Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitaðu hjálpar

Leitaðu hjálpar

Leitaðu hjálpar

„Ef einhver ræðst á þann sem er einn munu tveir geta staðist hann.“ – Prédikarinn 4:12.

ÞEGAR við höfum stuðning annarra eigum við betri möguleika á að sigrast á óvini, hver sem hann kann að vera. Ef þú vilt hætta að reykja gæti verið skynsamlegt að leita til ættingja eða vina eða einhvers annars sem er tilbúinn að sýna stuðning og þolinmæði.

Það gæti verið gott að leita til þeirra sem hafa sjálfir hætt að reykja þar sem þeir sýna kannski ekki bara samkennd heldur búa líka yfir reynslu. „Stuðningur annarra var ómetanlegur,“ segir Torben, vottur Jehóva í Danmörku. Abraham, sem býr á Indlandi, skrifar: „Einlægur kærleikur sem ættingjar og trúsystkini sýndu mér hjálpaði mér að hætta.“ En stundum er jafnvel stuðningur ættingja og vina ekki nóg.

„Ég reykti í 27 ár,“ segir maður að nafni Bhagwandas, „en það sem ég lærði í Biblíunni um óhreina siði fékk mig til að ákveða að hætta. Ég reyndi að minnka reykingarnar. Ég skipti um félagsskap. Og ég fékk ráðgjöf. Ekkert virkaði. Að lokum opnaði ég kvöld eitt hjarta mitt í bæn til Jehóva Guðs og grátbað hann um að hjálpa mér að hætta. Þá náði ég loksins árangri.“

Annað sem er mikilvægt að gera er að búa sig undir mögulegar hindranir á leiðinni. Næsta grein fjallar um það.

[Rammi]

ÆTTIRÐU AÐ NOTA LYF?

Lyf sem hjálpa fólki að hætta að reykja, eins og nikótínplástrar, eru orðin milljón dollara iðnaður. Áður en þú ákveður að nota lyf skaltu íhuga eftirfarandi spurningar:

Hver er ávinningurinn? Margar lækningaaðferðir eru sagðar auka möguleika fólks á að hætta með því að draga úr fráhvarfseinkennum. En deilt er um langtímaáhrif þeirra.

Hver er áhættan? Sum lyf hafa mögulegar aukaverkanir eins og ógleði, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Mundu að nikótínmeðferðir eru einfaldlega önnur leið til að fá nikótín og hafa áhættu í för með sér fyrir heilsuna. Sá sem notar þessi lyf er enn þá háður vanabindandi efni.

Hvaða valkostir eru í stöðunni? Í einni könnun kemur fram að 88 prósent þeirra sem náðu að hætta að reykja gerðu það án þess að nota lyf.