Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tölum orð Guðs af djörfung

Tölum orð Guðs af djörfung

19. kafli

Tölum orð Guðs af djörfung

1. (a) Hvaða gleðitíðindi boðuðu lærisveinar Jesú en hvernig brugðust sumir Gyðingar við? (b) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?

 SONUR Guðs, Jesús Kristur, var smurður sem tilvonandi konungur yfir allri jörðinni fyrir næstum 2000 árum. Hann var tekinn af lífi að undirlagi trúarlegra óvina sinna en Jehóva reisti hann upp frá dauðum. Nú áttu menn kost á eilífu lífi fyrir atbeina Jesú. En þegar lærisveinar hans boðuðu þessi gleðitíðindi voru þeir ofsóttir. Sumum þeirra var varpað í fangelsi og þeir voru jafnvel húðstrýktir og þeim bannað að segja frá Jesú. (Postulasagan 4:1-3, 17; 5:17, 18, 40) Hvað nú? Hvað hefðir þú gert? Hefðir þú haldið áfram að boða trúna af djörfung?

2. (a) Hvaða fagnaðartíðindi þarf að boða nú á dögum? (b) Á hverjum hvílir sú skylda að boða fagnaðarerindið?

2 Árið 1914 tók Jesús Kristur völd sem konungur Guðsríkis á himnum og byrjaði að ríkja ‚mitt á meðal óvina sinna‘. (Sálmur 110:2) Þessu næst var Satan og illu öndunum kastað niður til jarðar. (Opinberunarbókin 12:1-5, 7-12) Síðustu dagar núverandi heims voru gengnir í garð. Þegar þeim lýkur verður hinn illi heimur, sem Satan stjórnar, afmáður fyrir fullt og allt. (Daníel 2:44; Matteus 24:21) Þeir sem bjargast eiga þá fyrir sér eilíft líf í paradís á jörð. Ef þú hefur tekið við þessu fagnaðarerindi langar þig eflaust til að segja öðrum frá því. (Matteus 24:14) En hvers konar viðbrögðum máttu búast við?

3. (a) Hvernig bregst fólk við fagnaðarerindinu um ríkið? (b) Hvaða spurninga þurfum við að taka afstöðu til?

3 Sumir taka trúlega vel á móti þér þegar þú boðar fagnaðarerindið en flestir sýna lítinn áhuga. (Matteus 24:37-39) Sumir hæðast kannski að þér eða snúast gegn þér. Jesús nefndi að andstaðan gæti komið frá ættingjum. (Lúkas 21:16-19) Þú gætir orðið fyrir henni á vinnustað eða í skólanum. Sums staðar í heiminum banna yfirvöld jafnvel starfsemi votta Jehóva. Hvað gerirðu ef eitthvað af þessu kemur upp? Heldurðu þá áfram að tala orð Guðs af djörfung ‚stöðugur í trúnni‘? — 1. Korintubréf 16:13.

Treystu ekki á eigin mátt

4. (a) Hvað er nauðsynlegt til að vera trúr þjónn Guðs? (b) Af hverju er mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur?

4 Ein mikilvægasta hjálpin til að vera trúr þjónn Jehóva er fólgin í því að notfæra sér það sem hann lætur okkur í té. Safnaðarsamkomurnar eru hluti af því. Í Biblíunni erum við hvött til að vanrækja þær ekki. (Hebreabréfið 10:23-25) Þeir sem hafa þjónað Jehóva dyggilega um langt skeið hafa lagt sig fram um að sækja safnaðarsamkomur staðfastlega. Samkomurnar bæta við biblíuþekkingu okkar. Við skerpum skilninginn á því sem við vitum fyrir og skoðum hvernig við getum notað það enn betur. Við tengjumst trúsystkinum okkar enn nánari böndum þegar við tilbiðjum Jehóva ásamt þeim og verðum enn einbeittari í að gera vilja hans. Andi Jehóva leiðbeinir okkur fyrir milligöngu safnaðarins og Jesús er mitt á meðal okkar fyrir atbeina andans. — Matteus 18:20; Opinberunarbókin 3:6.

5. Hvernig er samkomum háttað þegar starf votta Jehóva er bannað?

5 Sækirðu allar safnaðarsamkomur að staðaldri og ferð eftir því sem þú lærir þar? Á stöðum þar sem starf votta Jehóva er bannað er stundum nauðsynlegt að halda samkomur í fámennum hópum á einkaheimilum. Staður og stund geta verið breytileg og tíminn gæti stundum verið óþægilegur, til dæmis ef sumar af samkomunum eru haldnar seint að kvöldi. En trúfastir þjónar Guðs leggja sig fram um að sækja allar samkomurnar þrátt fyrir óþægindi eða hættur.

6. Hvernig sýnum við að við treystum á Jehóva og hvernig getur það hjálpað okkur að halda áfram að tala af djörfung?

6 Við lærum að treysta á Jehóva með því að leita að staðaldri til hans í innilegri bæn, minnug þess að við þörfnumst hjálpar hans. Gerirðu það? Jesús bað mjög oft til Jehóva meðan hann þjónaði hér á jörð. (Lúkas 3:21; 6:12, 13; 22:39-44) Og nóttina áður en hann dó hvatti hann lærisveinana: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ (Markús 14:38) Ef fólk á starfssvæðinu er áhugalítið um fagnaðarerindið gæti verið freistandi að hægja á sér í boðunarstarfinu. Ef fólk hæðist að okkur eða ofsækir gæti verið freistandi að hætta að boða trúna til að koma okkur ekki í vanda. En ef við biðjum Jehóva í einlægni að gefa okkur anda sinn og hjálpa okkur að tala af djörfung látum við ekki undan þessum freistingum. — Lúkas 11:13; Efesusbréfið 6:18-20.

Frásaga af djarfmannlegri boðun

7. (a) Af hverju er Postulasagan sérlega áhugaverð fyrir okkur? (b) Svaraðu spurningunum í lok greinarinnar og dragðu fram hvernig við getum haft gagn af þessum upplýsingum.

7 Postulasagan er sérlega áhugaverð fyrir okkur öll. Þar er greint frá því hvernig postularnir og aðrir lærisveinar á dögum frumkristninnar — venjulegt fólk eins og ég og þú — sigruðust á erfiðleikum og reyndust djarfir og dyggir vottar Jehóva. Lítum á smákafla í Postulasögunni með hjálp eftirfarandi spurninga og ritningarstaða. Veltu fyrir þér hvernig þú getir nýtt þér í eigin lífi það sem þú lest.

 Voru postularnir hámenntaðir? Voru þeir að eðlisfari djarfir og hugrakkir óháð aðstæðum? (Jóhannes 18:17, 25-27; 20:19; Postulasagan 4:13)

 Hvernig gat Pétur talað djarflega frammi fyrir hæstarétti Gyðinga sem hafði dæmt son Guðs til dauða? (Matteus 10:19, 20; Postulasagan 4:8)

 Hvað voru postularnir að gera vikurnar áður en þeir voru kallaðir fyrir æðstaráðið? (Postulasagan 1:14; 2:1, 42)

 Hverju svöruðu Pétur og Jóhannes þegar valdhafarnir skipuðu þeim að hætta að prédika í nafni Jesú? (Postulasagan 4:19, 20)

 Hvar leituðu postularnir hjálpar á ný eftir að þeim hafði verið sleppt? Báðu þeir um að ofsóknunum yrði hætt? Um hvað báðu þeir? (Postulasagan 4:24-31)

 Hvernig hjálpaði Jehóva postulunum þegar andstæðingarnir reyndu að fá þá til að hætta að prédika? (Postulasagan 5:17-20)

 Hvernig sýndu postularnir að þeir skildu hvers vegna þeir höfðu verið leystir úr haldi? (Postulasagan 5:21, 41, 42)

 Hvað gerðu lærisveinarnir þegar margir þeirra dreifðust vegna ofsókna? (Postulasagan 8:3, 4; 11:19-21)

8. Hvaða árangri skilaði boðun hinna frumkristnu og hvernig höfum við fengið hlutdeild í sama starfi?

8 Boðun fagnaðarerindisins var ekki til einskis. Um 3000 lærisveinar létu skírast á hvítasunnu árið 33. „Enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.“ (Postulasagan 2:41; 4:4; 5:14) Harður ofsóknarmaður, Sál frá Tarsus, snerist meira að segja til trúar og tók að boða sannleikann af mikilli djörfung. Hann varð síðan þekktur sem Páll postuli. (Galatabréfið 1:22-24) Starfið, sem hófst á fyrstu öld, hefur haldið áfram og aukist til muna núna á síðustu dögum. Nú er fagnaðarerindið boðað um alla jörðina og við njótum þess heiðurs að mega taka þátt í því. Við getum lært ótalmargt af dyggum vottum fyrir okkar daga.

9. (a) Á hvaða vettvangi prédikaði Páll? (b) Hvernig boðar þú fagnaðarerindið um ríkið?

9 Hvað gerði Páll þegar hann kynntist sannleikanum um Jesú Krist? Hann „tók þegar að prédika . . . að Jesús væri sonur Guðs“. (Postulasagan 9:20) Hann var þakklátur fyrir þá náð sem honum hafði verið sýnd og hann vissi að allir þurftu að heyra fagnaðarerindið sem hann hafði kynnst. Páll var Gyðingur og í samræmi við hefð samtímans vitnaði hann í samkunduhúsunum. Hann prédikaði einnig hús úr húsi og rökræddi við fólk á markaðstorginu. Og hann var fús til að færa sig um set til að boða fagnaðarerindið á nýjum svæðum. — Postulasagan 17:17; 20:20; Rómverjabréfið 15:23, 24.

10. (a) Hvernig sýndi Páll bæði dirfsku og góða dómgreind þegar hann boðaði fagnaðarerindið? (b) Hvernig getum við líkt eftir Páli þegar við vitnum fyrir ættingjum, vinnufélögum eða skólasystkinum?

10 Pál var djarfmannlegur en sýndi einnig góða dómgreind. Það ættum við líka að gera. Þegar hann ræddi við Gyðinga vísaði hann til fyrirheita sem Guð hafði gefið forfeðrum þeirra. Hann talaði við Grikki á forsendum sem þeir þekktu. Stundum sagði hann frá því hvernig hann hefði kynnst sannleikanum og notaði það til að vitna um trúna. „Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra,“ sagði hann. — 1. Korintubréf 9:20-23; Postulasagan 22:3-21.

11. (a) Hvað gerði Páll til að forðast sífellda árekstra við andstæðinga? (b) Hvenær gæti verið ráðlegt að fara að dæmi Páls og hvernig gerum við það? (c) Hvaðan fáum við kraft til að tala af djörfung?

11 Þegar andstaðan var slík að það virtist ráðlegt fyrir Pál að færa sig um set um stundarsakir gerði hann það í stað þess að eiga í stöðugum árekstrum við andstæðinga. (Postulasagan 14:5-7; 18:5-7; Rómverjabréfið 12:18) En hann fyrirvarð sig aldrei fyrir fagnaðarerindið. (Rómverjabréfið 1:16) Páll gafst ekki upp þótt andstæðingarnir væru ósvífnir og stundum ofbeldishneigðir. „Guð gaf oss djörfung,“ sagði hann í einu af bréfum sínum. Í öðru bréfi komst hann svo að orði: „Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina.“ (1. Þessaloníkubréf 2:2; 2. Tímóteusarbréf 4:17) Jesús, sem er höfuð kristna safnaðarins, veitir þjónum sínum kraft til að vinna það verk sem vinna á nú á tímum. — Markús 13:10.

12. Hvernig sýnum við djörfung og hvers vegna getum við gert það?

12 Við höfum fulla ástæðu til að halda áfram að tala orð Guðs af djörfung rétt eins og Jesús og trúir þjónar Guðs á fyrstu öld. Það er ekki þar með sagt að við eigum að vera tillitslaus eða reyna að þröngva boðskapnum upp á fólk sem vill ekki heyra hann. Við gefumst hins vegar ekki upp þó að fólk sé áhugalítið og við látum ekki andstöðu þagga niður í okkur. Við bendum á að ríki Guðs sé eina réttmæta stjórnin yfir allri jörðinni, líkt og Jesús gerði. Við tölum af sannfæringu vegna þess að við erum fulltrúar alheimsdrottins Jehóva og vegna þess að boðskapurinn er ekki okkar heldur frá honum. Og sterkasta hvötin til að lofa Jehóva ætti auðvitað að vera sú að við elskum hann. — Filippíbréfið 1:27, 28; 1. Þessaloníkubréf 2:13.

Til upprifjunar

• Af hverju er mikilvægt að segja öllum sem við getum frá fagnaðarerindinu en hvaða viðbrögðum má búast við?

• Hvernig getum við sýnt að við treystum ekki á eigin mátt í þjónustu Jehóva?

• Hvað má læra af Postulasögunni?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 173]

Þjónar Jehóva nú á dögum flytja orð Guðs af djörfung líkt og þjónar hans til forna.