Ríki „sem aldrei skal á grunn ganga“
10. kafli
Ríki „sem aldrei skal á grunn ganga“
1. Hvað hefur mannkynssagan sýnt fram á?
HEIMSMÁLIN eru dagleg áminning um að það hefur ekki verið til farsældar fyrir mennina að hafna drottinvaldi Jehóva og reyna að ráða málum sínum sjálfir. Ekkert stjórnarform manna hefur reynst mannkyni ótvírætt til hagsbóta. Þótt vísindi og þekking hafi risið hærra en nokkru sinni fyrr hefur mönnum ekki tekist að útrýma sjúkdómum eða sigrast á dauðanum. Engum hefur tekist það. Stjórn manna hefur ekki megnað að binda enda á stríð, ofbeldi, glæpi, spillingu eða fátækt. Víða um lönd býr almenningur við harðstjórn. (Prédikarinn 8:9) Tæknin, samfara græðgi og fáfræði mannanna, veldur umhverfismengun. Efnahagsleg óstjórn hefur í för með sér að margir eiga erfitt með að afla sér brýnustu nauðsynja. Yfirráð manna síðustu árþúsundir hafa sýnt, svo ekki verður um villst, að „örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. — Jeremía 10:23.
2. Hver er eina lausnin á vandamálum mannkyns?
2 Ríki Guðs er lausnin á vandamálum mannkyns. Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja þess að þetta ríki kæmi: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Í 2. Pétursbréfi er himneskt ríki Guðs kallað ‚nýr himinn‘ sem á að ríkja yfir ‚nýrri jörð‘, það er að segja réttlátu mannfélagi. Svo mikilvægt er himneskt ríki Guðs að það var inntakið í prédikun Jesú. ( 3:13Matteus 4:17) Og hann benti á hvaða áherslu við ættum að láta það hafa í lífi okkar þegar hann hvatti: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ — Matteus 6:33.
3. Af hverju er afar áríðandi að kynna sér vel hvað Guðsríki er?
3 Það er afar áríðandi að kynna sér vel hvað Guðsríki er vegna þess að það lætur bráðlega til skarar skríða og breytir stjórnkerfi jarðar til frambúðar. Í Daníel 2:44 segir: „Á dögum þessara konunga [þeirra stjórna sem eru við völd núna] mun Guð himnanna hefja ríki [á himnum], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða [menn munu aldrei framar ráða yfir jörðinni]. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ Ríki Guðs eyðir hinum illa heimi eins og hann leggur sig og þar með lýkur hinum síðustu dögum. Stjórn himnaríkis yfir jörðinni verður þá óumdeilanleg. Við getum verið innilega þakklát fyrir að þessi lausn skuli vera í nánd.
4. Hvað gerðist á himnum árið 1914 og af hverju er það þýðingarmikið fyrir okkur?
4 Jesús Kristur var settur í embætti sem konungur árið 1914 og fékk þá umboð til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna‘. (Sálmur 110:1, 2) Það ár hófust ‚síðustu dagar‘ þess illa heims sem nú er. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Þá gerðust einnig þeir atburðir á himnum sem Daníel hafði séð í spádómlegri sýn. „Hinn aldraði“, Jehóva Guð, gaf þá mannssyninum, Jesú Kristi, „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur“. Daníel heldur áfram: „Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ (Daníel 7:13, 14) Guð ætlar að gefa þeim sem unna réttlætinu tækifæri til að njóta allra þeirra gæða sem manninum voru ætluð í upphafi. Himneska ríkið í höndum Jesú Krists er leiðin til þess að hrinda því í framkvæmd.
5. Á hverju höfum við brennandi áhuga og hvers vegna?
5 Langar þig til að vera dyggur þegn Guðsríkis? Þá hefurðu eflaust brennandi áhuga á að kynna þér hvernig stjórnin á himnum er uppbyggð og hvernig hún starfar. Þig langar til að vita hvað hún er að gera núna, hverju hún mun áorka í framtíðinni og hvaða kröfur hún gerir til þín. Með því að kynna þér allt þetta lærirðu eflaust að meta stjórn Guðs mikils. Ef þú ert undirgefinn ríki Guðs ertu vel í stakk búinn til að segja öðrum frá öllu því sem það mun gera fyrir hlýðna menn. — Sálmur 48:13, 14.
Stjórnendur Guðsríkis
6. (a) Hvernig sýnir Biblían hver það er sem stendur á bak við Messíasarríkið? (b) Hvaða áhrif ætti það sem við lærum um ríki Guðs að hafa á okkur?
6 Eitt það fyrsta, sem þú uppgötvar, er að Jehóva birtir drottinvald sitt með Messíasarríkinu. Það var Jehóva sem gaf syni sínum „vald, heiður og ríki“. Eftir að sonurinn tók við konungdómi heyrðust raddir á himnum sem sögðu: „Drottinn [Jehóva Guð] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann [Jehóva] mun ríkja um aldir alda.“ (Opinberunarbókin 11:15) Allt sem við lærum um þetta ríki og það sem það mun áorka getur því styrkt tengsl okkar við Jehóva. Það sem við lærum ætti að vekja með okkur sterka löngun til að lúta alvaldi hans um alla eilífð.
7. Af hverju er það áhugavert fyrir okkur að Jehóva skuli hafa fengið Jesú Kristi umboð til að stjórna?
7 Við höfum líka hugfast að Jehóva hefur fengið Jesú Kristi umboð til að stjórna. Jesús vann með föður sínum að sköpun jarðarinnar og mannsins þannig að hann þekkir þarfir okkar betur en við gerum sjálf. Allt frá öndverðu hefur hann haft „yndi . . . af mannanna börnum“. (Orðskviðirnir 8:30, 31; Kólossubréfið 1:15-17) Svo sterk er ást hans á okkur að hann kom til jarðar í eigin persónu og gaf líf sitt sem lausnargjald fyrir okkur. (Jóhannes 3:16) Þannig opnaði hann leið til að við gætum losnað úr fjötrum syndar og dauða og átt möguleika á eilífu lífi. — Matteus 20:28.
8. (a) Af hverju er stjórn Guðs varanleg, ólíkt stjórnum manna? (b) Hvert er samband ‚trúa og hyggna þjónsins‘ við stjórnina á himnum?
8 Ríki Guðs er stöðugt og óhagganlegt. Þar sem Jehóva deyr aldrei höfum við tryggingu fyrir því að stjórn hans sé varanleg. (Habakkuk 1:12) Jesús Kristur, sem Jehóva hefur falið konungdóminn, er einnig ódauðlegur, ólíkt mennskum konungum. (Rómverjabréfið 6:9; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16) Með Kristi á himnum verða 144.000 trúir þjónar Guðs „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð“. Þeim er líka gefinn ódauðleiki. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-4; 1. Korintubréf 15:42-44, 53) Langflestir þeirra eru nú þegar komnir til himna og þeir sem eftir eru á jörð mynda ‚trúan og hygginn þjón‘ sem vinnur dyggilega að því að styrkja hag Guðsríkis á jörð. — Matteus 24:45-47.
9, 10. (a) Hvaða spillingar- og sundrungaröflum mun ríki Guðs útrýma? (b) Hvað verðum við að forðast til að teljast ekki óvinir Guðsríkis?
9 Innan skamms, á tilsettum tíma, mun Jehóva senda himneskar aftökusveitir sínar af stað til að hreinsa jörðina. Þær munu afmá þá menn sem vilja ekki viðurkenna drottinvald hans og fyrirlíta það sem hann hefur gert í kærleika sínum fyrir atbeina Jesú Krists. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Þá er dagur Jehóva runninn upp, sú langþráða stund þegar hann ver drottinvald sitt yfir alheimi. „Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að . . . afmá syndarana af henni.“ (Jesaja 13:9) „Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta.“ — Sefanía 1:15.
10 Öll falstrú verður afmáð í eitt skipti fyrir öll, og sömuleiðis allar stjórnir manna og herir þeirra sem hafa verið handbendi illra og ósýnilegra heimsdrottna. Þeir sem samsama sig þessum heimi með eigingjörnu, óheiðarlegu og siðlausu líferni munu týna lífi. Satan og illu andarnir verða læstir niðri í undirdjúpi í þúsund ár og fá ekki að hafa nein tengsl við jarðarbúa. Ríki Guðs hefur þá full og óskoruð yfirráð yfir öllum málum jarðar. Hvílíkur léttir fyrir alla sem unna réttlætinu! — Opinberunarbókin 18:21, 24; 19:11-16, 19-21; 20:1, 2.
Hvernig nær Guðsríki markmiðum sínum?
11. (a) Hvernig sér Messíasarríkið til þess að fyrirætlun Guðs með jörðina nái fram að ganga? (b) Hvað hefur ríki Guðs í för með sér fyrir þá sem byggja jörðina á þeim tíma?
11 Messíasarríkið mun sjá til þess að upphafleg fyrirætlun Guðs með jörðina nái fram að ganga. (1. Mósebók 1:28; 2:8, 9, 15) Mannkyninu hefur ekki auðnast að styðja þessa fyrirætlun enn sem komið er. ‚Hinn komandi heimur‘ verður hins vegar lagður undir Mannssoninn, Jesú Krist. Allir sem hljóta líf þegar Jehóva fullnægir dómi yfir illum heimi munu vinna saman undir stjórn konungsins Jesú. Þeir munu glaðir gera hvaðeina sem hann mælir fyrir til að jörðin geti orðið ein samfelld paradís. (Hebreabréfið 2:5-9) Allir menn njóta þá handaverka sinna og þeirra miklu gæða sem jörðin gefur af sér. — Sálmur 72:1, 7, 8, 16-19; Jesaja 65:21, 22.
12. Hvernig verða þegnar Guðsríkis fullkomnir á huga og líkama?
12 Adam og Eva voru sköpuð fullkomin og áttu að fylla jörðina afkomendum sínum. Þeir áttu allir að vera fullkomnir á huga og líkama. Þessi fyrirætlun Guðs nær fram að ganga undir stjórn ríkis hans. Áhrif syndarinnar verða þurrkuð út. Til að það geti orðið er Jesús ekki aðeins konungur heldur líka æðstiprestur. Þolinmóður mun hann hjálpa hlýðnum þegnum sínum að njóta góðs af friðþægingarfórninni sem hann færði þegar hann var hér á jörð.
13. Hvaða breytingu munu þegnar Guðsríkis finna fyrir?
13 Þegar Guðsríki hefur tekið völdin finna jarðarbúar fyrir stórkostlegri breytingu á sjálfum sér. „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 35:5, 6) Langvinnir sjúkdómar verða liðin tíð og allir verða hraustir og heilbrigðir. Hrörnun af völdum elli og veikinda víkur fyrir fullkomnum lífsþrótti. „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ (Jobsbók 33:25) Sá dagur kemur þegar enginn hefur ástæðu til að segja: „Ég er sjúkur.“ Af hverju? Af því að guðhræddir menn losna undan áþján syndarinnar og þungbærum afleiðingum hennar. (Jesaja 33:24; Lúkas 13:11-13) Guð mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
14. Hvað er fólgið í því að verða fullkominn?
14 En fullkomleiki er meira en heilbrigði á líkama og sál. Hann felur einnig í sér að endurspegla eiginleika Jehóva eins og vera ber vegna þess að maðurinn er skapaður eftir mynd Guðs. (1. Mósebók 1:26) Þetta kallar á mikla fræðslu og menntun. Nýi heimurinn á að einkennast af réttlæti. Þess vegna „læra byggjendur jarðríkis réttlæti“ eins og Jesaja spáði. (2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 26:9) Réttlæti stuðlar líka að friði milli manna af öllum kynþáttum, milli náinna félaga, innan fjölskyldunnar og síðast en ekki síst friði við Guð. (Sálmur 85:11-14; Jesaja 32:17) Þeir sem læra réttlæti verða fræddir jafnt og þétt um vilja Guðs. Kærleikurinn til Jehóva festir djúpar rætur í hjörtum þeirra svo að þeir halda boð hans á öllum sviðum lífsins. Þeir geta þá sagt eins og Jesús sagði á sínum tíma: „Ég gjöri ætíð það sem [Guði] þóknast.“ (Jóhannes 8:29) Lífið verður unaðslegt þegar hægt verður að segja þetta um alla menn.
Hverju hefur Guðsríki áorkað nú þegar?
15. Notaðu spurningarnar í greininni til að benda á hverju Guðsríki hefur áorkað og hvað við ættum að gera.
15 Ríki Guðs og þegnar þess hafa áorkað miklu nú þegar. Eftirfarandi spurningar og ritningarstaðir minna á sumt af því, og sömuleiðis á margt sem allir þegnar Guðsríkis geta gert og ættu að gera.
Gegn hverjum lét Guðsríki fyrst til skarar skríða og hvaða áhrif hafði það? (Opinberunarbókin 12:7-10, 12)
Hvaða hópi var haldið áfram að safna saman eftir að Kristur tók við konungdómi? (Opinberunarbókin 14:1-3)
Hvað sagði Jesús að hann myndi gera eftir að þrengingin mikla skylli á, samkvæmt Matteusi 25:31-33?
Hvernig er verið að undirbúa það núna? Hverjir taka þátt í því? (Sálmur 110:3; Matteus 24:14; Opinberunarbókin 14:6, 7)
Af hverju hefur pólitískum og trúarlegum andstæðingum okkar ekki tekist að stöðva boðun fagnaðarerindisins? (Sakaría 4:6; Postulasagan 5:38, 39)
Hvaða breytingar hafa orðið á lífi þeirra sem lúta stjórn Guðsríkis? (Jesaja 2:4; 1. Korintubréf 6:9-11)
Ríki sem stendur í þúsund ár
16. (a) Hve lengi ríkir Kristur? (b) Hvað gerist þegar hann hefur lokið verkefni sínu og í framhaldi af því?
16 Jesús Kristur og 144.000 samerfingjar hans ríkja sem konungar og prestar í þúsund ár eftir að Satan og illu andarnir hafa verið fjötraðir í undirdjúpinu. (Opinberunarbókin 20:6) Á því tímabili hljóta mennirnir fullkomleika en syndin og dauðinn af völdum Adams hverfa fyrir fullt og allt. Í lok þúsund áranna hefur Jesús lokið verkefni sínu sem Messías, konungur og prestur. Þá „selur [hann] ríkið Guði föður í hendur“ til að „Guð sé allt í öllu“. (1. Korintubréf 15:24-28) Satan verður þá sleppt lausum um stuttan tíma til að prófa hvort endurleyst mannkyn styðji drottinvald Jehóva yfir alheimi. Eftir að lokaprófið er afstaðið eyðir Jehóva Satan og öllum uppreisnarseggjum sem tóku afstöðu með honum. (Opinberunarbókin 20:7-10) Þeir sem styðja alvald Jehóva hafa þá sýnt honum órjúfanlega hollustu. Þeir eignast síðan réttu tengslin við Jehóva þegar hann viðurkennir þá sem syni og dætur og verðuga þess að hljóta eilíft líf. — Rómverjabréfið 8:21.
17. (a) Hvað verður um ríki Guðs við lok þúsund áranna? (b) Í hvaða skilningi mun ríki Guðs „aldrei . . . á grunn ganga“?
17 Hlutverk Jesú og hinna 144.000 gagnvart jörðinni breytist þegar hér er komið sögu. Biblían lætur ósagt hvað tekur við hjá þeim. En ef við styðjum drottinvald Jehóva dyggilega verðum við á lífi við lok þúsund áranna og þá getum við fengið að vita hvaða hlutverk Jehóva hefur ætlað þeim og alheimi öllum. En þúsundáraríki Krists verður samt „eilíft“ og „skal aldrei á grunn ganga“. (Daníel 7:14) Í hvaða skilningi? Meðal annars þeim að stjórnvaldið kemst ekki í hendur annarra aðila sem hafa önnur markmið. Valdið verður í höndum Jehóva. Og ríkið mun „aldrei . . . á grunn ganga“ vegna þess að það sem það hefur áorkað endist að eilífu. (Daníel 2:44) Konungurinn og presturinn Messías og þeir sem eru konungar og prestar með honum hljóta eilíft lof fyrir dygga þjónustu sína við Jehóva.
Til upprifjunar
• Af hverju er ríki Guðs eina lausnin á vandamálum mannkyns? Hvenær tók konungur Guðsríks við völdum?
• Hvað heillar þig mest varðandi ríki Guðs og það sem það áorkar?
• Hverju hefur Guðsríki áorkað nú þegar og hvaða hlutdeild eigum við í því?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 92, 93]
Í ríki Guðs munu allir menn læra réttlæti.