Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig stjórnar Jehóva söfnuði sínum?

Hvernig stjórnar Jehóva söfnuði sínum?

14. kafli

Hvernig stjórnar Jehóva söfnuði sínum?

1. Hvaða upplýsingar eru gefnar í Biblíunni um alheimssöfnuð Jehóva og af hverju eru þær mikilvægar fyrir okkur?

 Í BIBLÍUNNI kemur fram að Guð eigi sér alheimssöfnuð. Þar er okkur gefin örlítil innsýn í himneskan hluta þessa mikla safnaðar. (Esekíel 1:1, 4-14; Daníel 7:9, 10, 13, 14) Þó að himneski hlutinn sé ósýnilegur hefur hann mikil áhrif á dýrkendur Jehóva nú á tímum. (2. Konungabók 6:15-17) En söfnuður Jehóva á sér líka sýnilegan hluta hér á jörð. Biblían skýrir hver þessi söfnuður er og hvernig Jehóva stjórnar honum og leiðbeinir.

Sýnilegi hlutinn

2. Hvaða nýja söfnuð myndaði Guð?

2 Ísraelsmenn voru söfnuður Guðs í 1545 ár. (Postulasagan 7:38) En þeir héldu ekki lög Guðs og höfnuðu syni hans. Þar af leiðandi hafnaði Jehóva þessum söfnuði og sneri baki við honum. Jesús sagði Gyðingum: „Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:38) Guð myndaði síðan nýjan söfnuð og gerði við hann nýjan sáttmála. Í þessum söfnuði áttu að vera 144.000 einstaklingar sem Guð myndi útvelja til að vera með syni sínum á himnum. — Opinberunarbókin 14:1-4.

3. Hvað gerðist á hvítasunnu árið 33 sem var skýrt merki um að Guð hefði útvalið nýjan söfnuð?

3 Þeir fyrstu, sem tilheyrðu nýja söfnuðinum, voru smurðir með heilögum anda Jehóva á hvítasunnu árið 33. Við lesum eftirfarandi um þennan merkisatburð: „Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda.“ (Postulasagan 2:1-4) Þannig bar andi Guðs greinilega vitni um að þetta væri sá hópur manna sem Guð ætlaði að nota til að hrinda vilja sínum í framkvæmd undir handleiðslu Jesú Krists á himnum.

4. Hverjir mynda sýnilegan söfnuð Jehóva nú á tímum?

4 Nú eru aðeins fáeinir eftir á jörðinni af hinum 144.000. En eins og spáð var í Biblíunni hefur „mikill múgur“ af ‚öðrum sauðum‘ — milljónir manna — gengið til liðs við hina andasmurðu. Góði hirðirinn Jesús hefur sameinað aðra sauði og hina andasmurðu svo að þeir eru ein hjörð í umsjón eins hirðis. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:11, 16) Þeir mynda einn sameinaðan söfnuð Jehóva hér á jörð.

Guð fer með stjórnina

5. Hver stjórnar söfnuði Guðs og hvernig?

5 Heitið „söfnuður lifanda Guðs“, sem notað er í Biblíunni, vitnar um að það sé Jehóva Guð sem stjórnar söfnuðinum. Jehóva leiðbeinir þjónum sínum fyrir atbeina Jesú, sem hann hefur skipað höfuð safnaðarins, og fyrir atbeina Biblíunnar sem er innblásið orð hans. — 1. Tímóteusarbréf 3:14, 15; Efesusbréfið 1:22, 23; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

6. (a) Hvernig birtist handleiðsla af himni ofan á fyrstu öld? (b) Hvað sýnir að Jesús er enn þá höfuð safnaðarins?

6 Þessi handleiðsla var mjög greinileg á hvítasunnu árið 33. (Postulasagan 2:14-18, 32, 33) Hún sýndi sig þegar engill Jehóva sá til þess að fagnaðarerindið bærist til Afríku. Hún var greinileg þegar rödd Jesú heyrðist af himni og Sál frá Tarsus snerist til trúar. Og hún leyndi sér ekki þegar Pétur tók að boða fagnaðarerindið meðal heiðinna manna. (Postulasagan 8:26, 27; 9:3-7; 10:9-16, 19-22) En að því kom að raddir hættu að heyrast af himni, englar hættu að birtast mönnum og náðargáfur andans liðu undir lok. Jesús hafði engu að síður sagt: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:20; 1. Korintubréf 13:8) Vottar Jehóva viðurkenna forystu Jesú nú á tímum. Án hennar væri ekki hægt að boða fagnaðarerindið sökum þeirrar miklu andstöðu sem við er að etja.

7. (a) Hverjir mynda hinn ‚trúa og hyggna þjón‘? Rökstyddu svarið. (b) Hvaða verkefni fékk þjónninn?

7 Skömmu áður en Jesús dó sagði hann lærisveinunum að hann myndi útvelja ‚trúan og hygginn þjón‘ og fela honum sérstakt ábyrgðarstarf. Þessi þjónn átti að vera á vettvangi þegar Jesús stigi upp til himna og hann átti að vera önnum kafinn þegar Jesús kæmi aftur sem ósýnilegur konungur Guðsríkis. Enginn einn maður getur samsvarað þessari lýsingu en hún á aftur á móti vel við andasmurðan söfnuð Krists. Jesús keypti söfnuðinn með blóði sínu og talaði síðan um hann sem þjón sinn. Hann fól söfnuðinum að gera menn að lærisveinum og gefa þeim „mat á réttum tíma“ með því að færa þeim andlega fæðu jafnt og þétt. — Matteus 24:45-47; 28:19; Jesaja 43:10; Lúkas 12:42; 1. Pétursbréf 4:10.

8. (a) Hvaða verkefni hefur þjónninn með höndum núna? (b) Af hverju er mikilvægt að taka við fræðslunni sem Guð veitir eftir þeirri boðleið sem hann hefur valið?

8 Húsbóndinn sneri aftur ósýnilegur árið 1914 og komst þá að raun um að þjónninn sinnti starfi sínu af trúmennsku. Staðreyndir sýna að árið 1919 voru þjóninum falin aukin verkefni. Síðan þá hefur ríki Guðs verið boðað um allan heim. Verið er að safna saman miklum múgi fólks sem tilbiður Jehóva og á í vændum að komast gegnum þrenginguna miklu. (Matteus 24:14, 21, 22; Opinberunarbókin 7:9, 10) Þetta fólk þarf líka að fá andlega fæðu og þjónninn sér um að bera hana fram. Til að þóknast Jehóva þurfum við sem sagt að taka við kennslunni sem hann veitir eftir þessari boðleið og breyta í samræmi við hana.

9, 10. (a) Hvernig var skorið úr kenningarlegum álitamálum á fyrstu öld og hvernig var boðun fagnaðarerindisins stjórnað? (b) Hvernig er umsjóninni með starfi þjóna Jehóva háttað nú á dögum?

9 Stundum koma upp spurningar um kenningar og aðferðir. Hvað gerist þá? Í 15. kafla Postulasögunnar segir frá því hvernig skorið var úr deilu um heiðingja sem tekið höfðu trú. Málinu var vísað til postulanna og öldunganna í Jerúsalem sem mynduðu stjórnandi ráð safnaðarins. Guð notaði þessa menn þótt þeir væru ekki fullkomnir. Þeir skoðuðu það sem hægt var að lesa um málið í Ritningunni og ræddu hvernig andi Guðs hafði stuðlað að því að byrjað var að boða fagnaðarerindið meðal heiðinna manna. Síðan felldu þeir úrskurð sinn. Guð blessaði þetta fyrirkomulag. (Postulasagan 15:1-29; 16:4, 5) Hið stjórnandi ráð gerði síðan út sendiboða til að styrkja boðun fagnaðarerindisins.

10 Stjórnandi ráð safnaðar Jehóva nú á dögum er skipað andasmurðum bræðrum frá ýmsum löndum. Það hefur aðsetur við aðalstöðvar Votta Jehóva. Undir forystu Jesú Krists vinnur hið stjórnandi ráð að framgangi sannrar tilbeiðslu í öllum löndum heims, og samræmir starfsemi safnaðanna sem eru nú rúmlega hundrað þúsund talsins. Þeir sem sitja í þessu ráði eru sama sinnis og Páll postuli sem skrifaði trúsystkinum sínum: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.“ — 2. Korintubréf 1:24.

11. (a) Hvernig eru öldungar og safnaðarþjónar útnefndir? (b) Af hverju ættum við að vinna vel með öldungum og safnaðarþjónum?

11 Vottar Jehóva um allan heim treysta hinu stjórnandi ráði til að veita hæfum bræðrum umboð til að útnefna öldunga og safnaðarþjóna til að annast söfnuðina. Hinir útnefndu þurfa að uppfylla hæfniskröfur sem eru útlistaðar í Biblíunni en tekið er tillit til þess að allir eru ófullkomnir og gera mistök. Öldungarnir, sem mæla með að bræður séu útnefndir, og þeir sem sjá um sjálfa útnefninguna þurfa að axla mikla ábyrgð frammi fyrir Guði. (1. Tímóteusarbréf 3:1-10, 12, 13; Títusarbréfið 1:5-9) Þess vegna biðja þeir um hjálp anda Guðs og leita leiðsagnar í innblásnu orði hans. (Postulasagan 6:2-4, 6; 14:23) Við skulum sýna að við kunnum að meta þessar „gjafir“, það er að segja bræðurna sem hjálpa okkur að verða „einhuga í trúnni“. — Efesusbréfið 4:8, 11-16.

12. Hvaða hlutverk ætlar Jehóva konum í söfnuði sínum?

12 Samkvæmt Biblíunni er ætlast til að karlmenn fari með umsjón í söfnuðinum. Það er engin lítillækkun fyrir konur því að sumar þeirra eiga að erfa ríkið á himnum og konur leggja heilmikið af mörkum í boðunarstarfinu. (Sálmur 68:12) Konur eiga líka drjúgan þátt í góðum orðstír safnaðarins með því að sinna heimilum sínum af alúð. (Títusarbréfið 2:3-5) Að kenna í söfnuðinum er hins vegar hlutverk karlmanna sem eru útnefndir til þess starfs. — 1. Tímóteusarbréf 2:12, 13.

13. (a) Hvernig eru öldungar hvattir til að líta á stöðu sína? (b) Hvaða heiðurs njótum við öll?

13 Í heiminum er það svo að þeir sem gegna hárri stöðu eru taldir miklir menn en í söfnuði Guðs gildir reglan: „Sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur.“ (Lúkas 9:46-48; 22:24-26) Í Biblíunni eru öldungar hvattir til að gæta þess að drottna ekki yfir söfnuðinum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Það eru ekki aðeins fáeinir útvaldir sem hafa hlotið þann heiður að vera fulltrúar alheimsdrottins heldur fá allir vottar Jehóva, bæði karlar og konur, að tala hógværlega í nafni hans og segja fólki alls staðar frá ríki hans.

14. Svaraðu spurningunum í greininni með hjálp ritningarstaðanna.

14 Við ættum að spyrja okkur hvort við skiljum fyllilega hvernig Jehóva stjórnar söfnuðinum. Sýnum við með orðum okkar, viðhorfum og verkum að við séum ánægð með það? Eftirfarandi spurningar geta hjálpað okkur að skoða hug okkar.

 Hvað geri ég samkvæmt eftirfarandi ritningarstöðum ef ég viðurkenni í raun og veru að Kristur sé höfuð safnaðarins? (Matteus 24:14; 28:19, 20; Jóhannes 13:34, 35)

 Hverjum sýni ég virðingu þegar ég tek þakklátur við því sem hinn trúi og hyggni þjónn og hið stjórnandi ráð láta í té? (Lúkas 10:16)

 Hvernig ættu allir í söfnuðinum að koma fram hver við annan, ekki síst öldungarnir? (Rómverjabréfið 12:10)

15. (a) Hvað sýnum við með afstöðu okkar til safnaðar Jehóva? (b) Hvaða tækifæri höfum við til að sanna að Satan er lygari og til að gleðja hjarta Jehóva?

15 Jehóva notar jarðneskan söfnuð sinn undir forystu Krists til að leiðbeina okkur og stjórna. Afstaða okkar til þessa fyrirkomulags sýnir afstöðu okkar í deilunni um drottinvaldið. (Hebreabréfið 13:17) Satan fullyrðir að við hugsum fyrst og fremst um sjálf okkur. En ef við leggjum fram krafta okkar á hvern þann hátt sem þörf er á og drögum ekki óþarfa athygli að sjálfum okkur sönnum við að Satan er lygari. Við gleðjum Jehóva ef við elskum og virðum þá sem fara með forystuna á meðal okkar og forðumst að ‚smjaðra fyrir öðrum, okkur til ávinnings‘. (Júdasarbréfið 16, Biblían 2007; Hebreabréfið 13:7) Með því að styðja söfnuð Jehóva með ráðum og dáð sýnum við að Jehóva er Guð okkar og við erum sameinuð í tilbeiðslunni á honum. — 1. Korintubréf 15:58.

Til upprifjunar

• Hverjir mynda jarðneskan söfnuð Jehóva nú á dögum? Hvaða tilgangi þjónar hann?

• Hver er skipaður höfuð safnaðarins og hvaða leiðir notar hann til að stjórna okkur og leiðbeina?

• Hvaða heilbrigða viðhorf ættum við að hafa til þeirra sem mynda söfnuð Jehóva?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 133]

Jehóva stjórnar okkur og leiðbeinir fyrir atbeina safnaðarins sem lýtur forystu Krists.