Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnum guðrækni á heimilinu

Sýnum guðrækni á heimilinu

17. kafli

Sýnum guðrækni á heimilinu

1. Hvaða áhrif hafa leiðbeiningar Biblíunnar haft á fjölda hjónabanda?

 JEHÓVA er höfundur hjónabandsins. Í orði hans, Biblíunni, er að finna bestu leiðbeiningar sem fjölskyldur geta fengið til að byggja upp farsælt fjölskyldulíf. Í samræmi við þessar leiðbeiningar hafa sumir sem bjuggu í óvígðri sambúð látið lögskrá hjónaband sitt. Aðrir hafa hætt að halda fram hjá maka sínum. Ofbeldisfullir eiginmenn, sem misþyrmdu konum sínum og börnum, hafa lært að vera mildir og blíðir. Allt er þetta hrósvert.

2. Að hverju er að hyggja þegar rætt er um kristið fjölskyldulíf?

2 Þegar rætt er um kristið fjölskyldulíf er að mörgu að hyggja. Á hjónabandið að vera varanlegt? Hvernig eigum við að rækja skyldur okkar í fjölskyldunni? Hvernig eigum við að koma fram við aðra í fjölskyldunni? (Efesusbréfið 5:33–6:4) Það er eitt að vita hvað Biblían segir um fjölskyldulíf en annað að fara eftir því. Ekkert okkar vill líkjast þeim sem Jesús fordæmdi fyrir að sniðganga boðorð Guðs. Þeir hugsuðu sem svo að það væri nóg að vera bara trúræknir. (Matteus 15:4-9) Við viljum ekki sýna einhvers konar trúrækni á yfirborðinu en gera svo allt annað innan veggja heimilisins. Nei, við viljum sýna ósvikna guðrækni sem er „mikill gróðavegur“. — 1. Tímóteusarbréf 5:4; 6:6; 2. Tímóteusarbréf 3:5.

Á hjónabandið að vera varanlegt?

3. (a) Hvernig fer fyrir mörgum hjónaböndum en hvað ættum við að vera staðráðin í að gera? (b) Notaðu Biblíuna til að svara spurningunum í lok greinarinnar.

3 Hjónabönd verða sífellt ótraustari. Oft skilur fólk eftir margra ára hjónaband og giftist öðrum. Og það er býsna algengt að ung hjón slíti samvistum eftir stutta sambúð. En hvað sem aðrir gera ætti okkur að langa til að þóknast Jehóva. Við skulum því líta á eftirfarandi spurningar og ritningarstaði til að kanna hve traust og varanlegt hjónabandið á að vera eftir því sem segir í orði Guðs.

 Hve lengi ættu karl og kona, sem stofna til hjónabands, að gera ráð fyrir að búa saman? (Markús 10:6-9; Rómverjabréfið 7:2, 3)

 Hver er eina skilnaðarástæðan sem Guð tekur gilda og gefur fólki heimild til að stofna til nýs hjónabands? (Matteus 5:31, 32; 19:3-9)

 Hvernig lítur Jehóva á hjónaskilnaði sem brjóta í bága við orð hans? (Malakí 2:13-16)

 Er mælt með því í Biblíunni að hjón leysi vandamál sín með því að slíta samvistum? (1. Korintubréf 7:10-13)

 Undir hvaða kringumstæðum getur verið réttlætanlegt að hjón slíti samvistum? (Sálmur 11:5; Lúkas 4:8; 1. Tímóteusarbréf 5:8)

4. Af hverju endast sum hjónabönd?

4 Sum hjónabönd eru farsæl og traust. Þar kemur margt til. Eitt er að stofna ekki til hjúskapar fyrr en fólk hefur náð hæfilegum þroska. Einnig er mikilvægt að velja sér maka sem hefur svipuð áhugamál og maður sjálfur og hægt er að ræða við opinskátt um allt sem máli skiptir. Það er þó enn þýðingarmeira að finna sér maka sem elskar Jehóva, virðir Biblíuna og lítur á ráð hennar sem leið til að leysa vandamál. (Sálmur 119:97, 104; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Sá sem hefur þessa afstöðu hugsar ekki sem svo að alltaf sé hægt að slíta hjónabandinu ef illa gengur. Hann notar ekki galla maka síns sem afsökun fyrir því að hlaupast undan skyldum sínum heldur horfist í augu við vandamálin og finnur nothæfar lausnir.

5. (a) Hvaða hlutverki gegnir hollusta við Jehóva í hjónabandinu? (b) Hvað getur hlotist af því að halda ákvæði Jehóva, jafnvel þegar makinn er andsnúinn trúnni?

5 Satan heldur því fram að við hættum að fylgja lögum Jehóva ef við þurfum að þjást. (Jobsbók 2:4, 5; Orðskviðirnir 27:11) Langflestir votta Jehóva, sem hafa mátt þola andstöðu frá maka sem er ekki í trúnni, hafa haldið hjúskaparheit sitt. Þeir sýna Jehóva hollustu og halda boðorð hans. (Matteus 5:37) Sumir hafa orðið þeirrar gleði aðnjótandi að makinn hefur snúist til trúar og tekið að þjóna Jehóva — jafnvel eftir áralanga andstöðu. (1. Pétursbréf 3:1, 2) Sumir þjónar Guðs búa hins vegar við það að makinn sýnir þess engin merki að hann ætli að breyta um stefnu og sumir hafa orðið fyrir því að makinn hefur yfirgefið þá vegna þess að þeir þjónuðu Jehóva. En þeir vita að Jehóva blessar þá fyrir að stunda guðrækni á heimilinu. — Sálmur 55:23; 145:16.

Bæði þurfa að leggja sitt af mörkum

6. Hvaða ákvæði þarf að virða til að hjónabandið sé farsælt?

6 Farsælt hjónaband er auðvitað annað og meira en að búa saman. Bæði hjónin þurfa að virða ákvæði Jehóva um forystu. Það stuðlar að góðri reglu og öryggistilfinningu innan veggja heimilisins. Í 1. Korintubréfi 11:3 segir: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“

7. Hvernig á að veita fjölskyldu forystu?

7 Tókstu eftir hvað var nefnt fyrst í versinu? Allir menn eiga að lúta yfirráðum Krists. Það merkir að eiginmaðurinn á að fara þannig með forystuhlutverk sitt að hann endurspegli eiginleika Jesú. Jesús er undirgefinn Jehóva, annast söfnuðinn og elskar hann innilega. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Hann „lagði sjálfan sig í sölurnar“ fyrir söfnuðinn. Jesús er hvorki hrokafullur né tillitslaus heldur „hógvær og af hjarta lítillátur“. Þeir sem lúta forystu hans „finna hvíld sálum [sínum]“. Þegar eiginmaður kemur þannig fram við fjölskyldu sína er það merki þess að hann lúti Jesú. Kristinni eiginkonu þykir eflaust gott og endurnærandi að starfa með slíkum eiginmanni og fylgja forystu hans. — Efesusbréfið 5:25-33; Matteus 11:28, 29; Orðskviðirnir 31:10, 28.

8. (a) Af hverju getur litið svo út sem biblíulegar aðferðir skili ekki árangri á heimilinu? (b) Hvað ætti að gera við slíkar aðstæður?

8 En vandamál eru samt sem áður óhjákvæmileg. Vera má að ákveðin stífni gegn forystu hafi búið um sig áður en nokkur í fjölskyldunni byrjaði að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Vingjarnleg tilmæli eða mild framkoma virðist ekki ætla að skila árangri. Við vitum að Biblían hvetur okkur til að forðast „beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli“. (Efesusbréfið 4:31) En hvað er til ráða ef einhver í fjölskyldunni virðist bara ekki skilja neitt annað? Lítum nánar á málið. Jesús líkti ekki eftir þeim sem höfðu í hótunum eða illmæltu honum heldur reiddi sig á föður sinn. (1. Pétursbréf 2:22, 23) Þegar spenna myndast á heimilinu skaltu sýna guðrækni með því að biðja Jehóva um hjálp í stað þess að taka upp háttalag heimsins. — Orðskviðirnir 3:5-7.

9. Hvað hafa margir kristnir eiginmenn lært að gera í stað þess að vera með aðfinnslur?

9 Breytingar geta tekið sinn tíma en ráðleggingar Biblíunnar virka ef farið er eftir þeim með þolinmæði og stöðuglyndi. Margir eiginmenn hafa uppgötvað að hjónabandið tók að batna þegar þeir fóru að átta sig á því hvernig Kristur kemur fram við söfnuðinn. Safnaðarmenn eru ekki fullkomnir. Jesús elskar þá engu að síður, gefur þeim gott fordæmi og notar Biblíuna til að hjálpa þeim að bæta sig. Hann lagði lífið í sölurnar fyrir söfnuðinn. (1. Pétursbréf 2:21) Fordæmi hans hefur verið mörgum kristnum eiginmönnum hvatning til að veita góða forystu og stuðla á kærleiksríkan hátt að betra hjónabandi. Það skilar miklu betri árangri en aðfinnslur eða kuldaleg þögn.

10. (a) Hvernig gæti annað hjóna — þó að það sé í trúnni — gert hinum á heimilinu erfitt fyrir? (b) Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið?

10 En hvað er til ráða ef eiginmaður er ekki vakandi fyrir tilfinningalegum þörfum annarra í fjölskyldunni eða sinnir ekki sameiginlegum umræðum um biblíuleg mál eða öðru sem fjölskyldan ætti að gera? Eða segjum að eiginkonan sé hvorki samvinnuþýð né fús til að sýna viðeigandi undirgefni? Sumir hafa náð góðum árangri með því að ræða vandann með ró og stillingu. (1. Mósebók 21:10-12; Orðskviðirnir 15:22) En jafnvel þó að árangurinn sé ekki eins góður og vonast var eftir getum við öll átt þátt í að bæta andrúmsloftið á heimilinu með því að bera ávöxt anda Guðs og vera tillitssöm við aðra í fjölskyldunni. (Galatabréfið 5:22, 23) Við bætum ekki ástandið með því að bíða eftir að hinir geri eitthvað heldur með því að leggja okkar af mörkum og sýna þar með að við séum guðrækin. — Kólossubréfið 3:18-21.

Hvar getum við leitað ráða?

11, 12. Hvaða hjálp veitir Jehóva til að gera fjölskyldulífið farsælt?

11 Víða er hægt að leita ráða um fjölskyldumál. Við vitum hins vegar að bestu ráðin er að finna í Biblíunni og erum þakklát fyrir að Jehóva skuli hjálpa okkur, fyrir atbeina safnaðarins, að fylgja þeim. Notfærir þú þér þessa aðstoð? — Sálmur 119:129, 130; Míka 4:2.

12 Hafið þið tekið frá ákveðinn tíma til að sinna sameiginlegu biblíunámi, auk þess að sækja safnaðarsamkomur? Það hjálpar fjölskyldunni að vera sameinuð í tilbeiðslu og það auðgar fjölskyldulífið að heimfæra orð Guðs á eigin aðstæður. — 5. Mósebók 11:18-21.

13. (a) Hvar má oft finna svör við spurningum sem varða fjölskylduna? (b) Hvað ættu allar ákvarðanir okkar að endurspegla?

13 Vera má að þið hafið ýmsar spurningar sem varða fjölskylduna. Hvernig á til dæmis að líta á getnaðarvarnir? Er einhvern tíma réttlætanlegt að eyða fóstri? Hve langt á að ganga í því að láta barn eða ungling, sem sýnir lítinn áhuga á trúmálum, taka þátt í trúarlífi fjölskyldunnar? Rætt hefur verið um margar af þessum spurningum í ritum Votta Jehóva. Lærðu að nota biblíunámsrit, þar á meðal efnisskrár, til að finna svörin. Ef þú átt ekki ritin, sem vísað er til í efnisskránni, geturðu leitað í bókasafni ríkissalarins. Eins má vera að þú hafir aðgang að þessum ritum í tölvutæku formi. Og auðvitað gætirðu rætt spurningar þínar við þroskað trúsystkini. En reiknaðu ekki með að fá afdráttarlaust já eða nei við öllum spurningum. Oft verður þú sjálfur að ákveða hvað þú gerir, eða þið hjónin í sameiningu. Og látið ákvarðanir ykkar bera vitni um að þið ástundið guðrækni bæði utan heimilis sem innan. — Rómverjabréfið 14:19; Efesusbréfið 5:10.

Til upprifjunar

• Hvernig er tryggð við maka sinn tengd hollustu við Jehóva?

• Hvað hjálpar okkur að gera það sem þóknast Guði þegar erfiðleikar steðja að fjölskyldunni?

• Hvað er hægt að gera til að bæta ástandið þó að aðrir í fjölskyldunni standi sig ekki sem best?

[Spurningar]

[Mynd á blaðíðu 155]

Forysta eiginmannsins ætti að endurspegla eiginleika Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 157]

Reglulegt biblíunám stuðlar að einingu í fjölskyldunni.