meiri og víðtækari skilning á orði hans og fara betur eftir því. Þeir leitast við að tileinka sér eiginleika föðurins á himnum og sjá hlutina sömu augum og hann. Þetta vekur með þeim löngun til að taka þátt í því björgunarstarfi sem hann lætur vinna á jörðinni á okkar tímum. Langar þig líka til þess? — Markús 13:10; Hebreabréfið 5:12–6:3.

9. Hvernig geta þjónar Guðs verið sameinaðir?

9 Af Biblíunni má sjá að þeir sem þjóna Jehóva verða að vera sameinaðir. (Efesusbréfið 4:1-3) Og þeir þurfa að vera sameinaðir núna jafnvel þó að þeir búi í sundruðum heimi og eigi enn í baráttu við ófullkomleika sjálfra sín. Jesús bað þess að allir lærisveinar sínir yrðu eitt. Í hverju er það fólgið? Í fyrsta lagi í því að eiga gott samband við Jehóva og son hans og í öðru lagi að vera sameinaður hópur. (Jóhannes 17:20, 21) Jehóva nær fram þessu markmiði með því að fræða þjóna sína fyrir milligöngu kristna safnaðarins.

Hvað stuðlar að einingu?

10. (a) Hvað tileinkum við okkur þegar við notum Biblíuna til að leita svara við spurningum sem snerta okkur? (b) Notaðu spurningarnar í þessari tölugrein til að brjóta til mergjar hvað stuðli að einingu.

10 Hér á eftir er bent á sjö grundvallaratriði sem stuðla að einingu í tilbeiðslu. Svaraðu spurningunum sem fylgja hverjum lið og veltu fyrir þér hvaða áhrif hvert atriði hefur á samband þitt við Jehóva og við trúsystkini þín. Þú getur tileinkað þér mikilvæga eiginleika — hyggindi, mannvit og visku frá Guði — með því að hugleiða hvert atriði fyrir sig og flett upp á versunum sem vísað er í en eru ekki skrifuð út í bókinni. (Orðskviðirnir 5:1, 2; Filippíbréfið 1:9-11) Skoðum þessi atriði lið fyrir lið.

(1) Við viðurkennum rétt Jehóva til að ákveða hvað sé gott og illt. „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:5, 6.

Af hverju ættum við að leita leiðsagnar og ráða hjá Jehóva þegar við tökum ákvarðanir? (Sálmur 146:3-5; Jesaja 48:17)

(2) Við höfum orð Guðs til að leiðbeina okkur. „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

Af hverju er hættulegt að gera bara það sem okkur „finnst“ vera rétt? (Orðskviðirnir 14:12; Jeremía 10:23, 24; 17:9)

Hvað ættum við að gera ef við vitum ekki hvað Biblían ráðleggur í ákveðnu máli? (Orðskviðirnir 2:3-5; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17)

(3) Við nærumst öll af sömu andlegu fæðunni. „Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins.“ (Jesaja 54:13) „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn [dagur eyðingarinnar] færist nær.“ — Hebreabréfið 10:24, 25.

Hvaða blessun hljóta þeir sem nýta sér að fullu andlegu fæðuna frá Jehóva? (Jesaja 65:13, 14)

(4) Við fylgjum engum manni heldur er Jesús Kristur leiðtogi okkar. „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ — Matteus 23:8-10.

Ætti nokkur að halda að hann sé öðrum æðri? (Rómverjabréfið 3:23, 24; 12:3)

(5) Við treystum á ríki Guðs sem einu von mannkyns. „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ — Matteus 6:9, 10, 33.

Hvernig stuðlum við að einingu með því að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘? (Míka 4:3; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12)

(6) Heilagur andi kallar fram hjá tilbiðjendum Jehóva eiginleika sem eru nauðsynlegir til að þeir séu sameinaðir.Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.“ — Galatabréfið 5:22, 23, Biblían 2007.

Hvað þurfum við að gera til að ávöxtur anda Guðs nái að dafna hjá okkur? (Postulasagan 5:32)

Hvaða áhrif hefur andi Guðs á samskipti okkar við trúsystkini? (Jóhannes 13:35; 1. Jóhannesarbréf 4:8, 20, 21)

(7) Allir sem tilbiðja Jehóva boða fagnaðarerindið um ríki hans. „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

Af hvaða hvötum ættum við að taka sem mestan þátt í boðunarstarfinu? (Matteus 22:37-39; Rómverjabréfið 10:10)

11. Hvaða áhrif hefur það á okkur að fara eftir sannleika Biblíunnar?

11 Með því að tilbiðja Jehóva í sameiningu styrkjum við tengslin við hann og getum átt ánægjulegar samverustundir með trúsystkinum okkar. Í Sálmi 133:1 segir: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ Það er mikill léttir að komast burt frá heiminum, eigingirni hans, siðleysi og ofbeldi, og vera með söfnuði fólks sem elskar Jehóva og hlýðir lögum hans.

Forðumst áhrif sem valda sundrungu

12. Af hverju þurfum við að forðast það hugarfar að vilja vera óháð Guði?

12 Til að spilla ekki alþjóðlegri einingu okkar þurfum við að forðast hvaðeina sem veldur sundrungu. Dæmi um slíkt er það að vilja vera óháð Guði og lögum hans. Jehóva hjálpar okkur að forðast þetta hugarfar með því að afhjúpa frumkvöðul þess, Satan djöfulinn. (2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:9) Það var Satan sem fékk Adam og Evu til að hunsa það sem Guð hafði sagt og taka ákvarðanir sem gengu gegn vilja Guðs. Þetta varð þeim og okkur til mikillar ógæfu. (1. Mósebók 3:1-6, 17-19) Heimurinn er gagnsýrður því hugarfari að menn eigi að vera óháðir Guði og lögum hans. Við þurfum því að halda aftur af þessari tilhneigingu hjá okkur.

13. Hvað bendir til þess að við séum í einlægni að búa okkur undir að lifa í réttlátum nýjum heimi Guðs?

13 Tökum sem dæmi hið hrífandi fyrirheit Jehóva um að nýr heimur og ný jörð „þar sem réttlæti býr“ komi í stað hins illa heims sem nú er. (2. Pétursbréf 3:13) Ætti það ekki að vera okkur hvöt til að fara að búa okkur undir þann tíma þegar réttlætið ræður ríkjum? Til að gera það þurfum við að fara eftir skýrri hvatningu Biblíunnar: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15) Þess vegna forðumst við anda heimsins — sjálfstæðisviðhorf hans, magnaða sjálfselsku, siðleysi og ofbeldi. Við temjum okkur að hlusta á Jehóva og hlýða honum af heilum hug, þó svo að það sé í ófullkomnu eðli okkar að gera annað. Líf okkar í heild vitnar um að hugsun okkar og áhugahvatir beinist að því að gera vilja Guðs. — Sálmur 40:9.

14. (a) Af hverju er mikilvægt að grípa tækifærið núna til að kynnast vilja Jehóva og fara eftir honum? (b) Hvað þýða biblíuversin í greininni fyrir okkur hvert og eitt?

14 Þegar tíminn rennur upp mun Jehóva ekki draga það á langinn að eyða illum heimi og öllum sem aðhyllast líferni heimsins. Hann ætlar ekki að fresta því. Hann ætlar ekki að breyta mælikvarða sínum til að koma til móts við þá sem eru að kynna sér vilja hans og fara eftir honum með hálfum huga en reyna jafnframt að halda í hátterni heimsins. Núna er nauðsynlegt að láta verkin tala! (Lúkas 13:23, 24; 17:32; 21:34-36) Það er einkar ánægjulegt að sjá múginn mikla grípa þetta einstæða tækifæri og þiggja fræðsluna sem Jehóva veitir fyrir atbeina Biblíunnar og safnaðarins. Það er hrífandi að sjá þennan mikla fjölda ganga sameinaðan á vegum hans í átt til nýja heimsins. Og því betur sem við kynnumst Jehóva því heitar elskum við hann og þráum að þjóna honum.

Til upprifjunar

• Hver er ætlun Jehóva varðandi tilbeiðslu?

• Hvað ættum við að gera eftir að hafa kynnt okkur grundvallarkenningar Biblíunnar?

• Hvað getum við gert, hvert og eitt, til að vera sameinuð öðrum sem tilbiðja Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

‚Hinir hógværu fá jörðina til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.‘